AFBRAGÐSGOTT ERINDI TF1OL.
Vordagskrá ÍRA hélt áfram 15. maí í Skeljanesi. Þá mætti Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL með erindið „Með stöð og búnað umhverfis jörðina á 75 dögum“ en Ólafur og XYL lögðu upp í ævintýraferðalag 15. janúar og komu aftur til landsins 1. apríl.
Þau hjón heimsóttu Singapore, Ástralíu (Sydney, Brisbane, Tasmania VK7/TF1OL, Melbourne VK3/TF1OL, Adelaide VK5/TF1OL og Perth VK6/TF1OL), Nýja Sjáland (ZL/TF1OL Auckland), Tahiti (FO/TF1OL), Hawaii (KH6/TF1OL) og Bandaríkin (W6/TF1OL). Ólafur var QRV á alls 12 stöðum frá 5 DXCC einingum og hafði nær 8 þúsund QSO um allan heim, þ.á.m. til Íslands. Hann fékk úthlutað sérstöku kallmerki, 9V1OL í Singapore en var QRV frá öðrum löndum sem „/TF1OL“. Flest sambönd voru höfð á FT4 og FT8 samskiptareglum undir MFSK mótun.
Ólafur sagði okkur ferðasöguna og sýndi mikið af skemmtilegum ljósmyndum frá þessu mikla ferðalagi. Hann hafði ennfremur til sýnis búnaðinn á staðnum sem hann notaði í ferðinni. Það var Icom IC-7300 100W HF sendi-/móttökustöð og JPC-7 ferðaloftnet fyrir 40, 20, 15, 10 og 6 metra, fyrir mest 100W. Netið má setja upp sem [styttan] dípól, „V loftnet“ eða stangarloftnet og JPC-12 ferðaloftnet (sjá myndir). Full stærð er 6,60 metrar samsett, en aðeins 35cm ósamsett og 1.8 kg. Allur búnaðurinn komst fyrir í bakpoka sem var nauðsynlegt (sjá mynd).
Mjög mismunandi var hvernig aðstæður voru til að setja upp loftnet á hverjum stað, þar sem gistiaðstaða var mismunandi og stundum þar sem jafnvel var hægt að setja upp loftnet í bakgarðinum. Þrátt fyrir að hafa fengið úthlutað kallmerkinu 9V1OL gat hann ekkert verið í loftinu frá Singapore þar sem aðstæður voru ekki til að setja upp loftnet. Mismunandi skilyrði voru í ferðinni, t.d. afbragðsgóð frá Thaiti eða um 3.000 QSO, aðallega við Japan. Mjög var mismunandi hvernig suð og truflanir voru á hverjum stað, t.d. S9 í W6 í Los Angeles og aðeins 130 sambönd. Þá voru skilyrðin sumstaðar frekar slæm og nánast ekkert náðst t.d. í Evrópu frá Hawaii.
Sérstakar þakkir til Ólafs Arnar Ólafssonar, TF1OL fyrir afbragðsgott, skemmtilegt og áhugavert erindi.
Alls mættu 12 félagar í Skeljanes þetta ágæta vorkvöld í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til Ólafs, TF1OL, Einars Santoz, TF3ES og Njáls H. Hilmarssonar, TF3NH fyrir ljósmyndir.
Stjórn ÍRA.








Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!