FRÁBÆR FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI
Tvennt var á dagskrá í Skeljanesi fimmtudaginn 25. maí. Annars vegar afhending verðlauna og viðurkenninga fyrir Páskaleikana 2023 sem Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY umsjónarmaður annaðist og hins vegar flutningur erindis kvöldsins: Gervitungl radíóamatöra í umsjá Heimis Þórs Sverrissonar, TF3ANT (W1ANT).
Hrafnkell, TF8KY byrjaði dagskrána kl. 20:00 og flutti fróðlegt yfirlit um gang leikanna í ár, m.a. um fjölda stöðva sem léku til stiga, virkni færanlegra stöðva, skráð QSO og fjölda banda sem notuð voru í leikunum ásamt upplýsingum um lengstu sambönd. Síðan fór fram afhending verðlauna og viðurkenninga. Þessir fengu verðlaunagripi ÍRA: 1. sæti TF8KY, 2. sæti TF1AM og 3. sæti TF2MSN. Viðurkenningaskjöl ÍRA: 1. sæti TF2MSN, 2. sæti TF8KY og 3. sæti Sigmundur Karlsson, TF3VE.
Heimir Þór Sverrisson, TF3ANT (W1ANT) byrjaði sitt erindi kl. 20:30 um Gervitungl radíóamatöra. Það skiptist í þrjá kafla: (1) Samskiptin þar sem fjallað var um endurvarpa í rauntíma og um geymslu og áframsendingu gagna. (2) Tilraunir þar sem fjallað var um þær fjölmörgu tilraunir sem radíóamatörar hafa gert í geimnum allt frá fyrstu sendingunum frá OSCAR-1 í desember 1961 og (3) um Fræðsluþáttinn, þ.e. að með samstarfi við menntastofnanir hafa radíóamatörar hjálpað menntastofnunum við vísindatilraunir úr geimnum, og síðar geta notað sömu tungl til samskipta.
Erindi Heimis Þórs var fróðlegt, vandað og vel heppnað og veitti viðstöddum sýn inn í sérhæfðan heim geimfjarskipta. Það var vel upp byggt og hann nálgaðist viðfangsefnið af léttleika og lipurð vísindamannsins sem hefur innsýn, þekkingu og leiftrandi áhuga á umfjöllunarefninu. Heimir bauð upp á spurningar úr sal samhliða flutningi og var þeim svarað jafnóðum, fljótt og vel.
Sérstakar þakkir til þeirra Hrafnkels og Heimis Þórs fyrir frábær erindi. Hrafnkell hefur gert Páskaleikana að stórviðburði og Heimir Þór færði okkur vandað erindi í hæsta gæðaflokki. Einnig sérstakar þakkir til Hinriks Vilhjálmssonar, TF3VH fyrir tæknistjórn við að streyma viðburðinum.
Erlendir gestir félagsins þetta fimmtudagskvöld voru þau Christian, DL1MGB og XYL. Chris er þekktur keppnis- og “DX-maður“ sem m.a. hefur verið QRV í alþjóðlegum keppnum og frá tugum DXCC landa, bæði á eigin vegum og með fleirum frá sjaldgæfum DXCC einingum, s.s. Clipperton.
Alls tóku 55 þátt í viðburðum þetta frábæra fimmtudagskvöld í Skeljanesi; 47 á staðnum (þar af 6 gestir) og 8 tengdir yfir netið.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!