,

VEL HEPPNAÐUR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A stóð fyrir „Dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 8. nóvember. Þetta var 4. dótadagurinn á fræðsludagskrá ÍRA haustið 2025 og var þema laugardagsins „endurvarpar“.

Ari kom á staðinn með Icom IC-FR5100 VHF endurvarpa, sem var tengdur við aflgjafa í gegnum Daiwa CN-801 [V-type] sambyggðan afl/standbylgjumæli í gerviálag. Einnig mætti hann með nokkrar VHF/UHF handstöðvar af mismunandi gerðum. Það gerðu einnig þeir Jón Guðmundur Guðmundsson, TF3LM og Ríkharður Þórsson, TF8RIX sem mættu með sínar handstöðvar.

Ari fór vandlega yfir virkan endurvarpa, m.a. hvers vegna senditíðni er yfirleitt höfð -600 rið á VHF endurvörpum en oftast -5 eða -7 MHz á UHF endurvörpum. Einnig var rætt um „cavity“ síur, þ.e. hvers vegna þeirra er þörf og mikilvægi þess að þær séu nákvæmlega stilltar. Síðan útskýrði hann vel hvers vegna tónaðgangur er [oftast ] notaður og hvernig hægt er að hafa kallmerki endurvarpa sem sent er (a.m.k. einu sinni á klukkustund) „hljóðlaust“. Einnig var rætt um „analog“ og „digital“ endurvarpa, en margir endurvarpar í dag geta unnið á hvorutveggja. Ari útskýrði einnig vel fyrirbærir „DMR“ endurvarpa, en einn slíkur [TF3DMR] Motorola DR 3000, var einmitt tengdur í Skeljanesi 28. ágúst s.l.

Viðstaddir spurðu fjölda spurninga og svaraði Ari þeim öllum greiðlega eftir því sem þær bárust. Hann býr yfir miklum fróðleik og áratugareynslu í þessum efnum og var bæði fróðlegt og skemmtilegt að heyra hann segja frá hinum ýmsu uppákomum frá þeim störfum. Sérstakar þakkir til Ara fyrir skemmtilegan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag.

Ennfremur þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID sem lagaði kaffi. Í boði var með kaffinu hvorttveggja, vínarbrauðslengja og karamellukleinuhringir frá Björnsbakaríi í fyrsta gæðaflokki.

Alls mættu 10 félagar í Skeljanes þennan sólfagra og lognríka vetrardag í vesturbænum í Reykjavík. Jónas Bjarnason, TF3JB tók ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

20 − four =