Erindi hefur borist frá Póst- og fjarskiptastofnun
Í.R.A. hefur borist erindi frá Póst- og fjarskiptastofnun dags. 16. janúar 2013 þess efnis, að íslenskum leyfishöfum er veitt heimild til að nota nýtt tíðnisviðið 472-479 kHz á 630 metra bandi. Heimildin miðast við 5 wött e.i.r.p. og má bandbreidd merkis vera allt að 1 kHz. Heimildin gildir fyrir G-leyfishafa og er á víkjandi grunni (forgangsflokkur 2 í reglugerð)
Á alþjóða tíðniráðstefnunni í Genf (WRC 2012) var samþykkt að veita radíóamatörum heimild fyrir notkun á tíðnisviðsinu 472-479 kHz fyrir starfsemi sína, á víkjandi grunni, og með ákveðnum skilyrðum varðandi sendiafl. Almenna reglan varðandi sendiafl er, að nota megi allt að 1 watt e.i.r.p. Lönd sem eru staðsett, a.m.k. 800 km frá ákveðnum löndum sem talin eru upp í alþjóða radíóreglugerðinni, mega heimila allt að 5 wött e.i.r.p. sendiafl og hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að veita íslenskum radíóamatörum þá heimild með hliðsjón af staðsetningu landsins.
Á næstunni verður sama tíðnisvið (472-479 kHz) til úthlutunar til radíóamatöra um allan heim, þ.e. í IARU Svæðum 1, 2 og 3 og verður engin skörun í tíðni á milli svæða (sem er afar jákvætt). Þess má geta til viðbótar, að eldri tímabundin sérheimild til íslenskra leyfishafa í tíðnisviðinu 493-510 kHz féll niður þann 31. desember 2012.
Stjórn Í.R.A. fagnar framkominni heimild frá Póst- og fjarskiptastofnun.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!