Ein stærsta morskeppni ársins, CQ WW WPX var haldin um síðustu helgi, 24.-25. maí.

Keppnisdagbókum hafði verið skilað inn fyrir þrjú TF kallmerki þegar þetta er skrifað (þriðjudag):

TF3EO   einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.
TF3VS    einmenningsflokkur, öll bönd, háafl.
TF3W    einmenningsflokkur, öll bönd, háafl.

Flestur til að skila inn gögnum rennur út á miðnætti á föstudag.

Félagsstöð ÍRA Í Skeljanesi, TF3W var virkjuð í keppninni af Alex M. Senchurov, TF3UT. Niðurstöður voru ágætar miðað við skilyrði eða 2.608 QSO, 948 margfaldarar, 5615 punktar og 5.323.020 heildar-punktar. Sérstakar þakkir til Alex fyrir að virkja TF3W í keppninni.

Stjórn ÍRA.

Alex TF3UT á lyklaborðinu frá félagsstöðinni TF3W í Skeljanesi í keppninni.

Félagsaðstaða ÍRA verður lokuð fimmtudaginn 29. maí sem er uppstigningardagur.

Næsti opnunardagur í Skeljanesi verður fimmtudag 5. júní n.k.

Stjórn ÍRA.

Völundur Jónsson, TF5VJN hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá ættingjum lést hann á heimili sínu í Kópavogi.

Völundur var á 82. aldursári og var handhafi leyfisbréfs radíóamatöra nr. 151.

Um leið og við minnumst Völundar með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
Formaður

Alþjóðasamband radíóamatöra, IARU, International Amateur Radio Union var stofnað í París 23. apríl 1925. Þann 26. apríl 2025 hélt IARU ásamt boðsgestum upp á 100 ára afmælið í veglegu afmælishófi. Viðburðarstjóri var Joel Harrison, W5ZN ritari IARU.

Heillaóskir og ræður fluttu:

Doreen Bogdan-Martin, KD2JTX, aðalritari ITU. Hún talaði um hið mikla og góða samband, sem hefur verið milli radíóamatöra og ITU öll þessi ár. Minnti hún jafnframt á þann mikla áfanga, þegar radíóamatörar öðluðust stöðu radíóþjónustu innan radíóreglugerðar ITU árið 1927 og afhenti IARU að táknrænni gjöf við þessi tímamót, frumritið af þessari samþykkt.

Richard Roderick, K5UR Alþjóðaskrifstofu IARU og forseti ARRL.

Timothy Ellam, KC, VE6SH/G4HUA forseti IARU.

Christiane Seifert, formaður CEPT nefndar um rafræn fjarskipti.

Thomas Ewers, forstjóri evrópsku CEPT fjarskiptastofunnar.

Oscar Leon Suarez, ritari CITEL (Sam-Ameríska Fjarskiptastofan), og

Attila Matas, HB9IAJ, fv. deildarstjóri ITU-R flutti lykilræðu hófsins.
Hann kom mjög víða við og fór yfir margt í þróun alþjóða radíóreglugerðar ITU. Nefndi hann fjölbreyttan þátt radíóamatöra í tækniþróun, neyðarfjarskiptum, og stöðugri aðlögun að nýjum viðfangsefnum og tækifærum. Einnig deildi hann þeirri reynslu sinni, að margir fulltrúar stjórnvalda hefðu snúist til stuðnings við málefni radíóamatöra í radíóreglugerð ITU, eftir að hafa heimsótt og kynnst starfsemi 4U1ITU, klúbbstöðvar ITU. Minnti hann að lokum á hve mikilvægt er fyrir radíóamatöra að vera vel tengdir, fylgjast vel með og vera vel undirbúnir í einu og öllu að því er varðar tíðnimál.

Boðsgestir í 100 ára afmælishófi IARU í París 26. apríl 2025. Ljósmynd: IARU.

Eftir að formlegum ræðuhöldum lauk, var orðið gefið laust. Íslenski boðsgesturinn Kristján Benediktsson, TF3KB, alþjóðafulltrúi ÍRA notaði tækifærið og flutti heillaóskir og afmæliskveðjur frá Íslenskum radíóamatörum. Afhenti hann við þetta tækifæri forsetum IARU og IARU Svæðis 1 borðfána ÍRA að gjöf, með bestu afmæliskveðjum.

Kristján Benediktsson TF3KB flytur IARU heillaóskir og afmæliskveðjur frá Íslenskum radíóamatörum. Tim Ellam VE6SH/ G4HUA, forseta IARU og Joel Harrison, W5ZN ritara IARU afhentur borðfáni ÍRA. Ljósmynd: LA8UW.
Sylvain Azarian, forseta IARU Svæðis 1 færður borðfáni ÍRA að gjöf ásamt afmæliskveðjum Íslenskra radíóamatöra vegna 75 ára afmælis IARU Svæðis 1. Ljósmynd: LA8UW.

Sérstakar þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB alþjóðafulltrúa ÍRA fyrir að sækja hátíðarhöld IARU í tilefni 100 ára afmælisins og 75 ára afmælis IARU Svæðis-1 í París í aprílmánuði 2025.

Stjórn ÍRA.

Andrés Þórarinsson TF1AM varaformaður ÍRA kynnir fyrirlesara. Ljósmynd: TF3KB.

Vetrardagskrá ÍRA vorið 2025 lauk með erindi Yngva Harðarsonar, TF3Y fimmtudaginn 22. maí. Erindi Yngva nefndist: „Fjarskipti fyrir tilstilli loftsteinaskúra“.

Yngvi flutti þetta líka ágætis erindi um fjarskipti með hjálp loftsteinaskúra. Erindið var vel skipulagt og Yngvi er hafsjór upplýsinga enda vel sjóaður í þessum málum öllum.

Hann varð heillaður af þessum fjarskiptahætti sem er tæknilega afar erfiður, og byrjaði sínar tilraunir 1982, fyrir daga tölvu og forrita. Hans tæki voru morslykill sem geymdi skilaboð sem mátti svo senda afar hratt með því að ýta á takka, og segulbandstæki til að geyma það sem heyrðist og spila mjög hægt til að heyra það sem móttekið var. Þannig var þetta.

En tímarnir hafa breyst á allan hátt, kunnátta stóraukist og nú eru til hvers konar hugbúnaður og tæki sem gera þessa tegund fjarskipta viðráðanlegri, en áfram krefjandi. Yngvi fékk fjölda fyrirspurna sem hann svaraði af kunnáttu, og sýndi enn og aftur að hann er afbragðs fyrirlesari.

Sérstakar þakkir til Yngva Harðarsonar, TF3Y fyrir afbragðsgott, vandað og fróðlegt erindi.

Alls mættu 20 félagar í Skeljanes þetta ágæta vorkvöld í vesturbænum í Reykjavík. Andrés Þórarinsson, TF1AM annaðist upptöku og Njáll H. Hilmarsson, TF3NH annaðist innsetningu á upptöku á heimasíðu. Þakkir til þeirra og til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM og Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir ljósmyndir sem og til Guðjóns Más Gíslasonar fyrir kaffi og meðlæti.

Félagsstöðin TF3IRA var virkjuð frá Skeljanesi á opnunarkvöldinu á morsi á 40 metrunum og hafði Alex, TF3UT yfir 60 sambönd í ágætum skilyrðum.

Stjórn ÍRA.

(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).

Glærur frá erindi TF3Y 22.5.2025: https://www.ira.is/?s=erindi+tf3y

Upptaka af erindinu er hér: https://youtu.be/oMASvVgVa2w

Yngvi byrjaði flutning erindisins stundvíslega kl. 20:30. Ljósmynd: TF3KB.
Yngvi sýndi fjölmargar glærur. Mynd úr sal. Fremst Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Aftar: Einar Kjartansson TF3EK, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Guðjón Már Gíslason TF3GMG. Aftast: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Andrés Þórarinsson TF1AM. Ljósmynd: TF3KB.
Ein af mörgum áhugaverðum glærum skýrði vel loftsteinaskúri á myndrænan hátt. Ljósmynd: TF3KB.
Frekari upplýsingar um loftsteinaskúrina. Ljósmynd: TF3KB.
Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Guðjón Már Gíslason TF3GMG, Einar Sandoz TF3ES, Jón Atli Magnússon TF2AC og Einar Kjartansson TF3EK. Ljósmynd: TF1AM.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EM, Kristján Benediktsson TF3KB og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmynd: TF1AM.

HAM RADIO sýningin 2025 í Friedrichshafen nálgast og verður haldin helgina 27.-29. júní n.k. á sýningarsvæði Neue Messe 1 í borginni Friedrichshafen í Þýskalandi.

Vegna fyrirspurnar. Friedrichshafen er borg með um 60 þúsund íbúa við Bodensee vatnið í suður Þýskalandi. Borgin er með eigin flugvöll, en ekki er reglulegt flug til og frá Frankfurt. Hins vegar er flugvöllurinn í München ekki langt í burtu og þaðan má taka rútu þaðan og tekur ferðin um 2,5 klst.  

Aðrir flugvellir í nágrenninu eru í Zürich (ZRH). Þaðan má taka lest til Romanshorn að Bodensee vatninu og skipta yfir í ferju til Friederichshafen og tekur siglingin um þrjá stundarfjórðunga. Í boði er einnig að taka rútu frá Zürich flugvelli (Flixbus Company) til Friedrichshafen. Það er ódýrara en tekur lengri tíma.

Þetta er stærsta sýningin fyrir radíóamatöra í Evrópu og sá vettvangur sem jafnan er mest sóttur af íslenskum leyfishöfum. Búið er að opna miðasöluna á netinu, en ódýrara er að kaupa aðgangsmiða þannig auk þess sem menn sleppa við að lenda í biðröðum.

Vefslóð: https://tickets.messe-friedrichshafen.de/webshop/221/tickets

Til fróðleiks, má lesa frásögn frá ferð á sýninguna í Friedrichshafen 2019 (CQ TF 4. tbl. 2019); bls. 25. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/09/cqtf_33arg_2019_04tbl.pdf

Stjórn ÍRA.

Síðasta erindið á vordagskrá ÍRA 2025 verður á fimmtudag 22. maí í Skeljanesi.

Þá mætir Yngvi Harðarson, TF3Y með erindið „Fjarskipti fyrir tilstilli loftsteinaskúra“.

Húsið opnar kl. 20:00 og Yngvi byrjar stundvíslega kl. 20:30.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka kortasendingar og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffi og tekur fram meðlæti.

Félagsmönnum er bent á að láta erindið ekki framhjá sér fara.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Vordagskrá ÍRA hélt áfram 15. maí í Skeljanesi. Þá mætti Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL með erindið „Með stöð og búnað umhverfis jörðina á 75 dögum“ en Ólafur og XYL lögðu upp í ævintýraferðalag 15. janúar og komu aftur til landsins 1. apríl.

Þau hjón heimsóttu Singapore, Ástralíu (Sydney, Brisbane, Tasmania VK7/TF1OL, Melbourne VK3/TF1OL, Adelaide VK5/TF1OL og Perth VK6/TF1OL), Nýja Sjáland (ZL/TF1OL Auckland), Tahiti (FO/TF1OL), Hawaii (KH6/TF1OL) og Bandaríkin (W6/TF1OL). Ólafur var QRV á alls 12 stöðum frá 5 DXCC einingum og hafði nær 8 þúsund QSO um allan heim, þ.á.m. til Íslands. Hann fékk úthlutað sérstöku kallmerki, 9V1OL í Singapore en var QRV frá öðrum löndum sem „/TF1OL“. Flest sambönd voru höfð á FT4 og FT8 samskiptareglum undir MFSK mótun.

Ólafur sagði okkur ferðasöguna og sýndi mikið af skemmtilegum ljósmyndum frá þessu mikla ferðalagi. Hann hafði ennfremur til sýnis búnaðinn á staðnum sem hann notaði í ferðinni. Það var Icom IC-7300 100W HF sendi-/móttökustöð og JPC-7 ferðaloftnet fyrir 40, 20, 15, 10 og 6 metra, fyrir mest 100W. Netið má setja upp sem [styttan] dípól, „V loftnet“ eða stangarloftnet og JPC-12 ferðaloftnet (sjá myndir). Full stærð er 6,60 metrar samsett, en aðeins 35cm ósamsett og 1.8 kg. Allur búnaðurinn komst fyrir í bakpoka sem var nauðsynlegt (sjá mynd).

Mjög mismunandi var hvernig aðstæður voru til að setja upp loftnet á hverjum stað, þar sem gistiaðstaða var mismunandi og stundum þar sem jafnvel var hægt að setja upp loftnet í bakgarðinum. Þrátt fyrir að hafa fengið úthlutað kallmerkinu 9V1OL gat hann ekkert verið í loftinu frá Singapore þar sem aðstæður voru ekki til að setja upp loftnet. Mismunandi skilyrði voru í ferðinni, t.d. afbragðsgóð frá Thaiti eða um 3.000 QSO, aðallega við Japan. Mjög var mismunandi hvernig suð og truflanir voru á hverjum stað, t.d. S9 í W6 í Los Angeles og aðeins 130 sambönd. Þá voru skilyrðin sumstaðar frekar slæm og nánast ekkert náðst t.d. í Evrópu frá Hawaii.

Sérstakar þakkir til Ólafs Arnar Ólafssonar, TF1OL fyrir afbragðsgott, skemmtilegt og áhugavert erindi.

Alls mættu 12 félagar í Skeljanes þetta ágæta vorkvöld í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til Ólafs, TF1OL, Einars Santoz, TF3ES og Njáls H. Hilmarssonar, TF3NH fyrir ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

Ólafur byrjaði erindið stundvíslega kl. 20:30. Ljósmynd: TF3ES.
Mynd úr sal. Fremst: Sigmundur Karlsson TF3VE, Eiður K. Magnússon TF1EM og Kjartan Birgisson TF1ET. Næst: Guðjón Már Gíslason TF3GMG, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Njáll H. Hilmarsson TF3NH (standandi). Aftar: Kristján Benediktsson TF3KB (standandi). Ljósmynd: TF3ES.
Einar Sandoz TF3ES, Kjartan Birgisson TF1ET og Ólafur Örn Ólafsson TF1OL. Þegar myndin var tekin var Óli að segja frá “pile-up” sem hann fékk frá japönskum stöðvum þegar hann var í loftinu frá Tahiti. Ljósmynd: TF3NH.
Óli sýnir mönnum JPC-12 (sem hann hafði einnig með sér, en er einvörðungu stangarloftnet á 40, 20, 15, 10 og 6 metrum). Takið eftir þrífætinum sem það stendur á (og var keyptur sér). Ljósmynd: TF3NH.
JPC-12 netið sett upp sem stangarloftnet í háhýsi á Hawaii. Ljósmynd: TF1OL.
JPC-7 sett upp sem dípóll á Thaiti.
TF1OL á Tahiti. Sjá loftnetið í bakgrunni.
TF1OL og XYL á Hawaii. Ljósmynd: TF1OL.

Ein stærsta morskeppni árisins, CQ WW WPX á morsi verður haldin á laugardag 24. maí kl. 00:00 til sunnudags 25. maí kl. 23:59.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + raðnúmer.
https://www.cqwpx.com/rules

Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörg forskeyti (e. prefixes) og mögulegt er á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Þetta er 48 klst. keppni, en einmenningsstöðvar mega mest taka þátt í 36 klst. Á þátttökutímanum má taka eins mörg hlé og menn vilja, en hvert miðast að lágmarki við 60 mínútur.

Samband við hverja stöð gefur punkta einu sinni á bandi. Sambönd við stöðvar í Evrópu gefa 1 punkt á 14, 21 og 28 MHz; en 2 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz. Sambönd við stöðvar utan Evrópu gefa 3 punkta á 14, 21 og 28 MHz; en 6 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.

Margfaldari er summa fjölda forskeyta sem haft er samband við og reiknast einu sinni, burtséð frá fjölda sambanda/banda.

Með ósk um gott geng!

Stjórn ÍRA.

Dayton Hamvention 2025 fer fram á sýningarsvæði Greene County Fair and Expo Center í borginni Xenia í Ohio í Bandaríkjunum þessa helgi 16.-18. maí. Búist er við mikilli aðsókn, en nýtt aðsóknarmet var slegið í fyrra 2024.

Alltaf eru spennandi nýjungar til kynningar á sýningunni. Í ár kynnir FlexRadio t.d. nýja Aurora línu SDR 500W HF sendi-/viðtækja; AU-520 og AU-520M HF/6m Icom kynnir nýja PW2 HF 1kW magnarann og nýju IC-7760 SDR HF 200W sendi-/viðtækið. Ekki er vitað um íslenska leyfishafa sem sækja sýninguna heim þetta árið.

Hinar tvær stóru sýningarnar fyrir radíóamatöra eru:

HAM RADIO 2025 verður haldin helgina 27.-29. júní n.k. á sýningarsvæði Neue Messe 1 í borginni Friedrichshafen í Þýskalandi og TOKYO HAM FAIR 2025 verður haldin helgina 23.-24. ágúst n.k. á sýningarsvæði Tokyo Ariake GYM-EX í höfuðborginni Tokyo.

Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) fagnar 160 ára afmæli á þessu ári. Það var upphaflega stofnað 1865 sem alþjóða ritsímasambandið, en breyttist í sérstaka stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1947. Í tilefni afmælis ITU var kallmerkið 4U1ØØOQO sett í loftið í vikunni og verður það virkt á HF frá útibúi Sameinuðu þjóðanna í Austurríki út árið.

Í dag, 16. maí hafði Elín Sigurðardóttir, TF2EQ samband við kallmerkið 4UØITU í Genf í Sviss um gervihnöttinn QO-100 frá QTH Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A í Reykjavík.

Það skemmtilega er, að á hljóðnemanum í Austurríki var Doreen T. Bogdan-Martin, KD2JTX aðalritari ITU. En Doreen varð fyrsta konan sem var valin til að gegna þessu æðsta embætti Alþjóðafjarskiptasambandsins og tók við embætti 1. janúar 2023.

Doreen bað fyrir góðar kveður til radíóamatöra á Íslandi sem hér með er komið á framfæri.

Sérstakar þakkir til Elínar Sigurðardóttur, TF2EQ og til Ara Þórólfs Jóhannssonar, TF1A.

Stjórn ÍRA.

Tim Ellam VE6SH forseti International Amateur Union (IARU), Doreen T. Bogdan-Martin KD2JTX aðalritari ITU og Jonathan V. Siverling WB3ERA fulltrúi ARRL. Ljósmynd: ITU.

Stórvirki var unnið á vettvangi áhugamáls okkar fyrir 7 árum þegar tveir nýir radíóvitar voru settir í loftið 12. maí 2018. Þeir vinna á 50.457 MHz á 6 metrum og  70.057 MHz á 4 metrum. QTH er Álftanes á Mýrum. Til hagræðis er notað sama kallmerki, TF1VHF. Merki heyrast vel í Reykjavík, um Suðurnes, austur fyrir fjall, um Snæfellsnes og um Vesturland og til útlanda.

Mikill áhugi varð strax á vitunum bæði innanlands sem utan. Verkefnið var í raun eitthvað sem hafði verið beðið eftir lengi enda í fyrsta skipti í langa hríð sem í boði voru stöðug merki á 6 metrum og 4 metrum (allan sólarhringinn) – þegar menn gera tilraunir í þessum tíðnisviðum.

Það var Ólafur B. Ólafsson, TF3ML (SK) sem annaðist uppsetningu búnaðar, fjármagnaði verkefnið og stóð straum af öllum kostnaði.

Stjórn ÍRA.

Loftnetsturninn í Álftanesi á Mýrum sem hýsir loftnetin fyrir TF1VHF. Loftnetið fyrir 50 MHz er í 26 metra hæð og fyrir 70 MHz er í 16 metra hæð. TF3ML, TF3SUT, TF1A og TF3-Ø33 önnuðust frágang búnaðar ásamt TF3ML. Ef vel er að gáð má sjá Samúel, TF3SUT, uppi í turninum. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A.