, ,

Opnunarræða Don Beattie, G3BJ í Friedrichshafen 2017.

Opnunarræða Don Beattie, G3BJ formanns IARU svæðis 1, í Friedrichshafen.

Don, G3BJ beinir orðum sínum að þér, radíóáhugamaður:

Það eru forréttindi fyrir mig að þema HamRadio 2017 er IARU, alþjóðasamband radíóamatöra. DARC, samband þýskra radíóamatöra hefur valið IARU sem þema, eflaust að hluta til vegna þess að þriggja ára ráðstefna IARU svæðis 1 verður haldin nálægt München síðar á þessu ári. Við í IARU erum þakklát DARC fyrir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í til að tryggja að ráðstefnan heppnist vel.

Ég vona að mér leyfist að fara hratt yfir hvers vegna IARU skiptir máli fyrir radíóáhugamenn. Við vitum öll að radíótíðnisviðið er ekki ótakmarkað og sífellt er vaxandi eftirspurn eftir tíðnum fyrir almenna og hernaðarlega notkun. Þrýstingurinn á radíórófið er mikill og við radíóamatörar verðum að leggja fram mikla vinnu til að tryggja að við höldum áfram að njóta þeirra forréttinda sem aðgangur okkar að tíðnirófinu er.

Ákvörðun um úthlutun tíðnirófsins hefur verið í gegnum alþjóðasamskiptasamninga á vegum ITU, fjarskiptastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Á þriggja til fjögurra ára fresti er haldinn alheimstíðniráðstefna WRC, World Radio Confereance, þar sem ákvörðun er tekin um notkun radíótíðnisviðsins um allan heim fram að næstu ráðstefnu. Í auknum mæli fer undirbúningsvinnan fyrir WRC, fyrirfram hjá helstu fjarskiptastofnunum heimsins. Helstu þeirra eru CEPT í Evrópu, CITEL í Ameríku, APT í Asíu og Kyrrahafssvæðinu og ATU í Afríku, ásamt ASMG í Arabíska heiminum og RCC í Rússlandi og nágrannaríkjum. Vinnan fyrir næstu WRC sem haldin verður í lok 2019, hófst í byrjun 2016.

IARU eru einu samtök radíóamatöra, sem hefur formlega aðgang að ITU og fjarskiptastofnunum landa um allan heim. Fjöldi nefnda og vinnuhópa víða um heim taka þátt í undirbúningi fyrir WRC.  Ýmsar innlendar eftirlitsstofnanir leggja fram tillögur þannig að áhrif og áskorun á landsvísu er mikilvægur hluti af IARU hlutverkinu. Þú getur vart ímyndað þér allan þann fjölda WRC mála og tillagna sem fram koma á milli WRC ráðstefna og snerta okkar áhugamál.

Þannig er IARU á landsvísu, með innlendum félagasamtökum, á heimsvísu í þremur svæðissamtökum radíóamatöra og hjá ITU í að vinna fyrir þig til að tryggja radíóáhugamálið til framtíðar. Þetta starf er eingöngu unnið af sjálfboðaliðum – við höfum enga launaða starfsmenn – svo þú getur skilið er ég viss um, að við erum mjög háð því að fólk komi fram til að hjálpa okkur í þessu starfi.

Einn mikilvægur þáttur í kjarnavinnu IARU er tíðnirófsvernd. Það hefur lítið gildi að úthluta tíðnum til radíóáhugamanna ef þær eru ónothæfar vegna truflana – hvort sem það eru rafmagnstruflanir eða truflanir frá pírötum. IARU tekur mikinn þátt í starfi alþjóðlegra staðlastofnana og telur það skynsamlegt að setja fram útgeislunarstaðla fyrir rafmagns- og rafeindabúnað eins og sólarrafhlöður, vindorkuver, ýmis stafræn tæki, VDSL+ADSL og búnað fyrir þráðlausa rafhleðslu. Sumir segja jafnvel að stór hluti radíótíðnisviðsins sé ónothæfur í þéttbýli núorðið og ég hef samúð með þeirri skoðun. Því miður er eftirlit í mörgum Evrópulöndum svo lítið að tæki og þjónustur sem ekki uppfylla útgeislunartakmarkanir eru settar á markað með sjálfstæðri vottun án mikillar hættu á kvörtunum. IARU mun halda áfram að vinna að þessu, en ég verð að segja að án vilja meðal eftirlitsaðila til að takast á við sífellt versnandi rafmagnstruflanir er ég mjög áhyggjufullur um getu okkar til að viðhalda nothæfu radíótíðnisviði í sumum borgum Evrópu.

Annar mikilvægur hluti af vinnu IARU er vöktunarkerfið sem fylgist með fjarskiptatíðnum radíóáhugamanna og í mörgum tilvikum er hægt að ná að leysa vandamál sem upp koma með góðum samskiptum við innlenda eftirlitsaðila. Við fögnum stuðningi eftirlitsaðila við þetta verkefni og munum halda áfram að vinna uppbyggilega með þeim.

Við verðum einnig að vera meðvituð um vinnuna sem IARU leggur í við að hvetja til skynsamlegrar notkunar á radíótíðnisviðinu og þannig tryggja að hin fjölmörgu áhugasvið radíóamatöra geti starfað hlið við hlið án truflana á milli amatöra og þannig hámarkað skilvirka nýtingu tíðnirófsins. IARU er eina stofnunin sem hefur aðildarfélög um heim allan – við höfum 167 aðildarlönd – sem geta samræmt hagsmuni radíóáhugamanna til að koma á skynsamlegum áætlunum á frjálsum grundvelli.

Þetta var yfirlit yfir kjarnavinnu IARU á nokkrum mínútum. Samandregið í eina setningu, IARU vinnur að verndun forréttindaaðgangs radíóamatöra að radíótíðnirófinu og við að tryggja skilvirka nýtingu radíóamatöratíðnisviða.

Og að lokum auglýsing: Ef þú ert í aðstöðu til að aðstoða IARU, í gegnum yfirvöld í þínu landi, til dæmis á fundum hjá fjarskiptastofnun þíns lands eða í staðlavinnu, vinsamlegast komdu og bjóddu fram þína hjálp.

TF3JA þýddi og endursagði.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

18 + nine =