OPIÐ VAR Í SKELJANESI 21. ÁGÚST.
Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 21. ágúst.
Góðar umræður voru um heimasmíðuð loftnet, m.a. um deltur og fösun þeirra. Vísað var í greinar sem hafa birst í nýlegum CQ TF blöðum um þess háttar loftnet. Einnig var rætt um loftnet fyrir 6 metrana. Einn félaga okkar hefur t.d. nýlega smíðað tvípól á því bandi (úr álstöngum) sem hann er með festan við 4 m. langt rör sem hann „rennir“ út frá svölunum [á fjölbýlishúsinu þar sem hann býr] þegar hann fer á bandið og sem kemur mjög vel út í DX. Snjöll lausn fyrir þá sem búa í fjölbýli, enda eru loftnet fyrir 50 MHz af meðfærilegri stærð.
Menn ræddu einnig um LoTW (Logbook of The World) og fram kom að skráning hjá ARRL er ókeypis, en verulega er til þæginda fyrir leyfishafa að skrá sig þar og uppfæra DX sambönd, enda meir en 60% af samböndum sem frá skráningu þar. Í fjarskiptaherbergi TF3IRA var rætt um APRS og fram kom mikil ánægja með uppfærslu Hrafnkels Eiríkssonar, TF3HR sem uppfærði búnað APRS stöðvari félagsins, TF3IRA-1 nýlega.
Töluvert var rætt um nýjar stöðvar, m.a. um nýju FlexRadio 8000 línuna og hún borin saman við nýju ICOM IC-7760 stöðina (en eintök af báðum þessum tækjum eru komin í notkun hér á landi). Einnig var rætt um nýju Aurora línuna frá FlexRadio, sem eru 500W stöðvar. Þetta kvöld var félagsstöðin TF3IRA QRV á morsi á 14 MHz bandinu í þokkalegum skilyrðum.
Þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir afbragðsgott kaffi og meðlæti. Alls mættu 22 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.

Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!