,

VEL HEPPNAÐ ERINDI TF2AC Í SKELJANESI.

Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 27. október. Á dagskrá var 5. erindið á fræðsludagskrá félagsins haustið 2025 sem var í umsjá Jóns Atla Magnússonar, TF2AC og nefndist: „Allt um DMR (Digital Mobile Radio)“.

Jón Atli fjallaði um nýju fjarskiptatæknina sem kölluð er DMR, Digital Mobile Radio. Hann er nýr leyfishafi sem fékk sitt leyfi fyrir ári og hélt sitt fyrsta erindi fyrir ÍRA fyrir stuttu síðan, erindið fjallaði um þátttöku hans sem nýliða í starfi ÍRA. Sérstaklega var áhugavert að heyra um afbragðs árangur hans í radíóleikum ÍRA í sumar.

DMR er stafrænn fjarskiptaháttur sem opnar nýjar víddir hjá amatörum. Nota má tiltölulega ódýrar handstöðvar, eða bílstöðvar til að hafa samband sín á milli í gegnum endurvarpa. Samskiptin eru truflanalaus. DMR endurvarparnir eru samtengdir gegnum netið. Því má fara inn um einn endurvarpa og úr á öðrum. Samskipti eru í „kallhópum“ og þeir heyra ekki endilega hver í öðrum þótt keyrt sé á sömu tíðnum. DMR kerfi finnast um allan heim og það er auðvelt að tala „út og suður“, þannig séð, eða eins og áhugi er.

Hér innanlands opnast ýmsar nýjar leiðir fyrir radíóamatöra, bæði með sambandi beint á endurvarpa eða nota nettengidós og fara á henni inn á endurvarpa og senda þannig út merki og vera í sambandi.  Að öðru leiti er radíótæknin sú sama og áður, þ.e. að loftnet þurfa að vera stillt á tíðni, og það þarf að gæta að standbylgju og töpum í köplum. Það má segja að DMR opni nýjar víddir fyrir amatöra án þess að rýra þau kerfi sem fyrir eru. Jón Atli hefur náð afbragðs árangri í DMR tækninni, sýndi handstöð sína og talaði í gegnum DMR endurvarpa ÍRA sem er á 70cm bandinu.

Gerður var góður rómur að erindi Jóns Atla sem fékk fjölda fyrirspurna.

Á eftir erindinu söfnuðust fundarmenn í spjall og „spekúlasjónir“ um hin ýmsu áhugamál amatöra.  Kaffiveitingar voru með ágætum sem ætíð.

Sérstakar þakkir til Jóns Atla Magnússonar, TF2AC fyrir áhugavert erindi og vel flutt. Ennfremur þakkir til Björns Bjarnasonar, TF3OSO fyrir ljósmyndir og Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir að annast kaffiveitingar.

Það var vel mætt í Skeljanes þetta fimmtudagskvöld, alls um 35 manns, félagsmenn og gestir. Erlendir gestir félagsins voru þau Chris Waldrup, KD4PBJ og XYL, sem eru búsett í Tennessee í Bandaríkjunum.

Stjórn ÍRA.

Upptaka var gerð af erindi TF2AC. Sjá vefslóðina: https://youtu.be/zFvnsjecf7M

(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

4 × 4 =