Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 23. október á milli kl. 20 og 22.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin liggja frammi.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID mun annast kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal ÍRA í Skeljanesi.

Keppnin hefst laugardag 25. október kl. 00:00 og lýkur sunnudag 26. október kl. 23:59.
Keppnin fer fram á SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RS + CQ svæði.
https://cqww.com/rules.htm

CQ World Wide DX SSB keppnin er ein stærsta keppni ársins á SSB. Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt. Stefnt er að því að virkja félagsstöðina, TF3W. Þeir félagar sem hafa áhuga á því eru beðnir um að láta vita á ira@ira.is

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes með ”Dótadag” laugardaginn 18. október.  Honum til aðstoðar var Karl Georg Karlsson, TF3CZ og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID.

Vel heppnaður viðburður og 14 manns á staðnum. Ari fjallaði m.a. um truflanir og ráð við því þegar notað er viðtæki yfir netið á móti sendi. Hann sýndi mönnum líka og kynnti viðtæki sem eru staðsett út um allan heim og hvernig hægt er að nota viðtæki yfir netið til að hlusta á merki (og sjá) frá gervitunglum, SSB, „Slow-scan“ (SSTV), RTTY, mors (CW), FT8, FT4 og…svo framvegis. Ari sýndi m.a. hvernig er hægt að hlusta á „allan heiminn“ yfir netið – meira að segja án þess að hafa loftnet eða sendistöð.

Ari fékk til liðs við sig Karl Georg Karlsson, TF3CZ sem útskýrði og kynnti fyrir mönnum SDR viðtækið á VHF yfir netið sem er staðsett í Perlunni. Vefslóð: http://sdr.ekkert.org

Til gamans var einnig sýnt hvernig hægt er að taka á móti merkjum frá [sumum] bifreiðum í umferðinni í Reykjavík, t.d. bifreiðategund, þrýsting í hjólböðum og almennar upplýsingar frá gangverki vélarinnar. Á meðfylgjandi mynd má t.d. sjá ýmsar upplýsingar um bíla sem voru á akstri eftir Bústaðavegi í Reykjavík…og allt þetta á 434 MHz.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir þetta frábæra framtak sem og til Karls Georgs Karlssonar, TF3CZ! Einnig þakkir til þeirra beggja og til Einars Sandoz, TF3ES fyrir ljósmyndir og til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir frábært kaffi og meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu félagsblaðsins okkar CQ TF, 4. tbl. 2025 í dag, 19. október.

Blaðið er vistað á stafrænu formi á heimasíðu félagsins og má sækja það af vefslóðinni hér að neðan.

Vefslóð er: https://tinyurl.com/CQTF-2025-4

73 – Sæmi, TF3UA
ritstjóri CQ TF

TF5RPD, VHF endurvarpinn á Vaðlaheiði er QRV á ný. QRG: 145.625 MHz (RX) og -0,6 MHz (TX). Notaður er aðgangstónn, 88,5 Hz.

Þeir Benedikt Guðnason, TF3TNT og Guðjón Egilsson, TF3WO tengdu tækið þann16. október. Yaesu endurvarpi félagsins er notaður áfram (eftir viðgerð) og var hann útbúinn með 88,5 Hz tónaðgangi. Að sögn er „skottið“ haft mjög stutt þegar tækið er lyklað.

Sérstakar þakkir til þeirra Benedikts Guðnasonar, TF3TNT, Guðjóns Egilssonar, TF3WO og Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS sem annaðist viðgerð endurvarpans.

QTH er Vaðlaheiði, sem er 550 metra hátt fjall norðaustur af Akureyri. Reitur: IP05xr.

Stjórn ÍRA.

Jón Atli Magnússon, TF2AC var með fimmtudagserindið í Skeljanesi 16. október þar sem hann fjallaði um „Þátttöku í starfi ÍRA sem nýliði, þ.m.t. í fjarskiptaleikum“. Erindið hófst stundvíslega kl. 20.30.

Jón Atli fjallaði um POTA („Parks On The Air“) og skyld mál.  Hann hefur virkjað fjölda garða (e. parks) hér á landi en skilgreindir garðar eru 116, m.a. í kringum Reykjavík, en fjöldi þeirra er dreifður um allt land. Oft hafa erlendir amatörar verið fyrstir til að virkja garða hér á landi en hann sjálfur hefur einnig verið ötull.

Svo fjallaði Jón Atli um síðustu Vorleika ÍRA sem voru þeir fyrstu sem hann tók þátt í og varð í 2. sæti.  „Það var aldrei ætlunin að hafa sigur“, sagði hann, en ég var búinn að undirbúa mig, ákveða um reiti, og fylginn mér og náði að virkja hvorki meira né minna en heila 8 reiti. Eitt sem einfaldaði líf mitt var að ég var með fast loftnet á bílnum, stangarnet og þurfti aldrei að setja neitt upp, aðeins að stoppa og taka upp hljóðnemann. Samböndin voru öll á 2m og 70cm.

Gerður var góður rómur að erindi Jóns Atla. Þess má geta hér að hann fékk sitt kallmerki fyrir tæpu ári síðan og hefur sannarlega náð að stimpla sig inn í amatörmennskuna á þessum stutta tíma.

Erlendur gestur félagsins þetta fimmtudagskvöld var Mikel Berrocal, EA2CW sem er búsettur á Bilbao á Spáni. Hann er m.a. áhugamaður um SOTA („Summits On The Air“) verkefnið, auk þess að vera mikill „CW maður“ og áhugasamur um alþjóðlega keppnir. Mikel var mjög hrifinn af aðstöðu félagsins í Skeljanesi.

Sérstakar þakkir til Jóns Atla Magnússonar, TF2AC vel heppnað og áhugavert erindi. Þakkir einnig til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir kaffi og meðlæti og til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM sem tók ljósmyndir og annaðist upptöku (sem verður í boði fljótlega).

Alls mættu 22 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta vorkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformarður).

Stjórn ÍRA.

Jón Atli Magnússon TF2AC fyrir miðju ásamt gestum þetta fimmtudagskvöld í Skeljanesi.
Birgir Freyr Birgisson TF3BR, Óskar Ólafur Hauksson TF3OH og Hrafnkell Eiríksson TF3HR.
Ríkharður Þórsson TF8RIX, Guðjón Már Gíslason TF3GMG, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Eiður Kristinn Magnússon TF1EM, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Einar Sandoz TF3ES og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A setti UHF FM endurvarpa í loftið í dag, 16. október.

Um er að ræða Icom endurvarpa af gerðinni UR-FR6000 sem var settur upp í tilraunaskyni á heimili hans í Reykjavík. QRG er 439.900 MHz (TX) og 432.900 MHz (RX). 7 MHz eru á milli sendingar og viðtöku. Sendiafl er 25W. Aðgangstónn í sendingu er 88,5 Hz. Notað er ¼ λ loftnet og er tækið stillt á „Wide FM“. Notað er kallmerkið „TF1A“ sem er sent út einu sinni á klukkustund.

Tilgangur: Að gera tilraun með UHF FM endurvarpa sem er sérstaklega hugsaður til að auka nytsemi og drægni UHF handstöðva á Reykjavíkursvæðinu. Gangi tilraunin að óskum verður er hugmyndin að flytja tækið á eitt af háhýsum borgarinnar; og þá fær endurvarpinn nýtt kallmerki.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir að gera þessa áhugaverðu tilraun.

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun standa fyrir „Dótadegi Ara“ í Skeljanesi laugardaginn 18. október. Félagsaðstaðan verður opin frá kl. 13 til 16.

Eru truflanir? Heyrist ekkert? Vantar loftnet? Á laugardag verður þema dagsins að skoða/hlusta gegnum viðtæki sem eru staðsett út um allan heim – og mörg sem eru meira að segja með risaloftnet.

Við ætlum að nota tiltekin viðtæki (þar sem hlustun er góð og allt er truflanalaust) og senda út á móti merkjum frá þeim frá okkur – þar sem allt er í truflunum…Sýnt verður hvað það er lítið mál.

Einnig verður sýnt hvernig hægt er að nota viðtæki yfir netið til að hlusta á merki (og sjá) frá gervitunglum. Og á SSB, „Slow-scan“ (SSTV), RTTY, mors (CW), FT8, FT4 og…svo framvegis. Nú á að brjóta ísinn og sýna hvernig er hægt að hlusta á allan heiminn – meira að segja án þess að hafa loftnet eða sendistöð.

Ari Þórólfur mætir með fartölvu „að vopni“ og tengir við skjávarpann í Skeljanesi. Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffi og tekur fram bakkelsi.

Félagsmenn eru hvattir til að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja miðast við 13. október 2025. Að þessu sinni hefur staða sex kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista, þ.e. TF1A, TF1EIN, TF3G, TF3JB, TF3VS og TF5B. Samtals er um að ræða 33 uppfærslur frá 17. ágúst s.l.

Heimir Konráðsson, TF1EIN kemur nýr inn á DXCC listann með 5 nýjar DXCC viðurkenningar, þ.e. MIXED, RTTY/DIGITAL, 20 metra, 17 metra og 15 metra. Glæsilegur árangur; hamingjuóskir til Heimis!

Átján TF kallmerki eru í dag með virka skráningu, en alls hafa [a.m.k.] 26 íslensk kallmerki sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 16. október á milli kl. 20 og 22.

Í boði verður erindi Jóns Atla Magnússonar, TF2AC um „Þátttöku í starfi ÍRA sem nýliði, þ.m.t. í fjarskiptaleikum“. Erindið hefst stundvíslega kl. 20.30.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID mun annast kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.