VANDAÐ OG FRÓÐLEGT ERINDI TF3Y.

Vetrardagskrá ÍRA vorið 2025 lauk með erindi Yngva Harðarsonar, TF3Y fimmtudaginn 22. maí. Erindi Yngva nefndist: „Fjarskipti fyrir tilstilli loftsteinaskúra“.
Yngvi flutti þetta líka ágætis erindi um fjarskipti með hjálp loftsteinaskúra. Erindið var vel skipulagt og Yngvi er hafsjór upplýsinga enda vel sjóaður í þessum málum öllum.
Hann varð heillaður af þessum fjarskiptahætti sem er tæknilega afar erfiður, og byrjaði sínar tilraunir 1982, fyrir daga tölvu og forrita. Hans tæki voru morslykill sem geymdi skilaboð sem mátti svo senda afar hratt með því að ýta á takka, og segulbandstæki til að geyma það sem heyrðist og spila mjög hægt til að heyra það sem móttekið var. Þannig var þetta.
En tímarnir hafa breyst á allan hátt, kunnátta stóraukist og nú eru til hvers konar hugbúnaður og tæki sem gera þessa tegund fjarskipta viðráðanlegri, en áfram krefjandi. Yngvi fékk fjölda fyrirspurna sem hann svaraði af kunnáttu, og sýndi enn og aftur að hann er afbragðs fyrirlesari.
Sérstakar þakkir til Yngva Harðarsonar, TF3Y fyrir afbragðsgott, vandað og fróðlegt erindi.
Alls mættu 20 félagar í Skeljanes þetta ágæta vorkvöld í vesturbænum í Reykjavík. Andrés Þórarinsson, TF1AM annaðist upptöku og Njáll H. Hilmarsson, TF3NH annaðist innsetningu á upptöku á heimasíðu. Þakkir til þeirra og til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM og Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir ljósmyndir sem og til Guðjóns Más Gíslasonar fyrir kaffi og meðlæti.
Félagsstöðin TF3IRA var virkjuð frá Skeljanesi á opnunarkvöldinu á morsi á 40 metrunum og hafði Alex, TF3UT yfir 60 sambönd í ágætum skilyrðum.
Stjórn ÍRA.
(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).
Glærur frá erindi TF3Y 22.5.2025: https://www.ira.is/?s=erindi+tf3y
Upptaka af erindinu er hér: https://youtu.be/oMASvVgVa2w






Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!