JARTS WW RTTY CONTEST. Keppnin verður haldin laugardag 18. október frá kl. 00:00 til sunnudags 19. október kl. 24:00. Keppnnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Skilaboð: RST + aldur þátttakanda. http://jarts.jp/rules/2024_rule_en.htm
WORKED ALL GERMANY CONTEST. Keppnin verður haldin laugardag 18. október frá kl. 15:00 til sunnudags 19. október kl. 14:59. Keppnnin fer fram á CW og SSB á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Skilaboð DL stöðva og DARC félaga: RS(T)+ DOK númer. Skilaboð annarra DL stöðva: RS(T) + ”NM”. Skilaboð annarra: RS(T) + raðnúmer. https://www.darc.de/der-club/referate/conteste/wag-contest/en/rules
STEW PERRY TOPBAND CHALLENGE. Keppnin verður haldin laugardag 18. október frá kl. 15:00 til sunnudags 19. október kl. 15:00. Keppnin fer fram á CW á 160 metrum. Skilaboð: RST + 4 stafa Maidenhead reitur (e. grid square). https://www.kkn.net/stew
Námskeið ÍRA til amatörprófs, sem hófst þann 15. október, lýkur eftir rúmar tvær vikur, eða þriðjudaginn 28. október n.k.
Vel hefur gengið og yfirleitt eru um og yfir 20 þátttakendur mættir hverju sinni í kennslustofu M117 í Háskólanum í Reykjavík. Kennarar eru sammála um að þetta sé góður og samstæður hópur sem muni standa sig vel á prófinu.
Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið í HR laugardaginn 1. nóvember kl. 10:00 árdegis. Það verður auglýst betur þegar nær dregur. Þeir, sem ekkihafa sótt námskeiðið, en hafa hug á að sitja prófið, er bent á að senda félaginu fljótlega póst þess efnis á ira@ira.is
Með ósk um gott gengi!
Stjórn ÍRA.
Mynd úr kennslustofu M117 í Háskólanum í Reykjavík haustið 2025. Ljósmynd: TF3GZ.
Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 9. október. Að venju voru málefni líðandi stundar á dagskrá ásamt áhugamálinu, sem eðlilega var í fyrirrúmi.
Rætt var um skilyrðin á HF sem hafa batnað verulega að undanförnu og hafa menn verið í góðum DX, t.d. á 10 m. um allan heim. Einnig var rætt um loftnet og fram kom, að Óskar Ólafur Hauksson, TF3OH hafi t.d. verið að nota „Ham Stick“ bílloftnet á svölunum hjá sér og hefur náð ótrúlega góðum árangri í DX á 20 m. bandinu.
Jón Atli Magnússon, TF2AC mætti með og sýndi mönnum „refasendi“ á 2 m. bandinu. Hann notar sendishlutann í handstöð og smíðaði stillibúnað fyrir útsendingu á 10 mínútna fresti. Skammt er síðan annar leyfishafi, Gunnar B. Guðlaugsson, TF5NN smíðaði „refasendi“ á 70 cm. bandinu. Þess má geta, að fyrstu refaveiðarnar voru haldnar á vegum ÍRA í október 1964 á 80 metrum. Síðan, um árabil tóku radíóskátar verkefnið upp á sína arma, en allra síðustu ár hefur ekki verið virkni á þessu sviði.
Einar Kjartansson, TF3EK mætti með og sýndi mönnum nýja Discovery TX-500 HF stöð frá Lab599. Stöðin vinnur á CW, SSB og DIGI á 160-6 m. og getur gefið út allt að 10W. Afar verkleg stöð og skemmtilega hönnuð.
Þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir afbragðsgott kaffi og meðlæti og til Jóns Svavarssonar, TF3JON fyrir frábærar ljósmyndir.
Félagsstöðin TF3IRA var virkjuð þetta opnunarkvöld á SSB á 20 metrum og var Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN á hljóðnemanum. Alls mættu 18 félagar og 2 gestir (sem eru á yfirstandandi námskeiði félagsins til amatörprófs í HR) í Skeljanes þetta ágæta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
http://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.png00TF3JBhttp://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.pngTF3JB2025-10-10 16:08:582025-10-10 16:11:05OPIÐ VAR Í SKELJANESI 9. OKTÓBER.
Hvað hafa öll þessi kallmerki sameiginlegt. Jú, þau tilheyra öll sama manninum. Og hver er hann og hvað er svona merkilegt?
Maðurinn heitir Sergei Rebrov, og núna á föstudagskvöldið [10. október] stýrir hann landsliði Úkraínu í fótbolta (áður sagt í knattspyrnu) gegn okkar mönnum á Laugardalsvellinum. Sjálfur hef ég haft fjöldann allan af keppnissamböndum við Sergei, við fljóta talningu sýnist mér þau vera 102. Það fyrsta árið 2001.
Eftir að okkar menn unnu Azerbaijan í leik hér í byrjun September, fékk ég þá flugu í höfuðið að það væri nú gaman að hitta Sergei, þegar ég sá fram á að Úkraínumenn kæmu hér til að spila í október. Dreif í að senda honum tölvupóst og stakk uppá heimsókn í Skeljanes ef hann sæi sér fært. Svaraði samdægurs og hafði áhuga á því.
Setti mig í samband við stjórn ÍRA og svo sem mátti búast við, fékk jákvæðar undirtektir. Í upphafi sagðist Sergei hafa tíma á fimmtudagskvöldið, 9. október, en stuttu áður en það var ákveðið endanlega, kom upp sú staða að hann taldi sig ekki geta komið, nema í beinu framhaldi eftir komu til landsins, það var á miðvikudagskvöldið.
Það var úr að, ég og Jón Gunnar TF3PPN, kæmum til með að hitta hann á hóteli liðsins, og fara svo í stutta stund í Skeljanes, sem við gerðum og áttum gott spjall í rúman hálftíma þar, héldum við svo aftur uppá hótel og var hann þakklátur fyrir móttökur, og eins og við höfðum gaman af. Við afhentum Sergei borðfána félagsins, en þar sem stoppið var stutt og loftskilyrðin ekki sérlega góð varð ekki úr að hann færi “í loftið” frá klúbbstöðinni.
Sergei tekur þátt í allskyns keppnum, bæði á SSB, CW og RTTY. Á Kýpur er hann með ágætis loftnetabúgarð, og sagðist m.a. vera með 2 stk. Acom 2000A magnara. Þá sagði hann okkur frá ýmsum uppsetningum sem menn eru að nota við hinar og þessar keppnisstöðvar.
Að lokum hafði hann á orði að kona hans hafi talað um það væri nú gaman einhvern tíma að heimsækja Ísland, sagði ég honum að hann þyrfti þá að reyna að stíla það uppá að einhver keppni væri þá í gangi. Svarið sem ég fékk: “No, stop now Seli”, og hlegið á eftir.
Að lokum bað hann fyrir kveðjur til félagsmanna, og vonaðist til að heyra í fleiri TF stöðvum í keppnum.
(Texti: Ársæll Óskarsson, TF3AO).
Þakkir til þeirra Sæla, TF3AO og Jóns Gunnars, TF3PPN fyrir að taka á móti Sergei í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.
Stjórn ÍRA.
.
Ársæll Óskarsson TF3AO, Sergei Rebrov UT5UDX og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3PPN.
OCEANIA DX CONTEST, CW. Keppnin er haldin laugardag 11. október kl. 06:00 til sunnudags 12. október kl. 06:00. Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Skilaboð: RST + raðnúmer. https://www.oceaniadxcontest.com
Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í SAC keppninni. Stefnt er að því að virkja félagsstöðina, TF3W. Þeir félagar sem hafa áhuga á því eru beðnir um að láta vita á ira@ira.is
Benedikt Guðnason, TF3TNT, Guðjón Egilsson, TF3WO og Georg Kulp, TF3GZ gerðu góða ferð þann 3. október á Þrándarhlíðarfjall. Tengdur var nýr ICOM VHF endurvarpi og sett upp Kathrein 2-tvípóla VHF loftnet á fjallinu.
Kallmerkið er TF5RPG. Tíðnir: 145.775 /145.175 MHz (TX/RX). Notaður er 88,5 Hz tónn inn. Nýi endurvarpinn er tengdur við Mýrar.
Þrándarhlíðarfjall er innst í Skagafirði – á mörkum Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Fjarskiptahúsið er í 920 metra hæð yfir sjávarmáli (65,41127N 19,49982V). Framtíðarsýnin er sú, að Þrándarhlíðarfjall tengist endurvörpunum á fjallinu Strút (TF2RPJ) og á Vaðlaheiði (TF5RPD).
Sérstakar þakkir til þeirra Benedikts, Guðjóns og Georgs fyrir að takast á hendur þetta mikilvæga verkefni.
Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 2. október.
Góðar umræður voru um m.a. um sendi-/móttökustöðvar á HF og VHF/UHF og tilheyrandi búnað, en gengi dollars er afar hagstætt um þessar mundir (um 120 kr. USD samkvæmt meðalgengi Seðlabanka Íslands). Einnig eru heimasmíðar á fullu hjá mörgum, þ.á.m. smíði á aflgjöfum, loftnetum (á HF) og loftnetsaðlögunarrásum.
Mikið var rætt um nýja DMR endurvarpann (TF3DMR) sem settur var í loftið í Skeljanesi fyrir rúmum mánuði og menn eru almennt að prófa. Fram kom m.a., að félagið mun standa fyrir kynningu á DMR (Digital Mobile Radio) á fræðsludagskrá ÍRA í vetur, þ.e. hvaða búnað þarf til og hvernig kerfið er notað. Dagsetning verður kynnt í 4. hefti CQ TF sem kemur út í þessum mánuði (október).
Guðjón Már Gíslason, TF3GMG mætti með og sýndi nýja Hongkade 25W VHF/UHF stöð af gerðinni DM-9100 í Skeljanes. Stöðin er mjög fullkomin, er með innbyggt GPS og býður upp á 4FSK/FM, DMR og APRS tegundir mótunar. Auk þess að vinna á 2 metrum og 70 cm býður tækið upp á viðtöku á 64-108MHz og 113-135MHz.
Þakkir góðar til Einars Sandoz, TF3ES fyrir ljósmyndir og til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir afbragðsgott kaffi og og meðlæti.
Alls mættu 15 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
http://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.png00TF3JBhttp://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.pngTF3JB2025-10-03 12:24:282025-10-03 12:24:29OPIÐ VAR Í SKELJANSI 2. OKTÓBER.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun standa fyrir „dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 4. október kl. 13-16.
Ari Þórólfur mætir aftur með RigExpert AA-3000 lofnets- og kapalsmælinn sem nú verður tengdur við skjávarpa svo allir geti fylgst með niðurstöðum. Í boði verður að mæla loftnet og/eða kóaxkapla sem menn taka með sér á staðinn. Tengin þurfa að vera SMA F/M og BNC vegna tenginga við RigExpert mælinn.
Næst verða sendigæði VHF/UHF handstöðva mæld. Notaður verður við tíðnirófsskoðari (spectrum analyser) af gerðinni TinySA ULTRA Plus. Ari mun skýra út [og sýna] hvernig tengja á tíðnirófsskoðarann án þess að sendistöðin skaði mælitækið.
Það eru til margar tegundir/gerðir af tíðnirófsskoðurum sem í höfuðdráttum vinna allir eins. Farið verður yfir virkan tækisins, hvað það sýnir og hvernig á að að nota það. Þetta er í raun ódýrt mælitæki sem gerir sitt gagn – en er ekki gallalaust. TinySA ULTRA Plus getur mælt tíðnisviðið frá 100 Hz upp í 7 GHz. Það hefur þar með möguleikann til að sýna óæskilegar yfirsveiflur.
Áhugasamir geta mætt með VHF/UHF stöðvar sem verða mældar. Þær þurfa að vera fullhlaðnar og/eða með utanaðkomandi aflgjafa og með SMA eða BNC loftnetstengi. Síðan verða niðurstöður mælinganna skoðaðar og útskýrðar á mynd frá skjávarpa.
Athugið, að þótt einstakar stöðvar geti verið ótrúlega góðar og aðrar slæmar, má ekki gera ráð fyrir að slíkt eigi almennt við um tiltekna tegund. Tæki kann að vera bilað eða jafnvel framleidd á föstudegi rétt í enda dags.
Félagsmenn eru hvattir til að mæta á laugardag, fylgjast með og taka þátt í umræðum um þetta áhugaverða umfjöllunarefni. Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffið og tekur fram meðlæti.
http://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.png00TF3JBhttp://ira.is/wp-content/uploads/2016/11/website_head_ira_logo_arial.pngTF3JB2025-10-02 09:23:312025-10-02 09:27:13LAUGARDAGUR 4. OKTÓBER Í SKELJANESI.