OPIÐ VAR Í SKELJANESI 3. JÚLÍ.
Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudag 3. júlí.
Mikið var rætt um sumarleika félagsins sem hefjast föstudag 4. júlí kl. 18:00. Fram kom m.a. að Sigurður R. Jakobsson, TF3CW mun virkja félagsstöðina TF3IRA í leikunum.
Ánægja er með nýja keppnisflokkinn í leikunum í ár, sem er fyrir þá sem taka þátt og nota handstöðvar á 2 metrum og 70 sentímetrum (og endurvörpum). Einnig eru menn mjög ánægðir með nýja leikjavefinn fyrir sumarleikana sem kominn er í loftið og þykir vel heppnaður; vefslóð: http://leikar.ira.is
Einnig var rætt um endurvarpana um landið sem Benedikt Guðnason, TF3TNT stendur fyrir rekstri á. M.a. kom fram, að fljótlega verður settur upp nýr Icom VHF endurvarpa fyrir TF5RPD sem er staðsettur í Vaðlaheiðinni, ásamt því að skipt verður um loftnet. Vonast er til að nýr búnaður nái góðri útbreiðslu.
Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS sýndi mönnum tvö ný mælitæki sem hann var að kaupa. Annars vegar NanoVna SAA-2N VNA Antenna Analyzer fyrir mest 3GHz og hins vegar PORT XV NSA SA5 Spectrum Analyzer fyrir mest 5 GHz. Bæði tæki eru kínversk og fengust við góðu verði til landsins.
Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A sem færði félaginu jarðbindibúnað og tvö kross Yagi lofnet (ný og ónotuð) frá M2 sem vinna á UHF. Einnig þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir að laga kaffi og taka til meðlæti og til Einars Sandoz, TF3ES fyrir ljósmyndir.
Alls mættu 18 félagar og 1 gestur þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.

Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!