,

Frétt frá PFS í dag um truflanir.

Truflunum í radíókerfum heldur áfram að fjölga. Geta haft alvarlegar afleiðingar.

26. janúar 2017

Truflunum í almennum radíókerfum hefur fjölgað mjög hér á landi en slíkar truflanir geta haft alvarlegar afleiðingar, jafnvel gert hluta farneta ónothæf og haft áhrif á stóran hóp notenda. Ef um útbreidda truflun er að ræða getur hún haft áhrif á tugi eða hundruð notenda. Póst- og fjarskiptastofnun vaktar slíkar truflanir og grípur til aðgerða þegar þörf er á.

Radíókerfi eru undirstaða samskipta í nútíma samfélagi og við tökum það sem sjálfsagðan hlut að kerfin virki. Þau eru ekki eingöngu notuð í samskiptum milli manna heldur ekki síður í ýmsum samskiptakerfum sem stjórna búnaði, s.s. við flugumsjón, vöktun, boðun (t.d. í heilbrigðisþjónustu og í náttúruvá) og í framleiðslufyrirtækjum (iðnstýringar sem nota radíó). Truflanir í slíku umhverfi geta valdið hættuástandi eða fjártjóni. Það getur því valdið verulegum óþægindum og jafnvel hættu ef ekki er brugðist við truflunum í tæka tíð.

Fjölgun truflana hefur verið það mikil á undanförnum árum að þrátt fyrir að mannafli og tækjabúnaður í truflanavakt PFS hafi verið aukinn umtalsvert getur stofnunin ekki sinnt viðbrögðum við radíótruflunum að fullu og neyðist til að forgangsraða tilkynningum vegna truflana með tilliti til mikilvægis þeirra kerfa sem fyrir truflun verða. Öryggiskerfi, s.s. vegna flugs, eru t.d. alltaf í forgangi.

Þessi skortur á mannafla og tækjum gerir stofnuninni erfitt fyrir að sinna truflunum utan höfuðborgarsvæðisins og umfangsmiklum truflunum sem hafa áhrif á marga er frekar sinnt en þar sem færri notendur verða fyrir áhrifum. T.d. getur truflun úti á landi þurft að bíða í talsverðan tíma ef hún telst ekki í forgangsflokki, þar sem starfsmenn komast ekki til að sinna henni vegna anna. Nokkur verkefni af þessu tagi voru í bið um nýliðin áramót, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Alls var tilkynnt um 89 fjarskiptatruflanir á árinu 2016  og á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig þær skiptust eftir því hvar þær komu fram.  Eins og sjá má voru þær langflestar í farsímanetum, eða 69%.

Skífurit yfir truflanir 2016. Farsímakerfi 69%, talstöðvarásir 9%, hljóðvarp (FM) 8%, sjónvarp 6%, leiðsögukerfi eða samskipti tengd flugrekstri 3%, Wifi/opin svið 3%, fastasambönd 1%, önnur fjarskipti 1%.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

15 − 5 =