Þorvaldur Stefánsson TF4M og Bjarni Sverrisson TF3GB sunnudaginn 9. október s.l.

Þorvaldur Stefánsson, TF4M, og Bjarni Sverrisson, TF3GB, umsjónarmaður TF útileikanna 2011, mæltu sér mót sunnudaginn 9. október s.l. á heimili þess síðarnefnda. Þar afhenti Bjarni Þorvaldi 1. verðaunin í TF útileikunum 2011, sem eru ágrafinn viðurkenningarskjöldur ásamt viðurkenningarskjali fyrir bestan árangur í útileikum ársins. Heildarstig voru alls 2.234.880, sem er einhver glæsilegasti árangur sem náðst hefur í 32 ára sögu TF útileikanna. Alls tóku 19 stöðvar þátt í viðburðinum að þessu sinni.

Stjórn Í.R.A. óskar Þorvaldi til hamingju með þennan frábæra árangur.

Kristinn Andersen, TF3KX.

Fyrsta fimmtudagserindið á vetrardagskrá félagsins 2011 verður haldið fimmtudaginn 13. október n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Kristinn Andersen, TF3KX, og nefnist erindið „Faros”; sjálfvirk vöktun HF-skilyrða með radíóvitum.

“Faros” forritið kom fram árið 2006. Það var hannað af kanadískum radíóamatör, Alex Shovkoplyas, VE3NEA. Faros nemur sjálfvirkt móttekið merki frá radíóvitum NCDXF (Northern California DX Foundation) í 14, 18, 21 24 og 28 MHz tíðnisviðunum. Ekki er þó nauðsynlegt að hafa viðtæki fyrir öll fimm tíðnisviðin, Faros getur hæglega unnið á einu bandi (en ef það á að vakta fleiri, þarf tölvan að geta stýrt viðtækinu). Faros ákveður hvort tiltekinn viti næst eða ekki, metur S/N, QSB og leiðartöfina (gefur LP eða SP). Forritið heldur utan um gögnin og getur líka stýrt viðtæki sem hefur hefðbundið tölvuviðmót og þannig skannað böndin, öll fimm ef vill.

“NCDXF” vitakerfið hefur verið við lýði í núverandi mynd frá árinu 1995, en lengi vel hlustuðu íslenskir radíóamatörar (sem aðrir) einfaldlega (og gera enn) eftir eyranu. Líkt og fram kemur að ofan, greinir forritið á milli “SP” og “LP” (e. short and long path). Mælingar sýna m.a. styrk merkis yfir suði og styrkbreytigar í %. Þessar upplýsingar (og fleiri) eru settar upp myndrænt fyrir notendur og eru uppfærðar reglulega.

Meðal vöktunarstöðva sem sent hafa upplýsingar inn í kerfið er TF4M. Kerfið notar Windows stýrikerfið (ME, 2000, XP eða Windows 7) og þarf að lágmarki 16 bita hljóðkort ásamt tengingu við viðtæki (sem tengt er loftneti) fyrir ofangreind fimm tíðnisvið.


Vefslóðir til fróðleiks:

http://www.dxatlas.com/Faros/

http://www.astrosurf.com/luxorion/qsl-review-propagation-software-beacon.htm

http://www.ncdxf.org/beacon/monitors.html


Félagar, fjölmennum! Veglegar kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Benedikt Sveinsson TF3CY í fjarskiptaherbergi TF3W í SAC SSB keppninni 8. október 2011.

Félagsstöðin TF3W var QRV í Scandinavian Activity SSB-keppninni sem stóð yfir helgina 8.-9. október. Alls náðust tæplega 1600 QSO sem er góður árangur miðað við aðstæður, en skilyrði voru ekki hagstæð ásamt því að SteppIR 3E Yagi loftnet stöðvarinnar var með bilaðan rótor. Það var Benedikt Sveinsson, TF3CY, sem stóð fyrir keppninni ásamt Guðmundi Sveinssyni, TF3SG. Aðrir sem tóku þátt í keppninni (um skemmri eða lengri tíma) voru: Ársæll Óskarsson, TF3AO; Gunnar Svanur Hjálmarsson, TF3FIN; Haraldur Þórðarson, TF3HP; Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN; Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; og Stefán Arndal, TF3SA.

Að sögn Benedikts, voru skilyrðin nokkuð góð framan af laugardeginum, en versnuðu með kvöldinu (K stuðullinn fór t.d. upp í 4 um kl. 21). Harris 110 RF magnari félagsins var notaður í keppninni ca. á 600W útgangsafli. Líkt og áður segir, voru böndin nokkuð vel opin á laugardeginum og var stöðin QRV á 28 MHz og 21 MHz frá hádegi uns skipt var yfir á 14 MHz um kl. 19. Upp úr kl. 21 kom lægð í skilyrðin þar, en nýtt var opnun á 21 MHz fram undir miðnætti. Síðan var stöðin QRV á 7 MHz fram undir kl. 03, en skilyrði voru afar léleg. Stöðin var síðan QRV á ný upp úr kl. 07 á 14 MHz (og að hluta til á 21 MHz) til hádegis á sunnudeginum. A.m.k. tvær aðrar TF stöðvar voru skráðar á þyrpingu (e. cluster) í keppninni, TF3ZA og TF8GX.

Stjórn Í.R.A. óskar hlutaðeigandi til hamingju með árangurinn.

Ársæll Óskarsson TF3AO í fjarskiptaherbergi TF3W í SAC SSB keppninni 8. október 2011.

Guðmundur Sveinsson TF3SG og Haraldur Þórðarson TF3HP í fjarskiptaherbergi TF3W í SAC keppninni 2011.

Ársæll Óskarsson TF3AO og Sigurður Óskarson TF2WIN í fjarskiptaherbergi TF3W í SAC SSB keppninni 2011.

Jón Þóroddur Jónsson TF3JA í fjarskiptaherbergi TF3W í SAC SSB keppninni 8. október 2011.

Gunnar Svanur Hjálmarsson TF3FIN í fjarskiptaherbergi TF3W í SAC SSB keppninni 2011.

Bestu þakkir til Stefáns Arndal, TF3SA, fyrir ljósmyndir.

Bjarni Sverrisson, TF3GB.

Bjarni Sverrisson, TF3GB, skýrði frá úrslitum í TF útileikunum 2011; viðurkenningarhafar voru alls 13 talsins.

Bjarni Sverrisson, TF3GB, umsjónarmaður TF útileikanna, kynnti niðurstöður leikanna fyrir árið 2011 í gær, 6. október, í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Alls tóku 19 stöðvar þátt þetta árið samanborið við 22 í fyrra og hlutu 13 viðurkenningar og verðlaun (þar af 3 stöðvar mannaðar Íslendingum sem tóku þátt frá Noregi og Svíþjóð). Þorvaldur Stefánsson, TF4M, reyndist sigurvegari útileikanna árið 2011 með alls 2.234.880 stig, sem er glæsilegur árangur. Þorvaldur hlaut ágrafinn verðlaunaplatta að launum (sjá mynd). Guðmundur Löve, TF3GL, varð í öðru sæti og Georg Magnússon, TF2LL, í þriðja sæti. Kvöldið var mjög vel heppnað og mættu alls 26 félagsmenn á staðinn.

Þeir sem voru umsjónarmanni til aðstoðar við yfirferð fjarskiptadagbóka og útreikninga voru þeir Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Kristinn Andersen, TF3KX; og Óskar Sverrisson, TF3DC. Brynjólfur Jónsson, TF5B, viðurkenningastjóri félagsins, annaðist hönnun og framleiðslu viðurkenningaskjala. Bjarni Sverrisson, TF3GB, mun nánnar gera grein fyrir niðurstöðum útileikanna í 4. tbl. CQ TF sem kemur út síðar í mánuðinum.

Glæsilegur árangur Þorvaldar Stefánssonar, TF4M, tryggði honum 1. verðlaunin.

Skínandi góður árangur var einnig hjá Guðmundi Löve, TF3GL, sem tryggði honum 2. sætið.

Viðurkenningum veitt móttaka 6. október. Frá vinstri: Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Löve, TF3GL; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Bjarni Sverrisson, TF3GB; Jónas Bjarnason, TF2JB; og Jón Þ. Jónsson, TF3JA. Þess má geta að verðlaunahafar sem vantar á myndina áttu ýmist ekki heimangengt eða voru staddir erlendis

Bjarni Sverrisson, TF3GB; Vilhjálmur Kjartansson, TF3DX (nýkominn heim frá KH6); og Stefán Arnadal, TF3SA.

Benedikt Sveinsson, TF3CY, var mjög ánægður með skjalið og segist stefna að 1. verðlaununum næsta sumar.

Ari Þór Jóhannesson, TF3ARI; Benedikt Guðnason, TF3TNT; Guðjón Helgi Egilsson, TF3WO; og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN.

Ari Þór Jóhannesson, TF3ARI; Guðmundur Löve, TF3GL; Gunnar Svanur Hjálmarsson, TF3FIN; og Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA.

Eftir ahendingu verðlauna og kaffihlé, var skeggrætt um loftnet. Frá vinstri: Yngvi Harðarson, TF3Y; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Löve, TF3GL; Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX; og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN.

Stjórn Í.R.A. færir hlutaðeigandi hamingjuóskir með árangurinn.

Bestu þakkir til Gísla G. Ófeigssonar, TF3G, sem tók ljósmyndirnar sem fylgja frásögninni.

Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS.

Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS, mun stjórna uppboði á flóamarkaðnum 16. október.

Nokkur undanfarin ár hefur Í.R.A. staðið fyrir árlegum flóamarkaði/söludegi innan félagsins. Félagsmenn hafa þá geta komið með hluti sem þeir vilja selja, gefa eða skipta á, auk þess sem félagið hefur boðið hluti sem því hefur áskotnast gefins eða til sölu við hagstæðu verði. Í fyrra (2010) var kynnt til sögunnar sú nýjung að efna til uppboðs á völdum hlutum á flóamarkaðnum. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, tók að sér verkefnið og þótti takast vel upp. Hann hefur nú samþykkt að hafa með höndum stjórn á uppboði á flóamarkaðnum sem efnt verður til í félagsaðstöðunni, sunnudaginn 16. október n.k.

Að þessu sinni er hugmyndin að bjóða upp á nýjung í tengslum við flóamarkaðinn. Það er, að félagsmenn sem hafa áhuga á að selja stöðvar, aukahluti eða verðmeiri búnað, m.a. loftnet, geta nú skráð þá hluti fyrirfram hjá félaginu. Upplýsingunum verður safnað saman frá og með deginum í dag (4. október), og áfram næstu daga, eða til 11. október. Degi síðar, 12. október, verður síðan birtur listi með þessum upplýsingum hér á heimasíðunni, svo menn geti fengið nokkra hugmynd fyrirfram um það, sem verður í boði á flóamarkaðnum. Þeir sem hafa áhuga, geta skráð tæki og búnað hjá Vilhjálmi, TF3VS, með því að senda honum tölvupóst með upplýsingunum á póstfangið: tf3vs(hjá)ritmal.is

_____________________________________________________________________

Dæmi um upplýsingar sem ágætt er að skrá hjá Vilhjálmi:

1. Tegund og gerð: Yaesu FT-840 100W SSB/CW sendistöð fyrir 10-160m böndin.
2. Vinnsluspenna: 13.8VDC.
3. Ástand: Í góðu lagi.
4. Fylgihlutir: 500 Hz kristalsía (fyrir mors), handhljóðnemi, leiðbeiningabók og straumsnúra.
5. Aðrar upplýsingar: Mjög vel með farin.
6. Lágmarksverð: 60 þúsund krónur.
_____________________________________________________________________


Stjórn Í.R.A. hvetur félaga til að nýta tækifærið og koma tækjum/búnaði í verð sem e.t.v. hefur ekki verið notaður í einhvern tíma (eða jafnvel svo árum skiptir). Nú býðst tækifæri til að gera bragarbót á.

F.h. stjórnar,

73, Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður.

Langþráðu takmarki var náð í síðustu viku, en þá voru DXCC viðurkenningaskjölin þrjú fyrir TF3IRA sótt í innrömmun og bíða nú uppsetningar. Þess má geta, að ARRL hefur staðfest að DXCC viðurkenningaskjöl hafi ekki áður verið gefin út á félagsstöðina. Um er að ræða þrjú viðurkenningaskjöl, þ.e. fyrir mors (CW), tal (Phone) og allar tegundir útgeislunar (Mixed). Hugmyndin var upphaflega að leitast við að fá skjölin til landsins í tíma fyrir 65 ára afmæli félagsins þann 14. ágúst s.l., sem náðist ekki. Mestu skiptir að viðurkenningaskjölin eru komin í hendur félagsins verður valin staðsetning í fjarskiptaherbergi félagsins næstu daga í samráði við stöðvarstjóra. Búist er við, að hægt verði að sækja um fjórða skjalið fyrir stafrænar mótanir (Digital modes) fyrir áramót. Ástæða er til að taka fram, að DXCC viðurkenningaskjölin eru félagssjóði að kostnaðarlausu, þ.e. umsóknargjald til ARRL, sendingarkostnaður og kostnaður við innrömmun eru gjöf til félagsins. Viðkomandi eru færðar bestu þakkir.

Bjarni Sverrisson, TF3GB.


Þá er komið að fyrsta fimmtudagsviðburðinum á fyrri hluta vetrardagskrár félagsins starfsárið 2011/2012. Það er afhending verðlauna og viðurkenninga í TF útileikunum 2011 sem haldnir voru um s.l. verslunarmannahelgi (30. júlí til 1. ágúst). Athöfnin fer fram í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 6. október n.k. og hefst stundvíslega kl. 20:30.

Bjarni Sverrisson, TF3GB, umsjónarmaður útileikanna, stjórnar athöfninni og afhendir 1. verðlaun sem eru ágrafinn verðlaunaplatti og viðurkenningarskjöl, fyrir annað og þriðja sæti, auk viðurkenningaskjala fyrir þátttöku. Alls tóku 19 TF-stöðvar þátt í útileikunum að þessu sinni og var þátttakan frá kallsvæðum TF1, TF2, TF3, TF4, TF5, TF8, TF9 og TFØ; einvörðungu vantaði stöðvar frá kallsvæðum 6 og 7. Þeir sem voru umsjónarmanni til aðstoðar við yfirferð fjarskiptadagbóka og útreikninga voru þeir Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Kristinn Andersen, TF3KX; og Óskar Sverrisson, TF3DC.

Félagar, mætum stundvíslega. Veglegar kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Í útileikunum 2011 var þátttaka frá öllum kallsvæðum nema TF6 og TF7.

Sett hefur verið upp vefsíða með drögum að reglum og tilhögun kringum hugsaða VHF-leika næsta sumar:

http://www.ira.is/vhf-leikar/

Hugmyndin er að efna til umræðna og þróa smám saman regluverk fyrir einfalda VHF-fjarlægðarkeppni með öðrum áherzlum en TF-útileikarnir, sem jú eru einkum háðir á HF og með kallsvæða- og kallmerkjamargföldurum.

Einn helzti vandinn var að finna staðsetningarkerfi sem í senn væri nógu nákvæmt og nógu einfalt. Eftir að hafa skoðað Maidenhead (grid squares-kerfið) varð úr að nota einfaldlega gráður lengdar og breiddar með tveimur aukastöfum (þ.e. hundraðshlutum úr gráðu). Þetta þýðir vitaskuld að GPS-tæki þarf að vera með í för, ellegar landakort og reglustika.

Þá er það stigaútreikningurinn: Á að fara eftir finfaldri vegalengd (þetta er jú fjarlægðarkeppni), eða vegalengd í öðru veldi (sbr. deyfingu á afli radíóbylgna með fjarlægð í öðru veldi)? Úr varð að byrja á að fara eftir “aflformúlunni”, og jafngildir því tvöföldun fjarlægðar fjórföldun á stigatölu. Um þetta má færa rök á báða bóga, og kjörinn vettvangur til þess er Comment-fídusinn í wiki-kerfinu.

Loks var ákveðið að halda sig við “bandaskipulag” líkt og í útileikunum, þannig að stig fást fyrir 6m, 4m (með tilskilin leyfi), 2m, 70cm og hærri bönd. Þetta gefur skemmtilega möguleika, þar sem eiginleikar þessara banda eru jafnvel meira mismunandi innbyrðis en HF-bandanna (sem dæmi má nefna speglun af flugvélum á 2m/70cm og Sporadic-E á 6m).

Frjóar og fjörugar umræður óskast í vetur, svo verða megi af þessu næsta sumar.

73, Gummi TF3GL

Félagið hefur fest kaup á nýrri Yaesu FT-7900E sambyggðri FM sendi-/móttökustöð fyrir 144 MHz og 430 MHz tíðnisviðin. Sendiafl er valkvætt, 5/10/20/50W á 2 metrum og 5/10/20/45W á 70 cm. Viðtæki þekur aukalega tíðnisviðin frá 108 til 520 MHz og frá 700-1000 MHz. FT-7900E kemur í stað eldri stöðvar (Yaesu FT-4700RH) sem félaginu var gefin fyrir rúmum tveimur áratugum. Nýja stöðin kostaði 40 þúsund krónur, en raunverulegt verð er nær 50 þúsund krónum. Umrætt verð er í raun innkaupsverð og flutningskostnaður til landsins, þar sem aðflutningsgjöld voru gjöf til félagsins. Viðkomandi eru færðar þakkir. Nánari tæknilegar upplýsingar má sjá á eftirfarandi vefslóð: http://www.universal-radio.com/catalog/fm_txvrs/0790.html

Líkt og um hefur verið rætt, m.a. við undirbúning starfsáætlunar stjórnar félagsins fyrir yfirstandandi starfstímabil, er hugmyndin að þegar gengið hefur verið frá nýju stöðinni í fjarskiptaherberginu, verði ætíð opið á 145.500 MHz og 433.500 MHz á opnunarkvöldum í félagsaðstöðunni. Þannig, að félagar geti kallað á TF3IRA og verið nokkuð vissir um að fá svar þegar viðvera er í húsnæðinu. Þessu fylgja ótvíræð þægindi, m.a. þegar menn eru að gera tilraunir o.s.frv. Því skal haldið til haga, að þótt Kenwood TS-2000 stöð félagsins geti verið QRV með ágætum í þessum tíðnisviðium, þá má ekki taka hana fyrir not af þessu tagi, vegna þess að hún þarf að geta verið QRV jafnt á HF sem og á VHF/UHF (í gegnum gervitungl) á opnunarkvöldum.

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá árinu 1957.

Miklar truflanir voru á segulsviðinu á mánudag og náðu þær hámarki um kl. 19:30, sbr. meðfylgjandi línurit. Á línuritunum hér fyrir neðan má sjá stöðuna kl. 10:50 á þriðjudag (27. september). Truflanir hafa haldið áfram í dag (28. september). Efsta ritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla (nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Félagsstöð ÍRA var í gangi á fimmtudag og aftur föstudag og laugardag.  Fjarlæg kallmerki sem enduðu í logg ÍRA voru meðak annars KL7, KH6, JA, XE, HZ, ásamt sennilega vel á þriðja hundrað kallmerkjum frá vesturströnd N-Ameríku og Kanada.  Flest samböndin voru á tali samtals 380 og var TF3SG sá sem sat við hljóðnemann.

73, Guðmundur TF3SG

Unnið við SteppIR 3E Yagi loftnet TF3IRA veturinn 2009/2010. Ljósmynd: TF2JB.

Vetrardagskrá Í.R.A. fyrir tímabilið október-desember 2011 liggur nú fyrir sbr. meðfylgjandi töflu. Samkvæmt áætluninni er alls 21 viðburður í boði; þar af átta erindi. Meðal nýjunga, má nefna hvað varðar árlegan söludag að hausti (flóamarkað), að nú verður félagsmönnum boðið að skrá sendi-/móttökustöðvar og verðmeiri búnað fyrirfram og síðan verður listinn birtur til kynningar á netinu með ca. viku fyrirvara. Fyrirkomulag verður sérstaklega kynnt innan tíðar. Þá má nefna ánægjulega nýjung, sem er liðsstyrkur frá Póst- og fjarskiptastofnun, en Bjarni Sigurðsson, sérfræðingur hjá stofnuninni mun koma og flytja erindi í félagsaðstöðunni í desember n.k. Þá má nefna kynningardaga sem eru í boði til að kynna gervihnattafjarskipti frá TF3IRA og upprifjun og kynningar á keppnisforritunum “WinTest” og “WriteLog”. Svokallaðar „sunnudagsopnanir” eru nú tvöfalt fleiri en áður, eða fjórar og verður fyrsta sunnudagsopnunin þann 20. nóvember. Að þessu sinni koma alls 17 félagsmenn beint að dagskránni og eru þeim færðar bestu þakkir. Það er Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, varaformaður félagsins, sem stjórnaði verkefninu og er honum færðar sérstakar þakkir fyrir vel skipulagða og áhugaverða vetrardagskrá.

O K T Ó B E R          
Mán.- og vikudagur Viðburður Heiti erindis/upplýsingar Fyrirlesari/leiðbeinandi Tímasetning Skýringar/annað
6. okt.; fimmtudagur Afh. viðurkenninga Afhending viðurkenninga í TF útileikunum 2011 Bjarni Sverrisson, TF3GB 20:30-21:15 Kaffiveitingar
13. okt.; fimmtudagur Erindi „Faros”; sjálfvirk vöktun HF-skilyrða með radíóvitum Kristinn Andersen, TF3KX 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
15. okt.; laugardagur Hraðnámskeið Upprifjun á notkun „Win-Test” keppnisforritsins Yngvi Harðarson, TF3Y 10:00-12:00 Kaffiveitingar
16. okt.; sunnudagur Söludagur Félagsmenn kaupa/selja tæki/búnað (uppboð kl. 14:00) Uppboðshaldari: Vilhjálmur, TF3VS 13:00-15:00 Léttar veitingar (kaffi, gos)
20. okt.; fimmtudagur Erindi JX50 DX-leiðangurinn sumarið 2011 í máli og myndum Jón Erlingsson, TF3ZA 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
22. okt.; laugardagur Kynningardagur DX-sambönd um gervitungl; sýnikennsla frá TF3IRA Benedikt Sveinsson, TF3CY 14:00-17:00 Kaffiveitingar
27. okt.; fimmtudagur Erindi Merki og mótun Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
N Ó V E M B E R          
Mán.- og vikudagur Viðburður Heiti erindis/upplýsingar Fyrirlesari/leiðbeinandi Tímasetning Skýringar/annað
3. nóv.; fimmtudagur Erindi „EzNEC” loftnetsforritið og notkunarmöguleikar þess Guðmundur Löve, TF3GL 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
10. nóv.; fimmtudagur Opið hús Kaffi á könnunni Almennar umræður 20:00-22:00 Almennt opnunarkvöld
12. nóv.; laugardagur Kynningardagur DX-sambönd um gervitungl; sýnikennsla frá TF3IRA Benedikt Sveinsson, TF3CY 14:00-17:00 Kaffiveitingar
17. nov.; fimmtudagur Erindi Neyðarfjarskipti radíóamatöra Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
19. nóv.; laugardagur Hraðnámskeið „WriteLog” keppnisforritið Yngvi Harðarson, TF3Y 10:00-12:00 Kaffiveitingar
20. nóv.; sunnudagur Sófaumræður Sambönd á stafrænum tegundum útgeislunar (RTTY) Ásæll Óskarsson, TF3AO 10:30-12:00 Kaffiveitingar; 1. sunnudagsopnun
24. nóv.; fimmtudagur Heimildarmynd DVD mynd frá DX leiðangri í boði TF4M Guðmundur Sveinsson, TF3SG 20:30-21:15 Kaffiveitingar
27. nóv.; sunnudagur Sófaumræður Íslenska reglugerðin Jónas Bjarnason, TF2JB 10:30-12:00 Kaffiveitingar; 2. sunnudagsopnun
D E S E M B E R          
Mán.- og vikudagur Viðburður Heiti erindis/upplýsingar Fyrirlesari/leiðbeinandi Tímasetning Skýringar/annað
1. des.; fimmtudagur Erindi Viðurkenningaskjöl radíóamatöra Jónas, TF2JB og Guðlaugur, TF8GX 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
4. des.; sunnudagur Sófaumræður Að gera upp gömul lampatæki Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB 10:30-12:00 Kaffiveitingar; 3. sunnudagsopnun
8. des.; fimmtudagur Erindi Geislunarhætta í tíðnisviðum radíóamatöra Bjarni Sigurðsson, sérfræðingur hjá PFS 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15
11. des.; sunnudagur Sófaumræður Fæðilínur og skyldir hlutir Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA 10:30-12:00 Kaffiveitingar; 4. sunnudagsopnun
15. des.; fimmtudagur Erindi Smíði loftneta á VHF/UHF og endurvarpamál Benedikt, TF3TNT og Guðjón, TF3WO 20:30-22:00 Kaffihlé kl. 21:15


Dagskrá er sett fram með fyrirvara um breytingar.
Breytingar frá auglýstri dagskrá verða settar á heimasíðu félagsins með eins miklum fyrirvara og frekast er unnt.
Fyrirspurnir/upplýsingar: Kjatan H. Bjarnason, TF3BJ, tölvupóstfang: “kjartan hjá skyggnir.is”.