.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 7. október frá kl. 20 til 22.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Kaffiveitingar og nýjustu tímaritin fyrir radíóamatöra frá systurfélögum ÍRA liggja frammi, m.a. á norðurlanda-málum, ensku, þýsku, frönsku og ítölsku.

Enn er töluvert af radíódóti í boði og þótt mikið hafi gengið út hefur borist meira dót upp á síðakastið.

QSL stjóri tæmir pósthólf félagsins alla miðvikudaga þannig búið verður að færa í hús og flokka nýjustu kortasendingarnar.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

.

63. Scandinavian Activity keppnin (SAC) – SSB hluti – verður haldin um næstu helgi, 9.-10. október.

Þetta er 24 klst. keppni sem hefst á laugardag á hádegi og lýkur á sunnudag á hádegi.

Radíóamatörar í Danmörku, Íslandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð keppa ásamt radíóamatörum á Svalbarða, Bjarnareyju, Álandseyjum, Market Reef, Grælandi og í Færeyjum á móti heiminum og innbyrðis.

Svalbarði og Bjarnareyja – JW
Jan Mayen – JX
Noregur – LA – LB – LC – LG – LI – LJ – LN
Finnland – OF – OG – OH – OI
Álandseyjar –  OFØ – OGØ – OHØ
Market Reef – OJØ
Grænland – OX – XP
Færeyjar – OW – OY
Danmörk – 5P – 5Q – OU – OV – OZ
Svíþjóð – 7S – 8S – SA – SB – SC – SD – SE – SF – SG – SH – SI – SJ – SK – SL – SM
Ísland – TF

Mikilvægt er að sem flestar TF-stöðvar taki þátt!

Stjórn ÍRA.

https://www.sactest.net/blog/

35. CQ WW RTTY DX keppnin fór fram 25.-26. september 2021.

Frestur til að skila dagbókum til keppnisstjórnar rann út á miðnætti 1. október. Dagbókum var skilað inn fyrir alls átta TF kallmerki vegna þátttöku í keppninni í fjórum keppnisflokkum.

TF1AM – einmenningsflokkur – háafl.
TF2CT – einmenningsflokkur – háafl.
TF3IRA – einmenningsflokkur – háafl.
TF3AO – einmenningsflokkur – háafl, aðstoð.
TF2MSN – einmenningsflokkur – lágafl.
TF3VE – einmenningsflokkur – lágafl.
TF3VS – einmenningsflokkur – lágafl.
TF3PPN – einmenningsflokkur – lágafl, aðstoð.

Niðurstöður verða kynntar í marshefti CQ tímaritsins 2022.

Stjórn ÍRA.

KiwiSDR vitæki TF3GZ á Raufarhöfn (10 kHz-30 MHz) varð QRV á ný í gær (30. september). Viðtækið hafði verið úti í um vikutíma þar sem rafmagnið hafði slegið út. Þakkir til Rögnvaldar Helgasonar sem er búsettur þar á staðnum sem gangsetti tækið.

Vefslóðir á KiwiSDR viðtækin þrjú sem í dag eru virk yfir netið:

Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com

Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com

Bláfjöll: http://bla.utvarp.com:8080/

Airspy R2 SDR viðtæki TF3CZ yfir netið (24-1800 MHz) sem staðsett er í Perlunni í Reykjavík var tekið niður vegna viðhalds í gær (30. september). Karl Georg áætlar að það verði aftur orðið virkt snemma í næstu viku.

Vefslóð á viðtækið: http://perlan.utvarp.com/?fbclid=IwAR268BADYCqimpAbozFMfFi31mw3g4wjOGpV6Kpd6NThnd2VMKho1YRXLSE#freq=144800000,mod=nfm,secondary_mod=packet,sql=-150

Raufarhöfn 30.9. Myndin sýnir fæðingu T-loftnetsins fyrir KiwiSDR viðtækið. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Reykjavík 30.9. Myndin sýnir (efst til hægri) loftnetið fyrir Airspy R2 SDR viðtækið á Perlunni í Öskjuhlíð. Ljósmynd: Karl Georg TF3CZ.

Stjórn ÍRA samþykkti á fundi 28. september að fresta auglýstu námskeiði til amatörleyfis, sem átti að hefjast 4. október n.k. og ljúka með prófi Fjarskiptastofu 11. desember. Ástæðan er lítil þátttaka, en aðeins þrír skráðu sig og greiddu námskeiðsgjald. Þeir fá nú endurgreitt.

Næsta námskeið verður í boði í febrúar til maí 2022. Athugað verður með að bjóða samtímis, staðarnámskeið í Háskólanum í Reykjavík og fjarnámskeið yfir netið.

Komi í ljós áhugi fyrir að sitja próf til amatörleyfis án undangengins námskeiðs, mun félagið taka það mál upp við Fjarskiptastofu að efnt verði til prófs til amatörleyfis 11. desember n.k.

Stjórn ÍRA.

Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF þar sem frestur rennur ekki út fyrr en 30. september n.k.

Nýja blaðið kemur út sunnudaginn 17. október n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Fyrirfram þakkir og 73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

76. Oceania DX keppnin á SSB verður haldin um næstu helgi, 2.-3. október. Landsfélög radíóamatöra í Ástralíu (WIA) og á Nýja Sjálandi (NZART) standa saman að viðburðinum.

Þetta er 24 klst. keppni sem hefst kl. 06 laugardaginn 2. október og lýkur kl. 06 sunnudaginn 3. október. Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metra böndunum.

QSO punktar fyrir sambönd við stöðvar í Eyjaálfu (e. Oceania) eru: 160m=20; 80m=10, 40m=5, 20m=1, 15m= 1 og 10m=3. Sambönd við stöðvar utan álfunnar gefa ekki punkta. Margfaldarar reiknast fyrir fyrsta samband á hverju bandi við hvert forskeyti kallmerkja í Eyjaálfu. Önnur sambönd gefa ekki margfaldara.

Morshluti keppninnar fer fram viku síðar, helgina 9.-10. október. Vefslóð á keppnisreglur: https://www.oceaniadxcontest.com/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Sýnishorn af viðurkenningu er fengið að láni frá ZM4G sem sigraði í einmenningskeppni í morsi yfir Eyjaálfu á 40 metrum árið 2013.
Forskeytin í Eyjaálfu eru sýnd með bláum títuprjónshausum á hnattlíkaninu.

.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 30. september fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20-22.

Fjarskiptaherbergi félagsstöðvarinnar TF3IRA og QSL stofan á 2. hæð verða opin.

QSL stjóri tæmir pósthólf félagsins alla miðvikudaga þannig að nýjustu kortasendingarnar hafa verið færð í hús og flokkaðar.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

Nýjustu tímaritin frá 10 stærstu landsfélögum radíóamatöra liggja frammi í fundarsal á 1. hæð.
DXCC viðurkenningarskjal Einars Pálssonar TF3EA frá 8. mars 1949 hefur nú verið sett í vandaðan tréramma og fest á vegg í fjarskiptaherbergi TF3IRA á 2. hæð. Skjalið er fyrir ofan tilkynningatöfluna. Ljósmyndir: TF3JB.

Scandinavian Activity keppnin (SAC) – CW hluti – fór fram helgina 18.-19. September s.l.

Radíóamatörar í Danmörku, Íslandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð keppa ásamt radíóamatörum á Svalbarða, Bjarnareyju, Álandseyjum, Market Reef, Grælandi og í Færeyjum á móti heiminum og innbyrðis.

Frestur til að skila keppnisgögnum rann út á miðnætti á föstudag. Gögnum var skilað til keppstjórnar SAC fyrir eftirtalin kallmerki:

TF3EO í einmenningsflokki, lágafl, öll bönd.
TF3VS í einmenningsflokki, lágafl, öll bönd.
TF3W (op. TF3DC) í einmenningsflokki, háafl, 20 metrar.

Stjórn ÍRA.

Óskar Sverrisson TF3DC virkjaði félagsstöðina TF3W í SAC keppninni á morsi 18.-19. september. Ljósmynd: TF3JB.

Ánægjulegt félagskvöld. Góð mæting. Fjörugar umræður og menn hressir.

Félagsmaður okkar, Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33 færði í hús stóra rjómatertu frá Reyni bakara í Kópavogi sem stundum er kennd við Hressingarskálann í Reykjavík. Sagðist hann vilja deila henni með félögunum því hann ætti 71 árs afmæli þennan fimmtudag. Menn létu ekki segja sér það tvisvar,  og var sungið fyrir Baldvin: „Hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Baldi…“. Að því búnu var tertunni skipt á milli manna og líkaði hún vel.

Annars voru fjörugar umræður yfir kaffi og tertu um áhugamálið á báðum hæðum. Alls mættu 17 félagar + 1 gestur þetta ágæta fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Hamingjuóskir til afmælisbarnsins frá stjórn ÍRA.

Við stóra fundarborðið. Frá vinstri: Mathías Hagvaag (með bak í myndavél), Þórður Adolfsson TF3DT, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Baldvin Þórarinsson TF3-033 (afmælisbarn), Sigmundur Karlsson TF3VE, Jón E. Guðmunds-son TF8KW og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM. Ljósmynd: TF3GZ.
Í stóra sófasettinu: Frá vinstri: Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Bernhard M. Svavarsson TF3BS (standandi), Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmynd: TF3GZ.