,

7. Stjórnarfundur ÍRA 2009

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.08.11 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru: TF2JB, TF3SG, TF3GL og TF3BJ. TF3EE, TF3SNN og TF1JI höfðu boðað forföll.

1. Fundarsetning

Formaður TF2JB setti fundinn kl. 21:05.

2. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð fundar 2009.07.07 var lögð fram og samþykkt án athugasemda.

3. Umsókn um kallmerkið TF4X til rekstrar sameiginlegrar stöðvar

Til umsagnar stjórnar ÍRA liggur erindi dagsett 11. júlí 2009 með ósk um úthlutun kallmerkisins TF4X til rekstrar sameiginlegrar stöðvar sem staðsett er í Otradal hjá Þorvaldi Stefánssyni TF4M. Ábyrgðarmaður sameiginlegu stöðvarinnar er Yngvi Harðarson TF3Y. Stjórnin samþykkti samhljóða að mæla með úthlutun kallmerkisins til þessarar sameiginlegu stöðvar.

4. Vetrardagskrá 2009-2010

TF3SG lagði fram til umræðu frumdrög að vetrardagskrá. Ekkert var fært til bókar um dagskrárliðinn, og bíður endanleg útfærsla hans næsta fundar.

5. TF útileikar 2009

TF útileikarnir 2009 voru haldnir 1.-3. ágúst. Ágæt þátttaka var, og svipuð og á síðasta ári. TF3KX er að safna loggum og mun hann ásamt TF5B hafa umsjón með útreikningi stiga og útgáfu verðlaunaskjala líkt og í fyrra.

Umræða spannst um nýja TF0-svæðið vegna þátttöku manna í útileikum. Var það sameiginlegt álit stjórnarmanna að óheppilegt væri að undanskilja mannvirkjabelti hér og hvar um hálendið frá TF0, enda sé erfitt að henda reiður á því hvort maður sé staddur á slóða sem tilheyrir mannvirkjabelti (t.d. belti meðfram veginum inn að Eldgjá að Fjallabaki, eða belti meðfram línuveginum norðan Skjaldbreiðs sem jafnvel útilokar Hlöðufell frá TF0), eða hvort maður er staddur á slóða sem ekki tilheyrir mannvirkjabelti TF0 (t.d. Dómadalsleið að Fjallabaki eða veginum upp að Hlöðufelli sunnan úr Laugardal).

Á aðalfundi Í.R.A. 23. maí 2009 var samþykkt svohljóðandi skilgreining á TF0-svæðinu:

TF0 er lokað svæði sem umlykur óbyggðir og miðhálendi landsins að undanskildum mannvirkjabeltum. Lokaða svæðið og mannvirkjabeltin er skv. skilgreiningu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins. Í mannvirkjabeltum miðhálendisins gildir venjuleg kallsvæðaskipting eftir staðsetningu miðað við stjórnsýslumörk.

Stjórnin ályktaði að heppilegra væri að undanskilja ekki þessi mannvirkjabelti, og notast við skilgreiningu óbyggðanefndar á þjóðlendukorti um “Samgöngur og ferðamál” sem sjá má á vef óbyggðanefndar http://www.halendi.is/media/files/C4-a3-sg-fe.jpg

6. Vitahelgin 2009

Vitahelgin 2009 verður haldin 14.-15. ágúst 2009. Skrifleg heimild er komin frá Siglingastofnun um notkun á vitanum og kann stjórnin stofnuninni og vitaverði bestu þakkir fyrir. Nokkrir hafa boðað komu sína til stöðvarstjóra TF3SNN, sem heldur utan um þátttökutilkynningar þeirra sem hyggjast operera frá vitanum.

7. Erindisbréf neyðarfjarskiptastjóra

Erindisbréf neyðarfjarskiptastjóra TF3JA tekið fyrir og samþykkt.

8. Tillaga að samþykkt um hlutverk TF3IRA

TF2JB bar fram til umræðu skjal með skilgreiningu á hlutverki félagstöðvarinnar TF3IRA. Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar og e.t.v. samþætt væntanlegu erindisbréfi stöðvarstjóra.

9. Fundur með prófnefnd félagsins 18. ágúst

Stjórnin leggur til eftirfarandi markmið í námskeiðs- og prófhaldi:

  1. Námskeið verði 1-2 á ári, tímasetning verði a.m.k. um haust, en annars einnig um vor
  2. Möguleiki sé að efna til prófa oftar en námskeið eru haldin
  3. Mögulegt verði að halda styttra námskeið til N-leyfis
  4. Námskeiðsgögn komi inn á netið í auknum mæli (http://ira.is/display/namsefni/Home)

10. Fjarskiptaherbergi

Framkvæmdir í fjarskiptaherbergi hafa miðað að því að gera aðstöðuna notendavænni. Fór stjórnin um herbergið og tók út hið vel unna verk sem TF2JB og TF3SNN hafa borið hitann og þungann af.

11. Heimildir til útgjalda úr félagssjóði

Samþykkt var að heimila eftirtaldar ráðstafanir:

  1. Kaup á aflgjafa fyrir rótor og SteppIR-loftnet
  2. Kaup á korti í stjórnkassa fyrir SteppIR-loftnet
  3. Kaup á Yaesu SP-8-hátalara fyrir FT-1000-stöð
  4. Kaup á Kenwood SP-23-hátalara fyrir TS-2000-stöð
  5. Kaup á morselykli (handlykli) frá Kent UK
  6. Kaup á nettengingu fyrir félagsaðstöðuna

12. Önnur mál

Ritari TF3GL boðar að sakir vinnu erlendis muni hann ekki geta mætt á nokkra næstu stjórnarfundi en taki þó þátt í starfi stjórnar að öðru leyti.

13. Dagsetning næsta stjórnarfundar

14. Fundarslit

Fundi slitið kl 23.10.

Fundargerð ritaði TF3GL

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

twenty − 8 =