FRÁBÆR FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI
Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA mætti í Skeljanes 13. apríl með erindið Stafræn merkjavinnsla fyrir radíóamatöra.
Hann flutti okkur frábært erindi þar sem hann útskýrði og fór yfir hugtakið “stafræn merkjavinnsla“. Hann úrskýrði m.a. mismunandi merki, þ.e. hliðræn, stakræn og stafræn og hverjir eru kostir og ókostir við stafræna merkjavinnslu. Hann tók dæmi um viðtæki og sendi-/móttökustöðvar radíóamatöra þar sem SDR tæknin hefur verið innleidd og töluverð þróun hefur verið síðustu ár.
Sæmundur fjallaði um sýnatökuregluna og skýrði mikilvægi þess að brjóta hana ekki í stafrænni merkjavinnslu og nefndi dæmi um afleiðingar þess að brjóta regluna. Hann fjallaði einnig um hugbúnaðarradíó og fleiri notkunartilvik fyrir stafræna merkjavinnslu. Að lokum fjallaði hann um A/D og D/A breytur.
Erindið tók um klukkustund í flutningi og var farið yfir margar glærur með texta og ljósmyndum. Fyrirspurnir voru fjölmargar sem Sæmundur svaraði á meðan á flutningi stóð og eftir erindið, var áfram rætt yfir kaffinu. Vefslóð á glærur:
http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/04/Stafraen-merkjavinnsla-fyrir-amatora.pdf
Sérstakar þakkir til Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA fyrir vandað, áhugavert og fróðlegt erindi í máli og myndum. Alls mættu 33 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í vorveðri í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!