Mbl: “Ég er konungur hér um slóðir”

MEÐAL þeirra sem samhryggst hafa Jórdönum vegna fráfalls Husseins Jórdan- íukonungs eru radíóamatörar víðs vegar um heiminn, en konungurinn var um langt árabil virkur radíóamatör. Vitað er um fáeina íslenska radíóamatöra sem komust í samband við konunginn í krafti þessa sameiginlega áhugamáls þeirra. Einn þeirra er Sveinn Guðmundsson, verkfræðingur og radíóamatör. “Þetta var óvenjulegt, ekki síst fyrir þær sakir að kallmerki konungsins var JY1 sem er ekki alveg samkvæmt alþjóðlegum reglum um þau mál. Samkvæmt þeim á að minnsta kosti einn bókstafur að koma á eftir tölustafnum í kallmerkinu. Ég hikstaði á þessu fyrst þegar ég heyrði í honum, þó svo að kallmerki konungsins væri mjög sterkt og gott. Augljóslega hafði hann bestu fáanlegu tæki en þar sem ég náði ekki kallmerkinu liðu um tvær vikur áður en ég áttaði mig á hvaða maður væri í loftinu. Við skiptumst á merkjum eins og menn gera í tilvikum sem þessum en að öðru leyti voru samskiptin frekar stutt, enda vilja menn ekki alltaf eyða miklum tíma í þau, síst af öllu í fyrsta skipti þegar verið er að tala við sjaldgæfa stöð,” segir hann.

Þegar tveir radíóamatörar ná sambandi með þessum hætti skiptast þeir á svo kölluðum QSL-kortum, sem eru ekki óáþekk póstkortum, til staðfestingar á sambandinu. Algengt er að radíóamatörar safni slíkum kortum en auk söfnunargildis þeirra fá menn punkta fyrir hvert land sem bætist við. Sveinn kveðst halda mikið upp á kortið frá konunginum. “Framan á því er gullkóróna og síðan er kallmerkið ásamt alls kyns flúri. Konungurinn hefur greinilega lagt mikið upp úr að gera það vel úr garði, í samræmi við tign sína og stöðu,” segir hann. Sveinn kveður sig ráma í sögu þess efnis að eitt sinn hafi íslenskur radíóamatör náð sambandi við konunginn án þess að átta sig á því um hvern var að ræða, fyrr en hann grennslaðist eftir því að loknu ágætu samtali. Þá hafi konungur sagt: “I´m a king around here” eða “Ég er konungur hér um slóðir”. “Síðari árin heyrðist lítið í konunginum sem kann að skrifast á reikning veikinda hans og mikilla anna,” segir Sveinn. Af öðrum mektarmönnum sem hafa áhuga á þessum fjarskiptum nefnir Sveinn annan konung, Jóhann Karl Spánarkonung, Rajiv heitinn Gandhi, fyrrum forsætisráðherra Indlands, og Barry Goldwater, sem eitt sinn bauð sig fram til forseta í Bandaríkjunum.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

fourteen + three =