,

VEL HEPPNAÐUR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes á „dótadag“ laugardaginn 27. september. Honum til aðstoðar voru Georg Kulp, TF3GZ og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID sem hellti upp á kaffi og tók til meðlæti.

Ari tók m.a. með sér RigExpert AA-3000 loftnetsmæli og Georg, RigExpert AA-600 mæli. Aðspurður, sagðist Ari hafa valið að taka RigExpert mælinn með vegna þess að þetta eru einföld mælitæki í notkun fyrir radíóamatöra, auk þess að vera tiltölulega ódýr, vönduð og sterk. Munur á RigExpert og ódýrum VNA mælum er m.a., að þá mæla þarf að kvarða fyrir hverja mælingu, auk þess sem margir þeirra geta verið flóknir í notkun.

Skoðaður var munur á handstöðvaloftnetum á VHF og UHF og gerðar mælingar á þeim sem menn höfðu meðferðis. Flest mældust nærri í resónans (eða ekki mjög langt frá), en ein stöðin átti t.d. að vera með sambyggt VHF/UHF loftnet sem mældist í resónans á 106 MHz og var ansi lélegt á UHF – en mátti klippa til og fá í resónans.

Síðan var mæld segullúppa fyrir 2 metra og 70 cm sem kom vel út. Einnig var rætt um í hvaða áttir lúppur eru stefnuvirkar og kom mörgum á óvart að svo er ekki í „gegnum“ lúppuna.

Georg, TF3GZ kom með Kathrein 2-tvípóla VHF húsaloftnet sem fyrirhugað er að setja upp fyrir nýjan VHF endurvarpa á Þrándarhlíðarfjalli. Það mældist 100% lagi. Þetta er samskonar loftnet og notað er við TF3RE endurvarpann á Búrfelli.

Sigurður Óskar, TF2WIN kom með heimasmíðað loftnet fyrir UHF sem var mælt og reyndist resónans í kringum 450 MHz. Gerðar voru tilraunir með að slétta út radíalana þannig að þeir mynduðu 90° við loftnetsstöngina – en netið var smíðað þannig að radíalarnir hölluðu niður (til að hækka sýndarviðnám í fæðipunkti). Afar áhugavert var að fylgjast með breytingum á resónans á loftnetsmælinum.

Mikið var rætt um tengi og kóax kapla. Skoðaður var munur á lélegum köplum og góðum köplum á HF, VHF og UHF. Fram kom m.a. að standbylgja reyndist „flatari“ þegar notaður var lélegur kapall en „skarpari“ þegar notaður var góður (vandaður) kapall. Þá var framkvæmd bilanaleit í „random“ lengd af kóax köplum og sýnt tap. Notaðar voru mismunandi gerðir kapla (með mismunandi góða skermingu). Í framhaldi var m.a. rætt, hvers vegna fæðilína þarf að vera skermuð, en mældir voru kaplar og tengi upp í 3 GHz.

Mörgum kom á óvart að PL-259 tengin eru í raun lélegustu tengin samanborið við N-tengi (sem eru vatnsþétt), BNC og SMA. Einnig var farið út í mikilvægi þess að viðhafa góðan frágang á tengjum og kóaxkapli. Loks voru Smit kort skoðuð og skoðað (og rætt á almennu máli) hvernig þau virka og sýnt á tölvuskjá tengdum við RigExpert mælitækið.

Ari sagðist hafa spurt hópinn hvað menn vilja taka fyrir næsta laugardag. Menn voru á einu máli um að halda áfram með verkefnið.

Hann hefur jafnvel í hyggju að setja upp UHF endurvarpa á Perluna í Öskjuhlíð til að gera mönnum kleift að nota UHF handstöðvar innanbæjar og gera tilraunir í framhaldi.

Ari sagðist afar ánægður með daginn og sagðist hlakka til að hitta sem flesta næsta laugardag, 4. október.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir áhugaverðan og vel heppnaðan laugardag í Skeljanesi. Ennfremur þakkir til Georgs Kulp, TF3GZ fyrir að koma með loftnet og mælitæki fyrir ljósmyndir og til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir kaffi og meðlæti. Alls mættu 15 félagar í félagsaðstöðuna þennan ágæta laugardag.

Stjórn ÍRA.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

6 + 5 =