LAUGARDAGUR 4. OKTÓBER Í SKELJANESI.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun standa fyrir „dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 4. október kl. 13-16.
Ari Þórólfur mætir aftur með RigExpert AA-3000 lofnets- og kapalsmælinn sem nú verður tengdur við skjávarpa svo allir geti fylgst með niðurstöðum. Í boði verður að mæla loftnet og/eða kóaxkapla sem menn taka með sér á staðinn. Tengin þurfa að vera SMA F/M og BNC vegna tenginga við RigExpert mælinn.
Næst verða sendigæði VHF/UHF handstöðva mæld. Notaður verður við tíðnirófsskoðari (spectrum analyser) af gerðinni TinySA ULTRA Plus. Ari mun skýra út [og sýna] hvernig tengja á tíðnirófsskoðarann án þess að sendistöðin skaði mælitækið.
Það eru til margar tegundir/gerðir af tíðnirófsskoðurum sem í höfuðdráttum vinna allir eins. Farið verður yfir virkan tækisins, hvað það sýnir og hvernig á að að nota það. Þetta er í raun ódýrt mælitæki sem gerir sitt gagn – en er ekki gallalaust. TinySA ULTRA Plus getur mælt tíðnisviðið frá 100 Hz upp í 7 GHz. Það hefur þar með möguleikann til að sýna óæskilegar yfirsveiflur.
Áhugasamir geta mætt með VHF/UHF stöðvar sem verða mældar. Þær þurfa að vera fullhlaðnar og/eða með utanaðkomandi aflgjafa og með SMA eða BNC loftnetstengi. Síðan verða niðurstöður mælinganna skoðaðar og útskýrðar á mynd frá skjávarpa.
Athugið, að þótt einstakar stöðvar geti verið ótrúlega góðar og aðrar slæmar, má ekki gera ráð fyrir að slíkt eigi almennt við um tiltekna tegund. Tæki kann að vera bilað eða jafnvel framleidd á föstudegi rétt í enda dags.
Félagsmenn eru hvattir til að mæta á laugardag, fylgjast með og taka þátt í umræðum um þetta áhugaverða umfjöllunarefni. Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffið og tekur fram meðlæti.
Stjórn ÍRA.

Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!