Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 2. október á milli kl. 20 og 22.
Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin liggja frammi.
Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID mun annast kaffiveitingar.
Verið velkomin í Skeljanes!
Stjórn ÍRA.
Úr félagsstarfinu. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Alex M. Senchurov, TF3UTá góðri stundu í Skeljanesi.
Félagsstöðin TF3W var virkjuð af þeim Ársæli Óskarssyni, TF3AO og Jóni Gunnari Harðarsyni, TF3PPN í CQ World Wide DX RTTY keppninni helgina 27.-28. september.
Skilyrði voru ágæt og voru alls höfð 1.935 sambönd. Sérstakar þakkir til þeirra félaga fyrir þátttöku í keppninni og þennan ágæta árangur.
Stjórn ÍRA.
Ársæll Óskarsson TF3AO og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN tóku þátt í CW WW DX RTTY keppninni 2025. Myndin af þeim var tekin í fjarskiptaherbergi ÍRA í byrjun keppninnar. Ljósmynd: TF3GZ.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes á „dótadag“ laugardaginn 27. september. Honum til aðstoðar voru Georg Kulp, TF3GZ og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID sem hellti upp á kaffi og tók til meðlæti.
Ari tók m.a. með sér RigExpert AA-3000 loftnetsmæli og Georg, RigExpert AA-600 mæli. Aðspurður, sagðist Ari hafa valið að taka RigExpert mælinn með vegna þess að þetta eru einföld mælitæki í notkun fyrir radíóamatöra, auk þess að vera tiltölulega ódýr, vönduð og sterk. Munur á RigExpert og ódýrum VNA mælum er m.a., að þá mæla þarf að kvarða fyrir hverja mælingu, auk þess sem margir þeirra geta verið flóknir í notkun.
Skoðaður var munur á handstöðvaloftnetum á VHF og UHF og gerðar mælingar á þeim sem menn höfðu meðferðis. Flest mældust nærri í resónans (eða ekki mjög langt frá), en ein stöðin átti t.d. að vera með sambyggt VHF/UHF loftnet sem mældist í resónans á 106 MHz og var ansi lélegt á UHF – en mátti klippa til og fá í resónans.
Síðan var mæld segullúppa fyrir 2 metra og 70 cm sem kom vel út. Einnig var rætt um í hvaða áttir lúppur eru stefnuvirkar og kom mörgum á óvart að svo er ekki í „gegnum“ lúppuna.
Georg, TF3GZ kom með Kathrein 2-tvípóla VHF húsaloftnet sem fyrirhugað er að setja upp fyrir nýjan VHF endurvarpa á Þrándarhlíðarfjalli. Það mældist 100% lagi. Þetta er samskonar loftnet og notað er við TF3RE endurvarpann á Búrfelli.
Sigurður Óskar, TF2WIN kom með heimasmíðað loftnet fyrir UHF sem var mælt og reyndist resónans í kringum 450 MHz. Gerðar voru tilraunir með að slétta út radíalana þannig að þeir mynduðu 90° við loftnetsstöngina – en netið var smíðað þannig að radíalarnir hölluðu niður (til að hækka sýndarviðnám í fæðipunkti). Afar áhugavert var að fylgjast með breytingum á resónans á loftnetsmælinum.
Mikið var rætt um tengi og kóax kapla. Skoðaður var munur á lélegum köplum og góðum köplum á HF, VHF og UHF. Fram kom m.a. að standbylgja reyndist „flatari“ þegar notaður var lélegur kapall en „skarpari“ þegar notaður var góður (vandaður) kapall. Þá var framkvæmd bilanaleit í „random“ lengd af kóax köplum og sýnt tap. Notaðar voru mismunandi gerðir kapla (með mismunandi góða skermingu). Í framhaldi var m.a. rætt, hvers vegna fæðilína þarf að vera skermuð, en mældir voru kaplar og tengi upp í 3 GHz.
Mörgum kom á óvart að PL-259 tengin eru í raun lélegustu tengin samanborið við N-tengi (sem eru vatnsþétt), BNC og SMA. Einnig var farið út í mikilvægi þess að viðhafa góðan frágang á tengjum og kóaxkapli. Loks voru Smit kort skoðuð og skoðað (og rætt á almennu máli) hvernig þau virka og sýnt á tölvuskjá tengdum við RigExpert mælitækið.
Ari sagðist hafa spurt hópinn hvað menn vilja taka fyrir næsta laugardag. Menn voru á einu máli um að halda áfram með verkefnið.
Hann hefur jafnvel í hyggju að setja upp UHF endurvarpa á Perluna í Öskjuhlíð til að gera mönnum kleift að nota UHF handstöðvar innanbæjar og gera tilraunir í framhaldi.
Ari sagðist afar ánægður með daginn og sagðist hlakka til að hitta sem flesta næsta laugardag, 4. október.
Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir áhugaverðan og vel heppnaðan laugardag í Skeljanesi. Ennfremur þakkir til Georgs Kulp, TF3GZ fyrir að koma með loftnet og mælitæki fyrir ljósmyndir og til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir kaffi og meðlæti. Alls mættu 15 félagar í félagsaðstöðuna þennan ágæta laugardag.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun standa fyrir „dótadögum“ á laugardögum í félagsaðstöðunni í vetur.
Þegar veður og heilsa leyfir er hugmyndin að hafa opið í Skeljanesi á laugardögum kl. 13-16 og verður tiltekið þema til umfjöllunar hvern laugardag sem verður kynnt á Facebook með góðum fyrirvara. Og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni.
Ari byrjar strax næstkomandi laugardag, 27. september og verður þemað „RigExpert loftnetamælar“. Hann ætlar að mæta með slíkt mælitæki sem hefur margþætta mæligetu og m.a. mæla mismunandi lengdir/gerðir af loftnetum og mismunandi lengdir af kóax köplum.
Félagsmenn eru hvattir til að mæta, fylgjast með og taka þátt í umræðum um standbylgjur, um standbylgjumæla og allt sem því tilheyrir.
http://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.png00TF3JBhttp://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.pngTF3JB2025-09-24 11:37:482025-09-25 11:47:40LAUGARDAGAR MEÐ ARA ÞÓRÓLFI Í SKELJANESI.
Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 25. september á milli kl. 20 og 22.
Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin liggja frammi.
Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID mun annast kaffiveitingar.
Verið velkomin í Skeljanes!
Stjórn ÍRA.
Úr félagsstarfinu. Stefán Arnal TF3SA og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB á góðri stundu í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3KX.
CQ WORLD WIDE DX CONTEST, RTTY. Keppnin hefst laugardag 27. september kl. 00:00 og lýkur sunnudag 28. september kl. 24:00. Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Skilaboð stöðva í 48 ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Kanada: RST + CQ svæði + (ríki í Bandaríkjunum/fylki í Kanada). Skilaboð annarra: RST + CQ svæði. https://cqwwrtty.com
YU DX CONTEST. Keppnin hefst laugardag 27. september kl. 12:00 og lýkur sunnudag 28. september kl. 11:59. Keppnin fer fram á CW og SSB á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Skilaboð YU og YT stöðva: RS(T) + sýsla (e. county). Skilaboð annarra: RS(T) + raðnúmer. https://www.yudx.yu1srs.org.rs
Námskeið ÍRA til amatörprófs var sett í Háskólanum í Reykjavík, mánudaginn 15. september. Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA setti námskeiðið stundvíslega kl. 18:30 í stofu M117. Af 26 skráðum skráðum þátttakendum voru 22 viðstaddir.
Að þessu sinni var ákveðið að bjóða ekki upp á fjarnám yfir netið. Til að koma til móts við þá aðila sem eru búsettir úti á landi (eða erlendis) og ella myndu hafa notast við netið, var boðið upp á aðgang að myndbandsupptökum frá námskeiðinu 2023 – samhliða því að bjóða upp á öll námsgögn.
Að þessu sinni nýta a.m.k. fimm aðilar þennan möguleika, m.a. á Egilsstöðum, Seyðisfirði og í Reykjanesbæ. Að þessum aðilum viðbættum, gætum við því átt von á allt að 31 aðila í próf Fjarskiptastofu sem haldið verður 1. nóvember í HR. Þakkir Georgs Kulp, TF3GZ fyrir ljósmyndir.
Stjórn ÍRA.
Andrés Þórarinsson TF1AM, varaformaður ÍRA setur námskeið félagsins 15. september í Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd: TF3GZ.
Mynd úr kennslustofu 15. janúar í Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd: TF3GZ.
http://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.png00TF3JBhttp://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.pngTF3JB2025-09-20 16:50:582025-09-20 17:08:11NÁMSKEIÐ TIL AMATÖRPRÓFS GENGUR VEL.
Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL, var með fimmtudagserindið í gærkveldi, 18. september 2025.
Þannig var Ólafur kynntur:
„Sá mikli heimshornaflakkari, Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL, kemur til okkar n.k. fimmtudagskvöld og segir frá ferðum sínum um Evrópu á sínum ágæta fjarskiptabíl, Ford Ecoliner. Þau hjónin hafa flakkað vítt og breytt í sumar og Ólafur hefur farið í loftið á hinum ólíklegustu stöðum“.
Ólafur flutti þetta ágætis erindi stutt fjölda mynda. Hann hefur s.l. sumar farið um A-Evrópu og svo upp til norðurs og gegnum Eystrasaltslöndin, og áfram upp til Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og svo gert stopp í Færeyjum áður en þau hjón komu heim hér um daginn.
Allan tímann voru fjarskipti gegnum FT8 og FT4 beint úr bílnum og loftnetið var lóðrétt stöng sem reist var upp á þaki bílsins. Samböndin skiptu hundruðum.
Gerður var góður rómur að erindi Ólafs. Á eftir var farið út að skoða bílinn. Georg Kulp, TF3GZ, kom með sterk ljós svo hægt var að skoða bílinn í myrkrinu sem komið var. Alls komu liðlega 20 félagar á fundinn og hlýddu á erindið, þáðu veitingar og notuðu tímann til að spjalla saman.
Sá mikli heimshornaflakkari, Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL, kemur til okkar nk. fimmtudagskvöld og segir frá ferðum sínum um Evrópu á sínum ágæta fjarskiptabíl, Ford Econoline. Þau hjónin hafa flakkað vítt og breitt í sumar og Ólafur hefur farið í loftið á hinum ólíklegustu stöðum.
Frá þessu segir Ólafur og hefur sér til hjálpar landakort og eitthvað af ljósmyndum.
Svo er rúsínan í pylsuendanum: Ólafur kemur með bíl sinn vestur í ÍRA og verður bíllinn til sýnis svo menn geta séð hvað þarf til að operera út bíl á ferðalögum.
Látið ekki happ úr hendi sleppa. Fjölmennum og hlustum á Ólaf segja frá reynslu sinni. Erindið verður um 20 mínútur og svo verður bíllinn til sýnis. Bíllinn er svo að fara í vetrargeymslu.
Námskeið ÍRA til undirbúnings prófs til amatörleyfis verður haldið 15. september til 28. október í Háskólanum í Reykjavík. Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið laugardag 1. nóvember.
Námskeiðsgjald er 24.500 krónur. Greiðsla þarf að hafa borist gjaldkera í síðasta lagi 10. september n.k. Reikningur ÍRA: 0116-26-7783 / kennitala: 610174-2809 / Ath. að skrá kennitölu greiðanda í athugasemdir. Bent á fræðslustyrki stéttarfélaga og Vinnumálastofnunar.
Fyrirspurnir eru velkomnar á póstfangið: ira@ira.isEinnig má hafa samband við Jónas Bjarnason, TF3JB umsjónarmann námskeiðsins í síma 898-0559 eða á póstfang:jonas.bjarnason.hag@gmail.com
Stjórn ÍRA.
Kennarar á námskeiði ÍRA til amatörprófs haustið 2025.