CQ World Wide DX keppnin á morsi fór fram helgina 27.-28. nóvember. Dagbækur voru sendar inn fyrir alls 9 TF kallmerki í 2 mismunandi keppnisflokkum, auk viðmiðunardagbóka.

TF1AM  Einm.flokkur, öll bönd, háafl, aðstoð.
TF3DC   Einm.flokkur, öll bönd, háafl, aðstoð.
TF3SG    Einm.flokkur, öll bönd, háafl, aðstoð.
TF3EO   Einm.flokkur, öll bönd, lágafl.
TF3VS    Einm.flokkur, öll bönd, lágafl.
TF8KY    Einm.flokkur, öll bönd, lágafl.
TF3AO   Viðmiðunardagbók (e. check-log).
TF3JB    Viðmiðunardagbók (e. check-log).
TF3W    Viðmiðunardagbók (e. check-log).

Niðurstöður verða birtar í júníhefti CQ tímaritsins 2022.

https://www.cqww.com/

.

TF6M leiðangurinn var farinn í júlí 1978 að Kirkjubæjarklaustri. Áttmenningarnir sem fóru í ferðina hittust á veitingastaðnum Við tjörnina í Reykjavík árið 2008 þegar 30 ár voru liðin frá því að kallmerkið var virkjað, 20-23. júlí 1978.

Við það tækifæri tók Jón Svavarsson, TF3JON ljósmynd af hópnum. Í sumar kom hann á framfæri við TF3JB litmynd sem hann hafði stækkað á pappír. Í lok nóvember komst það síðan í verk að ramma inn ljósmyndina með texta sem segir frá leiðangrinum.

Verkefninu lauk þann 2. desember (2021) þegar myndin var afhent, fyrir hönd áttmenningana í fjarskiptaherbergi TF3IRA, þar sem henni hefur verið valinn staður á vegg til varðveislu.

.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 2. desember.

Þetta var þriðja opnunarkvöldið í röð með grímuskyldu og án kaffiveitinga, enda ríkjandi óvissa þar sem nú virðist hafin 4. bylgja kórónaveirunnar.

Góðar umræður og ágætt opnunarkvöld, enda næg umræðuefni þegar áhugamálið er annars vegar. Þakkir til Hans Konrads Kristjánssonar, TF3FG sem færði okkur áhugavert radíódót, m.a. mælitæki frá Motorola.

Alls komu 10 félagar í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í léttu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 2. desember. Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Sigurður Harðarson TF3WS samþykktu að láta grímurnar falla fyrir myndavélina.
Benedikt Sveinsson TF1T, Þórður Adolfsson TF3DT og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID í fjarskiptaherbergi TF3IRA.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færði radíódót í hús fimmtudaginn 2. desember. Ljósmyndir: TF3JB.

Opnunarsíða heimasíðunnar hefur verið uppfærð.

Í dálknum hægra megin er ný fyrirsögn: SDR VIÐTÆKI YFIR NETIÐ. Þar undir eru vefslóðir á SDR viðtækin fjögur hér á landi sem eru í boði yfir netið, þ.e. Bláfjöll, Bjargtanga, Raufarhöfn og Perluna.

Aðeins neðar er fyrirsögnin TENGLAR. Þar undir eru vefslóðir á þrjár nýjustu ársskýrslur félagsins og þar fyrir neðan er slóð á undirsíðu CQ TF með öllum félagsblöðunum frá árinu 1964.

Þakkir fá Ölvir Styrr Sveinsson, TF3WZ og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS fyrir innsetninguna.

Það er von okkar að þessi breyting verði til þæginda fyrir félagsmenn.

Stjórn ÍRA.

Skjáskot úr KiwiSDR viðtæki eins og eru í Bláfjöllum, á Bjargtöngum og á Raufarhöfn. Þau eru fyrir viðtöku frá 10 kHz til 30 MHz. Hliðstæð mynd kemur fram á Airspy R2 SDR viðtækinu í Perlunni sem þekur tíðnisviðið frá 24-1800 MHz.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 2. desember frá kl. 20-22:00.

Athugið að grímuskylda er í húsnæðinu. Kaffiveitingar verða ekki í boði. Fjarskiptaherbergi TF3IRA og  QSL herbergi verða opin, en fjöldi félaga þar er takmarkaður.

Þessar kröfur eru gerðar í ljósi gildandi reglugerðar heilbrigðisráðherra um hertar opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna Covod-19 – en sér í lagi vegna ríkjandi óvissu í ljósi um nýja bylgju Covid-19 faraldursins.

Vegna kórónaveirunnar er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Undirritu%c3%b0%20regluger%c3%b0%201211%202021.pdf

Mynd úr fundarsal ÍRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 23.-29. nóvember 2021. Samskonar samantektir hafa verið gerðar í átta skipti fyrr á þessu ári.

Alls fengu 16 íslenskir radíóamatörar skráningu að þessu sinni. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW) og tali (SSB) á 10, 15, 17, 20, 30, 40, 60, 80 og  160 metrum, auk QO-100 gervitunglsins.

Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar. Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd:

TF1A                     FT8 á 15, 40 og 160 metrum.
TF1AM                 CW á 40 og 160 metrum.
TF1EIN                 FT8 á 15 og 60 metrum.
TF1OL/P              FT4 og FT8 á 15 og 20 metrum.
TF2CT                  FT8 á 30 metrum.
TF2MSN              FT8 og SSB, 15, 20 og 160 metrum.
TF3E                     SSB á 20 metrum og um QO-100.
TF3IG                   CW á 10 metrum.
TF3JB                   FT8 á 80 metrum.
TF3PPN                FT4 og FT8 á 15 og  20 metrum.
TF3SG                  CW á 15, 20, 40, 80 og 160 metrum.
TF3VE                  FT8 á 60 metrum.
TF3VG                  FT8 á 60 metrum.
TF3W                   CW á 40 og 80 metrum.
TF3XO                  SSB á 20 metrum.
TF5B                     FT8 á 17 og 40 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG var virkur á tímabilinu á morsi á 10 metrum. Myndin er af glæsilegri fjarskiptaaðstöðu hans í Mosfellsbæ. Ljósmynd: Andrés Þórarinsson TF3AM.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 25. nóvember.

Þetta var annað opnunarkvöldið í röð í nokkurn tíma með grímuskyldu, án kaffiveitinga og sem að fjarskiptaherbergi og QSL herbergi voru með takmarkaðan aðgang – enda ríkjandi óvissa þar sem nú virðist hafin ný bylgja af kórónaveirunni.

Góðar umræður voru í félagsaðstöðunni fram til kl. 22:30, enda ætíð næg umræðuefni þegar áhugamálið er annars vegar. Þakkir til Hans Konrads Kristjánssonar, TF3FG sem færði okkur meira af áhugaverðu radíódóti.

Alls komu 9 félagar í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í froststillu í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Góð stemning við stóra fundarborðið. Georg Kulp TF3GZ, Jón Björnsson TF3PW, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Óskar Sverrisson TF3DC og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Þó nokkuð hefur safnast upp að undanförnu af radíódóti í ganginum niðri í Skeljanesi.
TF3FG færði okkur m.a. þessa fjóra Band Pass Filtera í 19″ “rack” kössum 25. nóvember. Ljósmyndir: TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 25. nóvember frá kl. 20:00.

Athugið að grímuskylda er í húsnæðinu. Fjarskiptaherbergi TF3IRA verður opið en mest 3 samtímis og  QSL herbergi en mest 2 samtímis. Kaffiveitingar verða ekki í boði.

Þessar kröfur eru gerðar í ljósi reglugerðar heilbrigðisráðherra um hertar opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna Covod-19 – en sér í lagi vegna ríkjandi óvissu í ljósi þess að nú virðist hafin ný bylgja Covid-19.

Vegna kórónaveirunnar er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Undirritu%c3%b0%20regluger%c3%b0%201211%202021.pdf

Töluvert er af radíódóti í boði á ganginum niðri. Myndin er af Hans Konrad Kristjánssyni TF3FG en hann færði stóra sendingu af áhugaverðu dóti í hús s.l. fimmtudag.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB skoðar 90 cm. loftnetsdisk sem er upplagður fyrir fjarskipti gegnum Oscar 100 gervitunglið. Er í fullkomnu lagi. Armur og LNB festingar fylgja og veggfesting getur fylgt ef óskað er. Ljósmyndir: TF3JB.

Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL stjóri ÍRA QSL Bureau hefur tilkynnt stjórn félagsins um fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá stofunnar.

Forsendur hafa verið skoðaðar og hefur verið ákveðið að kostnaður fyrir hvert kort hækki frá og með 1. desember 2021 í 12 krónur.

Gjaldskráin hækkaði síðast 15. apríl 2019, úr 9,50 í 10 krónur fyrir hvert QSL kort.

Stjórn ÍRA.

Mathías Hagvaag QSL stjóri TF ÍRA QSL Bureau. Mathías sagði, að um væri að ræða uppsafnaða hækkunarþörf auk þess sem Pósturinn hafi breytt verðskrá innbyrðis fyrr á þessu ári. Ljósmynd: TF3JB.

CQ World Wide DX CW keppnin fer fram helgina 27.-28. nóvember. Þetta er 48 klst. keppni og engin tímatakmörk.

Markmiðið er að ná eins mörgum samböndum og hægt er við aðra radíóamatöra um allan heim – í eins mörgum löndum (DXCC einingum) og á eins mörgum CQ svæðum og frekast er unnt. Keppt er á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Þetta er stærsta alþjóðlega keppni ársins á morsi. Í boði eru 66 mismunandi keppnisflokkar (tveir nýir bætast við í ár, „Explorer“ og „Youth“).

Stjórn félagsins hvetur félagsmenn til þátttöku og að skila inn radíódagbókum að henni lokinni.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Heimasíða keppninnar: https://www.cqww.com/index.htm
Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules

75 ára afmæli félagsins Íslenskir radíóamatörar, ÍRA.
Afmælisgjöf frá ORG – Ættfræðiþjónustunni ehf.

Oddur Helgason framkvæmdastjóri ORG – Ættfræðiþjónustunnar ehf., afhenti Jónasi Bjarnasyni, TF3JB formanni ÍRA listaverk í tilefni 75 ára afmælis félagsins í Skeljanesi 17. nóvember s.l. Afhending fór fram að viðstaddri stjórn ÍRA.

Verkið ber nafnið „Bylgjur“ og er eftir listamanninn Lúkas Kárason. Það er unnið úr rekaviði af Ströndum. Oddur sagði, að þeim Reyni Björnssyni (meðeiganda hans í ORG ehf.) hafi fundist verkið passa svo vel við starfsemi radíóamatöra sem væru jú alltaf að fást við radíóbylgjur.

Jónas þakkaði Oddi góð orð og sagðist taka við gjöfinni fyrir hönd félagsins með ánægju og þakkaði góðan hug þeirra félaga til ÍRA.

Oddur Helgason framkvæmdastjóri ORG, Ættfræðiþjónustunnar ehf. afhendir Jónasi Bjarnasyni TF3JB formanni ÍRA listaverkið Bylgjur að gjöf í tilefni 75 ára afmælis ÍRA sem var 14. ágúst 2021. Myndin var tekin þegar gjöfin var afhent formlega á stjórnarfundi í ÍRA 17. nóvember 2021. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 18. nóvember.

Þetta var fyrsta opnunarkvöldið í nokkurn tíma með grímuskyldu, án kaffiveitinga og sem að fjarskiptaherbergi og QSL herbergi voru með takmarkaðan aðgang – enda ríkjandi óvissa þar sem nú virðist hafin ný bylgja af kórónaveirunni.

Menn áttu þó góða stund í félagsaðstöðunni enda ætíð næg umræðuefni þegar áhugamálið er annars vegar. Þakkir til Hans Konrads Kristjánssonar, TF3FG sem færði okkur áhugavert radíódót.

Alls komu 9 félagar í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Allir með grímu og setið dreift. Frá vinstri: Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Óskar Sverrisson TF3DC, Gerog Kulp TF3GZ, Þórður Adolfsson TF3DT og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Nýja HBradio blaðið frá Sviss skoðað. Georg sá m.a. frásögn frá Íslandi og ljósmyndir af þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni TF1A í nýjasta tölublaðinu; nr. 5/2021.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færði okkur radíódót, m.a. tölvur, tölvuskjái og tvö eldri tæki, 100W VHF sendi og loftnets-aðlögunarrás. Ljósmyndir: TF3JB.