FRÁ OPNUN Í SKELJANESI 13. OKTÓBER
Benedikt Sveinsson, TF3T mætti í Skeljanes fimmtudagskvöldið 13. október með erindið: „TF3D framhald; undirbúningur fyrir CQ World Wide DX SSB keppnina 2022“. Um var að ræða framhald af erindi um uppbyggingu stöðvarinnar þann 7. júlí s.l.
Flestir þeirra sem höfðu mætt á fyrri hluta erindisins voru mættir á ný og urðu ekki fyrir vonbrigðum. Benedikt segir mjög skemmtilega frá og þegar við bætist leiftrandi sýn hugsjónamannsins er auðvelt að „ferðast“ í huganum með honum austur að Stokkseyri og „upplifa“ þá miklu vinnu sem hann hefur innt af hendi þar á staðnum með Guðmundi (TF3SG) bróður sínum. Og eins og hann sagði sjálfur: „Þetta hefur verið gott sumar og mikið komist í verk“. Hann lýsti vel einstökum loftnetum og prófunum sem þeir bræður hafa gert þar á staðnum. Allt saman mjög áhugavert.
Hann ræddi að lokum CQ WW DX SSB keppnina sem fram fer eftir tvær vikur (29.-30. október). Hann hefur miklar væntingar um að keppnin komi vel út. Til viðbótar eru skilyrðaspár hagstæðar.
Þakkir til Benedikts fyrir gæðaerindi og skemmtilega innsýn í heim stórra loftneta og búnaðar sem svo fáir okkar hafa aðstæður til að vinna með. Stórskemmtilegt, fróðlegt og eftirminnilegt erindi. Alls mættu 22 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta hægláta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!