Stjórnarfundir ÍRA

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 9. Ágúst 2017.

Fundur hófst kl. 17:00 og var slitið kl. 19:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3WZ, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3NE, varamaður TF8KY og varamaður TF3EO.

Mættir: TF3JA, TF3EK, TF3WZ og TF3DC.

Fundarritari: TF3WZ

Dagskrá

1. Næsti fundur

Næsti stjórnarfundur ÍRA verður næsta miðvikudag, 16. ágúst klukkan 17:00.

2. Fundargerð síðasta stjórnarfundar

Við lestur síðstu fundargerðar kom fram að Sensa/Síminn styrkir okkur hvað varðar hýsingu á vef félagsins sem og öðrum hýsingum sem félagið er með. TF3DC gerði fyrirspurn um hvort og hvenær hefði verið gerður samningur um þetta og hvað í honum fælist. Sensa/Síminn hefur tekið þetta að sér félaginu að kostnaðarlausu en internet þjónusta verður áfram í boði Vodafone.

TF3WZ benti á að ekki er til samningur við Sensa.

TF3JA óskaði eftir að skoðað yrði hvort ekki væri hægt að hafa skriflegan samning. TF3WZ skoðar samningamál við Sensa.

Fundargerð samþykkt.

3. Reglugerð PFS um starfsemi radíóamatöra á Íslandi

TF3JA: Ósk ÍRA um breytingu á reglugerð eins og samþykkt var á aðalfundi ársins hefur farið í gegn hjá PFS og liggur nú til samþykkis hjá ráðuneyti.

Einnig var rætt um “entry level” leyfi eða innkomuleyfi og reifuð sú hugmynd að nýta til þess lærlingsleyfið í núverandi reglugerð með breytingu á kallmerkja vali fyrir lærlinga og nánari skilgreiningu á útfærslu eða framkvæmd leyfa til lærlinga. TF3JA mun kynna sér fyrirkomulag og/eða umræðu um slíkt leyfi í nágrannalöndum okkar.

4. Námskeið í haust

Félagið heldur námskeið í haust og verður námskeiðið auglýst í byrjun september. Áætlað er að hefja námskeiðið í byrjun október og ljúka með prófi 11. nóvember.

Félagið ætlar að undirbúa kynningarnámskeið fyrir byrjendur og ungt fólk sem hægt væri að halda með litlum fyrirvara og sem víðast um landið. Kannað verður samstarf við grunnskóla um námskeið.

5. Námsefni fyrir verðandi radíóamatöra svk. reglugerð.

TF3EK bendir á að námskefni er ekki samkvæmt því sem CEPT 61-02 (Harmonised Amateur Radio Examination Certificate, HAREC).

TF3EK leggur til að formaður ÍRA að ræði við prófnefnd að samræmingu námsefnis og prófs við TF61-02 kafla 1.10, 3.7, 3.8, 4 og 5.

Samþykkt var að formanni yrði falið að óska eftir fundi með prófnefnd fyrir lok ágúst 2017.

5. Kennslu- og kynningarefni

Kennslu- og kynningarefni á heimasíðu ÍRA.

TF3DC bendir á kynningarmyndband um amatörheiminn sem Bretar bjuggu til og hvort það væri til athugunar að þetta gæti nýst ÍRA. Stjórn tók vel í þetta.

Samþykkt að TF3JA óski eftir heimild frá RSGB til að þýða, talsetja og nota myndbandið á heimasíðu ÍRA og um leið óski eftir leyfi RSGB til að þýða og nota annað kennsluefni frá þeim.

6. NRAU fundur 11. – 13. ágúst

TF3JA sækir NRAU fund í Danmörku um komandi helgi.

TF3WZ bendir á að eðlilegt sé að félagið greiði kostnað við ferðina  (TF3JA sat hjá). Kostnaður er áætlaður um 70 þúsund krónur. Samþykkt var að greiða þann kostnað sem hlýst af ferðinni.

Stjórn mun einnig sækja styrk sem er í boði frá NRAU fyrir vegna þátttöku ÍRA í fundi NARU. TF3JA mun sjá um það ferli.

TF3DC benti  á að hann hefði séð á heimasíðu NRAU að samtökin héldu sérstaka VHF fundi ár hvert sem við ættum að fylgjast með tengt leit okkar að VHF-stjóra fyrir félagið. Stjórnin mun áfram leita að VHF stjóra.

7. Félagsheimilið Skeljanesi

TF3JA hefur rætt við aðila hjá Reykjavíkurborg. Þeir eru velviljaðir að aðstoða okkur hvað varðar húsnæði. Eftir 20. ágúst mun frekar koma í ljós með framhaldið.

8. VHF-Útileikar og Útileikar (HF)

TF3JA og stjórn vill óska Einari og Hrafnkeli til hamingju með hversu vel var að verki staðið um utanumhald á leikunum. Síður sem gerðar voru og allt viðmót. Loggar skiluðu sér gríðarlega vel og voru félagsmenn almennt virkilega ánægðir með ferlið. Í grein TF3IK á heimasíðu ÍRA kemur fram að hann heyrði í 19 kallmerkjum í loftinum og útilokar ekki að fleiri hafi verið virkir.

9. Önnur mál

Formaður, TF3JA, bendir á að stjórnarmenn mættu standa sig betur í að láta vita komist þeir ekki á fundi.

TF3JA: Verið er að skoða samstarf við stuttbylgjufjarskiptahóp og hugsanlega kaup á búnaði sem hæfir þessu verkefni.

TF3JA: Bendir á að tiltekt á búnaði í eigu félagsins sé þörf bæði í geymslu í kjallara sem og frágang á öðrum búnaði í eigu félagsins.

TF3DC bendir á að ekki hafi verið gengið frá eftir Flóamarkað í fundarsal sem létti ekki lund sambýlinga í húsinu. Þ.e. búnaður virðist hafa verið skilinn eftir.

TF3DC bendir á umgengni í fjarskiptaherbergi sem hafi verið almennt góð fari versnandi. Búið sé að rífa hljóðnema frá á Heil headsetti. Rætt hvernig best sé að tryggja öryggi búnaðar þegar ókunnugir og gestir koma í félagsheimilið. Mætti vísa til fyrri tjóna í þessu sambandi ef þarf.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 11. Júlí 2017.

Fundur hófst kl. 18:00 og var slitið kl. 20:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3WZ, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3NE, varamaður TF8KY og varamaður TF3EO.

Mættir: TF3JA, TF3EK, TF3WZ og TF8KY.

Fundarritari: TF3WZ

Dagskrá

1. Fundargerð síðasta stjórnafundar

Fundargerð síðasta stjórnarfundar fundar bókuð en byggð á minnispunktum varaformanns.

2. Uppgjör VHF leika

TF8KY leggur til að setja inn frétt með tímaramma á skilun á loggum. Því næst verður lokað á innsendingar og úrslit birt á vef ÍRA.

3. Sérskrifaðar vef- eða forritunarlausnir

TF3EK vill skrifa forrit varðandi félagatal. TF8KY vill þróa VHF leika tól frekar sem og mögulega tól fyrir útileika. TF3WZ benti á að æskilegt væri að veflausnir kæmu fram á vefsíðu ÍRA og þá í iFrame. TF3WZ leggur til að útvega sýndarvél hjá Sensa sem hægt er að þróa hugbúnaða á. Mögulega myndi einhver kostnaður fylgja þessu og verður það skoðaða sérstaklega komi til þess.

4. QTH félagsins

Rætt var og voru allir sammála um að skoða að komast úr núverandi húsnæði. Hefur Reykjavíkurborg bent á Gufunes sem mögulegan stað fyrir félagið. TF3JA er og mun vera í samskiptum við borgina um þessi mál. Verður þetta mál tekið aftur upp á næsta fundi.

5. Sumarstarfið

Félagið mun styrkja för TF3JA á Seyðisfjörð á Techmus-námskeið.  Heildar kostnaður allt að 35 þúsund.

Félagið býður búnað til láns til þeirra sem þess óska fyrir Vitahelgi. TF8KY mun setja fram auglýsingu fyrir vitahelgi, mun t.d. koma á framfæri hafi einhver áhuga á að standa fyrir einhverju starfi fyrir hönd félagsins mun félagið styðja við það.

6. Útileikar

Útileikar verða um Verslunarmannahelgina og mun félagið styðja diggilega við þá. TF8KY mun reyna að koma upp svipuðu forriti og notað var í VHF leikunum. TF3EK leggur til að þó forrit sé í boði verði einnig hægt að skila loggum á hefðbundnari hátt. TF3WZ leggur til að forrit TF8KY verði notað sem miðlægur loggagrunnur.

7. Reglur fyrir útileika

TF3EK leggur til breytingar á reglum útileika. Helstu breytingar er einföldun og stytting á núverandi reglum. Grunnur reglna er sá sami. Stjórn samþykkti einróma breytingartillöguna.

8. Breyting á reglugerð kallmerkja

TF3JA upplýsti stjórn um stöðu beiðni um breytingu á reglugerð varðandi kallmerki. Niðurstaða PFS er að kallmerkjabreyting á reglugerð verður lögð fyrir ráðuneyti til úrvinnslu.

9. Næsti stjórnarfundur

Stefnt að því að hafa næsta stjórnarfund í vikunni eftir Verslunarmannahelgi.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 15. Júní 2017.

Fundur hófst kl. 18:00 og var slitið kl. 19:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3EO, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3WZ, varamaður TF8KY og varamaður TF3NE.

Mættir: TF3JA, TF3DC, TF3EK og TF3NE.

Fundarritari: TF3NE / TF3DC

Dagskrá

1. Erlent samstarf

Fyrir liggur að TF3JA sæki bæði ráðstefnu NRAU og IARU-R1 á árinu. TF3DC nefndi að síðast hefðu slík ráðstöfun og útgjöld verið samþykkt af félögum fyrirfram á aðalfundi sem væri gott skipulag og til þess fallið að skýra tilgang slíkra ferða og eyða misskilningi. Aðrir stjórnarmenn voru ekki sammála honum um þetta en TF3JA ætlar að leggja fram kostnaðaráætlun á næsta fundi þ.e. þann 6. Júlí. Fyrir liggur að félagið hefur lagt út um 100 þús. kr. vegna IARU ráðstefnunar og sótt um 50 þús. kr. styrk á móti svo gróft áætlaður kostnaður ÍRA er um 50 þús. kr. Þátttaka í NRAU ráðtefnunni er áætluð verða okkur að kostnaðarlausu eða kostnaðarlitlu vegna styrks frá NRAU eins og áður.

2. Sumarstarfið

• VHF-útileikar umsjón TF8KY
• Uppskeruhátíð 6. júlí sem verður um leið félagsfundur umsjón TF3JA og stjórn
• Smiðjuhátíð 28/29 júlí. Fulltrúi frá ÍRA. Líklega TF3JA en athuga möguleika TF6JZ o.fl.
• Útileikar umsjón TF3EK
• Vitahelgi umsjón TF3EO

3. Skeljanes

Nýr starfshópur skipaður um málið sem leitar fanga hjá þeim sem best til þekkja. Skipaður TF3WZ og TF3NE. Formaður dregur sig í hlé í málinu. TF3DC spurði hvort við þyrftum að ræða innanhússmál og samskiptamál við aðra leigjendur í Skeljanesi við Borgaryfirvöld. Umræður um málið. Skipan samþykkt.

4. Félagsgjöldin

TF3EK greindi frá að búið væri að senda út rukkun félagsgjalda 2017. Áhuga er fyrir að uppfæra félagatal þannig að í framtíðinni verði mynd af félagsmönnum.

5. Stöð og loftnet

TF3EK/TF3EO/TF3T hafa áhuga á að leggja fram tillögur um breytingar og endurbætur á fundinum 6. Júlí. Þegar tillögurnar liggja fyrir verða teknar nánari ákvarðanir um framhaldið.

6. Málefni umsækjanda um amatörréttindi

TF3JA telur að allir sem vilja fá amatörleyfi ættu að geta fengið slíkt leyfi, hér er þá vísan til aðila sem mögulega eiga erfitt með að taka skriflegt próf. Engar umræður eða niðurstaða hér að svo stöddu.

7. Endurskoðun námsefnis ÍRA

Rætt um TR61-02 og samhengið við TR-61-01 og uppfærslu námsefnis. Einkum er varðar stafræna hætti og nýjustu tækni í viðtækjum og sendum.

8. Erindi til P&F

TF3JA reki á eftir erindi um notkun kallmerkja óháð kallsvæði. Þeir TF3GW ráðgjafi okkar í málefnum sem snúa að P&F munu gera sér ferð á morgun og heyra í Herði.

9. Flóamarkaður

17 mættu á Flóamarkað sem var líflegur – engin peningavelta – en þvi meira örlæti ef félaga vantaði eitthvað sem var í boði.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 11. maí 2017.

Fundur hófst kl. 17:00 og var slitið kl. 19:45.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3WZ, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3NE, varamaður TF8KY og varamaður TF3EO.

Mættir: TF3JA, TF3DC, TF3EK, TF3WZ og TF8KY.

Fundarritari: TF3WZ

Dagskrá

1. Amatörleyfi fyrir umsækjanda

Stjórn felur formanni að vinna í málinu fyrir aðila sem sækist eftir amatörleyfi en á erfitt með hefðbundið próf. Fyrirspurn verður lögð fyrir Prófnefnd.

2. Námskeið

Stefnt verður á námskeið með haustinu. Stefnt er að hefja námskeið í byrjun október og enda með prófi 11. nóvember.

3. CQ WPX þáttaka

TF3DC mun kanna áhuga manna á að taka þátt í keppninni með félagsstöðinni.

4. VHF leikarnir

TF8KY mun taka að sér að halda utan um VHF leikana sem eru á dagskrá fyrstu helgina í júlí, 1. og 2. júlí.

5. Útileikar

TF3EK mun taka að sér að halda utan um Útileikana, 4. – 7. ágúst.

6. Vitahelgi

Félagið mun styðja við þá hópa sem stunda Vitahelgi eftir bestu getu. Mun tilnefndur tengiliður, auglýstur síðar, sjá um samskipti varðandi Vitahelgi.

7. Sjómannadagurinn

Félagið mun athuga hvort einhver hefur áhuga á að kynna félagið/radíóamatör áhugamálið á Sjómannadaginn.

8. Skrif á heimasíðu

Ritari mun taka að sér að setja inn auglýsingu/frétt sem óskað er eftir “fréttamönnum” sem tækju að sér að setja inn efni/fréttir á vef félagsins. Ritari mun setja upp dagskrá fyrir fréttaskrifara.

9. Nýir radíóamatörar

Nýir radíóamatörar verða boðnir velkomnir 1. júní. TF3JA mun sjá um að hafa samband við nýja radíóamatöra boða þá velkomna. Einnig mun TF3JA athuga með að fá reynda amatöra til að sýna nýjum amatörum ýmis forrit sem og aðra hluti sem gott er að hafa í huga.

10. Flóamarkaður

Flóamarkaður verður haldinn 21. maí. Formaður kannar hvort TF3AB er ekki til í að sjá um markaðinn með aðstoð stjórnar félagsins.

 11. Loftnetadagur

Stefnt verður að því að hafa loftnetadag um Hvítasunnuhelgina. Fá góða menn í að fara yfir loftnet og prófa eitt og annað. Fá menn til að koma með loftnetin sín og sýna þau. TF3JA mun skoða málið.

12. Fundur með Póst og Fjarskiptastofnun

TF3JA mun óska eftir fundi með PFS varðandi reglugerðarbreytingar sem um hefur verið gerð fyrirspurn.

13. Öryggi á heimasíðu

TF3WZ setti inn öryggistól til að verja WordPress vefinn. Öryggistólin geta valdið örlitlum óþægindum s.s. því að það lokast á menn skrái þeir inn rangt leyniorð. Að örðu leiti ætti þetta ekki að trufla vefinn.

14. Næsti stjórnarfundur

Stefnt er á að halda næsta stjórnarfund 15. júní.

15 Viðgerð á þaki

TF3JA mun kanna hvort RVK mun koma og gera við leka á þaki. Sú könnun leiddi ljós að viðerð mun eiga sér stað á næstunni.

 16 Húsgagnakaup

Rætt var með kaup á húsgögnum fyrir félagsheimli. Tveir sófar eru í boði á góðu verði, 100 þúsund samtals. Samþykkt var að kaupa þá.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 23. mars 2017.

Fundur hófst kl. 18:00 og var slitið kl. 20:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3WZ, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3NE, varamaður TF8KY og varamaður TF3EO.

Mættir: TF3JA, TF3DC, TF3EK, TF3WZ og TF8KY.

Fundarritari: TF3WZ

Dagskrá

1. Ný stjórn og verkaskipting

Ný stjórn tekur við með eftirfarandi verkaskiptingu. Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3WZ, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3NE, varamaður TF8KY og varamaður TF3EO.

2. Erindi sem hafa borist

PFS óskar eftir umsögn um útgáfu á íslensku kallmerki fyrir Thomasz Abramski SQ7EBT frá Póllandi. Mælt var með að hann fengi leyfi.

Fyrirspurn frá IARU varðandi gjöld sem greidd eru til félagsins. Vangaveltur um þá tölu, hvort hún þurfi að breytast. Á síðasta ári greiddi ÍRA rétt um 30 þúsund til IARU.

3. Inntaka nýrra félaga

Engir nýir félagar skráðir.

4. Félagatal

Farið yfir félagatal. TF3EK ber saman við þjóðskrá og leiðréttur. Farið yfir skráningu félaga.

TF3WZ ætlar að athuga við PFS hvort lista megi alla amatöra á íslandi á vefsíðu félagsins.

5. Félagsgjald

Greiðsluseðlar félgasgjalda verða sendir út fyrir mánaðrmót.

6. Allir velkomnir

Allir radíó amatörar séu velkomnir í félagsaðstöðu ÍRA. Umræða um að koma því betur á framfæri að allir séu velkomnir.

7. Reglugerð

Send hefur verið fyrirspurn um breytingar á reglugerð sem rædd var á aðalfundi til PFS. Svar hefur ekki borist.

TF3JA leggur til að TF3WZ skrifi formlegt bréf til PFS vegna reglugerðarbreytinga.

8. Fundartímar stjórnar

Stjórnarfundir munu vera haldnir fyrsta fimmtudag hvers mánaðar klukkan 18:30.

9. Húgsögn félagsheimili

Ekki veðrur farið í fjárfestingar á húsgögnum fyrr en rætt hefur við Reykjavíkuborg.

 

 

 

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 9. mars 2017.

Fundur hófst kl. 16:00 og var slitið kl. 19:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3EO, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3WZ, varamaður TF8KY og varamaður TF3NE.

Mættir: TF3JA, TF3DC, TF3EO, TF3EK, TF3WZ, TF8KY og TF3NE.

Fundarritari: TF3EO

Dagskrá

1. Aðalfundargerð og stjórnarfundagerðir

Farið var yfir Aðalfundarritgerð 2016. Verður fundagerðin birt á nýjum vef ÍRA. Einnig var rætt um síðasta stjórnarfund og þær athugasemdir sem komu þar fram varðandi Aðalfund.

2. Gjaldkeri fer yfir reikninga

TF3EK fór yfir reikninga síðasta árs. Rætt var um að fráfarandi gjaldkeri síðustu stjórnar hafi mælt með niðurfellingu ársgjalds félagsins fyrir árið 2016. Aðalfundurinn árið 2016 samþykkti hinsvegar að rukka samt sem áður árgjaldið. Ómögulegt reyndist að framkvæma það eftir síðustu lagabreytingu nema rukka félaga tvisvar á liðnu ári, því var ákveðið að rukka ekki árgjaldið. TF3Ek eignfærði IC-7300 stöðina og leggur til að eignaskrá afskrifist um 20% á ári. Málið var rætt og nokkrir fletir skoðaðir í sambandi við það. Einnig var rætt um hvaða félagar teldust löglegir á Aðalfundi og hverjir ekki og var rætt um að 5-10 félagar myndu ekki hafa atkvæðisrétt að óbreyttu.

3. Reglugerðarbreytingar og samráð við PFS, truflanir o.fl.

TF3JA telur að áhugi sé fyrir því að leggja niður N-ið í kallmerkjum félaga. Rætt var um nýtt leyfisþrep fyrir nýliða en það kom fram að Sænska Amatörfélagið sóttist eftir slíku hjá Sænska PFS en því var hafnað. Því er líklegt að Íslenska PFS geri slíkt hið sama. Rætt var um að leggja niður íslensku kallmerkjasvæðin til þess að fjölga kostum við úthlutun íslenskra kallmerkja, þ.e. að halda númerunum en binda ekki kallmerki við svæðin. TF3EK mun undirbúa tillögur þess efnis sem lagt verður fyrir stjórnina og að lokum fyrir Aðalfund.

Rætt var um truflanamálið svokallaða og telur stjórnin að menn hafi lært af þessu og ólíklegt sé að þannig tilfelli komi upp aftur. Einnig kom fram að talið er að ALC hafi verið bilaður í umræddu máli og við því hafi lítið verið hægt að gera.

Rætt var um meðmæli stjórnar ÍRA fyrir kallmerki sem úthlutuð hafa verið og er stjórnin tilbúin að rökstyðja öll meðmæli við þá sem þess óska. Rætt var um að stjórn ÍRA ætti aldrei að standa í vegi fyrir óskum amatöra í áhugamálinu.

4. Aðalfundurinn 12. mars 2017

Aðalfundur ÍRA árið 2017 verður kl 10:00 að morgni í Skeljanesi sunnudaginn 12. mars. Leitað var til Haraldar Þórðarsonar, TF3HP, um fundarstjórn og tók hann beiðninni vel. Einnig var rætt við Andrés Þórarinsson, TF3AM, um að taka að sér starf ritara Aðalfundar og tók hann vel í þá ósk. Stjórnin bíður sig öll fram áfram en TF3EO mun ekki óska eftir ritarastarfinu en bíður sig fram sem varamaður í stjórn.

Rætt var um félagsgjaldið og var ákveðið að það verði óbreytt. Einnig var rætt um að félagar hafa lagt félaginu lið fjárhagslega á liðnum mánuðum með útvegun á tækjakosti svo sem tölvum og húsbúnaði sem og viðgerðum á búnaði félagsins.

Ríkisskattstjóri hefur óskað efttir því að bætt verði við lög félagsins ákvæði um slit þess ef til þess kæmi. Nauðsynlegt er að nefna til aðila eða félagasamtök sem fengu eigur félagsins ef til slita kæmi. Nokkrar tillögur voru ræddar og laganefnd verður endurvakin til þess að fjalla um málið sem að lokum verður lagt fyrir Aðalfund árið 2018.

Stjórnin samþykkti að ný heimasíða ÍRA verði sett í loftið 9. mars. Frétt verður skrifum um það og óskað verður eftir efni sem og ábendingum varðandi síðuna.

Rætt var um skýrslu formanns og verður skýrslan send stjórnarmönnum fyrir Aðalfund.

Rætt var um nefndir og embættismenn ÍRA. QSL manager, VHF manager, Ritstjóri CQTF, EMC nefnd, Prófnefnd, Neyðarfjarskiptastjóri, Rekstrarstjóri vefmiðla, VHF leikar, TF útileikar, Viðurkenningarstjóri, Stöðvarstjóri ÍRA, IARU tengiliður

5. Námskeið 2017

Nýtt amatör námskeið hefst föstudaginn 10. mars í húsakynnum ÍRA en þar hafa staðið yfir breytingar undanfarið. Ef hinsvegar fleiri sækja námskeiðið en húsnæðið leyfir verður námskeiðið flutt í HR. Talað var um að 15 hefðu sýnt áhuga og að tveir væru búnir að greiða fyrir námskeiðið. Einnig var rætt um að setja upp Skype fjarfundarbúnað og gefa þannig utanbæjarfólki möguleika á að stija námskeiðið. Stefnt er á próf 22. apríl 2017.

6. Skeljanes og tillögur Ölvis

Ölvir, TF3WZ, kynnti nýja heimasíðu félagsins og sýndi mönnum hvernig efni væri sett inn á vefinn. Hann sýndi einnig hvernig vefurinn kemur út á snjalltækjum og var allmenn ánægja á meðal stjórnarmanna með útkomuna. Hann kynnti einnig tillögur um húsbúnað og útlit Skeljaness. Legggur hann til að útbúin verði kennslustofa í öðru rýminu en setustofa hinu. Hefur honum tekist að fá góðan afslátt hjá IKEA varðandi húsbúnaðinn
Leist stjórnamönnum vel á hugmyndir hans og verða þær kynntar á Aðalfundi. Ölvir kynnti einnig fleiri hugmyndir varðandi önnur rými og eldhúsið. Ölvir hefur einnig útvegað skjávarpa sem ráðgert er að setja varanlega upp í loft kennslustofunnar.

Rætt var um sambúðina við Ættfræðisetrið, aðkomu Reykjavíkurborgar o.fl. tengt Skeljanesi. Ákveðið var að TF3JA og TF3NE myndu fara á fund Hrólfs hjá Reykjavíkurborg og ræða við hann um nokkur atriði og framtíð Skeljaness.

7. Alþjóðlegt samstarf NARU og IARU-R1

Alþjóðlegt samstarf NRAU og IARU-R1, þátttaka ÍRA í ráðstefnum 2017 og staðfesting aðalfundar ef við á, Misræmi í leyfisveitingum CEPT hjá Norska P&F og Íslenska P&F.

8. Önnur mál

Ekki voru tekin fyrir önnur mál.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 20. febrúar 2017.

Fundur hófst kl. 12:00 og var slitið kl. 14:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3EO, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3WZ, varamaður TF8KY og varamaður TF3NE.

Mættir: TF3JA, TF3EO, TF3EK og TF3DC.

Fundarritari: TF3EO

Dagskrá

1. Tímasetning Aðalfundar

TF3DC mótmælir tímasetningu Aðalfundar og leggur til að fundurinn verði haldin kl 14:00 en ekki kl 10:00 eins og stefnt er að. TF3JA ætlar að skoða málið en telur að auglýst tímasetning muni standa.

2. Málefni félagsaðstöðunnar

Tiltekt hefur staðið yfir í Skeljanesi. Þegar er búið að færa bókahillur og sófasett. Kjallarinn hefur verið í skoðun en þar liggja tæki undir skemdum vegna raka. Til stendur að koma gömlum tækjum fyrir á hillu við hlið eldhúsins í Skeljanesi og verða tækin ekki seld en sá leiði misskilningur fór af stað á meðal félagsmanna að það stæði til. Hins vegar eru önnur tæki og tól í kjallaranum sem gæti staðið félagsmönnum til boða ef áhugi er fyrir hendi. Rætt var um að fá áhugasaman félagsmann til þess að sjá um þau tæki sem sett yrðu í hilluna við eldhúsið og myndi sá aðili þá jafnframt setja þau upp á tillidögum í sjakk félagsins t.d. eða jafnvel hafa þau þar til frambúðar. Það er greinilegur áhugi á meðal félagsmanna um þessi eldri tæki og vonast stjórnin til að einhver þeirra gefi sig fram fljótlega. Stjórnin ræddi einnig um að fleiri félagsmenn mættu hjálpa til við að framkvæma það sem þyrfti að gera en nóg er af verkefnum í Skeljanesi.

3. Aðalfundurinn 2017

Tillaga kom frá formanni að halda Aðalfundinn í húsnæði í Garðabæ og tvískipta fundinum. Fyrri hlutinn yrði þá venjuleg Aðalfundarstörf, en seinni hlutinn yrði þá opið hús með fyrirlesurum og að tæki yrðu á staðnum. Matur og kaffi yrði á boðstólnum. Stjórnarmenn gerðu athugasemd við kostnað þessu samfara og var sættst á að halda fundinn í Skeljanesi. Fimmtudaginn 23. febrúar mun verða kynnt áætlun um þrif og málningarvinnu í Skeljanesi. Leitað verður til félagsmanna um aðstoð við framkvæmdir.

4. Lagabreytingar

Rætt var um fyrirhugaðar lagabreytingar og nokkur atriði rædd varðandi þær.

5. IARU erindi

Rætt var um erindi frá TF3VS vegna bréfs frá VK5EEE varðandi “Ethics and Operating Procedures for the Radio Amateur” sem barst félaginu. Þar kemur fram að form CW viðskipta er orðið heldur frjálslegt og var þar nefnt dæmi: CQ DX DX = LP ON4UN ON4UN DX DX = LP . Í bréfinu kemur fram áhugi á að fara yfir EOPRA. Málið er í skoðun.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 18. janúar 2017.

Fundur hófst kl. 19:00 og var slitið kl. 21:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3EO, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3WZ, varamaður TF8KY og varamaður TF3NE.

Mættir: TF3JA, TF3EK, TF8KY og TF3WZ

Fundarritari: TF3WZ

Dagskrá

1. Leyfismál

TF3EK ætlar að búa til tillögu um að leyfa svokallað grunnleyfi (Entry Level). Skoða á hvernig önnur lönd haga svona málum. En hugmyndin yrði þá að 3 leyfi yrðu í boði. Grunnleyfi, N leyfi og G leyfi.

2. Aðalfundur

TF3JA setti fram tillögu um að aðalfundur verði haldinn 19. Febrúar 2017. Hugmynd um að láta fund hefjast klukkan 10:00 og enda klukkan 12:00. Klukkan 12:00 yrði matur reiddur fram og að mat loknum yrðu mögulega fyrirlestur o.fl. því tengt.

3. Félagsaðstaða

TF3EK og TF3JA koma með þá tillögu að settur verði á fót lítill hópur sem tæki að sér umsjá félagsaðstöðu ÍRA. TF3JA ætlaði að ræða við Svein Goða, TF3ID. Almennt samþykki var fyrir því að prófa þessa tillögu.

4. Námskeið

TF3JA setur þá tillögu um að halda námskeið á vorinu. Nokkrir hafa sýnt því mikinn áhuga. Fyrirkomulag námskeiðs er hinsvegar til umræðu, þ.e. lengd/hraði o.fl. því tengt. Vangaveltur eru um námskeiðsgjald, þ.e. upphæð. Fara þarf yfir kostnað er fylgir námskeiði

5. Námsgögn og tími

TF3WZ kom með þá tillögu að farið yrði yfir námskeiðsgögn. Þ.e. fara yfir kaflaskiptingu og tíma sem þarf til að kenna hvern kafla. Tíma sem þarf í verkefnavinnu o.fl. tengt lengd og skiptingu námskeiðs.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, 28. desember 2016.

Fundur hófst kl. 12:00 og var slitið kl. 13:20.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3EO, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3WZN, varamaður TF8KY og varamaður TF3NE.

Mættir: TF3JA, TF3EO, TF3EK, TF3WZ og TF3DC.

Fundarritari: TF3EO

Dagskrá

1. Stjórnarfundir

Farið var yfir fundargerðir síðustu stjórnarfunda sem og fund með Prófnefnd. Rætt var um kallmerki og klúbbstöðvarkallmerki. Ljóst er að úthlutun klúbbstöðvarkallmerkja er alfarið í höndum Póst og Fjarskiptastofnunar. Næsti stjórnarfundur verður haldin þann 18. janúar 2017 kl 12:00 í Skeljanesi. Stjórnin mun þá fara yfir þær lagabreytingar sem borist hafa ef einhverjar verða. Einnig verður rætt um fyrirhugað námskeið sem áætlað er að halda snemma á árinu 2017.

2. Aðalfundargerð 2016

Rædd var nauðsyn þess að klára ritun Aðalfundargerðar 2016. Sigurður Hrafnkell – TF8KY er með málið á sinni könnu. Formaður kallar eftir samstarfi stjórnarmanna við ritun skýrslu stjórnar á yfirstandandi tímabili. Ákveðið var að notast við Facebooksíðu stjórnar til þess.

3. Lög ÍRA

Lög ÍRA eru að finna á heimasíðu félagsins. Samkvæmt þeim ber að skila inn tillögum til lagabreytinga fyrir 15. janúar ár hvert. Formaður ÍRA mun senda félagsmönnum póst og minna á frestinn. Samkvæmt lögum ÍRA ber að halda Aðalfund á tímabilinum 15. febrúar til 15. mars. Auglýsing Aðalfundar þarf að berast félagsmönnum 3 vikum fyrir fund.

4. Fjármál

Staða félagssjóðs ÍRA er góð. Greiðsluseðlar vegna félagsaðildar fyrir árið 2017 verða sendir út snemma á árinu 2017 með eindaga 1. júlí 2017. Reikningar verða sendir endurskoðendum tímanlega og bókhald verður tilbúið fyrir Aðalfund.

5. Truflanir og EMC nefnd

Rætt var um truflanir vegna amatörs á Vatnsenda í haust. Stjórnarmenn vita lítið um málið og verður leitast við að afla frekari upplýsinga um þetta tiltekna mál. Formaður mun hafa samband við EMC nefnd ÍRA varðandi tilkynningar um truflanir af öðrum völdum.

6. TK-90

TF3WJ hefur stungið því að ÍRA að félagið eignist TK-90 stöð til þess að vera virkt á HF tíðnum Landsbjargar sem nokkrir aðilar hafa fengið leyfi til þess að nota. Stjórn ÍRA mun skoða málið vel og taka málið fyrir á næsta stjórnarfundi.

Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Sérstakur fundur með prófnefnd ÍRA

Skeljanesi, 20. október 2016.

Fundur hófst kl. 20:00 og var slitið kl. 22:00.

Stjórn: Formaður TF3JA, varaformaður TF3DC, ritari TF3EO, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3WZN, varamaður TF8KY og varamaður TF3NE.

Mættir: TF3JA, TF3DC, TF3EK, TF3WZN og TF3NE.

Mættir frá prófnefnd: TF3DX formaður, TF3VS, TF3KB, TF3KX og TF3EK. (TF3EK með tvo hatta hér). Einnig var mættur á fundinn TF3GW sérfræðingur okkar í reglugerðarmálum innan lands og utan og umsjónarmaður með reglugerðarhluta amatörprófa.

Fundarritari: TF3DC

Dagskrá

1. Tilgangur fundar með prófnefnd

Formaður TF3JA setti fund og þakkaði prófnefnd fyrir að gefa sér tíma til að hitta stjórn. Tilefnið væri að skiptast á upplýsingum og fara fyrir þetta mikilvæga hagsmunamál og verkefni sem eru námskeið og próf fyrir verðandi radíóamatöra. Og svo önnur mál eins og reglugerðarmál og umsagnir um leyfisveitingar þar sem Prófnefndin hefur verið stjórn ÍRA til ráðgjafar.

Lagði Jón Þóroddur fram dagskrá fundarins sem send hafði verið stjórnarmönnum og prófnefndarmönnum ásamt greinargerðum og upplýsingum eftir því sem við á.

2. Upprifjunarnámskeið og próf að því loknu

Stjórn ÍRA hefur samþykkt að halda viku upprifjunarnámskeið dagana 12. til 18. nóvember og stefna að prófi þann 19. nóvember. Námskeiðið verður opið fyrir alla og verður kynnt og auglýst innan skamms.

3. Skýrsla prófnefndar um starfið á árinu.

Umræður um námskeið og próf almennt. Rætt um forsendur og drifkraft þeirra sem stefna á að hækka leyfisréttindi úr N-leyfi í G-leyfi. Ræddu fundarmenn svona almennt um þetta og í sögulegu samhengi. Á þessari stundu er vitað um fimm sem stefna á að fara í prófið þar af eru þrír þeirra leyfishafar nú þegar.

  • Í máli TF3DX og prófnefndarmanna koma fram að það eru ekki reikningsdæmin sem komu illa út sbr. síðasta próf eða skýra að prófmenn nái ekki markmiðum sínum.
  • Villi fór yfir „Reynismálið“ sem eitt af verkefnum prófnefndar þ.e. Íslendingur með próf og leyfisbréf í DK sótti um leyfi á Íslandi. Og vísaði til greinargerðar Prófnefndar í þessu sambandi sem send hefði verið stjórn. (fsk. 1)
  • Villi rifjaði upp verklag og framvindu máls við síðustu reglugerðarbreytingu sem tók tvö ár og vísaði til upplýsingablaðs Prófnefndarinnar frá 4. okt. 2016 (fsk. 2) með samantekt og vísunum á tengla – með öllum upplýsingum og skýrslugerð – og þar sem ferill málsins er rakinn. Reglugerðin var svo gefin út nr. 298, 5. apríl 2002. Prófnefndin ráðleggur stjórn ÍRA að undirbúa fyrirhugaða reglugerðarbreytingu vandlega og tryggja sammæli um tillögur félagsins áður en þær verða lagðar fyrir P&F.
4. Umsagnir ÍRA um notkun á kallmerkjum.

Tillaga að tölvupósti til að senda á alla félaga ÍRA fylgir.

Málið varðar svokölluð CEPT-leyfi og greinarmun sem gerður er á persónulegu kallmerki og klúbbstöðvarkallmerki. En framkvæmdin mun vera misjöfn, jafnvel þó miðað sé við hin Norðurlöndin. TF3VS í Prófnefnd og fyrrum tengiliður ÍRA við P&F vakti strax athygli á að eðli máls samkvæmt væri það ekki hlutverk ÍRA að gefa umsögn um slík leyfi.

5. Kynning á ósk stjórnar um breytingu á reglugerð sem ætlunin er að leggja fyrir félagsfund.
  • Nýr leyfisflokkur, svipuð heimild og N-leyfi en með 10% af aflheimild. Prófkröfur miðist við fjögurra klst. námskeið.
  • Fella niður tilvísun í landshluta við notkun á kallmerkjum. TF3XX geti notað það kallmerki hvar sem hann fer um landið. Ályktun félagsfundar frá 2008 um kallmerki fylgt eftir.

Rætt um nýjan „entry level“ leyfisflokk. Á því sviði var ÍRA frumkvöðull á sínum tíma fyrir rúmum 40 árum með Nýliðaleyfinu. Síðar urðu breytingar hjá okkur sem í stórum dráttum fylgdu þróuninni annars staðar í Evrópu. Rætt um námsefnisskrá og menn nokkuð sammála um að ekkert þar mætti fella niður.

Varðandi kallsvæðamálið væri ljóst að einfaldara væri fyrir leyfishafa að virkja stöðina sína hvar sem þeir væru staddir á landinu og að af meiru væri að taka við kallmerkjaúthlutun til nýrra leyfishafa en er miðað við núverandi framkvæmd. Þetta þýddi ekki að verið væri að fella niður kallsvæðaskiptinguna gagnvart keppnum eða Útileikunum.

6. Önnur mál.

Engin önnur mál komu fram.