Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 9. janúar.

Áramótakveðjur,

Stjórn ÍRA.

Vetrarmynd frá Skeljanesi. LJósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir góð samskipti á liðnum árum.

Nú styttist í janúarhefti CQ TF.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 12. janúar n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári 2020.
Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 9. janúar n.k.

Jólakaffi ÍRA 2019 var haldið í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 19. desember og var það síðasta opnunarkvöld okkar í Skeljanesi á þessu ári. Félagsaðstaðan opnar næst fimmtudaginn 9. janúar 2020.

Í boði var rjómaterta frá Reyni bakara í Kópavogi, stundum kennd við Hressingarskálann í Reykjavík. Brauðterta með rækjusalati frá veisluþjónustu Jóa Fel, hátíðakleinur frá Kökugerð HP á Selfossi, hvít jólaterta og brún jólaterta frá tertugalleríi Myllunnar, jólasmákökur með súkkulaðibitum frá Kökum og tertum; 17 sortum, Göteborgs jólapiparkökur, danskar rommkúlur frá Danish Bakery, piperkökuhringur og smáhringir (kleinuhringir) frá Bakarí Sandholt og súkkulaðirúlluterta frá Meyers Bageri í Kaupmannahöfn.

Kvöldið heppnaðist vel. Alls mættu 32 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta veðurstillta og fagra vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 19. desember. Mynd frá árlegu jólakaffi ÍRA sem hófst stundvíslega kl. 20:00.
Alltaf hressir. Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Georg Kulp TF3GZ og Mathías Hagvaag TF3MH.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Höskuldur Elíasson TF3RF og Ágúst H. Bjarnason TF3OM.
Sigurður Kolbeinsson TF3-066 (fremst til vinstri), Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Bjarni Sverrisson TF3GB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Benedikt Sveinsson TF3T og Jón Björnsson TF3PW (lengst til hægri).
Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Bendikt Sveinsson TF3T og Baldur Þorgilsson TF3BP.
Heimir Konráðsson TF1EIN (fjær), Baldvin Þórarinsson TF3-033, Óskar Sverrisson TF3DC og Ari Þórólur Jóhannesson TF1A.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Björn Þór Hrafnkelsson TF8TY, Mathías Hagvaag TF3MH, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Vilhjálmur Í. Sigurjónson TF3VS.
Björgvin Víglundsson TF3BOI, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Jón Björnsson TF3PW.
Bjarni Sverrisson TF3GB, Kristján Benediktsson TF3KB, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Myndir: TF3JB.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, setti TF3YOTA í loftið frá fjarskiptaherbegi TF3IRA í Skeljanesi 19. desember. Fyrst á 14 MHz og þegar skilyrði hurfu á því bandi skipti hún yfir á gervihnattastöð félagsins til fjarskipta um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins, aðstoðaði Elínu og birti m.a. skemmtilegt myndskeið af fjarskiptunum á Facebook.

YOTA verkefnið hófst í fyrra (2018) og verður starfrækt í desember ár hvert. Það er hugsað til að auka áhuga ungs fólks á amatör radíói. Verkefnið er á vegum IARU Svæðis 1 og eru öll landsfélög radíóamatöra innan Svæðisins þátttakendur (auk landsfélaga á Svæðum 2 og 3).

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, er ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri ásamt Árna Frey Rúnarssyni, TF8RN. Þau áforma að virkja kallmerkið á sem flestum HF böndum (eftir skilyrðum) út mánuðinn, auk sambanda um OSCAR-100 gervitunglið.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ við hljóðnemann á TF3YOTA í sambandi um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið. Ljósmynd: TF3JB.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2020. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2019/20 verður fimmtudagskvöldið 9. janúar 2020. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 10 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

17. desember 2019,

73,

Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Alls náðu átta einstaklingar prófi til amatörleyfis sem haldið var á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar, laugardaginn 14. desember í Háskólanum í Reykjavík.
Þeir eru:

Árni Helgason, Patreksfirði.
Björgvin Víglundsson, Reykjavík.
Eiður K. Magnússon, Reykjavík.
Gunnar B. Pálsson, Reykjavík.
Pétur Ólafur Einarsson, Reykjavík.
Sigurður Kolbeinsson, Reykjavík.
Sveinn Aðalsteinsson, Reykjavík.
Þorsteinn Björnsson, Kópavogi.

Stjórn ÍRA óskar þeim til hamingju og býður þá velkomna í loftið.

Fjórða og síðasta sunnudagsopnun á vetrardagskrá félagsins var í boði sunnudaginn 15. desember. Jónas Bjarnason, TF3JB, mætti í Skeljanes og fjallaði um helstu niðurstöður radíótíðniráðstefnu Alþjóða fjarskipta-sambandsins ITU, WRC-19, sem lauk þann 22. nóvember s.l.

Farið var sérstaklega yfir samþykkt ráðstefnunnar um 50 MHz bandið. Hún er stigskipt (eins og við var búist), þ.e. 44 þjóðríki á Svæði 1 munu veita leyfishöfum ríkjandi aðgang á 500 kHz (á 50-54 MHz) og 26 ríki munu veita ríkjandi aðgang að öllu sviðinu.  Öll þjóðríki í Svæði 1 hafa samþykkt að veita radíóamatörum víkjandi aðgang að 50-52 MHz. Aðrar þjónustur sem fyrir voru með úthlutun í Svæði 1 og Svæði 3 munu halda fyrri heimildum. Núverandi ríkjandi aðgangur radíóamatöra að 50-54 MHz í Svæðum 2 og 3 helst óbreyttur.

Nánari útfærsla á 50 MHz tíðnisviðinu fer nú fram hjá hverju aðildarríkja ITU á næstu misserum. Fram kom, að ÍRA hefur þegar sett sig í samband við Póst- og fjarskiptastofnun vegna útfærslu tíðnisviðsins hér á landi.

Farið var ennfremur yfir önnur tíðnisvið, m.a. 5 GHz og 47 GHz og undirbúning næstu radíótíðniráðstefnu (WRC-23) með tilliti til 1240-1300 MHz tíðnisviðsins, sem kann að verða í hættu þá. Hann skýrði jafnframt frá þeim rástöfunum sem IARU hefur þegar hafið undirbúning á til að verja tíðnisviðið. Ennfremur var fjallað um WPT heimildir (e. Wireless Power Transmission) sem geta haft áhrif á fjarskipti radíóamatöra á HF böndunum (og á tíðnisviðum þar fyrir neðan).

Alls mættu 8 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þennan frostfagra og sólríka sunnudagsmorgun.

Alls voru 12 skráðir til prófs Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis, sem haldið var laugardaginn 14. desember í Háskólanum í Reykjavík. Þar af sátu 10 próf í raffræði og radíótækni og 9 próf í reglum og viðskiptum.

Þegar tíðindamaður þurfti að víkja af vettvangi um kl. 16:00 var prófsýning í gangi. Almennt var að heyra á þátttakendum að prófið hafi verið sanngjarnt.

Fréttir af útkomu úr prófinu verða birtar strax og þær liggja fyrir frá PFS eftir helgina.

Þátttakendur í prófi Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis 14. desember. Á myndinni eru einnig þeir Jón Björnsson TF3PW umsjónarmaður námskeiða ÍRA og Einar Kjartansson TF3EK í prófnefnd. Einn þátttakanda vantar á myndina. Ljósmynd: TF3JB.

Stjórn ÍRA óskar þátttakendum í prófi Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis, sem fram fer laugardaginn 14. desember í Háskólanum í Reykjavík góðs gengis.

Jafnframt er starfsmönnum Póst- og fjarskiptastofnunar, prófnefnd ÍRA, leiðbeinendum á námskeiði ásamt umsjónarmanni og öðrum þeim sem að verkefninu komu, færðar þakkir fyrir gott framlag.

Þá vill félagið ennfremur þakka stuðning forráðamanna Háskólans í Reykjavík fyrir þann velvilja sem félaginu er sýndur með aðgangi að kennslurými skólans.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Síðasti viðburður á vetrardagskrá ÍRA október-desember 2019 er árlegt jólakaffi félagsins, sem haldið verður í félagsaðstöðunni í Skeljanesi, fimmtudaginn 19. desember.

Húsið verður opnað kl. 20:00 að venju.

Þetta verður jafnframt síðasta opnun félagsaðstöðunnar á þessu ári en hún verður næst opin fimmtudaginn 9. janúar 2020.

Stjórn ÍRA.

Prófnefnd ÍRA hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Amatörpróf Póst- og fjarskiptastofnunar verða haldin í Háskólanum í Reykjavík, stofu V109, laugardaginn 14. desember 2019, sem hér segir:

10:00-12:00  Raffræði og radíótækni
13:00-15:00  Reglur og viðskipti
15:30             Prófsýning

Almenn skráning í próf fer fram með tölvupósti, sem senda skal á bæði þessi netföng: hrh@pfs.is bjarni@pfs.is

hjá Póst- og fjarskiptastofnun, með efnisorðinu „prófskráning“. ÍRA sendir inn lista fyrir þá sem eru skráðir á námskeiðið sem nú er í gangi.

Eftirfarandi stuðningsúrræði, sem varða lestur, eru í boði ef um það er beðið með 2ja daga fyrirvara með því að hringja í Vilhjálm, TF3DX, í síma 567-4013.

a. litaður pappír, folgrænn eða drapplitur og b. stækkun í A3.

Stjórn ÍRA.