FJÖR Í SKELJANESI Á LAUGARDEGI.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A stóð fyrir „Dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 29. nóvember. Þetta var 5. dótadagurinn á fræðsludagskrá ÍRA haustið 2025. Hann bauð upp á mælingar á VHF/UHF handstöðvum viðstaddra, þ.á.m. yfirsveiflum og sendiafli. Ennfremur voru loftnetin sem þeim fylgja prófuð. Mælitæki á staðnum, voru m.a. tíðnirófssjá (e. spectrum analyzer), loftnetssjá (e. antenna analyzer), 100W gerviálag (e. dummy load) sem einnig var notað sem deyfiliður (e. attenuator).
Gerðar voru mælingar á yfirsveiflum og afli frá 12 VHF, UHF og HF stöðvum. Niðurstöður sýndu annarsvegar, að stöðvar frá Icom, Kenwood og Yaesu voru til fyrirmyndar og hinsvegar, að stöðvar frá öðrum framleiðendum skiptust í tvo hópa, þ.e. „í lagi“ eða ekki „í lagi“. Reyndar kom ein ódýrasta VHF/UHF handstöðin mjög vel út á meðan ein dýrasta stöðin frá sama framleiðanda stóðst ekki lágmarkskröfur (skoðað út frá uppgefnum tækniupplýsingum).
Greinilega kom fram, að sumir framleiðendur eru að „spara“ með því að sleppa alveg yfirsveiflusíum, því sem dæmi, að þegar sent var út á 145 MHz fór S-mælir í botn og heyrðist líka hátt og skýrt í viðkomandi á 435 MHz (sem er 3. yfirsveifla). Viðstaddir voru sammála um, að vel búin „heimili“ radíóamatöra þurfi að koma sér upp (eða geta fengið að láni) mælitæki eins og notuð voru á staðnum til að sjá hvað er í gangi.
Þá voru prófuð fjögur VHF/UHF landstöðvaloftnet (sömu gerðar) frá þekktum Asíuframleiðenda, en aðeins eitt þeirra reyndist vera í „resónans“ á þeim böndum. Hin þrjú voru á eigintíðni allt annars staðar í tíðnisviðinu. Einnig kom fram, að önnur loftnetnet reyndust vera stillt fyrir tíðnir utan amatörbandanna, sem enginn notar.
Að lokum tók Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID þátt í tilraun þegar hann setti á höfuð sér [heimatilbúinn] skermaðan ¼ λ „loftnethjálm“ fyrir VHF á meðan og Ari Þórólfur mældi standbylgjuna sem kom betur út samanborið við þegar hjálmurinn var mældur „höfuðlaus“. Á meðfylgjandi mynd má sjá loftnetið standa upp úr hjálminum.
Sérstakar þakkir til Ara fyrir skemmtilegan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag. Ennfremur þakkir til Ara Þórólfs og Georgs Kulp, TF3GZ fyrir ljósmyndir sem og til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID sem lagaði frábært kaffi og tók til meðlæti.
Alls mættu 15 félagar í Skeljanes þennan ágæta vetrardag í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.


Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!