Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 11. desember. Á dagskrá var 6. og síðasta erindið á fræðsludagskrá félagsins haustið 2025 sem var í umsjá Benedikts Guðnasonar, TF3TNT og nefndist: „Áframhaldandi uppbygging VHF kerfisins“.
Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA kynnti Benedikt kl. 20:30. Og síðan tók við flutningur hans á erindi kvöldsins, sem fjallaði um endurbætur á VHF endurvörpum fyrir íslenskra radíóamatöra.
Benedikt hefur á óeigingjarnan hátt, notað tækifæri sem hann hefur vegna vinnu sinnar við fjallastöðvar og endurvarpa fyrir ýmsa aðila, að endurbæta endurvarpakerfi radíóamatöra, og það er án kostnaðar. Þetta er einstök snilld og ber að þakka honum sem kostur er.
Meðal nýjunga, nefndi hann endurbætur á merki frá endurvarpanum TF2RPJ á fjallinu Strút, nýja endurvarpann á Þrándarhlíðarfjalli, TF5RPG og vinnu við endurvarpann TF5RPD á Vaðlaheiði, sem og við endurvarpann TF3RPA á Skálafelli og endurvarpann TF3RPB í Bláfjöllum. Og þá var ekki allt upp talið. Nýjungar umfram annað, er átak í nettengingum endurvarpanna, með það að markmiði að sendingar frá þeim varpist frá þeim flestum samtímis.
Það var gerður góður rómur að erindi Benedikts og hann fékk fjölda fyrirspurna. Og, hann kom vel undirbúinn, og var með útbreiðslukort sem sýndi greinilega hver útbreiðslan er frá hverjum endurvarpa og hvernig hún leggst saman. Benedikt tók vel í að skrifa pistil í CQ TF við fyrsta tækifæri.
Á eftir var spjallað manna á millum, og margir sátu hjá Benedikt að spjalla og fræðast. Það var vel mætt þetta ágæta fimmtudagskvöld, alls um 30 manns. Sérstakar þakkir til Benedikts Guðnasonar, TF3TNT fyrir afbragðsgott og áhugavert erindi.
Þess má geta að erindið var tekið upp, sbr. eftirfarandi vefslóð: https://youtu.be/9_VtmTnbAKE
Stjórn ÍRA.
(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).












