,

Vel heppnaður kynningarfundur í Skeljanesi

Frá kynningarfundi á vetrardagskrá Í.R.A. í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 27. september.

Vel heppnaður kynningarfundur nýrrar vetrardagskrár var haldinn í félagsaðstöðunni í Skeljanesi í gær, þann 27. september. Á fundinum var einnig opin málaskrá þar sem í boði er fyrir félagsmenn að ræða félagsstarfið við stjórn. Þrátt fyrir hvassviðri og rigningu í höfuðborginni mættu yfir 30 félagsmenn á fundinn auk gesta. Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður, annaðist kynningu dagskrár og Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, gjaldkeri, stjórnaði opinni málaskrá.

Jónas Bjarnason TF3JB þakkaði sérstaklega þeim fjölmörgu félagsmönnum sem lagt hafa hönd á plóg.

Fram kom hjá formanni, að alls er 21 viðburður í boði á þessum fyrrihluta vetrardagskrárinnar (á starfsárinu) sem stendur yfir frá 27. september til 13. desemberog að alls 17 félagar koma að verkefninu. Meðal nýjunga má nefna, að í fyrsta skipti verður boðið upp á stöðupróf í morsi sem er í umsjá þeirra Stefáns Arndal, TF3SA og Guðmundar Sveinssonar, TF3SG. Annars verða sjö fimmtudagserindi, fjórar sunnudagsopnanir, þrjú hraðnámskeið, árlegur flóamarkaður og sýning nýrrar DVD heimildarmyndar frá DX-leiðangrinum til HKØNA. Vetrardagskránni lýkur síðan með veglegu jólakaffi Í.R.A. þann 13. desember.

Kjartan H. Bjarnason TF3BJ sagðist leggja mikla áherslu á að félagarnir hefðu tækifæri til að gefa stjórn félagsins umsögn og ábendingar um að félagið væri á réttri leið.

Fram kom m.a. hjá gjaldkera, að dagskrárliðurinn “opin málaskrá” er hugsaður til umræðna um það sem efst er á baugi hjá stjórn félagsins og til að fá umsögn og umræður félaganna um þau mál og um hver önnur þau mál sem menn óska að ræða. Umræður voru m.a. um endurvarpa félagsins, væntanlegt námskeið til amatörprófs (eftir áramót), nýtt tíðnisvið á 472-479 kHz, endurnýjun á sérstökum heimildum á 1850-1900 kHz, 5 MHz og 70 MHz. Þá var rætt um verkefni tveggja starfshópa sem nýlega voru skipaðir á vegum félagsins til umfjöllunar um neyðarfjarskiptastefnu Í.R.A. og um fjaraðgang. Loks kom félagsritið CQ TF til umfjöllunar hvað varðar þá ákvörðun stjórnar að hætta að prenta blaðið vegna mikils kostnaðar (sem menn voru sammála).

Kjartan sýndi PowerPoint glærur með yfirliti um helstu mál sem eru á döfinni hjá Í.R.A. um þessar mundir.

Kaffiveitingar á fundinum voru frá Björnsbakaríi á Seltjarnarnesi og líkuðu þær mjög vel.

Vetrardagskráin verður sett fljótlega til birtingar á rafrænu formi inn á heimasíðu félagsins. Stjórn Í.R.A. þakkar Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir meðfylgjandi ljósmyndir sem teknar voru á fundinum. Þá er ónefndum félagsmanni þakkað, sem færði félaginu að gjöf meðlæti með kaffinu þetta fimmtudagskvöld.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

fourteen − five =