,

Aðalfundur ÍRA 2011

Fundargerð aðalfundar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Radisson Blu Hótel Sögu, 21. maí 2011.

Fundur hófst kl. 13:05 og var slitið kl. 15:20.

Mættir voru 24.

Eftirfarandi mættu: <ekki listað í fundargerð>

Formaður félagsins, Jónas Bjarnason TF2JB, setti fundinn 13:05 og minntist látinna félaga á árinu. Þeir voru: Matthías Björnsson, TF3MF, sem lést 8. desember 2010. Hann var leyfishafi nr. 139 og á 89. aldursári. Haukur Nikulásson, TF3HN, lést 9. maí 2011. Hann var leyfishafi nr. 129 og var á 56. Aldursári. Fundarmenn vottuðu þeim virðingu sína með því að rísa úr sætum. Alls sóttu 24 félagsmenn fundinn úr kallsvæðum TF1, TF2, TF3, TF5 og TF8 samkvæmt skráningu í viðverubók (sem er sami fjöldi og á fyrra ári).

Alls sóttu 24 félagsmenn fundinn úr kallsvæðum TF1, TF2, TF3, TF5 og TF8 samkvæmt skráningu í viðverubók (sem er sami fjöldi og á fyrra ári).

Fundarritari: Erling Guðnason, TF3EE.

Dagskrá

1. Kjör fundarstjóra.

Formaður gerði það að tillögu sinni að Kristinn Andersen, TF3KX, yrði kjörinn fundarstjóri. Aðrar tilnefningar bárust ekki og var tillagan samþykkt samhljóða.

2. Kosinn fundarritari

Fundarstjóri tók við stjórn fundarins og lýsti eftir tilnefningum í embætti fundarritara. Fram kom tillaga um Erling Guðnason, TF3EE. Aðrar tilnefningar bárust ekki og var tillagan samþykkt samhljóða.

3. Könnuð umboð

Eitt umboð kom fram frá Reidari J. Óskarssyni, TF8RON, til Sigurðar Smára Hreinssonar, TF8SM. Umboðið var kannað og úrskurðað löglegt. Fleiri umboð komu ekki fram.

4. Athugasemdir við fundargerð síðasta aðalfundar

Engar athugasemdir bárust við fundargerð síðasta aðalfundar né heldur frá viðstöddum fundarmönnum og var hún samþykkt samhljóða.

5. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins

Formaður flutti skýrslu um starfsemi félagsins og kynnti framlagða skýrslu um starfsemi liðins árs. Hann fór yfir helstu þætti í félagsstarfinu og nefndi sérstaklega vinnu við VHF/UHF loftnet í félagsaðstöðunni og nefndi m.a. góð störf fyrri stjórna og færði Sveini Braga Sveinssyni, TF3SNN, sérstakar þakkir fyrir gott vinnuframlag. Sigurði Harðarsyni, TF3WS, voru einnig færðar þakkir fyrir gott vinnuframlag í þágu félagsins við endurvarpa í Reykjavík og í Bláfjöllum. Formaður þakkaði einnig framlag þeirra Jóns Þórodds Jónssonar, TF3JA; Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS; og Þórs Þórissonar, TF3GW; fyrir góð störf að endurvarpamálum. Hann þakkaði Erling Guðnasyni, TF3EE, góð störf og metnaðarfull við undirbúning vetraráætlunar félagsins og Kjartani H. Bjarnasyni, TF3BJ, skólastjóra yfirstandandi námskeiðs félagsins til amatörleyfis fyrir fagleg og góð störf á þeim vettvangi. Formaður nefndi sérstaklega og þakkaði gott samstarf við Póst og fjarskiptastofnun (PFS) og nefndi til sögunnar framlengdar heimildir til íslenskra leyfishafa á 500 kHz, 5 MHz og á 70 MHz, en íslenskir radíóamatörar fengu, á starfsárinu, 150 kHz heimild á 5 MHz í stað átta fastra rása áður. Ísland er þar með komið í hóp leiðandi þjóðríkja innan IARU Svæðis 1 hvað varðar leyfisveitingar í þessum tíðnisviðum. Á starfsárinu fékkst ennfremur, í fyrsta skipti, full aflheimild (1kW) í 1850-2000 kHz sviðinu í tilgreindum alþjóðlegum keppnum, sem er mikilvægt fyrir þá sem stunda keppnir á 160 metra bandinu. Formaður gat jafnframt um nýtt námsefni sem væri til skoðunar hjá prófnefnd félagsins, að hluta til í samvinnu við Póst og fjarskiptastofnun og nefndi að lokum, að fulltrúi stofnunarinnar yrði viðstaddur próf til amatörleyfis sem haldið verður 28. maí n.k. Fundarmenn lýstu ánægju með gott samstarf við Póst og fjarskiptastofnun með þéttu lófataki.

6. Aðrir embættismenn gáfu skýrslu um starfsemi sinna embætta

Guðmundur Sveinsson, TF3SG, QSL stjóri félagsins, gerði grein fyrir nýrri aðstöðu QSL stjóra sem komið hefur verið upp í kjallara í Skeljanesinu og nefndi m.a. kortaskáp og aðra aðstöðu til flokkunar korta. Alls voru 28 kg af kortum send út á síðasta ári sem gera um 8400 kort, en um 2000 kort bíða þess að verða send út um þessar mundir. Flest kortanna fóru til Þýskalands, um 5000. Til landa fyrrum Sovétríkjanna, um 2500 kort og um 2300 kort til Bandaríkjanna. Um 1800 kort fóru til Úkraínu, en færri til annarra landa. Athygli var vakin á því hversu fá kort færu til Kanada, sem þó skiptist á 9 kallsvæði. Þangað fóru aðeins um 250 kort á árinu. Brynjólfur Jónsson, TF5B, viðurkenningastjóri félagsins tók næstur til máls. Bæklingur um viðurkenningarskjöl Í.R.A. lá frammi með fundargögnum til kynningar, en alls voru 18 skjöl afgreidd á starfsárinu. Hann nefndi, að frá apríl 1989 hafi verið gefin út 849 viðurkenningarskjöl hjá félaginu. Brynjólfur tilkynnti að lokum, að íslenskum leyfis-höfum, sem væru félagsmenn í Í.R.A., bjóðist að geta sótt um viðurkenningarskjöl Í.R.A. sér að kostnaðarlausu, á tímabilinu 1/6 – 30/9 næstkomandi. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, lagði fram samantekt um störf neyðarfjarskiptastjóra á fundinum. Hann tilkynnti sérstaklega um æfingu sem fram fer í september næstkomandi. Erling Guðnason, TF3EE, varaformaður félagsins gat þess, að margir félagsmenn hefðu komið að vetrardagskrá (2010-2011) að þessu sinni og þakkaði fyrir-lesurum sérstaklega fyrir fróðleg og vönduð erindi. Kristinn Andersen, TF3KX, ritstjóri CQ TF þakkaði góð viðbrögð við útkomnum tölublöðum CQ TF og lýsti ánægju með útgáfuna. Stöðvar-stjóri TF3IRA, Benedikt Sveinsson, TF3CY, tók næstur til máls og sagði verkefni liggja fyrir, við að koma tækjabúnaði í gott horf fyrir keppnir haustsins. Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, formaður prófnefndar, minntist á prófnefndarmál og benti á samantekt í skýrslu formanns.

7. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagins til samþykktar

Gísli G. Ófeigsson, TF3G, gjaldkeri Í.R.A. lagði fram ársreikning félagsins og skýrði. Í umræðum kom fram sérstök ánægja með uppsetningu og frágang ársreikningsins frá þeim Brynjólfi Jónssyni, TF5B og Kristni Andersen, TF3KX. Kristinn Andersen, TF3KX, benti á að tekjur félagsins væri minni þetta árið en árið áður og sagðist hugleiða hvort bæri að hækka gjöld fyrir námskeið til amatörleyfis. Í svari gjaldkera kom fram, að námskeiðsgjöld vegna núverandi námskeiðs hafi að nokkru leyti komið inn á síðasta ári, þar sem menn væru ekki rukkaðir um námskeiðsgjöld öðru sinni. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, spurði um liðinn „aðrar tekjur“. Í svari gjaldkera koma fram að þetta væru að stærstum hluta tekjur af flóamarkaði sem haldinn var í október 2010. Vilhjálmur lagði til að skoða mætti að lækka útgáfukostnað með tilliti til tekjuhalla síðasta árs og vildi sjá aukið aðhald í útgáfumálum. Kristinn Andersen, TF3KX, benti á að enn væru þó nokkrir félagsmenn sem óskuðu eftir prentuðum eintökum CQ TF. Ákveðið var að taka þessa umræðu síðar. Að loknum umræðum voru reikningar bornir upp og samþykktir samhljóða.

8. Lagabreytingar

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, ritari félagsins lagði fram tillögu til lagabreytinga í nafni stjórnar. Um var að ræða 16. grein. Að loknum nokkrum umærðum, var tillagan samþykkt samhljóða með áorðinni tillögu Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX, um breytingu.

Fyrir breytingu hljóðaði 16. grein þannig:

„Aðalfund skal halda seinnihluta maímánaðar ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef til hans er boðað bréflega eða með auglýsingu í CQ TF. Fundarboð skal póstleggja eigi síðar en þrem vikum fyrir fundardag“.

Eftir breytingu hljóðar 16. grein þannig:

„Aðalfund skal halda seinnihluta maímánaðar ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef til hans er boðað með tölvupósti og auglýsingu á heimasíðu félagsins. Jafnframt skal senda þeim félagsmönnum skriflegt fundarboð sem ekki hafa skráð netfang hjá félaginu eða hafa sent stjórn félagsins skriflega ósk þess efnis. Fundarboð skal birta eða póstleggja eigi síðar en þrem vikum fyrir fundardag“.

9. Stjórnarkjör

Jónas Bjarnason, TF2JB, var endurkjörinn formaður. Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ og Benedikt Sveinsson, TF3CY, voru kjörnir stjórnarmenn til næstu tveggja ára. Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, og Gísli G. Ófeigsson, TF3G, sitja áfram í stjórn (sitt síðara ár). Erling Guðnason, TF3EE og Guðmundur Sveinsson, TF3SG voru kjörnir varamenn. Jón Ingvar Óskarsson, TF1JI, varamaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

10. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara

Kjör hlutu: Óskar Sveirrisson, TF3DC og Haukur Konráðsson, TF3HK, aðalmenn og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, til vara.

11. Ákvörðun árgjalds

Tillaga Brynjólfs Jónssonar, TF5B, um hækkun árgjalds í 4.500 krónur var felld með 10 atkvæðum gegn 8, en 3 sátu hjá. Árgjald var því ákveðið óbreytt, eða 4000 krónur.

12. Önnur mál

a. Fyrsta mál á dagskrá var umfjöllun um umsókn nýs félaga með tilvísan til ákvæðis í 7. gr. félagslaga. Það var inntökubeiðni Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF3ARI, sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

b. Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN, tók til máls og lýsti ánægju sinni með starfið í félaginu.

c. Guðmundur Sveinsson, TF3SG, lýsti vilja sínum til að viðhalda morskennslu og hvetja til aukins morsáhuga innan félagsins. Vonast er til, að hægt verði að halda stöðupróf í morsi.

d. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, minnti á að síðasti aðalfundur hafi vísað verkefni til stjórnar að gera tillögu um endurúthlutun kallmerkja sem nefnd sem skipuð var til verksins á aðalfundi 2009 skilaði á aðalfundi 2010 án niðurstöðu. Formaður upplýsti að það mál hafi ekki verið tekið á dagskrá hjá fráfarandi stjórn.

e. Framtíðarmál. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, ræddi eldri fundargerðir stjórnar félagsins og fundargerðarbækur frá fyrri tíð. Hann spurði hvort eitthvað hafi verið gert til þess að nálgast þær og varðveita. Nokkrar umræður spunnust um þau mál og sýndist sitt hverjum. Menn urðu sammála um að gera það sem hægt væri til að þær yrðu aðgengilegar. Benedikt Sveinsson, TF3CY, benti á að heimasíða félagsins væri ákjósanlegt verkfæri til að halda utan um þessa hluti alla og boðaði vilja til úrbóta í þeim efnum.

f. Brynjólfur Jónsson, TF5B, lýsti yfir áhuga á að spjallsvæði félagsins á heimasíðunni yrði endurvakið.

g. Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður, þakkaði góðan fund og þakkaði Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, sérstaklega fyrir sinn þátt í uppsetningu á reikningum félagsins.

h. Kristinn Andersen, TF3KX, tjáði sig um að ástæða sé til að skoða útgáfumál CQ T sérstaklega og talaði um að t.d. mætti hugsa sér að prenta CQTF í tengslum við ársskýrslu og gefa út á svipuðu formi og núverandi ársskýrslu félagsins. Jónas Bjarnason, TF2JB, sagðist þeirrar skoðunar að hugsanlega væri það góð lausn að halda sérstakan félagsfund um útgáfumál CQ TF.

 

Fleira var ekki tekið til umfjöllunar á aðalfundi Í.R.A. 2011 og þökkuðu fundarmenn Kristni Andersen,
TF3KX, góða fundarstjórn með lófaklappi. Fundarstjóri sleit fundi kl. 15:20.

13. Fylgiskjöl

Ársskýrsla: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2011/05/21052011-Ársskýrsla-ÍRA-2010-2011.pdf

Ársreikningur: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2011/05/21052011-Ársreikningur-ÍRA-2010-2011.pdf

14. Til skýringar

Skýrsla um starfsár félagsins nær yfir starfstímabil stjórnar á milli aðalfunda, frá júní-maí. Ársreikningur nær yfir fjárhagsár félagsins, sem er frá apríl-mars. Árgjaldaár félagsins fylgir stjórnarárinu, frá júní til maí. Ákvæði um ársskýrslu er í 18. gr. laga félagsins, en þar segir: „Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins”. Ákvæði um ársreikninga er einnig að finna í sömu grein, en þar segir: „Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar”. 19. greinin er þó aðalgrein laganna um reikningana, en þar segir: „Fjárhagsár félagsins skal vera frá 1. apríl til 31. mars ár hvert. Skoðunarmenn reikninga skulu hafa rannsakað bókhald félagsins og kannað eignir áður en gjaldkeri leggur fram reikninga. Að rannsókn lokinni undirrita þeir reikningana og láta þess getið að þeir undirrriti sem skoðunarmenn reikninga. Komist þeir að raun um að bókhaldið sé ekki rétt, skulu þeir láta þess getið og rita stutta greinargerð til skýringar.

Félagslögum ÍRA var breytt á aðalfundi félagsins þann 21. maí 2011. Nýjustu útgáfu laga félagsins hverju sinni má sækja með því að fara undir veftré og leit og smella á félagið og velja Lög og reglugerðir.

15. Fylgiskjöl

Skýrsla formanns: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2018/03/20110521-arsskyrsla_ira-tf3jb.pdf

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

two × 2 =