Efnt var til kynningar- og umræðufundar í Skeljanesi 5. september í tilefni bráðabirgðaákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 17/2019.
Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, formaður EMC nefndar félagsins hafði framsögu og fór yfir ákvörðunina, sem varðar kvörtun vegna truflana frá radíóamatör á sjónvarpsmóttöku og gæðum nettengingar hjá nágranna hans.
Við mælingar tæknideildar PFS á vettvangi var truflunin staðfest. Ekki kemur fram að búnaði leyfishafa sé áfátt, en ýmislegt fannst sem betur mátti fara hjá nágrannanum, sem m.a. varðar VDSL fastlínusamband (tengingar í götuskáp), aðrar tengingar og tækjabúnað hans.
Málið er ekki einfalt, því sem dæmi kemur m.a. fram, að radíóamatörinn var beðin um að vera ekki í loftinu í eina viku (sem hann samþykkti), en á þeim tíma komu áfram fram truflanir hjá nágrannanum.
Stjórn ÍRA mun ráðfæra sig við EMC nefnd félagsins og stefnt er að því að birta umfjöllun um málið í heild í næsta hefti CQ TF sem kemur út 29. september n.k.
Alls mættu 30 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta fróðlega fimmtudagskvöld.





Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!