VEL HEPPNAÐ ERINDI TF2AC Í SKELJANESI.
Jón Atli Magnússon, TF2AC var með fimmtudagserindið í Skeljanesi 16. október þar sem hann fjallaði um „Þátttöku í starfi ÍRA sem nýliði, þ.m.t. í fjarskiptaleikum“. Erindið hófst stundvíslega kl. 20.30.
Jón Atli fjallaði um POTA („Parks On The Air“) og skyld mál. Hann hefur virkjað fjölda garða (e. parks) hér á landi en skilgreindir garðar eru 116, m.a. í kringum Reykjavík, en fjöldi þeirra er dreifður um allt land. Oft hafa erlendir amatörar verið fyrstir til að virkja garða hér á landi en hann sjálfur hefur einnig verið ötull.
Svo fjallaði Jón Atli um síðustu Vorleika ÍRA sem voru þeir fyrstu sem hann tók þátt í og varð í 2. sæti. „Það var aldrei ætlunin að hafa sigur“, sagði hann, en ég var búinn að undirbúa mig, ákveða um reiti, og fylginn mér og náði að virkja hvorki meira né minna en heila 8 reiti. Eitt sem einfaldaði líf mitt var að ég var með fast loftnet á bílnum, stangarnet og þurfti aldrei að setja neitt upp, aðeins að stoppa og taka upp hljóðnemann. Samböndin voru öll á 2m og 70cm.
Gerður var góður rómur að erindi Jóns Atla. Þess má geta hér að hann fékk sitt kallmerki fyrir tæpu ári síðan og hefur sannarlega náð að stimpla sig inn í amatörmennskuna á þessum stutta tíma.
Erlendur gestur félagsins þetta fimmtudagskvöld var Mikel Berrocal, EA2CW sem er búsettur á Bilbao á Spáni. Hann er m.a. áhugamaður um SOTA („Summits On The Air“) verkefnið, auk þess að vera mikill „CW maður“ og áhugasamur um alþjóðlega keppnir. Mikel var mjög hrifinn af aðstöðu félagsins í Skeljanesi.
Sérstakar þakkir til Jóns Atla Magnússonar, TF2AC vel heppnað og áhugavert erindi. Þakkir einnig til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir kaffi og meðlæti og til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM sem tók ljósmyndir og annaðist upptöku (sem verður í boði fljótlega).
Alls mættu 22 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta vorkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformarður).
Stjórn ÍRA.



Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!