Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 14. ágúst. Sérstakir gestir félagsins voru þau Bob Staar, LX1BS og XYL Eva. Hann færði okkur m.a. félagsfána Radio-amateurs du Luxembourg (RL), eintak af félagsblaði þeirra sem kemur út 4 sinnum á ári [eins og CQ TF] og félagsmerki RL. Bob fékk borðfána ÍRA afhentan og eintak af nýjasta tölublaði CQ TF til að taka með heim til Lúxemborgar.

Þau voru afar hrifin af aðstöðu ÍRA og fannst frábært að félagsaðstaðan væri opin 4 sinnum í mánuði, en félagarnir í Lúx hittast einu sinni í mánuði. Fram kom, að félagafjöldi RL er um 400 og eru flestir leyfishafar. Þess má geta að Bob er ungmennafulltrúi RL og á ennfremur sæti í neyðarfjarskiptanefnd félagsins.

Góð mæting var þetta fimmtudagskvöld og félagarnir á báðum hæðum. Félagsstöðin TF3IRA var sett í loftið, bæði á CW og SSB í góðum skilyrðum á 7 MHz og 14 MHz. Menn eru orðnir spenntir fyrir að fá endurvarpann TF3DMR í loftið og verður væntanlega unnið að því í næstu viku, en eftir er að leggja að honum tengingu frá netbeini og loftnet; allt annað er til staðar. Einnig kom til tals, að gott væri að fá stafræna endurvarpann TF3RPI (QRG 439.950) virkan á ný, sem nú er bilaður. TF3RPI hefur gátt yfir netið út í heim og notast við D-STAR fjarskipti.

Að venju var mikið rætt um skilyrðin á HF, fjarskiptastöðvar, loftnet og annan búnað. Hugur er í mönnum að drífa upp loftnet fyrir veturinn og sumir velta fyrir sér kaupum á nýrri HF stöð á meðan gengi dollars er hagstætt en gengi dollars samkvæmt Seðlabanka Íslands var 122,50 kr. í gær (14. ágúst).

Þakkir til Þorvaldar Bjarnasonar, TF3TB sem færði félaginu Yaesu FC-902 loftnetsaðlögunarrás sem verður í boði á næsta flóamarkaði félagsins. Ennfremur þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID og Guðjóns Más Gíslasonar, TF3GMT fyrir afbragðsgott kaffi og meðlæti. Alls mættu 28 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) dagana 3.-12. ágúst 2025.

Alls fengu 13 TF kallmerki skráningar. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8) en einnig á morsi (CW) og tali (SSB). Bönd: 6, 15, 17, 20 og 30 metrum.

Kallmerki fær skráningu þegar leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Svokallað „self spotting“ er ekki tekið með. Upplýsingarnar eru fengnar á http://new.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar. Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund(ir) útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

TF1A                      FT8 á 6 og 15 metrum.
TF2CT                    FT8 á 6 metrum.
TF3AK                   FT8 á 20 og 30 metrum.
TF3CZ                    FT8 á 20 metrum.
TF3IRA                  CW á 20 metrum.
TF3JB                    FT8 á 6 metrum.
TF3VS                    FT8 á 17 metrum.
TF3W                    CW á 15 og 20 metrum.
TF5B                      FT8 á 17 og 30 metrum.
TF8KW                  FT8 á 6 og 20 metrum.
TF8SM                  FT8 á 6 og 15 metrum.
TF/F5TGR             FT8 á 20 og 30 metrum.
TF/OE5VTC         SSB á 15 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Félagsstöðin TF3IRA var virk á tímabilinu. Á myndinni er Hrafnkell Sigurðsson TF8KY í loftinu frá Skeljanesi.

Stafræni endurvarpinn TF3RPI (QRG 439.950) í Bláfjöllum er úti og er hvorki virkur á RF eða yfir netið.

Endurvarpinn hefur gátt yfir netið út í heim og notast við D-STAR fjarskipti.

Málið er til athugunar.

Stjórn ÍRA.

Mynd af tækjaskápnum fyrir TF3RPI í stöðvarhúsinu í Bláfjöllum. Ljósmynd: TF1A.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 14. ágúst á milli kl. 20 og 22.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin liggja frammi.

QSL stjóri TF-ÍRA Bureau verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin. Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID og Guðjón Már Gíslason, TF3GMG annast kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr salnum í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi.

SARTG WW RTTY CONTEST.
Keppnin er haldin á laugardag 16. ágúst kl. 00-08 og 16-24 og kl. 08-16 sunnudag 17. ágúst.
Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + raðnúmer.
https://www.sartg.com/contest/wwrules.htm

RUSSIAN DISTRICT AWARD CONTEST.
Keppnin hefst á laugardag 16. ágúst kl. 08:00 og lýkur á sunnudag 17. ágúst kl. 08:00.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð rússneskra stöðva: RS(T) + 2 bókstafir fyrir hérað.
Skilaboð annarra: RS(T) + raðnúmer.
https://rdaward.org/rdac1.htm

KEYMAN‘S CLUB OF JAPAN CONTEST.
Keppnin hefst á laugardag 16. ágúst kl. 12:00 og lýkur á sunnudag 17. ágúst kl. 12:00.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð japanskra stöðva: RST + 2 bókstafir fyrir hérað.
Skilaboð annarra: RST + CQ svæði.
https://kcj-cw.com/contest/rule/2025_46_kcj_dx_.pdf

CVA DX CONTEST, CW.
Keppnin hefst á laugardag 16. ágúst kl. 18:00 og lýkur á sunnudag 17. ágúst kl. 21:00.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð brasilískra stöðva: RST + 2 bókstafir fyrir fylki (e. state).
Skilaboð annarra: RST + meginland.
http://cvadx.org/

ARRL ROOKIE RONDUP.
Keppnin stendur yfir laugardag 16. ágúst frá kl. 18:00 til kl. 23:59.
Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + Nafn + 2 tölustafir fyrir ár þegar leyfisbréf var útgefið +
(ríki í USA/fylki í Kanada/XE hérað/DXCC eining.
https://www.arrl.org/rookie-roundup

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Guðrún Hannesdóttir, TF3GD hefur haft sitt síðasta QSO; merki hennar er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX eiginmanni hennar lést hún sunnudaginn 3. ágúst. Banamein var krabbamein.

Guðrún var á 78. aldursári og handhafi leyfisbréfs radíóamatöra nr. 296.

Um leið og við minnumst Guðrúnar með þökkum og virðingu færum við Vilhjálmi Þór og fjölskyldu hennar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti kl. 20:00 til 22:00 fimmtudaginn 7. ágúst.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin.

Matías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri TF-ÍRA Bureau verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin. Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID og Guðjón Már Gíslason, TF3GMG annast kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Benedikt Guðnason, TF3TNT flutti erindi um framtíðarsýn endurvarpamála fyrir íslenska radíóamatöra í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 23. nóvember 2023. Ljósmynd: TF1AM.

WAE DX CONTEST, CW.
Keppnin hefst laugardag 9. ágúst kl. 00:00 og lýkur sunnudag 10. ágúst kl. 24:00.
Keppnin fer fram á CW á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + raðnúmer.
https://www.darc.de/der-club/referate/conteste/wae-dx-contest/en

YB BEKASI MERDEKA CONTEST.
Keppnin hefst laugardag 9. ágúst kl. 12:00 og lýkur sunnudag 10. ágúst kl. 11:59.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð YB stöðva: RS(T) + YB hérað (2 bókstafir).
Skilaboð annarra: RS(T) + DX.
http://bmc.orari-kotabekasi.com/

NCCC 55TH ANNIVERSARY FIESTA.
Keppnin hefst laugardag 9. ágúst kl. 19:00 og lýkur sunnudag 10. ágúst kl. 03:00.
Keppnin fer fram á CW, SSB og RTTY á 40, 20 og 15 metrum.
Skilaboð NCCC félaga: RS(T) + ríki í USA/fylki í Kanada/DXCC eining + ár sem gerðist NCCC félagi.
Skilaboð annarra: RS(T) + ríki í USA/fylki í Kanada/DXCC eining.
https://nccc.cc/55th.html

SARL HF DIGITAL CONTEST.
Keppnin hefst sunnudag 10. ágúst kl. 13:00 og lýkur sama dag kl. 16:00.
Keppnin fer fram á RTTY og PSK31 á 80, 40 og 20 metrum.
Skilaboð: RST + raðnúmer.
http://mysarl.org.za/contest-resources/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

TF útileikunum 2025 lauk á hádegi í dag (mánudag 4. ágúst) á verslunarmannafrídaginn. Alls voru skráð til leiks 14 TF kallmerki, þar af voru 12 sett í loftið og tóku þátt.

Samkvæmt upplýsingum á leikjavefnum varð Einar Kjartansson, TF3EK í 1. sæti; Kristján J. Gunnarsson, TF4WD í 2. sæti og Eiður Kristinn Magnússon, TF1EM í þriðja sæti. Hafa verður fyrirvara, því menn geta skilað inn breytingum/ innsetningum í allt að 7 sólarhringa eftir viðburðinn. Hamingjuóskir til þeirra Einars TF3EK, Kristjáns TF4WD og Eiðs TF1EM með þennan ágæta árangur.

Sérstakar þakkir til Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA sem virkjaði félagsstöðina TF3IRA í Skeljanesi sem og til Einars Kjartanssonar, TF3EK umsjónarmanns leikanna og Hrafnkels Sigurðssonar, TF8KY sem setti upp og hannaði frábæran leikjavef. Síðast, en ekki síst, þakkir til félagsmanna fyrir þátttökuna.

Miðað við umsagnir þeirra sem tóku þátt í leikunum vorum menn mjög ánægðir með viðburðinn. Skilyrði voru sæmileg upp í að vera allgóð.

Stjórn ÍRA.

TF útileikar ÍRA byrjuðu kl. 12:00 á hádegi í dag (laugardag) og lýkur á mánudag kl. 12:00 á hádegi. Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt! Hægt er að skrá sig á leikjavefinn allan tímann sem leikarnir standa yfir. Vefslóð leikjavefur: https://leikar.ira.is/  Vefslóð upplýsingar: https://www.ira.is/tf-utileikar/

Heimilt er að hafa sambönd alla dagana, en til að sem flestir nái saman er mælt með þessum tímum:

  • Laugardagur 2. ágúst: kl. 12-14 og kl. 20:30-22.
  • Sunnudagur 3. ágúst: kl. 09-11 og kl. 17:30-19.
  • Mánudagur 4. ágúst: kl. 10-12.

Leikarnir fara fram á 160, 80, 60 og 40 metrum. Miðað er við eftirfarandi tíðnir:

1.845 MHz – LSB.
3.633 MHz – LSB (og 3.640 MHz til vara).
5.363 MHz – USB.
7.120 MHz – LSB.

Félagsstöðin TF3IRA verður QRV í leikunum a.m.k. á morgun (sunnudag) frá kl. 09:00. Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA virkjar stöðina frá Skeljanesi.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA mun virkja TF3IRA í TF útileikunum. Ljósmynd: TF3UA.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 31. júlí.

Mikið var rætt um TF útileikana sem hefjast kl. 12 á hádegi á morgun (laugardag). Þegar þetta er skrifað [í hádegi á föstudag] voru 11 TF kallmerki skráð á leikjavefinn. Bæði Einar, TF3EK umsjónarmaður leikanna og Hrafnkell, TF8KY sem hannaði leikjavefinn voru á staðnum og svöruðu spurningum. Félagsstöðin TF3IRA verður virk í leikunum, en ekki fyrr en fyrir hádegið á sunnudag. Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA mun virkja stöðina frá Skeljanesi.

Nýja CQ TF blaðið (3. tbl.) sem kom út á heimasíðu félagsins á netinu 20. júlí s.l. lá frammi á prentuðu formi í félagsaðstöðunni og voru menn mikið að fletta blaðinu. Þetta er stórt blað 64 blaðsíður. Ánægja var með fjölbreytt efnisval og eins og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN sagði: „Það er alltaf svo vandað efni í blaðinu“.

Ársæll Óskarsson, TF3AO mætti í Skeljanes og afhenti „Duplex“ síu fyrir endurvarpa félagsins, TF3DMR. Þetta er gjöf til félagsins frá Erik Finskas, TF3EY/OH2LAK, en Sæli hitti Erik í Finnlandi á dögunum. Þakkir til Sæla að hafa milligöngu um málið og þakkir til Eriks fyrir gjöfina. UHF endurvarpinn TF3DMR verður í framhaldi settur í loftið á næstunni.

Sveinn Goði, TF3ID og Guðjón Már, TF3GMT undirbjuggu tiltekt í eldhúsinu og færðu m.a. kæliskáp félagsins á nýjan stað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, er aðgangur að skápnum allt annar og betri. Á dagskrár er (næstu daga) að halda áfram og ljúka tiltekt í eldhúsinu sem byrjað var á í haust.

Sigurður Óskar, TF2WIN kom með heimasmíðaðan loftnetsspenni og sýndi mönnum. Hann kom einnig með mælitæki og mældi heimasmíðaða loftnetsgildru sem Guðjón Má, TF3GMG hafði smíðað.

Alls mættu 25 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Þriðju og síðustu fjarskiptaleikar ÍRA á árinu 2025 verða haldnir um verslunarmannahelgina. Það eru TF útileikarnir og hefjast þeir á hádegi laugardaginn 2. ágúst og lýkur á hádegi á mánudaginn 4. ágúst. Upplýsingar má sjá á heimasíðu ÍRA, vefslóð:  https://www.ira.is/tf-utileikar/

Hægt er að taka þátt hluta keppnistímans – eða eins og hentar hverjum og einum. Bent er á að skrá sig á leikjavefinn, sbr. þessa vefslóð: http://leikar.ira.is/

Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í leikunum.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Í TF útileikunum er veittur verðlaunagripur og fimm viðurkenningaskjöl. Myndin er frá afhendingu verðlauna í útileikunum í fyrra (2024). Frá vinstri: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, (1. sæti); Einar Kjartansson TF3EK (3. sæti); og Andrés Þórarinsson TF1AM (2. sæti).