,

Lokað í Skeljanesi fimmtudaginn 19. apríl

Ákveðið hefur verið að félagsaðstaða Í.R.A. við Skeljanes verði lokuð fimmtudaginn 19. apríl n.k. sem er sumardagurinn fyrsti. Næsti opnunardagur félagsaðstöðunnar verður fimmtudaginn 26. apríl, en þá lýkur vetrardagskrá félagsins á yfirstandandi starfsári með erindi Benedikts Sveinssonar, TF3CY, um QRO málefni (sem verður nánar kynnt síðar).

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.

,

Fræðslukvöld fyrir verðandi próftaka 18. apríl.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS

Næstkomandi miðvikudagskvöld, 18. apríl kl. 20:00 verður haldið fræðslukvöld fyrir verðandi próftaka í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes. Allir eru hvattir til að mæta, sérstaklega þeir sem ekki hafa áður fengið umfjöllun um þetta efni. Dagskrá er eftirfarandi:

1. Réttindi, ábyrgð og siðir radíóamatöra, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS.
2. Mótun og stilling hennar, ágrip af fræðum og sýnikennsla, Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.

Fræðileg umfjöllun verður knappari en vera myndi á námskeiði, svo gott væri ef þátttakendur væru
búnir að kynna sér og prenta út skjalið Merki og mótun, sem er að finna á heimasíðu Í.R.A.
Vefslóð: http://www.ira.is/namsefni/

Einnig verður kannaður áhugi þátttakenda á að fá 1-2 dæmakvöld í vikunni fyrir próf.

F.h. stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

,

Truflanir í segulsviðinu

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá 1957.

Töluverðar truflanir hafa verið í segulsviðinu s.l. sólarhring, 12.-13. apríl, sbr. meðfylgjandi línurit. Á línuritunum má sjá stöðuna frá kl. 10 árdegis (í gær) til kl. 10 árdegis í dag, 13. apríl. Truflanirnar hófust upp úr kl. 16 í gær (12. apríl). Skilyrðaspár benda til að þær geti haldið eitthvað áfram.

Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla (nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

,

Fimmtudagserindi TF3CY í dag frestast

Benedikt Sveinsson, TF3T

Erindi Bendikts Sveinssonar, TF3CY, sem halda átti í kvöld, fimmtudaginn 12. apríl kl. 20:30 er hér með frestað af óviðráðanlegum ástæðum um 2 vikur til fimmtudagsins 26. apríl n.k. kl. 20:30.

Opið hús verður í Skeljanesi í kvöld frá kl. 20-22:00 og kaffi á könnunni.

,

Próf til amatörleyfis verður haldið 28. april

Hluti nemenda sem sat próf til amatörleyfis í félagsaðstöðunni við Skeljanes í maí 2011.

Próf til amatörleyfis verður haldið laugardaginn 28. apríl 2012 í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes í Reykjavík. Prófið hefst stundvíslega kl. 10 árdegis. Hafa skal meðferðis blýanta, strokleður, reglustiku og reiknivél sem ekki getur geymt gögn. Önnur gögn eru ekki leyfð.

Prófið er í tveimur hlutum: Amatörpróf í undirstöðuatriðum raffræði og radíótækni. Það er í 30 liðum. Lágmarkseinkunn 4,0 gefur rétt til N-leyfis og 6,0 til G-leyfis. Próf í reglugerð og viðskiptum: Það er í 20 liðum. Lágmarkseinkunn 6,0 gefur rétt til G-leyfis og 4,0 til N-leyfis. Prófnefnd Í.R.A. semur prófin og annast framkvæmd prófhalds, að viðstöddum fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar.

Að jafnaði eru prófin dæmd og bráðabirgðaeinkunn gefin í framhaldi af prófhaldinu, gjarnan 2 – 3 klst síðar. Þá fer fram prófsýning í Skeljanesi ef aðstæður og þátttaka leyfir. Endanleg staðfesting niðurstöðu liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Standast þarf báða hluta prófs til leyfis. Árangur í hvoru prófi stendur framvegis, óháð gengi í hinu prófinu.

Fyrirspurnum má beina til Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX, formanns prófnefndar. Veffang: villik(hjá)hi.is

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Félagsheimili ÍRA

,

18. apríl er alþjóðadagur radíóamatöra

Alþjóðadagur radíóamatöra er 18. apríl ár hvert og ber að þessu sinni upp á miðvikudag. Það var þann mánaðardag árið 1925 sem alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra, International Radio Amateur Union, I.A.R.U., voru stofnuð fyrir 87 árum.

Einkunnarorðin eru að þessu sinni: Gervitungl radíóamatöra: 50 árum fagnað í geimnum (Amateur Radio Satellites: Celebrating 50 Years in Space). Fyrstu gervitungl radíóamatöra voru OSCAR 1 og OSCAR 2 sem send voru á braut umhverfis jörðu þann 12. desember 1961 annarsvegar, og 2. júní 1962 hinsvegar.

Aðildarfélög I.A.R.U. eru í dag starfandi í 166 löndum heims með nær 4 milljónir leyfishafa.

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum til hamingju með daginn!

,

Benedikt TF3CY verður með fimmtudagserindið

Benedikt Sveinsson, TF3T

Næsta erindi á vetrardagskrá Í.R.A. verður haldið í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 12. apríl n.k. Þá kemur Benedikt Sveinsson, TF3CY í Skeljanes og nefnist erindi hans: QRO kvöld; heimasmíði
RF magnara og notkun þeirra.

Benedikt mun m.a. hafa til sýnis heimasmíðaðan QRO RF magnara og fjalla almennt um QRO afl bæði í HF og VHF tíðnisviðunum.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

,

Páskakveðjur

Páskahátíðin nálgast. Næstkomandi fimmtudag, þann 5. apríl, er skírdagur. Félagsaðstaða Í.R.A. við Skeljanes verður lokuð þann dag. Næsti opnunardagur verður fimmtudaginn 12. apríl. Þann dag verður í boði erindi Benedikts Sveinssonar, TF3CY, um QRO málefni (sem verður nánar kynnt síðar).

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

,

Aðalfundur Í.R.A. verður haldinn 19. maí n.k.

Með tilvísan til 16. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar Í.R.A. laugardaginn 19. maí 2012. Fundurinn verður haldinn í Snæfelli (áður “Yale”) fundarsal Radisson Blu hótel Sögu, við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt 18. gr. félagslaga.

Bent er á, að samkvæmt ákvæði í 26. gr. laganna þurfa tillögur að lagabreytingum að berast stjórn félagsins fyrir 15. apríl n.k. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntanlegum áhrifum þeirra.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður Í.R.A.

,

Frá kynningarkvöldi Í.R.A. þann 30. mars

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, formaður prófnefndar í Skeljanesi 30. mars.

Í.R.A. bauð upp á sérstakt kynningarkvöld þann 30. mars í félagsaðstöðunni í Skeljanesi vegna fyrirhugaðs prófs til amatörleyfis sem haldið verður þann 28. apríl n.k. án undangengins námskeiðs, sem auglýst var á heimasíðu félagsins nýlega.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, formaður prófnefndar félagsins annaðist kynninguna. Hann lagði fram og kynnti nýja samantekt nefndarinnar fyrir þá sem áhuga hafa á að sitja próf til amatörleyfis: Námsefni og próf fyrir radíóamatöra. Í framhaldi fór Vilhjálmur yfir og kynnti prófkröfur samkvæmt gildandi reglugerð um starfsemi radíóamatöra. Þá kynnti hann eftirfarandi námsgögn sem lágu frammi á fundinum:
______________________________

(1) Passport to Amateur Radio (J. Lawrence, GW3JGA);
(2) Amatörpróf í raffræði og raftækni, 1. útgáfa. (Prófnefnd Í.R.A.);
(3) Samantekt á námsefni fyrir radíóamatörpróf í reglum og viðskiptum (Prófnefnd Í.R.A.);
(4) Námsefni úr reglugerð um raforkuvirki fyrir radíóamatöra (Prófnefnd Í.R.A.); og
(5) Truflanir frá sendum (Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX).

Auk tilgreindra þátta úr ritinu Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra (J. Devoldere, ON4UN og M. Demeuleneere, ON4WW) í þýðingu Vilhjálms Ívars Sigurjónssonar, TF3VS;
_______________________________

Fram kom m.a., að Póst- og fjarskiptastofnun hefur staðfest að prófið verður haldið í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi laugardaginn 28. apríl n.k. kl. 10 árdegis. Prófað verður bæði á íslensku og ensku. Þess má geta, að flest það efni sem vísað er til hér að ofan má finna á nýju vefsvæði prófnefndar Í.R.A. á  heimasíðu félagsins á eftirfarandi vefslóð: http://www.ira.is/namsefni/

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, fyrir vel heppnaðan viðburð í Skeljanesi og óskar væntanlegum próftökum góðs gengis þann 28. apríl n.k.

Frá kynningarfundi vegna prófs til amatörleyfis í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 30. mars.

,

Vel heppnað fimmtudagskvöld í Skeljanesi

Jón Þóroddur Jónsson TF3JA fjallaði um þróun APRS ferilvöktunar hér á landi og aukna möguleika.

APRS mál voru efst á baugi á vetrardagskrá félagsins í Skeljanesi fimmtudaginn 29. mars. Þeir Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, Joseph Timothy Foley, N1ZRN/TF og Samúel Þór Guðjónsson, TF2SUT, fluttu vel heppnuð erindi. Þau skiptust eftirfarandi:

TF3JA: Þróun APRS ferilvöktunar á Íslandi og framtíðauppbygging gagnvart notum í neyðarfjarskiptum. N1ZRN/TF: “APRS Tracker and Telemetry” (APRS ferilvöktun og hæfni til fjarmælinga). TF2SUT: APRS og árangursrík not þess við sendingar frá TF3CCP úr loftbelg HR nýlega.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Jóni Þóroddi, Joseph og Samúel Þór fyrir vel heppnuð og áhugaverð erindi og Gísla G. Ófeigssyni, TF3G, fyrir myndatökuna. Á þriðja tug félagsmanna hlýddu á erindin.

Joseph Timothy Foley N1ZRN/TF fjallaði um hæfni APRS ferilvöktunar til fjarmælinga.

Samúel Þór Guðjónsson TF2SUT fjallaði um APRS sendingarnar frá TF3CCP úr loftbelg þann 17. mars s.l.

,

Próf 28. apríl, undirbúningsfundur á föstudag

Hluti nemenda sem sat próf til amatörleyfis í félagsaðstöðunni við Skeljanes í maí 2011.


Alls skráðu sig 15 manns í fyrirhugað próf til amatörleyfis án undangengins námskeiðs, sem auglýst var á heimasíðu Í.R.A. nýlega. Stjórn félagsins hefur nú borist jákvæð umsögn prófnefndar félagsins hvað varðar prófhald laugardaginn 28. apríl. Prófað verður bæði á íslensku og ensku. Í.R.A. hefur, í framhaldi, farið þess formlega á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að prófið verði haldið þann dag.

Félagið býður hér með upp á sérstakt kynningarkvöld föstudaginn 30. mars kl. 20:30 í félagsaðstöðu Í.R.A. Sagt verður frá fyrirkomulagi prófs og hvert námsefnið er. Fjölrituð eintök verða á boðstólum. Nýirpróftakar eru sérstaklega hvattir til að koma. Fyrirspurnum má beina á ira hjá ira.is

Félagsheimili ÍRA