,

TF8RPH – nýr endurvarpi QRV á Garðskaga

Ari Þ. Jóhannesson TF3ARI við uppsetningu loftnets fyrir TF8RPH á Garðskaga 21. apríl. Ljósm.: TF8SM.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, gerðu ferð suður á Garðskaga 21. apríl settu upp loftnet og tengdu Kenwood endurvarpsstöð félagsins.

Kallmerkið er TF8RPH. Endurvarpinn tekur á móti á 145.125 MHz og sendir út á 145.725 MHz. Þessi endurvarpi er frábrugðinn öðrum endurvörpum félagsins að því leyti, að með sendingunni inn á hann þarf að fylgja sérstakur tónkóði, DCS 023, svo hann opnist. Þetta fyrirkomulag verður notað til prufu til að byrja með. Fljótlega verður skipt yfir á CTCSS læsingu, en þess má geta að nánast allar verksmiðjuframleiddar metrabylgjustöðvar fyrir radíóamatöra undanfarna þrjá áratugi eru búnar tónkóðun af því tagi. (Ath. að hægt er að hlusta á sendingar frá TF8RPH í venjulegu viðtæki eða stöð, þ.e. ekki þarf að afkóða sendingar í móttöku).

Endurvarpinn er af gerðinni Kenwood TKR-750, sendir út 25W FM á “wideband” mótun. Til umræðu er, að skipta yfir á “narrowband” mótun. Loftnetið er OPEC UVS-300 húsloftnet sem er u.þ.b. 12 metra yfir jörðu.
Stöðin sendir út auðkenni á morsi á 30 mínútna fresti.

Um er að ræða sérstakt tilraunaverkefni á vegum félagsins og er miðað við að endurvarpinn verði a.m.k. QRV það sem eftir lifir af þessum mánuði og út næsta mánuð (maí). Þá verður tekin ákvörðun um hvort verður af framtíðarstaðsetningu á þessum stað. Sjá nánar umfjöllun í 2. tbl. CQ TF sem er væntanlegt í næstu viku.

Um leið og stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að prófa nýja endurvarpann, eru þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI og Sigurði Smára Hreinssyni, TF8SM, færar þakkir fyrir að hafa veg og vanda af uppsetningu stöðvarinnar. Bestu þakkir einnig til Páls B. Jónssonar, TF8PB, fyrir að lána loftnet fyrir TF8RPH.

Ari Þórólfur gengur frá tengingu TKR-750 við “Cavity” síurnar sex frá Decibel Products. Ljósmynd: TF8SM.

Loftnet TF8RPH er staðsett á turninum við vitavarðarhúsið. Myndin var tekin á Vita- og vitaskipahelginni 2010.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

eleven + three =