,

OPIÐ VAR Í SKELJANESI 9. OKTÓBER.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 9. október. Að venju voru málefni líðandi stundar á dagskrá ásamt áhugamálinu, sem eðlilega var í fyrirrúmi.

Rætt var um skilyrðin á HF sem hafa batnað verulega að undanförnu og hafa menn verið í góðum DX, t.d. á 10 m. um allan heim. Einnig var rætt um loftnet og fram kom, að Óskar Ólafur Hauksson, TF3OH hafi t.d. verið að nota „Ham Stick“ bílloftnet á svölunum hjá sér og hefur náð ótrúlega góðum árangri í DX á 20 m. bandinu.

Jón Atli Magnússon, TF2AC mætti með og sýndi mönnum „refasendi“ á 2 m. bandinu. Hann notar sendishlutann í handstöð og smíðaði stillibúnað fyrir útsendingu á 10 mínútna fresti. Skammt er síðan annar leyfishafi, Gunnar B. Guðlaugsson, TF5NN smíðaði „refasendi“ á 70 cm. bandinu. Þess má geta, að fyrstu refaveiðarnar voru haldnar á vegum ÍRA í október 1964 á 80 metrum. Síðan, um árabil tóku radíóskátar verkefnið upp á sína arma, en allra síðustu ár hefur ekki verið virkni á þessu sviði.

Einar Kjartansson, TF3EK mætti með og sýndi mönnum nýja Discovery TX-500 HF stöð frá Lab599. Stöðin vinnur á CW, SSB og DIGI á 160-6 m. og getur gefið út allt að 10W. Afar verkleg stöð og skemmtilega hönnuð.

Þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir afbragðsgott kaffi og meðlæti og til Jóns Svavarssonar, TF3JON fyrir frábærar ljósmyndir.

Félagsstöðin TF3IRA var virkjuð þetta opnunarkvöld á SSB á 20 metrum og var Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN á hljóðnemanum. Alls mættu 18 félagar og 2 gestir (sem eru á yfirstandandi námskeiði félagsins til amatörprófs í HR) í Skeljanes þetta ágæta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.  

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

one + 6 =