,

2. Stjórnarfundur ÍRA 2013

Fundargerð

Mættir: TF3JB, TF3UA, TF3EE, TF3WIN, TF3AM, TF3CY, sérstakur gestur fundarins var TF3TNT, stöðvarstjóri og VHF stjóri.

Fundur settur kl. 17:40.

Föstudaginn 15. feb. 2013 kl. 17:30 að Skeljanesi

1.        Dagskrá samþykkt samhljóða

2.        Fundargerð seinasta fundar samþykkt samhljóða

3.        Innkomin/útsend erindi

  1. a) 16.01.2013; innkomið erindi frá PFS; úthlutun nýs 630 metra bands til íslenskra leyfishafa.
    Í þessu erindi kemur fram að PFS hafi leyft íslenskum amatörum að nota 630 m bandið. Stjórn ÍRA fagnar þessu mjög og færir PFS innilegar þakkir fyrir skjóta og jákvæða afgreiðslu erindisins.
  2. b) 17.01.2013; send fréttatilkynning vegna nýs 630 metra bands til landsfélaga radíóamatörfélaga í nágrannalöndum.
    c) 28.01.2013; innkomið erindi frá PFS; umsögn um umsókn Radíó refa um kallmerkin TF2R og TF3R.
    Stjórn ÍRA verður að hlýta vinnureglum sem aðalfundur árið 2009 setti um úthlutun eins stafs kallmerkja. Um er að ræða varanlegt kallmerki fyrir sameiginlega stöð (klúbbstöð). Radíó refir þurfa skv. þeim að tilgreina ábyrgðarmann sem hefur haft leyfi í 30 ár og fullnægir kröfum um að hafa staðfest 200 DXCC lönd.
  3. d) 30.01.2013; sent erindi til PFS; ósk um heimild til að halda próf til amatörleyfis 4. maí n.k.
  4. e) 30.01.2013; innkomið erindi frá PFS; veitt heimild fyrir prófi til amatörleyfis 4. maí n.k.; fulltrúi PFS á staðnum verður Bjarni Sigurðsson.
  5. f) 03.02.2013; innkomið erindi frá Radíóskátum; ósk um stuðning við frumvarp NRRL á fundi HF nefndar IARU Svæðis 1 2013.
    Málið snýst um að IARU svæði 1 beiti sér fyrir því að ein helgi verði útnefnd sem keppnislaus helgi. Þessa helgi geta þá skátar nýtt fyrir JOTA (Jamboree on the Air) en slíkir atburðir hafa laðað margar ungar verur að amatör radíói. Dæmi um slíkar má finna á stjórnarfundinum. Samþykkt án mótatkvæða.
  6. g) 05.02.2013; sent erindi til PFS; ósk um heimild til flutnings endurvarpans TF3RPI frá Klyfjaseli í Ljósheima í Reykjavík.
  7. h) 05.02.2013; sent erindi til PFS; upplýsingar veittar um stöðu veitingar umsagnar um erindi stofnunarinnar dags. 28.01.2013.
  8. i) 05.02.2013; innkomið erindi frá PFS, veitt heimild til flutnings endurvarpans TF3RPI.
  9. j) Könnun á vegum IARU um notkun og leyfi á örbylgjusviðum fyrir amatöra. Ritara falið að svara könnuninni.

4.        Yfirferð verkefna
Farið yfir verkefni í verkefnatöflu. Lítið er eftir af útistandandi verkefnum. Fram kom að vinna við að ljúka eignaskrá er nú farin af stað, stöðvarstjóri TF3TNT bauð fram aðstoð sína við vinnuna að eignaskránni.

5.        Nýtt amatörband á 630 metrum

Formaður sendi fréttatilkynningu til nokkurra systurfélaga um leyfið á 630 m. Hamingjuóskir hafa borist víða að og m.a. er leyfisins getið í nýjustu vefútgáfu QST sem birt var i dag. Formanni er þakkað gott frumkvæði við að senda út þessa fréttatilkynningu.

6.        Fundur í HF nefnd IARU Svæðis 1

Fundurinn verður haldinn í Vín í apríl. Að höfðu samráði við IARU fulltrúa félagsins og fulltrúa í HF nefnd IARU, TF3KB, lagði formaður til að senda ekki fulltrúa að þessu sinni. Stjórn samþykkti þá tillögu formanns.

7.        Námskeið til amatörprófs

Nú er námskeiðið hafið með 18 þátttakendum. Formaður, TF3JB tók að sér skipulagningu þess og hefur gert það með miklum ágætum. Námskeiðið er haldið við kjöraðstæður í húsakynnum Háskólans í Reykjavík og færir stjórnin þeim HR mönnum bestu þakkir fyrir að hýsa námskeiðið. Námsefnið var prentað og frágengið hjá Samskiptum. Var þar vel unnið og námsefnið er í eins góðu horfi hvað varðar frágang og á verður kosið. Hins vegar er ljóst að endurskoða þarf efni og framsetningu námsefnisins. Þar er mjög horft til S-Afríska námsefnisins sem hægt er að sækja á netinu. SARL hefur ekki svarað erindi ÍRA um leyfi til að nota námsefnið. Vonast er til að hægt verði að ná sambandi við SARL í kjölfar IARU stjórnarfundarins sem verður haldinn hér á landi í byrjun maí.

8.        Söfnun fyrir RF magnara

Nú hafa safnast um 100 þús.kr. í söfnuninni sem TF3SA stendur fyrir. Við munu bætast laun TF3VS fyrir uppsetningu á CQ TF en hann bauðst til þess að setja upp CQ TF gegn sömu greiðslu og áður en bauðst til að láta launin renna í tækjakaupasjóð félagsins. Auk þess mun félagssjóður styrkja kaup á magnara. Það er skilningur stjórnar að magnarinn verði í eigu félagsins. Þegar hyllir undir lok söfnunarinnar þarf að skilgreina ferli um það hvernig magnarinn skuli valinn.

9.        Endurvarpar

Nú standa vonir til þess að endurvarpinn í Bláfjöllum sé kominn á tíðni sem ekki truflar aðra þjónustu og að loftnetinu sé borgið um sinn. Hins vegar var á það bent að Bláfjöll eru mikið veðravíti, ísing mikil og erfitt umhverfi fyrir loftnet. Endurvarpinn á Hótel Sögu hefur nú verið tekinn niður vegna byggingarframkvæmda þar og er ekki enn ákveðið um QTH fyrir hann. Mikill áhugi er innan félagsins á endurvörpum og er líklegt að þeim málum verði vel sinnt í framtíðinni.

10.      CQ TF

Rætt var um embætti ritstjóra en það hefur ekki enn tekist að fylla. Unnið er áfram í málinu. Formaður hefur prentað tvö eintök i svarthvítu til að leggja fram í félaginu. Það kostar um 900 kr. að prenta slíkt eintak og binda í gorm, samþykkt að halda því áfram.

11.      Sérstakur fimmtudagsfundur um VHF/UHF (framhaldsfundur).

Mikill áhugi kom fram á sérstökum fundi um VHF/UHF mál sem haldinn var í janúar. Ljóst er að halda þarf annan fund og er stefnt að því þ. 14. mars nk.

12.      Nýtt viðurkenningarskjal félagsins.

TF5B hefur nú búið til nýtt viðurkenningarskjal félagsins „Iceland on Digimodes Award“. Hér er frábært framtak á ferðinni af hálfu viðurkenningastjóra og færir stjórn honum bestu þakkir fyrir framtakið.

13.      Ákvörðun um kaup á tölvu í fjarskiptaherbergi TF3IRA.

Tölvukostur fjarskiptaherbergisins er í slæmu horfi. Tölvur eru gamlar og telur stöðvarstjóri að móðurborðin séu ónýt. Umræður urðu um þetta og ákveðið að samþykkja að verja allt að 120 þús. kr. til tölvukaupa. Í ljós verður að koma hvort ein eða tvær tölvur fáist fyrir þessa upphæð. TF3CY bauðst til að skoða sín sambönd svo nýta megi peningana sem best. Aðrir fundarmenn munu sömuleiðis skoða hvað í þeirra valdi stendur.

14.      Hugmyndir TF3TNT, VHF stjóra Í.R.A., um ný verkefni í  metrabylgju-fjarskiptum

Benedikt Guðnason, TF3TNT lýsti hugmyndum sínum um ný verkefni á sviði metrabylgjufjarskipta. Þær ganga í stórum dráttum út á það að ÍRA taki yfir gamalt endurvarpakerfi Almannavarna sem er á 146-148 MHz. Skv. viðræðum við ýmsa menn stendur félaginu það til boða. Ef félagið tæki að sér rekstur fjallastöðva víðs vegar um landið mætti sækja um leyfi til PFS um að þessum hluta 2 m bandsins verði úthlutað til amatöra. Hér væri komin kjörin varaleið fyrir Tetra kerfið sem nú þjónar sem neyðarfjarskiptakerfi Almannavarna, Neyðarlínunnar og björgunarsveita. Hinn kosturinn væri að fá að sækja nokkra endurvarpa og nýta þá í þágu amatöra, væntanlega með því að færa þá á núverandi tíðnir amatöra. Um er að ræða Yeasu endurvarpa sem þykja góð tæki. Stjórn þakkaði TF3TNT fyrir hugmyndirnar. TF3EE lagði til að vísa þeim til starfshóps félagsins um neyðarfjarskipti til umfjöllunar og var það samþykkt.

15.      Önnur mál

Formaður efndi til getraunar nýlega sem stjórnarmenn tóku þátt í. Sigurvegari varð TF2WIN en hann gat rétt upp á því að mynd af afar fagurri amatörstöð væri úr tækjaherbergi TF3XON.

13.      Fundarslit

Fundi var slitið um kl. 19:30.

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
Ritari ÍRA

Óunnin verkefni sem ákveðin voru á fundinum og fyrri fundum:

 

Verkefni Dags. Ábyrgð Verkefnislok
Ljúka við eignaskrá TF3G, TF3EE, TF3SG
Fundargerðir í Google Docs 30.5.2012 TF3UA
Finna keppnisstjóra ÍRA 27.12.2012 Allir
Vinna að námsefnismálum 27.12.2012 JB, UA, BJ
Finna nýjan ritstjóra CQ TF 27.12.2012 Allir
Svara könnun IARU 15.2.2012 TF3UA
Úrlausn tölvumála félagsstöðvarinnar 15.2.2012 TF3CY og fl.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

2 × two =