VEL HEPPNAÐ ERINDI TF1OL Í SKELJANESI.
Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL, var með fimmtudagserindið í gærkveldi, 18. september 2025.
Þannig var Ólafur kynntur:
„Sá mikli heimshornaflakkari, Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL, kemur til okkar n.k. fimmtudagskvöld og segir frá ferðum sínum um Evrópu á sínum ágæta fjarskiptabíl, Ford Ecoliner. Þau hjónin hafa flakkað vítt og breytt í sumar og Ólafur hefur farið í loftið á hinum ólíklegustu stöðum“.
Ólafur flutti þetta ágætis erindi stutt fjölda mynda. Hann hefur s.l. sumar farið um A-Evrópu og svo upp til norðurs og gegnum Eystrasaltslöndin, og áfram upp til Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og svo gert stopp í Færeyjum áður en þau hjón komu heim hér um daginn.
Allan tímann voru fjarskipti gegnum FT8 og FT4 beint úr bílnum og loftnetið var lóðrétt stöng sem reist var upp á þaki bílsins. Samböndin skiptu hundruðum.
Gerður var góður rómur að erindi Ólafs. Á eftir var farið út að skoða bílinn. Georg Kulp, TF3GZ, kom með sterk ljós svo hægt var að skoða bílinn í myrkrinu sem komið var. Alls komu liðlega 20 félagar á fundinn og hlýddu á erindið, þáðu veitingar og notuðu tímann til að spjalla saman.
F.h. ÍRA,
Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður.
Upptaka af erindi TF1OL, vefstlóð: https://youtu.be/NNu8NkbDRnM

Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!