,

8. Stjórnarfundur ÍRA 2009

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.09.27 kl 11.00 í Skeljanesi

Mættir: TF2JB, TF3SG, TF3SNN og TF3BJ. TF3GL, TF3JI og TF3EE höfðu boðað forföll.

1. Fundarsetning

Formaður setti fund kl. 11:00 og lagði fram tillögu að dagskrá sem var samþykkt.

2. Fundargerð síðasta fundar

Uppkast að fundargerð fundar nr. 3/2009 var lögð fram til samþykktar. TF2JB gerði tillögu um breytingu á orðalagi 5. töluliðar. Í stað orðanna “heppilegra væri” komi “heppilegra gæti verið”. Fundargerðin var samþykkt með þeirri breytingu.

3. Fundur stjórnar ÍRA með prófnefnd

Farið var yfir ágætan fund sem stjórn átti með prófnefnd þann 18. ágúst s.l.

4. Vetrardagskrá 2009-2010

TF3SG skýrði frá hugmynd þess efnis að hafa opið á sunnudagsmorgnum í vetur þar sem lögð yrði m.a. áhersla á að setja upp loftnet og verklegar framkvæmdir í félagsaðstöðunni. Gert er ráð fyrir að áframhald verði á fræðslu- og kynningarkvöldum á fimmtudögum í vetur og einu myndbandskvöldi. Guðmundur mun senda dagskrána til ritstjóra CQ TF til birtingar í næsta tölublaði.

5. Næsta tölublað CQ TF (4. tbl. 2009)

Undirbúningur að útgáfu næsta tölublaðs CQ TF er í fullum gangi og er stefnt að því að blaðið komi út í byrjun október n.k.

6. Morsenámskeið og námskeið til amatörprófs

TF3SG skýrði frá Morsenámskeiði TF3AX, sem hófst 1. september. Alls mættu 12 manns til að byrja með en eitthvað hefur fækkað síðan. Námskeiðið er mjög vel heppnað. TF2JB skýrði frá væntanlegu námskeiði til amatörprófs sem hefst í byrjun október og Hrafnkell, TF3HR, mun stjórna. Rætt var m.a. um heppilegt húsnæði fyrir námskeiðið og námskeiðsgjald. Það er hugmynd stjórnarmanna að fjárhæð þess verði óbreytt frá sem hún var síðast – þó þannig að námskeiðið standi undir sér. Rædd var óformleg tillaga TF3GL um hækkun gjaldsins en henni hafnað. Fundarmenn eru sammála um að stilla verði í hóf í ljósi þeirra efnahagslegu þrenginga sem nú eru í þjóðfélaginu.

7. Staða félagssjóðs

Innheimta félagsgjalda hefur gengið vel og er staða félagssjóðs góð.

8. TF útileikar 2009

TF3SG (tengiliður stjórnar) fór yfir úrslit og sagði frá því að menn væru almennt þeirrar skoðunar að mjög vel hafi til tekist. Stjórn ÍRA færir öllum þeim sem komu að undirbúningi og úrvinnslu gagna TF útileikanna 2009 þakkir fyrir frábær störf.

9. Starfshópar

Samþykkt að skipaður verði starfshópur innan félagsins til að endurskoða reglur fyrir TF útileikana. Auglýst verði eftir áhugasömum félagsmönnum til starfa í hópnum.
Undir dagskrárliðnum var einnig samþykkt að skipaður verði starfshópur innan félagsins til að gera tillögur um hvort efna beri til (og þá á hvaða hátt) kynningar á amatörradíói fyrir almenning í tilefni alþjóðadags radíóamatöra (World Amateur Radio Day) 18. apríl 2010. Auglýst verði eftir áhugasömum félagsmanna til starfa í hópnum.

10. Framleiðsla á gólffána með merki félagsins

Samþykkt að framleiða gólffána á standi með félagsmekinu (með tilvísan til samþykkta fyrri stjórna). Formanni var falið að leita til Ársæls, TF3AO, um að hrinda málinu í framkvæmd.

11. Fundargerðir stjórnar

Samþykkt tillaga TF2JB þess efnis að fundargerðir stjórnar verði hengdar upp og gerðar aðgengilegar félagsmönnum í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Athugað verði á hvern hátt má miðla þessu efni til félagsmanna á netinu.

12. Nettenging

Samþykkt að hrinda í framkvæmd nettengingu félagsaðstöðunnar sbr. samþykkt stjórnarfundar nr. 3/2009. TF3EE og TF3SNN taka að sér kaup á nauðsynlegum búnaði.

13. Radíódagbækur félagsins á rafrænu formi

Tillaga þess efnis að radíódagbækur félagsins sem til eru á rafrænu formi verði settar inn á „Club Log” heimasíðuna ræddar. Stöðvarstjóri, TF3SNN, óskaði eftir að fá tækifæri til að kynna sér málið. Samþykkt að fresta umfjöllun.

14. Heimild til útgjalda úr félagssjóði

TF3JB lagði fram tillögu þess efnis, að keyptar verði pöllur og (hand) Morselykill til nota fyrir TF3IRA; þannig verði báðar stöðvar útbúnar varanlega með þessum aukahlutum. Innkaupsverð nemur alls €192.58, þ.e. „The Kent Hand Key” (€86.98) og „The Kent twin paddle morse key” (€105.60). Tillagan samþykkt.

15. Önnur mál

  1. TF3SNN velti fyrir sér ályktunarhæfni stjórnarfunda þegar færri en fimm manns eru mættir. Fram kom m.a. í umræðum að e.t.v. bæri að skerpa á þessu í lögum félagsins.
  2. TF3SNN spurði um erindi sem nýrri stjórn hafi borist þann tíma sem hún hefur starfað. TF2JB sagðist ekki hafa séð nein slík – utan umsagnarerinda frá PFS vegna kallmerkja. Sveinn tekur að sér að kanna hvort eitthvað hefur safnast upp hjá ritara, TF3GL.
  3. TF3SNN spurði um fjölda þeirra sem hafa skráð sig á námskeið til amatörprófs á heimasíðu félagsins. TF2JB sagðist aðeins vita um heildarfjöldann, þ.e. 42. Hins vegar hafi verið opið fyrir skráningu í nokkuð langan tíma og því óljóst um endanlegan fjölda. TF3SNN tekur að sér að hafa samband við TF3GL um að hann sendi tölvupóst á þá sem hafa skráð sig til að kanna hvort þeir standi við skráningu sína miðað við að námskeið verði haldið í október-nóvember n.k.

16. Ákvörðun um dagtsetningu og tímasetningu næsta stjórnarfundar

Endanleg dagsetning var ekki ákveðin en miðað er við næsta næsta stjórnarfund í viku 44.

17. Fundarslit

Fundi var slitið kl. 13.30.

Fundargerð ritaði TF3SG

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

two × 3 =