Próf til amatörsleyfis.

Próf Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis verður haldið laugardaginn 4. maí 2013 í Háskólanum í Reykjavík. Prófið hefst stundvíslega kl. 10 árdegis í kennslustofu M122. Hafa skal meðferðis blýanta, strokleður, reglustiku og reiknivél sem ekki getur geymt gögn. Önnur gögn eru ekki leyfð.

Prófið er í tveimur hlutum: Amatörpróf í undirstöðuatriðum raffræði og radíótækni. Það er í 30 liðum. Lágmarkseinkunn 4,0 gefur rétt til N-leyfis og 6,0 til G-leyfis. Próf í reglugerð og viðskiptum: Það er í 20 liðum. Lágmarkseinkunn 6,0 gefur rétt til G-leyfis og 4,0 til N-leyfis. Prófnefnd Í.R.A. semur prófin (þó ekki próf í reglugerð og viðskiptum) en annast framkvæmd prófhalds, að viðstöddum fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar.

Að jafnaði eru prófin dæmd og bráðabirgðaeinkunn gefin í framhaldi af prófhaldinu, gjarnan 2-3 klst síðar. Þá fer fram prófsýning í skólanum ef aðstæður og þátttaka leyfir. Endanleg staðfesting niðurstöðu liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Standast þarf báða hluta prófs til leyfis. Árangur í hvoru prófi stendur framvegis, óháð gengi í hinu prófinu.

Fyrirspurnum má beina til Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX, formanns prófnefndar. Veffang: villik(hjá)hi.is

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Með tilvísan til 16. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar Í.R.A. laugardaginn 18. maí 2013. Fundurinn verður haldinn í Snæfelli, fundarsal Radisson Blu Hótel Sögu, við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt félagslögum.

Samkvæmt ákvæði í 27. gr. laganna þurftu tillögur að lagabreytingum að berast stjórn félagsins fyrir 15. apríl s.l. Með tillögum að breytingum skyldu fylgja skriflegar greinargerðir þar sem gerð var grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntanlegum áhrifum þeirra. Kynning á ákvæði 27. gr. var birt á heimasíðu félagsins og póstlista þann 26. mars s.l.

Frumvörp til lagabreytinga á aðalfundi 2013 sem bárust stjórn fyrir tilskilinn frest er dreift með þessu aðalfundarboði. Um er að ræða tvenn frumvörp til lagabreytinga og eru þau birt neðar á þessari síðu til kynningar.

Ofangreindu til staðfestingar,

F.h. stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Tvenn frumvörp til lagabreytinga bárust til stjórnar félagsins fyrir tilskilinn lokadag, þann 15. apríl s.l.

Annarsvegar er tillaga Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA og Kjartans H. Bjarnasonar, TF3BJ, um breytingu á: 14. grein. Hinsvegar tillaga Jóns Þórodds Jónssonar, TF3JA, um breytingar á 1. grein, 2. grein, 3. grein og 27. grein

Í 16. grein, segir m.a.: „Fundarboð skal birta eða póstleggja eigi síðar en þrem vikum fyrir fundardag”. Í 27. gr. félagslaga segir m.a.: „Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi frumvarp að nýjum eða breyttum greinum borist stjórn félagsins fyrir 15. apríl og verið dreift með aðalfundarboði”. Ennfremur segir í greininni: „Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra”.

Ofangreind tvö frumvörp til breytingar á lögum félagsins fylgja hér á eftir eins og þau bárust til félagsins.

TILLAGA TF3UA OG TF3BJ TIL LAGABREYTINGAR

14. gr.
Stjórn boðar til almennra félagsfunda. Henni er skylt að gera það ef 12 leyfishafar hið minnsta æskja þess. Félagsfundi skal ætíð halda seinnipart laugardags sé þess nokkur kostur. Boða skal til félagsfunda með a.m.k. viku fyrirvara nema í algerum neyðartilfellum. Rita skal fundargerð félagsfundar og birta með sama hætti og fundargerð aðalfundar.

14. grein eftir breytingu:
Stjórn boðar til almennra félagsfunda. Henni er skylt að gera það ef 12 leyfishafar hið minnsta æskja þess. Stjórn skal leitast við að gefa félagsmönnum búsettum á landsbyggðinni kost á því að taka þátt í félagsfundum á Internetinu. Boða skal til félagsfunda með a.m.k. viku fyrirvara nema í algerum neyðartilfellum. Félagsmenn á landsbyggðinni skulu tilkynna stjórn um áhuga sinn á því að fylgjast með félagsfundi á Internetinu innan tveggja daga frá boðun fundarins. Rita skal fundargerð félagsfundar og birta með sama hætti og fundargerð aðalfundar.

Greinargerð:
Breytingar þjóðfélagshátta undanfarin ár hafa valdið því að menn eru orðnir mjög tregir til fundahalda á laugardögum. Það er því afar óhentugt fyrir ÍRA að hafa félagslög sem mæla fyrir um að félagsfundi megi aðeins halda seinni hluta laugardags. Ástæða þessarar klásúlu er sú að gefa félagsmönnum úti á landi kost á því að sækja félagsfundi. Með þeirri tækni til fjarfundahalda sem nú býðst er auðvelt að senda út félagsfundi á internetinu, jafnvel með gagnvirkum hætti. Má t.d. benda á Skype sem lausn en fjölmargar aðrar eru fyrir hendi. Þannig gætu íbúar landsbyggðarinnar fylgst með og tekið þátt í félagsfundum án þess að þurfa að fara að heiman. Hlýtur slíkt að teljast þeim til hagsbóta. Eftir breytinguna verður hægt að halda félagsfundi t.d. á fimmtudagskvöldum sem verður að teljast mun betri tímsetning en seinni hlutar laugardaga.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA.
Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ.

TILLAGA TF3JA TIL LAGABREYTINGA

1., 2., 3. og 27. grein verði:

1. gr.
Heiti félagsins er “Íslenskir radíóamatörar”, ÍRA.
Félagið er íslensk deild í alþjóðasamtökum radíóamatöra, IARU Region 1, og norrænum samtökum radíóamatöra, NRAU.

2. gr.
Heimili félagsins er í Reykjavík. Póstfang ÍRA er „Pósthólf 1058, 121 Reykjavík”.

3. gr.
Markmið félagsins er að:
1. Gæta hagsmuna radíóamatöra.
2. Efla kynningu og samstarf meðal radíóamatöra innanlands og utan.
3. Stuðla að færni félagsmanna og góðum venjum í radíóviðskiptum.
4. Hvetja til viðbúnaðar og þáttöku í neyðarfjarskiptum bæði innan lands og utan.
5. Efla amatörradíó sem leið til tæknilegrar og samfélagslegrar sjálfsþjálfunar.
6. Hvetja til tæknilegra og vísindalegra rannsókna og uppgötvana á sviði radíófjarskipta.
7. Örva radíóíþróttir meðal radíóamatöra.
8. Þróa amatörradíó sem verðmæta þjóðarauðlind.
9. Stuðla að öflugri æskulýðsstarfsemi og kynningu á amatörradíói á meðal ungs fólks.
10. Eiga og reka fullkomna amatörradíófjarskiptastöð með kallmerkinu TF3IRA á sem flestum tíðnum og samskiptaháttum sem radíóamatörar hafa leyfi til að nota.

27. gr.
Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillaga að breytingu á lögum berist stjórn félagsins ekki síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund. Aðalfundur getur samþykkt tillögur um breytingar á félagslögum, sem lagðar eru fram á fundinum með samþykki tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða.

Greinarnar voru:

1. gr.
Heiti félagsins er “Íslenskir radíóamatörar”, skammstafað Í.R.A. Félagið er hin íslenska deild í alþjóðasamtökum radíóamatöra, I.A.R.U. Region 1, og norrænu samtökunum N.R.A.U.

2. gr.
Heimili félagsins er í Reykjavík með póstfang: Pósthólf 1058, 121 Reykjavík.

3. gr.
Markmið félagsins eru að:
1. Gæta hagsmuna radíóamatöra í hvívetna.
2. Efla kynningu og samstarf meðal radíóamatöra innanlands og utan.
3. Stuðla að færni félagsmanna og góðum venjum í radíóviðskiptum.
4. Hvetja til viðbúnaðar sem mætti gagnast í neyðarfjarskiptum.
5. Efla amatörradíó sem leið til sjálfsþjálfunar á tæknisviðinu.
6. Hvetja til tæknilegra og vísindalegra rannsókna og uppgötvana á sviði radíófjarskipta.
7. Örva radíóíþróttir meðal radíóamatöra.
8. Þróa amatörradíóþjónustuna sem verðmæta þjóðarauðlind.
9. Stuðla að öflugri æskulýðsstarfsemi og kynningu á amatörradíói á meðal ungs fólks.

27. gr.
Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi frumvarp að nýjum eða breyttum greinum borist stjórn félagsins fyrir 15. apríl og verið dreift með aðalfundarboði. Þó getur aðalfundur samþykkt breytingar á félagslögum, sem fram koma á fundinum, séu 88% fundarmanna samþykkir. Breytingartillögur sem fram koma á aðalfundi skulu einungis varða þær tillögur er þar liggja fyrir og nauðsynlegar afleiðingar þeirra. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.


Hvers vegna er ég að leggja til þessar breyttu greinar og hver er helsta breytingin?

Ég legg til að púnktarnir í skammstöfunum verð felldir niður eins og oftlega hefur komið fram enda er það líka í samræmi við „Ritreglur Íslenskrar málnefndar”. Ég legg til að markmið félagsins verði umorðuð lítillega og bætt við að félagið eigi og reki fullkomna fjarskiptastöð til fjarskipta á amatörtíðnum. Félagið á og rekur nú þegar fullkomna stöð en hennar er hvergi getið í lögum félagsins. Það er mitt mat að lög félagsins eigi að vera kvik og þess vegna óþarfi að gera félagsmönnum næstum ókleyft að leggja fram tillögur að breytingum. Félagsmenn sem vilja tryggja stöðugleika en um leið nýjungar og þróun í starfsemi félagsins mæta á aðalfundinn og taka þátt.

Jón Þ. Jónsson, TF3JA

Jónas Friðgeirsson, TF3JF

Sigurður Óskarsson, TF2WIN

 

 

 

 

 

 

 

Ari Þ. Jóhannesson, TF3ARI

Henry A. Hálfdánarson, TF3HRY

Jón Svavarsson, TF3JON

 

 

 

 

 

 

 

 

Næsta erindi á vetrardagskrá Í.R.A. verður haldið fimmtudaginn 2. maí kl. 20:30 í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Starfshópur félagsins um neyðarfjarskipti mun gefa félagsmönnum stöðuskýrslu um verkefnið, en hópurinn skilar endanlegum tillögum til stjórnar í síðasta lagi þann 13. maí n.k.

Starfshópinn skipa: Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. og formaður; Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN, fulltrúi stjórnar; Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI; Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY; Jón Svavarsson, TF3JON; og Jónas Friðgeirsson, TF3JF.Starfshópurinn var skipaður af stjórn Í.R.A. á stjórnarfundi þann 17. september s.l.

Þetta verður jafnframt síðasti viðburðurinn á vetrardagskrá 2013. Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega.

Námskeið Í.R.A. til amatörprófs gengur vel.

Athygli þátttakenda á námskeiði Í.R.A. til amatörprófs er vakin á því að PowerPoint glærur frá kennslukvöldum nr. 15 og 16 sem fram fóru 5. og 9. apríl s.l., hafa verið settar inn á vefsvæði prófnefndar á heimasíðu félagsins. Kennari: Andrés Þórarinsson, TF3AM.

Um er að ræða 4 PowerPoint skjöl: Bylgjuútbreiðsla; Bylgjuútbreiðsla, dæmi; Loftnet og fæðilínur; og Loftnet ogfæðilínur, dæmi. Glærurnar má nálgast á eftirfarandi vefslóð: http://www.ira.is/namsefni/

Ath. að þær eru vistaðar neðst í neðri kaflanum (neðst á síðunni) undir fyrirsögninni: Skjöl til hliðsjónar.

Þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF3AM.

Starfshópur Í.R.A. um fjaraðgang í Skeljanesi 18. apríl. Frá vinstri: Yngvi Harðarson TF3Y formaður, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX og Kristján Benediktsson TF3KB. Ljósmynd: TF3SB.

Þann 18/9 2012 skipaði stjórn Í.R.A. starfshóp til að gera tillögur um stefnumótun félagsins hvað varðar fjaraðgang að teknu tilliti til alþjóðlegrar leiðsagnar sem er til mótunar um þessar mundir. Starfshópurinn kynnti fyrsta hluta skýrslu sinnar í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 18. apríl. Fyrsti hluti varðar afstöðu hópsins til fjaraðgangs íslenskra leyfishafa.

Ágætar umræður urðu eftir kynningu þessa 1. áfanga skýrslunnar og sátu nefndarmenn fyrir svörum hvað vaðar einstök efnisatriði. Skýrslan er til almennrar kynningar á póstlista félagsins.

Stjórn Í.R.A. þakkar starfshópnum fyrir vandaða vinnu og góða kynningu.

Nýtt hefti félagsblaðs Í.R.A., CQ TF, er komið út. Hér er aprílheftið 2013 á ferðinni. Njótið lestrarins!

Blaðið hefur verið sent félagsmönnum í tölvupósti. Hafi einhver ekki fengið blaðið er hann vinsamlegast beðinn um að hafa samband við undirritaðan.

Eintak af blaðinu (í aukinni upplausn) hefur verið sett inn á vefsíðu CQ TF á heimasíðunni til niðurhals.

73 de Jónas Bjarnason, TF3JB,
gestaritstjóri 2. tbl. CQ TF 2013.

(jonas.bjarnason.hag(hjá)gmail.com)

Ákveðið hefur verið að félagsaðstaða Í.R.A. við Skeljanes verði lokuð fimmtudaginn 25. apríl n.k. sem er sumardagurinn fyrsti. Næsti opnunardagur félagsaðstöðunnar verður fimmtudaginn 2. maí, en þá lýkur vetrardagskrá félagsins á yfirstandandi starfsári með stöðuskýrslu starfshóps Í.R.A. um neyðarfjarskipti (nánar kynnt þegar nær dregur).

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.

Myndin er tekin á námskeiði Í.R.A. til amatörprófs sem haldið er í Háskólanum í Reykjavík.

Námskeið Í.R.A. til amatörprófs gengur vel. Aðeins eru eftir 4 kennsludagar, auk upprifjunardags., en próf Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis verður haldið laugardaginn 4. maí kl. 10:00 árdegis. Prófstaður: Kennslustofa Tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, V108.

Vakin er athygli á að próf Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis er opinbert próf og öllum opið. Þátttaka í námskeiði Í.R.A. til amatörprófs er þar af leiðandi ekki nauðsynlegur undanfari þess að sitja prófið. Ástæða er þó til að hvetja áhugasama til að skrá sig sem fyrst, hyggi þeir á þátttöku í prófinu.

Senda má tölvupóst til Póst- og fjarskiptastofnunar: hrh(hjá)pfs.is eða til umsjónarmanns Í.R.A. með námskeiði félagsins: ira(hjá)ira.is Ath. að þátttakendur í yfirstandandi námskeiði Í.R.A. til amatörprófs þurfa ekki að skrá sig sérstaklega.

Fyrir hönd stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, formaður.

Nýr starfshópur. Kristján Benediktsson TF3KB, Yngvi Harðarson TF3Y formaður starfshópsins, Jónas Bjarnason TF3JB (gestur á fundinum) og Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX. Ljósmynd: Sölvi Tryggvason.

Næsta erindi á vetrardagskrá Í.R.A. verður haldið fimmtudaginn 18. apríl kl. 20:30 í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Starfshópur félagsins um fjaraðgang mun gefa félagsmönnum stöðuskýrslu um verkefnið. Þess skal getið, að starfshópnum voru ekki settar tímaskorður í vinnu sinni, enda mikilvægt að tekið sé tillit til alþjóðlegrar leiðsagnar sem er í mótun um þessar mundir.

Starfshópinn skipa þeir Yngvi Harðarson, TF3YH, formaður; Kristján Benediktsson, TF3KB og Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX. Þeir voru skipaðir af stjórn Í.R.A. á stjórnarfundi þann 17. september s.l.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega.

Alþjóðadagur radíóamatöra er þann 18. apríl n.k. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra (International Amateur Radio Union, I.A.R.U.) stofnuð fyrir 89 árum.

Einkunnarorðin eru að þessu sinni: „Amatör radíó: önnur öld neyðarfjarskipta gengur í garð” (e. Amateur Radio: Entering Its Second Century of Disaster Communications). Aðildarfélög I.A.R.U. eru í dag starfandi í 166 löndum heims með rúmlega 4 milljónir leyfishafa.

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum til hamingju með daginn!