,

OPIÐ VAR Í SKELJANESI 14. ÁGÚST.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 14. ágúst. Sérstakir gestir félagsins voru þau Bob Staar, LX1BS og XYL Eva. Hann færði okkur m.a. félagsfána Radio-amateurs du Luxembourg (RL), eintak af félagsblaði þeirra sem kemur út 4 sinnum á ári [eins og CQ TF] og félagsmerki RL. Bob fékk borðfána ÍRA afhentan og eintak af nýjasta tölublaði CQ TF til að taka með heim til Lúxemborgar.

Þau voru afar hrifin af aðstöðu ÍRA og fannst frábært að félagsaðstaðan væri opin 4 sinnum í mánuði, en félagarnir í Lúx hittast einu sinni í mánuði. Fram kom, að félagafjöldi RL er um 400 og eru flestir leyfishafar. Þess má geta að Bob er ungmennafulltrúi RL og á ennfremur sæti í neyðarfjarskiptanefnd félagsins.

Góð mæting var þetta fimmtudagskvöld og félagarnir á báðum hæðum. Félagsstöðin TF3IRA var sett í loftið, bæði á CW og SSB í góðum skilyrðum á 7 MHz og 14 MHz. Menn eru orðnir spenntir fyrir að fá endurvarpann TF3DMR í loftið og verður væntanlega unnið að því í næstu viku, en eftir er að leggja að honum tengingu frá netbeini og loftnet; allt annað er til staðar. Einnig kom til tals, að gott væri að fá stafræna endurvarpann TF3RPI (QRG 439.950) virkan á ný, sem nú er bilaður. TF3RPI hefur gátt yfir netið út í heim og notast við D-STAR fjarskipti.

Að venju var mikið rætt um skilyrðin á HF, fjarskiptastöðvar, loftnet og annan búnað. Hugur er í mönnum að drífa upp loftnet fyrir veturinn og sumir velta fyrir sér kaupum á nýrri HF stöð á meðan gengi dollars er hagstætt en gengi dollars samkvæmt Seðlabanka Íslands var 122,50 kr. í gær (14. ágúst).

Þakkir til Þorvaldar Bjarnasonar, TF3TB sem færði félaginu Yaesu FC-902 loftnetsaðlögunarrás sem verður í boði á næsta flóamarkaði félagsins. Ennfremur þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID og Guðjóns Más Gíslasonar, TF3GMT fyrir afbragðsgott kaffi og meðlæti. Alls mættu 28 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

nineteen − 10 =