QSL kort

QSL- kortið er lokastaðfesting á að samband hafi verið milli tveggja radíóamatöra tiltekinn dag og stund. Kortið inniheldur upplýsingar um eitt eða fleiri sambönd, sem eru bornar saman við stöðvardagbók. Ef upplýsingarnar á kortinu eru réttar, getur þú fyllt út svarkort.
Mörg félög radíóamatöra hafa látið gera viðurkenningarskjöl af ýmsu tagi. Til að geta sótt um þau þarf oft að hafa QSL-kortin á takteinum og jafnvel þarf að senda þau til þeirra, sem gefa skjölin út, svo umsóknin teljist gild.

Að búa til kort

QSL-kortin eru afar fjölbreytt og möguleikarnir nánast óendanlegir. Sum kort eru með flóknum og litríkum myndum en önnur mjög einföld. Ákveðnar lágmarksupplýsingar þurfa þó ævinlega að koma fram á kortinu. Þær eru:

Kallmerki stöðvarinnar sem gefur út kortið. Það þarf að vera með stóru letri og skýrt, svo engin hætta sé á að það hverfi í annað sem á kortið er prentað.
Þá þarf einnig að koma fram að stöðin sé frá Íslandi. Nafn landsins er gjarnan sett ofan við kallmerkið. Leturstærð er höfð u.þ.b.1/3 , 1/4 af stærð kallmerkisins.
Síðan kemur setningin “Confirms a QSO/SWL-report to:” Á eftir henni kemur reitur eða eyða þar sem setja skal kallmerki stöðvar eða auðkenni hlustara, sem á að fá kortið.
Venjulega koma svo reitir þvert yfir kortið, sem innihalda upplýsingar um sambandið. Venjulega raðast þeir á eftirfarandi hátt og heita:

Day , Month, Year, Time UTC, Band/MHz, 2xMode, RS(T), Worked.

Alls 8 reitir. Reiturinn “Worked” er hafður með, svo nota megi sama kortið til að svara hlusturum. Þá þarf aðeins að skástrika í RS(T) reitinn eða setja stafina SWL, strika yfir QSO í “Confirms a QSO” og 2x fyrir framan “Mode” og setja kallmerki stöðvarinnar sem þú varst í sambandi við í reitinn “Worked”.
Nafn og heimilisfang þess sem á kallmerkið á kortinu.
Annað, t.d. upplýsingar um CQ-zone, ITU-zone, IOTA nr, QTH locator, tæki og fleira.
Sértu í félaginu Íslenskir Radíóamatörar, Í.R.A., má setja merki þess og póstfang á kortið.

Ofantalið er miðað við einfalt kort með öllum upplýsingunum á annarri hlið kortsins. Þegar hingað er komið er allt pláss vísast uppurið. Sum kort eru prentuð í lit og gjarnan með fallegri mynd, sem spillist við að troða öllum upplýsingunum inn á hana. Má þá færa upplýsingarnar í liðum 3-6 á bakhlið kortsins. Þá þarf að breyta línunni í lið 3 í t.d.:

TF3XXX confirms a QSO/SWL-report to:

og hafa hana efst á bakhliðinni. Þannig verður bakhliðin QSL-kort og framhliðin skrauthlið. Til dæmis:

Dæmi bakhlið á QSL korti.

 

Að fylla út kortið

Skrifið vel og greinilega á kortin, svo engin hætta sé á misskilningi. Ef rangt er skrifað má ekki krota yfir og breyta. Þá verður kortið gagnslaust fyrir viðtakandann þegar hann ætlar að sækja um viðurkenningarskjöl. Skrifa skal nýtt. Þeir sem nota límmiða, sérstaklega þeir sem líma þá á auða bakhlið korts, ættu að huga að því að hafa línuna “TF3XXX confirms a QSO/SWL-report to:” á bakhlið kortsins eða á límmiðanum sjálfum. Þannig fer ekki milli mála, hvernig sem kortinu er velt, hver gaf það út. Að lokum ætti að árita kortið eigin hendi. Þá er það orðið að mikilvægu skjali, sem nota má í margvíslegum tilgangi.

Pappír og stærð korts

Stærð kortsins á að vera 140 x 90 mm. Það er sú stærð sem langflestir nota. Stærri kort eiga það til að verða þvæld á brúnum á leiðinni milli landa. Þyngd pappírs ætti ekki að vera meiri en 160 gr. á fermetra og ekki minni en 120 gr. á fermetra. Þetta er mjög mikilvægt vegna reksturs QSL-stofu, þar sem allt gengur út á að koma sem flestum kortum fyrir sem minnst burðargjald milli landa. Kort í venjulegri póstkortaþykkt geta verið á við 3 kort eins og lýst er hér að ofan. Það munar miklu hvort það eru 120 kort í kílói eða 330. Hafðu þetta hugfast.

QSL-stofa, meðferð korta o.fl.

Nú er komið að því að senda kort. Ef þig langar að eignast kort frá einhverjum sem þú hafðir samband við, t.d. ef þú ert að safna í viðurkenningarskjal, er fljótlegast að senda beint á heimilisfang viðkomandi. Þá þarft þú að setja í umslagið til hans kortið, umslag með þínu heimilisfangi og burðargjald undir bréfið til baka. Burðargjaldið getur verið IRC “International Reply Coupon”, sem fæst á pósthúsum eða 1 USD, oft nefnt “Green Stamp”. Að senda kort gegnum QSL-stofu er margfalt ódýrara en tekur aðeins lengri tíma. Þá tekur QSL-stjóri við kortum frá mörgum amatörum, flokkar þau eftir löndum og pakkar í hentugar pakkningar, sem falla vel að gjaldskrá póstþjónustunnar. Í flestum löndum er a.m.k. ein QSL-stofa, sem tekur við sendingum frá okkur. Mikilvægt er að þeir sem senda kort gegnum QSL-stofuna séu búnir að flokka kortin eftir löndum og telja og inni greiðslu fyrir sendikostnaði af hendi þegar QSL-stjóri tekur við þeim. Einnig er mikilvægt fyrir vinnsluna, þegar verið er að senda kort á stöð sem hefur sérstakan QSL-umsjónarmann (manager) að skrifa kallmerki hans á áberandi stað á kortið, svo tekið sé eftir því í flokkuninni. Kort af þessu tagi verða t.d. til þegar haft er samband við amatöra sem starfrækja stöð í öðru landi en heimalandinu, oft á sérstöku kallmerki. Gefa þeir þá upp, hver sér um að svara kortum.
QSL-stjóri svo um að sækja innsend kort í pósthólf félagsins, flokka þau eftir kallmerkjum og koma þeim til skila í sérstök pósthólf í félagsheimilinu. Kort utanfélagsmanna fara ekki gegnum QSL-stofu. Í.R.A. rekur QSL-stofu fyrir sína félagsmenn, sem skulda ekki félagsgjöld samkvæmt lögum félagsins.

Að svara innsendum kortum

Síðasti kafli fjallaði um að senda kort, en að sjálfsögðu kemur að því að þú færð kort, sem þarf að svara. Við skulum gera ráð fyrir því að þú hafir sama hátt á og flestir aðrir og sendir sjaldan kort af fyrra bragði, en svarir öllum kortum sem þú færð. Þetta kallast að “QSL-a 100%”. Ef þú færð kort gegnum QSL-stofu sendir þú svarið sömu leið til baka. Ef kortið kemur beint með umslagi og burðargjaldi til baka, fer það á sama hátt til baka. Ef kortið kemur beint án umslags og burðargjalds er vaninn að senda svarið gegnum QSL-stofu. Aðalatriðið er að svara kortum sem berast og hafa að geyma réttar upplýsingar. Kort til þín með röngum upplýsingum miðað við stöðvardagbókina skal árita “RETURN” og að auki skýringu á því hvers vegna, t.d. “QSO is not in my log”, “Wrong mode” eða annað og senda þau til baka til QSL-stofu. Þau eru síðan send til baka við hentugt tækifæri.