,

FJÖR Í SKELJANESI Á LAUGARDEGI.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A stóð fyrir „Dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 13. desember. Þetta var 6. og síðasti “dótadagurinn” á fræðsludagskrá ÍRA haustið 2025.

Icom UR-FR5000 VHF endurvarpi var hafður tengdur og voru handstöðvar notaðar til að prófa virknina í endurvarpanum. Bæði voru gerðar breytinar á stillingum stöðvanna og endurvarpans og prófuð útkoma úr hinum ýmsu stillingum.

Aflgjafi var Diaiary 30V/10A og einnig minni aflgjafi fyrir USB A og USB C. Þá var 10W DC-4GHz gerviálag frá RFdotop notað, sem hefur innbyggðum 50dB deyfilið (e. attenuator). Loks var Anritsu BTS Master MT8222A mælitæki á staðnum; sem er tíðnirófsskoðari (e. spectrum analyzer) sem vinnur frá 10 kHz til 7.5 GHz”.

Farið var yfir stillingar á endurvarpanum, þeim breytt og niðurstaða sýnd jafnóðum á mælitækjunum. Endurvarpinn var stilltur á 10W en getur sent allt allt að 50W. Tækið er forritanlegt yfir LAN  (netið) og var það sýnt og stillingum breytt. Einnig var sýnt hvernig hægt er,  á einfaldan hátt, að ”sigta út” heyranlega tóninn í kallmerki endurvarpans (sem er sent á morsi) – þannig að það heyrist ekki í stöð notandans. Kallmerkið er engu að síður áfram sent út á 1 klst. fresti. Í framhaldi var töluvert rætt var um mun á ”analog” og ”switching” aflgjöfum.

Vegna mikils áhuga á mælingum á VHF/UHF stöðvum, var mætt á staðinn með Anritsu tíðnirófsskoðarann sem er mjög fullkominn og var sendihluti VHF/UHF handstöðvanna mældur. En með Anritsu tækinu er t.d. hægt að mæla merki niður í -165 dBm frá 10 Hz upp í 7.5 GHz. Menn spurðu um mun á ódýrari og dýrari mælitækjum. Fram kom m.a., að ódýr mælitæki geta verið [jafnvel] í 1-3 mínútur að sýna það sama og betri tæki gera á örfáum sekúndum, auk þess sem mæligeta þeirra dýrari er yfirleitt margfalt meiri.

Að lokum var sýnt dæmi um hvernig hægt er að staðsetja ”erfiða” bilun [nánast] á svipstundu með ódýrum ”digital multimeter” sem getur mælt hita. Sýnt var lélegt samband í öryggishöldu, sem er algengt vandamál í 12V straumsnúrum sendistöðva (og endurvarpa) og var Icom endurvarpinn látinn senda út stöðugt í 10 mínútur (á 10W í gerviálag) og voru öryggishöldurnar á straumsnúrunni skoðaðar að þeim tíma liðnum. Ekki nægði að snerta öryggin sjálf vegna þess að öryggishöldurnar halda hitanum inni þannig að öryggishúsið sjálft var kalt viðkomu. Hitamælingin var svarið (sbr. meðfylgjandi ljósmynd). Til upplýsingar ber að geta þess, að fyrir tilraunina hafði annað öryggishúsið verið hreinsað, en ekki hitt. Spennan féll um 3.5VDC yfir óhreinsaða öryggishúsið (en ekki yfir öryggið sjálft). Málmspennurnar sem halda örygginu í öryggishúsinu hitnuðu, en ekki á því sem hafði verið hreinsað áður.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir skemmtilegan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag. Ennfremur þakkir til Ara fyrir myndir, til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID sem lagaði frábært kaffi og tók til meðlæti og til Mathíasar Hagvaag, TF3MH húsvarðar.

Alls mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta vetrardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

one × three =