Vilhjálmur og John við bifreið Vilhjálms (sjá aðlögunarrásina fyrir 160m fyrir miðri framrúðu). Ljósmynd: TF3LMN.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, hefur náð þeim frábæra árangri úr bílnum að undanförnu, að hafa haft sambönd við stöðina T32C, sem er staðsett á Austur-Kiribati í norðurhluta Line eyjaklasans í Kyrrahafi, á samtals 9 böndum, þ.e. 1.8 – 3.5 – 7 – 10 – 14 – 18 – 21 – 24 og 28 MHz. Vilhjálmur sagði, aðspurður, að þetta hafi verið mjög spennandi og bætti við, “…að hefði stöðin mín haft 6 metra bandið, hefði verið mjög gaman að prófa þar líka…”. Þess má geta, að fjarlægðin á milli TF og T32 er tæplega 12 þúsund kílómetrar. Öll samböndin voru höfð á morsi.

Árangur Vilhjálms er einkar athyglisverður hvað varðar lægri böndin, þ.e. 3.5 MHz og 1.8 MHz þar sem sambönd úr farartækjum á þessum tíðnisviðum eru erfið enda bylgjulegndin 80 metrar annarsvegar og 160 metrar hinsvegar og loftnet þar af leiðandi stutt og tapsmikil. Loftnet Vilhjálms eru heimasmíðuð og hann hefur sjálfur sagt að sér reiknist til að nýtnin sé um 2,5% á 160 metrum sem er mjög góð útkoma.

Hann segir nánar um loftnetsbúnaðinn: “Ég er með 2 toppa í takinu, sá styttri er tæpir 2m og sá lengri 3,3m. Með þeim styttri sleppur spólan ein í aðlögunartækinu niður á 160 m, ekki nauðsynlegt að hafa spólu úti þó það sé betra. Með þeim lengri er loftnetið 4,75 m að lengd og nær upp í 6 m yfir götu, um 0,3 m betur ef spóla er í stönginni. Það eru smellitengi á þessu öllu, svo það tekur bara augnablik að breyta loftnetinu”. Þess má geta að lokum, að Vilhjálmur notar 100W stöð í bílnum. Sjá nánar bráðskemmtilega grein eftir hann (með ljósmyndum) um TF3DX/M sem birtist í 1. tbl. CQ TF 2010, bls. 9-11.

Stjórn Í.R.A. óskar Vilhjálmi til hamingju með árangurinn.

Vefslóð fyrir T32C DX-leiðangurinn: http://www.t32c.com/

Kristinn Andersen, TF3KX; Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN; Erling Guðnason, TF3EE og Jón Ingvar Óskarsson, TF1JL.

Vetrardagskrá félagsins hefur gengið með afbrigðum vel það sem af er. Næsti viðburður fer fram á morgun, laugardaginn 22. október í Skeljanesi, kl. 14-17. Þá verður Benedikt Sveinsson, TF3CY, með kynningu á því hvernig DX sambönd fara fram um gervitungl og býður upp á sýnikennslu frá félagsstöðinni, TF3IRA. Þetta er spennandi viðburður, þar sem stöðin er nú að fullu QRV til fjarskipta á 2 metrum og 70 sentímetrum.

Stutt yfirlit yfir gervihnattabúnað TF3IRA:
VHF/UHF hringpóluð Yagi loftnet frá M2. VHF loftnetið netið er af 2MCP14 gerð; 14 staka með 10.2 dBdc ávinningi. UHF netið er af 436CP30 gerð; 30 staka með 14.15 dBdc ávinningi. Rótor er Yaesu G-5400B (í láni frá TF3BJ) er sambyggður fyrir lóðréttar og láréttar stillingar. Með honum fylgir fjölstillikassi (e. Elevation Azimuth Dual Controller) stýranlegur frá tölvu. VHF og UHF formagnarar eru frá SSB-Electronic GmbH. Mögnun er 20 dB/0,8 dB suðhlutfall á VHF og 20 dB/0,9 dB suð-hlutfall á UHF. Kenwood TS-2000 sendi-/móttökustöð félagsins er notuð til fjarskipta um gervitungl. Hún 100W á 144-146 MHz og 50W á 430-440 MHz.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á morgun, verður viðburðurinn endurtekinn laugardaginn 12. nóvember n.k.

Jón Ágúst, TF3ZA, sagði að flest sambönd frá JX50 hafi verið höfð á 30, 20 og 17m böndunum.

Jón Ágúst Erlingsson, TF3ZA, flutti afar fróðlegt erindi félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi þann 20. október í máli og myndum
um 10 daga DX-leiðangur sem farinn var til Jan Mayen fyrri hluta júlímánaðar í sumar (2011). Jón var í hópi átta leyfishafa frá
alls sex þjóðlöndum, Bandaríkjunum, Grikklandi, Íslandi, Póllandi, Sviss og Svíþjóð. Kallmerkið JX5O var starfrækt og þrátt
fyrir tiltölulega óhagstæð skilyrði náðu leiðangursmenn alls 17.844 samböndum.

Erindið var vel sótt (28 félagar) líkt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Margt fróðlegt kom fram, m.a. að meðalhitinn
var um 2°C og kaldara að nóttu til. Veður var yfirleitt rólegt og rakt, en gat verið það rysjótt sem hvorutveggja hafði í för með
sér sandrok og kulda. Tjöldin fuku t.d. ofan af leiðangursmönnum þrisvar sinnum. Jón Ágúst sýndi mikinn fjölda mynda og
fengu fundarmenn góða hugmynd um náttúru eyjarinnar og vakti athygli hversu “æpandi” gróðursnauð hún er. Leiðangurinn
tók sér far með skútu frá Íslandi og tók siglingin um 50 klukkustundir. Aðspurður um hvort hvítabirnir væru ekki algengir á
Jan Mayen, svaraði Jón því til að svo hafi ekki verið undanfarna áratugi. Á hinn bóginn væri ekki hægt að útiloka neitt og
kvaðst hann hafa verið feginn að leiðangurinn hafi verið laus við slíka gesti á meðan dvalið var á eyjunni.

Líkt og áður segir, voru skilyrði fremur léleg, sbr. að aðeins náðust 4 QSO á 6m, ekkert á 10m, 1 QSO á 12m (við TF3EE),
auk þess sem lægri böndin (80 og 160m voru lokuð). 20m bandið gaf bestan árangur, svo og 30m og 17m, auk nokkurra
opnana síðdegis á 15m. Leiðangurinn tók með sér 4 Icom sendistöðvar og 2 Yaesu sendistöðvar, auk 400W RF magnara.
Einnig 2 ljósavélar og 300 lítra af eldsneyti. Loftnet voru 2 HexBeam og lóðrétt stangarloftnet (e. verticals).

Stjórn Í.R.A. þakkar Jóni Ágúst TF3ZA fyrir ánægjulega og fróðlega kvöldstund í Skeljanesi.

Fram kom m.a. að alls náðust 35 QSO við TF-stöðvar, þar af eina sambandið sem náðist á 12 metra bandinu.

Fram kom m.a. að tjöld fuku ofan af leiðangursmönnum í þrígang í miklu hvassviðri og kulda, en hitastig var 2°C.

Erindið var vel sótt og ekki voru til sæti handa öllum líkt og greinilega má sjá á myndinni.

Jón Ágúst Erlingsson, TF3ZA.

Jón Ágúst Erlingsson, TF3ZA, var einn af átta leyfishöfum sem fóru í DX-leiðangur til Jan Mayen sumarið 2011 og starf-
ræktu kallmerkið JX5O. Aðrir leyfishafar (auk Jóns) voru: Stan SQ8X; Vicky SV2KBS/LA7VPA; Bernhard HB9ASZ;
Leszek NI1L; Björn SM0MDG; Tom SQ9C; og Pete SQ9DIE. Þrátt fyrir tiltölulega óhagstæð skilyrði hafði hópurinn alls
17.844 QSO.

Hópurinn sigldi með skútu frá Dalvík og kom til Jan Mayen að morgni 6. júlí. Nokkru fyrr var haldið heim til Íslands á ný
en áætlað var (vegna slæms veðurútlits) og var síðasta sambandið frá JX50 haft þann 14. júlí kl. 14:10. Skútan kom svo
í höfn á Ísafirði tveimur dögum síðar. Hópurinn upplifði ekki einvörðungu slæm skilyrði í stuttbylgjusviðinu (6, 10 og 12
metra böndin voru t.d. einfaldlega lokuð…) heldur lentu þeir einnig í leiðindar veðri (kulda og hvassviðri) með tilheyrandi
erfiðleikum þar sem tjöld hópsins fuku ofan af þeim í þrígang.

Jón Ágúst mun sýna myndir úr leiðangrinum og lýsa því hvernig það er að sigla um borð í skútu til Jan Mayen og þurfa
að taka allt með sér, en hópurinn þurfti að taka með sér allan búnað, þ.m.t. ljósavélar og eldsneyti (en enga þjónustu af
neinu tagi er að fá á eyjunni). Þá mun hann lýsa upplifuninni hvernig það er að starfrækja stöð frá JX landi og lýsa kös-
unum (e. pile-ups) á lægri böndunum. Einnig mun hann lýsa náttúrunni á eyjunni. Þess má geta, að Jón Ágúst er sonur
Erlings Guðnasonar, TF3EE.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að fjölmenna. Veglegar kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Alls fara átta leyfishafar til Jan Mayen; hér eru fimm þeirra. Jón Ágúst, TF3ZA, er fjórði frá vinstri. Ljósm.: TF3ARI.

Fróðleikur um Jan Mayen. Eyjan er í um 600 km fjarlægð norðaustur af Íslandi, um 500 km frá austurströnd Grænlands
og um 1000 km í vestur frá Noregi. Hún er 55 km á lengd og alls um 370 ferkílómetrar að stærð. Jan Mayen er eldfjalla-
eyja og jöklar þekja um þriðjung hennar. Meðalhitinn í júlí er 5°C og víst ekki óalgengt að hitastigið sé við frostmark um
nætur.

Norski herinn og norska veðurstofan halda úti bækistöðvum á eyjunni og þar búa að staðaldri um 20 manns, en yfir
sumartímann fjölgar, bæði af vísindamönnum sem stunda rannsóknir og tjaldferðalöngum (líkt og DX-leiðangursmönnum).
Nánast engin aðstaða er þó fyrir ferðamenn þannig að ferðamenn þurfa að láta berast fyrir í tjöldum. Norski herinn annast
flug til Jan Mayen frá Bodö í Noregi og er flogið með vistir og búnað ca. á 6 vikna fresti.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, býður upp “pöllurnar” góðu (spaðalykilinn) frá Speed-Paddles U.S.A.

Flóamarkaður Í.R.A. að hausti fór fram sunnudaginn 16. október 2011. Alls mættu yfir 35 manns á viðburðinn sem hófst  stundvíslega kl. 13 og stóð yfir fram til kl. 16. Framboð var ágætt, m.a. notaðar UHF stöðvar, mikið af smíðaefni, íhlutir, kassar til smíða, ýmis mælitæki og margs konar aukahlutir, m.a. frá MFJ og Yaesu, auk loftneta fyrir HF, VHF, UHF og SHF böndin frá Mosley, New-Tronics, M2, WiMo og J-Beam. Þá var ágætt framboð af LCD tölvuskjám og sérhæfðum tölvuhlutum. Óhætt er að fullyrða að þeir sem gerðu viðskipti á flóamarkaðnum hafi undantekningarlaust gert góð kaup.

Hápunktur viðburðarins var uppboð á dýrari hlutum og búnaði sem haldið var stundvíslega kl. 14 og annaðist Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, það af einskærri snilld. Alls voru 14 “númer” á uppboðinu og sala með ágætum, en hvað mest var boðið í New-Tronics Hustler 6-BTV stangarloftnet fyrir HF-sviðið og valinkunnar gullhúðaðar “pöllur” (spaðalykil) frá Speed-Paddles. Stórt Mosley TA-53-M 4 staka Yagi loftnet fyrir HF-böndin (sem nýtt) seldist þó ekki, þrátt fyrir sanngjarnt ásett verð og sumir uppboðshlutir seldust jafnvel eftir uppboðið, þegar þeir sem komu seint höfðu náð að kynna sér nánar hlutina, sbr. t.d. nýjan Comtex PS30SW-I 13.8VDC/30A spennugjafa (sem færri fengu en vildu). Stefnt er að því að halda flóamarkað að vori í apríl n.k., en félagið á von á umtalsverðu magni af gefins búnaði, tækjum og íhlutum upp úr áramótunum.

Stjórn Í.R.A. þakkar félagsmönnum fyrir góða þátttöku og Jóni Svavarssyni TF3LMN fyrir myndatökuna.

Margt áhugavert og nýtilegt gat leynst í kössunum. Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, kannar málið.

Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN; Haraldur Þórðarson, TF3HP; og Gunnar Svanur Hjálmarsson, TF3FIN.

Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG; Bjarni Magnússon, TF3BM; og Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ.

Andrés Þórarinsson, TF3AM; Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS; Jónas Bjarnason, TF2JB; og Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, skoða “roller” spólur, einangrara, hverfiþétta og fleira áhugavert.

Gísli G. Ófeigsson, TF3G, gjaldkeri félagsins þótti harður í verðlagningunni, en sanngjarn þegar upp var staðið.

Nokkuð magn var eftir af UHF-stöðvum, borðhleðslutækjum og fleiru.

Hluti af dýrari tækjum og búnaði sem voru til uppboðs á flóamarkaðnum.

Eldri mælitæki og margskonar tæki sem flestallt seldist við vægu verði.

Kristinn Andersen TF3KX flutti erindi um virkan “Faros” forritsins sem býður sjálfvirka vöktun HF-skilyrða.

Fyrsta fimmtudagserindið á vetrardagskrá félagsins 2011 var haldið fimmtudaginn 13. október. Fyrirlesari kvöldsins var Kristinn Andersen, TF3KX, og nefnist erindið: „Faros”; sjálfvirk vöktun HF-skilyrða með radíóvitum. Kristinn útskýrði vel forsendur og nytsemi “Faros” forritsins. Sem dæmi um nytsemi upplýsinganna (en skoða má útbreiðslu eftir tíðnisviðum eftir dögum aftur í tímann) gat hann þess, að við undirbúning fyrir keppnir mætti t.d. skoða skilyrðin eins og þau voru 28 dögum fyrir tiltekna keppni og nota sem vísbendingu um væntanleg skilyrði um tiltekna keppnishelgi. Kerfið notar Windows stýrikerfið (ME, 2000, XP eða Windows 7) og þarf að lágmarki 16 bita hljóðkort ásamt tengingu við viðtæki. Faros” forritið kom fram árið 2006, var hannað af kanadískum radíóamatör, Alex Shovkoplyas, VE3NEA og er ókeypis fyrir radíóamatöra.

Alls eru 18 radíóvitar (dreifðir um heiminn) sem senda upplýsingar, allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Faros nemur sjálfvirkt móttekið merki frá radíóvitum NCDXF (Northern California DX Foundation) í 14, 18, 21 24 og 28 MHz tíðnisviðunum. Ekki er þó nauðsynlegt að hafa viðtæki fyrir öll fimm tíðnisviðin, Faros getur hæglega unnið á einu bandi (en ef það á að vakta fleiri, þarf tölva að geta stýrt viðtækinu). Faros ákveður hvort tiltekinn viti næst eða ekki, metur S/N, QSB og leiðartöfina (gefur upp LP eða SP). Forritið heldur utan um gögnin og getur líka stýrt viðtæki sem hefur hefðbundið tölvuviðmót og þannig skannað böndin (öll fimm ef vill). Útsending frá hverjum radíóavita tekur 10 sekúndur. Á þeim tíma er kallmerki sent út ásamt stuttri burðarbylgju, fyrst á 100W, þá 10W, 1W og 0,1W. “NCDXF” vitakerfið hefur verið við lýði í núverandi mynd frá árinu 1995, en lengi vel hlustuðu íslenskir radíóamatörar (sem aðrir) einfaldlega (og gera enn) eftir eyranu. Líkt og fram kemur að ofan, greinir forritið á milli “SP” og “LP” (e. short and long path). Mælingar sýna m.a. styrk merkis yfir suði og styrkbreytigar í %. Þessar upplýsingar (og fleiri) eru settar upp myndrænt fyrir notendur og eru uppfærðar reglulega. Í erindi sínu, sýndi Kristinn sýndi mjög skemmtilegar myndir þessu til staðfestingar. Meðal vöktunarstöðva sem sent hafa upplýsingar inn í kerfið er TF4M.

Ágæt mæting var á fimmtudagskvöldið þrátt fyrir hífandi rok og rigningu (22 félagsmenn). Bestu þakkir til Kristins Andersen, TF3KX, fyrir ánægjulega og fróðlega kvöldstund í Skeljanesi.

G. Svanur Hjálmarsson TF3FIN og Ari Þór Jóhannesson TF3ARI. Þeir eru báðir áhugasamir um Faros.

Kristinn Andersen TF3KX og Bjarni Sverrisson TF3GB veltu fyrir sér hinu ýmsu möguleikum sem bjóðast í Faros.

Óskar Sverrisson TF3DC og Sigurður Óskarsson TF2WIN. Sigurður sagðist hafa áhuga á að koma upp vita frá TF.

Nýjung að þessu sinni var uppboð á völdum hlutum. TF3VS tók það hlutverk að sér og stóð sig frábærlega vel! (Ljósmyndir: TF2JB).

Flóamarkaður að hausti verður haldinn í félagsaðstöðunni við Skeljanes, sunnudaginn 16. október, á milli kl. 13-15. Félagsmenn geta þá komið með hluti sem þeir vilja selja, gefa eða skipta á, auk þess sem félagið mun bjóða hluti sem því hefur áskotnast gefins eða til sölu við hagstæðu verði. Í fyrra (2010) var kynnt til sögunnar sú nýjung að efna til uppboðs á völdum hlutum á flóamarkaðnum. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, tók að sér verkefnið og þótti takast vel upp. Hann hefur samþykkt að hafa með höndum stjórn á uppboðinu á flóamarkaðnum í ár sem efnt verður til á slaginu kl. 14 á sunnudag.

Líkt og kynnt var á heimasíðu og póstlista þann 4. október s.l., er að þessu sinni boðið upp á þá nýjung, að félagsmenn geti skráð fyrirfram, verðmeiri hluti, sem síðan eru til birtingar á þessum vettvangi. Hér á eftir er birtur listi yfir þær skráningar sem borist höfðu til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS, til dagsins í dag.


ATH. UPPFÆRÐ SKRÁ M.V. FÖSTUDAGINN 14. OKTÓBER KL. 13:00.

Tegund og gerð

Tækniupplýsingar

Ástand

Fylgihlutir

Annað

Lágm.verð

Mosley TA-53-M 4 staka Yagi loftnet fyrir 10, 12, 15, 17 og 20 m böndin Nánast ónotað, var uppi í 3 mánuði “Manual” Ávinningur 6.5-7.9 dBi; bæta má við 40m 65 þús. kr.
Yaesu FT-4700RH FM Sendistöð fyrir 144-146 MHz og 430-440 MHz Í lagi “Manual” Hljóðnemi lélegur 20 þús. kr.
Yaesu FRG 7 Viðtæki; 0,5-30 MHz; AM, SSB, CW Þarfnast yfirferðar Innsetjanleg rafhlöðugeymsla Vel með farið 10 þús. kr.
Yaesu FRG 8800 Viðtæki; 0,15-30 MHz og 118-174 MHz; AM, FM, SSB, CW Þarfnast viðgerðar VHF-tíðnibreytir/FRA 7700/FRT 7700 Vel með farið 20 þús. kr.
Comtex PS30SW-I 230VAC/13.8VDC “switch-mode” 25A spennugjafi Nýr í kassanum” Straumsnúra og “manual” Mælir, vifta, yfirálagsvörn, lýsing o.fl. 12 þús. kr.
WiMo VY-706 6 staka Yagi loftnet fyrir 430-440 MHz Nýtt í kassanum “Manual” Ávinningur 8dB (yfir tvíþól) 12 þús. kr.
M2 2M7 7 staka Yagi loftnet fyrir 144-146 MHz Samsett, nánast ónotað “Manual” Ávinningur 10,3 dB (yfir tvípól) 20 þús. kr.
Cushcraft A-503S 3 staka Yagi loftnet fyrir 50-52 MHz Samsett, nánast notað “Manual” Ávinningur 8dBi 20 þús. kr.
Hustler 6-BTV Loftnet fyrir 10, 15, 20, 30, 40 og 80 m böndin Samsett, notað “Manual” Bæta má við 12m og 17m 20 þús. kr.
Jetstream JTW-270 SWR/PWR mælir fyrir VHF/UHF (með lýsingu) Nýr í kassanum Straumsnúra/”Manual” “Compact Crossneedle” 10 þús. kr.


Félagsmenn geta bætt við tækjum/búnaði við þennan lista sem þeim hugnast að setja á uppboðinu með því að gefa sig á tal við Vilhjálm í félagsaðstöðunni fram til kl. 13:30 á sunnudag.

Undirbúningur flóamarkaðarins hefst síðdegis daginn áður (að laugardeginum) á milli kl. 14 og 18 þegar þeim hlutum sem félagið er aflögufært um verður stillt upp, en á þeim tíma geta þeir félagsmenn einnig mætt sem óska að selja/gefa hluti á flóamarkaðnum og stillt þeim upp. Fyrir þá, sem hentar það betur, er einnig í boði að stilla upp hlutum u.þ.b. klukkustund fyrir opnun á sunnudagsmorgninum (þ.e. frá kl. 12). Aðalatriðið er, að allt verði tilbúið kl. 13 þegar flóamarkaðurinn verður opnaður.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að nota tækifærið og gera góð viðskipti. Kaffi verður á könnunni.

Til gamans eru birtar hér fyrir neðan tvær ljósmyndir sem teknar voru á stærsta flóamarkaði í Evrópu fyrir radíóamatöra
sem haldinn er árlega í tengslum við “Ham Radio” sýningarnar í Friedrichshafen í Þýskalandi. Flóamarkaðurinn stendur
yfir frá föstudegi til sunnudags.

Þorvaldur Stefánsson TF4M og Bjarni Sverrisson TF3GB sunnudaginn 9. október s.l.

Þorvaldur Stefánsson, TF4M, og Bjarni Sverrisson, TF3GB, umsjónarmaður TF útileikanna 2011, mæltu sér mót sunnudaginn 9. október s.l. á heimili þess síðarnefnda. Þar afhenti Bjarni Þorvaldi 1. verðaunin í TF útileikunum 2011, sem eru ágrafinn viðurkenningarskjöldur ásamt viðurkenningarskjali fyrir bestan árangur í útileikum ársins. Heildarstig voru alls 2.234.880, sem er einhver glæsilegasti árangur sem náðst hefur í 32 ára sögu TF útileikanna. Alls tóku 19 stöðvar þátt í viðburðinum að þessu sinni.

Stjórn Í.R.A. óskar Þorvaldi til hamingju með þennan frábæra árangur.

Kristinn Andersen, TF3KX.

Fyrsta fimmtudagserindið á vetrardagskrá félagsins 2011 verður haldið fimmtudaginn 13. október n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Kristinn Andersen, TF3KX, og nefnist erindið „Faros”; sjálfvirk vöktun HF-skilyrða með radíóvitum.

“Faros” forritið kom fram árið 2006. Það var hannað af kanadískum radíóamatör, Alex Shovkoplyas, VE3NEA. Faros nemur sjálfvirkt móttekið merki frá radíóvitum NCDXF (Northern California DX Foundation) í 14, 18, 21 24 og 28 MHz tíðnisviðunum. Ekki er þó nauðsynlegt að hafa viðtæki fyrir öll fimm tíðnisviðin, Faros getur hæglega unnið á einu bandi (en ef það á að vakta fleiri, þarf tölvan að geta stýrt viðtækinu). Faros ákveður hvort tiltekinn viti næst eða ekki, metur S/N, QSB og leiðartöfina (gefur LP eða SP). Forritið heldur utan um gögnin og getur líka stýrt viðtæki sem hefur hefðbundið tölvuviðmót og þannig skannað böndin, öll fimm ef vill.

“NCDXF” vitakerfið hefur verið við lýði í núverandi mynd frá árinu 1995, en lengi vel hlustuðu íslenskir radíóamatörar (sem aðrir) einfaldlega (og gera enn) eftir eyranu. Líkt og fram kemur að ofan, greinir forritið á milli “SP” og “LP” (e. short and long path). Mælingar sýna m.a. styrk merkis yfir suði og styrkbreytigar í %. Þessar upplýsingar (og fleiri) eru settar upp myndrænt fyrir notendur og eru uppfærðar reglulega.

Meðal vöktunarstöðva sem sent hafa upplýsingar inn í kerfið er TF4M. Kerfið notar Windows stýrikerfið (ME, 2000, XP eða Windows 7) og þarf að lágmarki 16 bita hljóðkort ásamt tengingu við viðtæki (sem tengt er loftneti) fyrir ofangreind fimm tíðnisvið.


Vefslóðir til fróðleiks:

http://www.dxatlas.com/Faros/

http://www.astrosurf.com/luxorion/qsl-review-propagation-software-beacon.htm

http://www.ncdxf.org/beacon/monitors.html


Félagar, fjölmennum! Veglegar kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Bjarni Sverrisson, TF3GB.

Bjarni Sverrisson, TF3GB, skýrði frá úrslitum í TF útileikunum 2011; viðurkenningarhafar voru alls 13 talsins.

Bjarni Sverrisson, TF3GB, umsjónarmaður TF útileikanna, kynnti niðurstöður leikanna fyrir árið 2011 í gær, 6. október, í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Alls tóku 19 stöðvar þátt þetta árið samanborið við 22 í fyrra og hlutu 13 viðurkenningar og verðlaun (þar af 3 stöðvar mannaðar Íslendingum sem tóku þátt frá Noregi og Svíþjóð). Þorvaldur Stefánsson, TF4M, reyndist sigurvegari útileikanna árið 2011 með alls 2.234.880 stig, sem er glæsilegur árangur. Þorvaldur hlaut ágrafinn verðlaunaplatta að launum (sjá mynd). Guðmundur Löve, TF3GL, varð í öðru sæti og Georg Magnússon, TF2LL, í þriðja sæti. Kvöldið var mjög vel heppnað og mættu alls 26 félagsmenn á staðinn.

Þeir sem voru umsjónarmanni til aðstoðar við yfirferð fjarskiptadagbóka og útreikninga voru þeir Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Kristinn Andersen, TF3KX; og Óskar Sverrisson, TF3DC. Brynjólfur Jónsson, TF5B, viðurkenningastjóri félagsins, annaðist hönnun og framleiðslu viðurkenningaskjala. Bjarni Sverrisson, TF3GB, mun nánnar gera grein fyrir niðurstöðum útileikanna í 4. tbl. CQ TF sem kemur út síðar í mánuðinum.

Glæsilegur árangur Þorvaldar Stefánssonar, TF4M, tryggði honum 1. verðlaunin.

Skínandi góður árangur var einnig hjá Guðmundi Löve, TF3GL, sem tryggði honum 2. sætið.

Viðurkenningum veitt móttaka 6. október. Frá vinstri: Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Löve, TF3GL; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Bjarni Sverrisson, TF3GB; Jónas Bjarnason, TF2JB; og Jón Þ. Jónsson, TF3JA. Þess má geta að verðlaunahafar sem vantar á myndina áttu ýmist ekki heimangengt eða voru staddir erlendis

Bjarni Sverrisson, TF3GB; Vilhjálmur Kjartansson, TF3DX (nýkominn heim frá KH6); og Stefán Arnadal, TF3SA.

Benedikt Sveinsson, TF3CY, var mjög ánægður með skjalið og segist stefna að 1. verðlaununum næsta sumar.

Ari Þór Jóhannesson, TF3ARI; Benedikt Guðnason, TF3TNT; Guðjón Helgi Egilsson, TF3WO; og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN.

Ari Þór Jóhannesson, TF3ARI; Guðmundur Löve, TF3GL; Gunnar Svanur Hjálmarsson, TF3FIN; og Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA.

Eftir ahendingu verðlauna og kaffihlé, var skeggrætt um loftnet. Frá vinstri: Yngvi Harðarson, TF3Y; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Löve, TF3GL; Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX; og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN.

Stjórn Í.R.A. færir hlutaðeigandi hamingjuóskir með árangurinn.

Bestu þakkir til Gísla G. Ófeigssonar, TF3G, sem tók ljósmyndirnar sem fylgja frásögninni.

Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS.

Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS, mun stjórna uppboði á flóamarkaðnum 16. október.

Nokkur undanfarin ár hefur Í.R.A. staðið fyrir árlegum flóamarkaði/söludegi innan félagsins. Félagsmenn hafa þá geta komið með hluti sem þeir vilja selja, gefa eða skipta á, auk þess sem félagið hefur boðið hluti sem því hefur áskotnast gefins eða til sölu við hagstæðu verði. Í fyrra (2010) var kynnt til sögunnar sú nýjung að efna til uppboðs á völdum hlutum á flóamarkaðnum. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, tók að sér verkefnið og þótti takast vel upp. Hann hefur nú samþykkt að hafa með höndum stjórn á uppboði á flóamarkaðnum sem efnt verður til í félagsaðstöðunni, sunnudaginn 16. október n.k.

Að þessu sinni er hugmyndin að bjóða upp á nýjung í tengslum við flóamarkaðinn. Það er, að félagsmenn sem hafa áhuga á að selja stöðvar, aukahluti eða verðmeiri búnað, m.a. loftnet, geta nú skráð þá hluti fyrirfram hjá félaginu. Upplýsingunum verður safnað saman frá og með deginum í dag (4. október), og áfram næstu daga, eða til 11. október. Degi síðar, 12. október, verður síðan birtur listi með þessum upplýsingum hér á heimasíðunni, svo menn geti fengið nokkra hugmynd fyrirfram um það, sem verður í boði á flóamarkaðnum. Þeir sem hafa áhuga, geta skráð tæki og búnað hjá Vilhjálmi, TF3VS, með því að senda honum tölvupóst með upplýsingunum á póstfangið: tf3vs(hjá)ritmal.is

_____________________________________________________________________

Dæmi um upplýsingar sem ágætt er að skrá hjá Vilhjálmi:

1. Tegund og gerð: Yaesu FT-840 100W SSB/CW sendistöð fyrir 10-160m böndin.
2. Vinnsluspenna: 13.8VDC.
3. Ástand: Í góðu lagi.
4. Fylgihlutir: 500 Hz kristalsía (fyrir mors), handhljóðnemi, leiðbeiningabók og straumsnúra.
5. Aðrar upplýsingar: Mjög vel með farin.
6. Lágmarksverð: 60 þúsund krónur.
_____________________________________________________________________


Stjórn Í.R.A. hvetur félaga til að nýta tækifærið og koma tækjum/búnaði í verð sem e.t.v. hefur ekki verið notaður í einhvern tíma (eða jafnvel svo árum skiptir). Nú býðst tækifæri til að gera bragarbót á.

F.h. stjórnar,

73, Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður.

Langþráðu takmarki var náð í síðustu viku, en þá voru DXCC viðurkenningaskjölin þrjú fyrir TF3IRA sótt í innrömmun og bíða nú uppsetningar. Þess má geta, að ARRL hefur staðfest að DXCC viðurkenningaskjöl hafi ekki áður verið gefin út á félagsstöðina. Um er að ræða þrjú viðurkenningaskjöl, þ.e. fyrir mors (CW), tal (Phone) og allar tegundir útgeislunar (Mixed). Hugmyndin var upphaflega að leitast við að fá skjölin til landsins í tíma fyrir 65 ára afmæli félagsins þann 14. ágúst s.l., sem náðist ekki. Mestu skiptir að viðurkenningaskjölin eru komin í hendur félagsins verður valin staðsetning í fjarskiptaherbergi félagsins næstu daga í samráði við stöðvarstjóra. Búist er við, að hægt verði að sækja um fjórða skjalið fyrir stafrænar mótanir (Digital modes) fyrir áramót. Ástæða er til að taka fram, að DXCC viðurkenningaskjölin eru félagssjóði að kostnaðarlausu, þ.e. umsóknargjald til ARRL, sendingarkostnaður og kostnaður við innrömmun eru gjöf til félagsins. Viðkomandi eru færðar bestu þakkir.