Einar Kjartansson, TF3EK, mætti í Skeljanes 7. mars og hélt erindi undir heitinu: “Búnaður og aðferðir sem henta fyrir SOTA”.

Einar fór yfir tilurð SOTA sem var stofnað 2. mars 2002. Málið snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Hann útskýrði hvernig sambönd eru höfð og færð inn í gagnagrunn á heimasíðu SOTA. Fjallatindar eru skilgreindir sérstaklega í hverju landi og hérlendis eru þeir 908.

Vilhjálmur Þ. Kjartansson TF3DX var fyrstur til að „virkja“ fjallatind samkvæmt verkefninu, þann 1. september 2016 þegar Ísland gerist aðili. Þeir Egill Íbsen TF3EO, Einar Kjartansson TF3EK og Þórður Ívarsson TF5PX settu kerfið upp hér á landi.

                                   Fjöldi   Virkjaðir
Austurland        AL       281      3
Norðurland       NL       211      5
Suðurland         SL        216      43
Snæfellsnes      SN       66        5
Suðvesturland   SV       43        43
Vestmannaeyjar VE       6          2
Vestfirðir          VF       85        9
Samtals:                       908      110

Margskonar viðurkenningarskjöl og verðlaunagripir eru í boði, svo sem Fjallageitin (e. Mountain Goat). Aðspurður, sagðist Einar vera u.þ.b. hálfnaður uns hann getur sótt um „Fjallageitina“.

Erindið var vel flutt og Einar svaraði mörgum fyrirspurnum og fékk að lokum gott klapp. Umræður héldu þó áfram og sýndi Einar búnað sinn. Stöðvarnar eru Yaesu FT-857D og Elecraft KX-2 (sem er ný og hann fékk í lok s.l. árs), loftnet eru heimatilbúin, m.a. dípólar og glertrefjastangir sem eru reistar á vettvangi.

Alls mættu 24 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld. Þakkir til Einars Kjartanssonar TF3EK fyrir fróðlegt og skemmtilegt erindi.

P.s. Mikil ánægja var með nýju stólana.

Skeljanesi 7. mars. Einar Kjartansson TF3EK flytur erindi um SOTA búnað og aðferðir.
Salurinn var þétt setinn.
Eftir erindið sýndi Einar búnaðinn sem hann notar í SOTA ferðum á fjallatinda. Með honum á myndinni eru þeir Þórður Adolfsson TF3DT og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmyndir: TF3JB.

Félaginu hefur borist að gjöf, 25 stólar til notkunar í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Það var Haukur Þór Haraldsson TF3NA sem færði félaginu þessa nytsömu gjöf í dag, miðvikudaginn 6. mars.

Stólarnir eru af Stacco gerð, á krómaðri stálgrind og bólstraðir í bak og setu. Þeim fylgir sérhannaður geymslupallur á hjólum, sem sjá má á meðfylgjandi ljósmynd. Stólarnir eru notaðir en afar vel með farnir.

Eftir endurhönnun og enduruppröðun í fundarsal félagsins sem nú rúmar þægilega 40 manns í sæti, vantaði okkur sárlega fleiri stóla. Gjöfin kemur sér því einkar vel.

Stjórn ÍRA þakkar Hauki Þór höfðinglega gjöf.

Skeljanesi 6. mars 2019. Haukur Þór Haraldsson TF3NA færir ÍRA 20 vandaða fundarstóla að gjöf. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA er í boði fimmtudaginn 7. mars. Þá mætir Einar Kjartansson TF3EK í Skeljanes með erindið “Búnaður og aðferðir sem henta fyrir SOTA”.

Stofnað var til SOTA viðurkenningaverkefnisins (e. Summits On The Air) formlega þann 2. mars 2002.  Stofnendur segja sjálfir, að þar sem SOTA snýst um viðurkenningar (e. Amateur Radio Award Programme) en er ekki klúbbur eða félagasamtök, býðst mönnum ekki að gerast félagi í SOTA.

Málið snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Fjallatindar eru af þessu tilefni skilgreindir sérstaklega í hverju landi og eru þeir yfir 900 hérlendis.

Ísland varð hluti af SOTA verkefninu þann 1. september 2016. Vilhjálmur Þ. Kjartansson TF3DX var fyrstur til að „virkja“ fjallatind samkvæmt verkefninu, þann 1. september 2016. Þeir Egill Íbsen TF3EO, Einar Kjartansson TF3EK og Þórður Ívarsson TF5PX settu kerfið upp hér á landi.

Margskonar viðurkenningarskjöl og verðlaunagripir eru í boði, svo sem Fjallageitin (e. Mountain Goat). Að auki er rekinn gagnagrunnur sem hýsir heiðurslista SOTA o.fl.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta tímalega. Kaffiveitingar.

Einar Kjartansson TF3EK sýnir loftnet fyrir utan Skeljanes sem hann notar í SOTA vorið 2017. Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Jón G. Guðmundsson TF3LM fylgjast með. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mættu í Skeljanes laugardaginn 2. mars. Í handraðanum voru Anan 7000 stöð frá Apache Labs og Flex 6400 stöð frá FlexRadio. Ekki er vitað um fleiri eintök í landinu en þessi tvö.

Stöðvarnar eru báðar SDR stöðvar, vinna á HF + 6 metrum og eru búnar 100W sendum. Báðar þurfa utanaðkomandi tölvu (með skjá) sem aukabúnað. Báðar þurfa ennfremur utanaðkomandi aflgjafa sem þarf að geta gefið 13.8VDC, allt að 25A. ANAN 7000DLE MK-II kostar 433 þúsund krónur komin hingað til lands en FLEX 6400 kostar 315 þúsund krónur (m.v. gengi ísl. krónunnar 1.3.2019).

Það er ætíð spennandi að sjá og snerta stöðvar sem maður hefur ekki séð fyrr og það á svo sannarlega við um þessar. Tilfinningin að stilla viðtöku þeirra beggja er mjög góð og möguleikarnir til að vinna úr merkjum á böndunum geysimargir.

Þeir Ari og Vilhjálmur héldu stutta tölu þar sem þeir ræddu hvora stöð fyrir sig og svöruðu spurningum. Báðir hafa mikla reynslu og hafa átt (og eiga) fleiri stöðvar og báðir eru mjög ánægðir með stöðvarnar.

Alls mættu 14 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í höfuðborginni. Bestu þakkir til þeirra Ara og Vilhjálms fyrir fróðlega og skemmtilega kynningu.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A flytur inngangserindi um Anan 7000 stöðina frá Apache Labs. Frá vinstri: TF3DT, TF3TB og TF3AWS.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS flytur inngangserindi um Flex 6400 stöðina frá FlexRadio.
Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Í beinu framhaldi af erindi um nýjar HF stöðvar á fimmtudagskvöld, koma þeir Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS í Skeljanes á morgun, laugardaginn 2. mars með Anan 7000DLE frá Apache Labs og Flex 6400 frá FlexRadio.

Stöðvarnar verða til sýnis, skoðunar og prófunar fyrir félagsmenn frá kl. 14:00. Bæði gerviálag (e. dummy load) og nýja stóra 4 elementa Yagi loftnet TF3IRA verða til ráðstöfunar. Við verðum í salnum niðri til að hafa gott pláss.

Þetta eru stöðvar búnar nýjustu SDR tækni og er aðeins vitað um eitt eintak af hvorri á landinu, enn sem komið er.

Kaffiveitingar.


Jónas Bjarnason, TF3JB, mætti í Skeljanes 28. febrúar og hélt erindi undir heitinu: “Kaup á nýrri HF amatörstöð vorið 2019; markaðurinn og ný viðhorf”.

Erindið byggði á grein í 1. tbl. CQ TF 2018 um sama efni, uppfært til dagsins í dag. Hann ræddi einnig um áhrifaþætti á markað fyrir nýjar HF stöðvar, svo sem lága stöðu sólbletta og ný viðhorf í ljósi aukinna vinsælda stafrænna tegunda útgeislunar og breytingar á sölukerfi amatörstöðva og búnaðar.

Farið var yfir markaðinn í heild og fram kom m.a. að 13 framleiðendur í 7 þjóðlöndum bjóða alls 46 gerðir HF stöðva sem skiptast á 15 mismundandi tegundir. Þrír þeirra stærstu, Icom, JCV Kenwood og Yaesu, eru með 52% af framboðinu. Ódýrasta HF stöðin er Minion Mini frá QRPver í Úkraínu sem kostar 52 þúsund krónur og ódýrasta 100W stöðin er DX-SR8 frá Alinco í Japan sem kostar 83 þúsund krónur (verð með öllum gjöldum til landsins m.v. daginn í dag).

Jónas leit að lokum til þróunar markaðarins fram til ársins 2025. Hann ræddi um væntanlegar breytingar svo sem aukna innkomu framleiðenda frá A-Evrópu og Kína. Ennfremur um stöðu áhugamálsins gagnvart breyttri þjóðfélagsskipan, m.a. aukna samkeppni um tíma fólks og tómstundir sem hefur áhrif á endurnýjun í hópi radíóamatöra líkt og annars staðar.

Alls mættu 27 í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld. Mikill áhugi var á umfjöllunarefninu og fyrirspurnir og umræður stóðu fram yfir kl. 22:30 þegar TF3JB var þakkað fyrir fróðlegt og áhugavert erindi með lófaklappi.

Skeljanesi 28. febrúar. Jónas Bjarnason TF3JB flutti erindi um kaup á nýrri HF amatörstöð vorið 2019 og um markaðinn og ný viðhorf.
Hluti fundarmanna í Skeljanesi 28. febrúar. Frá vinstri (fremst): Jón Björnsson TF3PW, Wihelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Georg Kulp TF3GZ, Óskar Sverrisson TF3DC, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Mathías Hagvaag TF3MH, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071 og Guðrún Hannesdóttir TF3GD. LJósmyndir: Kristján Benediktsson TF3KB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA er í boði fimmtudaginn 28. febrúar kl. 20:30. Þá mætir Jónas Bjarnason, TF3JB, í Skeljanes með erindið “Kaup á nýrri HF amatörstöð vorið 2019; markaðurinn og ný viðhorf”.

Erindið byggir á grein hans um “Kaup á nýrri HF amatörstöð vorið 2018” sem birtist í 1. tbl. CQ TF, 2018. Á því tæpa ári sem liðið er, hefur markaðurinn þróast og tekið breytingum í ljósi nýrra viðhorfa. Sumpart eru það viðhorf sem eru kunn frá fyrri tímabilum þegar samhengi sólblettaleysis og skilyrða hafa hafa haft áhrif á fjarskiptin og ekki síður í ljósi nýrrar stafrænnar samskiptatækni sem mjög hefur rutt sér til rúms síðustu misseri.

Framtíðin er spennandi í þessum efnum enda eru radíóamatörar þekktir fyrir að notfæra sér nýjustu tækni hverju sinni.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar.

Myndin er af Expert SunSDR MB1 sem þykir með glæsilegri heimastöðvum radíóamatöra. Fjallað verður m.a. um þessa stöð og fleiri í erindinu í Skeljanesi 28. febrúar.

ÍRA barst staðfesting frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) í dag, 22. febrúar 2019, um heimild til notkunar tíðnisviðsins 1850 – 1900 kHz vegna þátttöku í alþjóðlegum keppnum radíóamatöra á almanaksárinu 2019. Heimildin nær til eftirtalinna 10 keppna:

ALÞJÓÐLEG KEPPNI, TEGUND ÚTGEISLUNAR, DAG- OG TÍMASETNINGAR, FJÖLDI KLST.

CQ World-Wide 160 metra keppnin – CW – 25.-27. janúar, kl. 22-22 – 48 klst.
ARRL DX keppnin – CW – 16.-17. febrúar, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ World-Wide 160 metra keppnin – SSB – 22.-24. febrúar, kl. 22-22 – 48 klst.
ARRL DX keppnin – SSB – 2.-3. mars, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ WPX keppnin – SSB – 30.-31. mars, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ WPX keppnin – CW – 25.-26. maí, kl. 00-00 – 48 klst.
IARU HF World Championship – CW/SSB – 13.-14. júlí, kl. 12-12 – 24 klst.
CQ World-Wide DX keppnin – SSB – 26.-27. október, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ World-Wide DX keppnin – CW – 23.-24. nóvember, kl. 00-00 – 48 klst.
ARRL 160 metra keppnin – CW – 6.-8. desember, kl. 22-16 – 40 klst.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Póst- og fjarskiptastofnunar eru eftirfarandi: (a) Heimildin er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir radíóamatöra standa yfir (sjá að ofan); (b) G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild þeirra miðast við mest 10W.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@pfs.is eða pfs@pfs.is eins og síðast.

Fimmtudaginn 21. febrúar var myndakvöld í Skeljanesi og var fyrst sýnd ný DVD mynd frá DX-leiðangri til Miðbaugs Gíneu og Annobon eyju undan vesturströnd Afríku. Í myndbandinu var áhugaverð frásögn frá DX-leiðangri leyfishafa frá Lettlandi, þeirra YL1ZF, YL2GM og YL2KL. Þeir höfðu alls 86 þúsund QSO og þ.á.m. við íslenska leyfishafa. Myndasýningin var í boði Óskars Sverrissonar, TF3DC.

Óskar sýndi okkur einnig úr mynd frá síðasta DX-leiðangri sem farinn var til Peter 1 eyju á Suðurheimsskautslandinu. Myndin veitti góða innsýn í erfiðar aðstæður leiðangursins sem farinn var árið 2006. Alls voru höfð  87 þúsund QSO. Myndin er í eigu félagsins og var gefin á sínum tíma af Brynjólfi Jónssyni, TF5B.

Að lokum fengum við að sjá úr mynd frá frægum DX-leiðangri til Malpelo eyju sem í raun er stór klettur í austur-Kyrrahafi, um 500 km vestur af Kólumbíu. Afar fróðleg mynd, en á sex vikum höfðu þátttakendur yfir 190 þúsund QSO. Þeir settu upp búðir efst á klettinum, sem ekki er nema 1600 metrar á lengd og 700 metrar á breidd.

Bestu þakkir til Óskars Sverrissonar, TF3DC fyrir skemmtilegt myndakvöld í Skeljanesi. Alls mættu 24 félagar þetta vindasama vetrarkvöld í Reykjavík, þar af þrír gestir.

Skeljanesi 21. febrúar. Óskar Sverrisson TF3DC bauð upp á DVD myndir þar sem efnið var DX-leiðangrar til fjarlægra staða.
Félagsmenn voru dreifðir um salinn.
Umræður í leðursófasettinu og í kring eftir myndasýninguna. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Kristján Benediktsson TF3KB (standandi) og næst myndavél, standandi, Mathías Hagvaag TF3MH og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmyndir: TF3JB.

Aðalfundur ÍRA árið 2019 var haldinn 16. febrúar s.l. á Hótel Sögu í Reykjavík. Meðal gagna sem lögð voru fram á fundinum var skýrsla formanns um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.

Skýrslan var lögð fram á prentuðu formi. Hún skiptist í 11 kafla og tvo viðauka, auk formála og efnisyfirlits. Hún er alls 136 blaðsíður að stærð.

VEFSLÓÐ Á ÁRSSKÝRSLU ÍRA 2018-2019 ER HÉR FYRIR NEÐAN:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/02/20190216-arsskrysla-tf3jb.pdf

Gögn sem lögð voru fram á aðalfundi ÍRA 2019: (1) Dagskrá fundarins; (2) útprentun á lögum félagsins; (3) Skýrsla um starfsemi ÍRA 2018/19; Ársreikningur ÍRA fyrir starfsárið 2018 og Skýrsla Prófnefndar til Aðalfundar ÍRA 2019. Að auki fylgdu með í möppu með aðalfundargögnum, límmiðar með félagsmerki ÍRA. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Fimmtudaginn 21. febrúar verður sýnt nýtt DVD myndband frá DX-leiðangri til Miðbaugs Gíneu og Annoban, 3C3W & 3CØW sem margir TF leyfishafar náðu sambandi við.

Í myndbandinu er áhugaverð frásögn frá ferðum þeirra YL1ZF, YL2GM og YL2KL til þessara DXCC landa í febrúar og mars 2018. Skemmtileg og fróðleg innsýn í ferðir af þessu tagi.

Þeir félagar hafa verið heiðraðir fyrir vel heppnaðar ferðir, m.a. af SWODXA, The Intrepid DX Group og GDXF, sem „DXpedition of The Year“, „The Intrepid DX Group Award“ og „GDXF Trophy Best DXpedition“.

Góðar kaffiveitingar verða í boði í Skeljanesi og DX-umræður. Viðburðurinn er í boði Óskars Sverrissonar, TF3DC.


Þakka félagsmönnum símtöl og tölvupósta með góðum orðum og umsögnum um starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Þessi jákvæðu viðbrögð í kjölfar aðalfundar 2019 eru okkur í nýrri stjórn, hvatning til góðra verka á komandi starfsári.

Þeir sem ekki áttu þess kost að koma á aðalfundinn á Hótel Sögu á laugardag spyrja um ársskýrsluna, sem afhent var prentuð á fundinum ásamt fleiri gögnum. Skýrslan verður til birtingar hér á heimasíðunni á PDF-formi innan örfárra daga.

Önnur gögn, þ.á.m. fundargerð og ársreikningur verða til birtingar í 2. tbl. CQ TF sem kemur út 31. mars n.k.

73,

Jónas Bjarnson, TF3JB, formaður.

Ársskýrsla ÍRA 2018/19 kom út á aðalfundi 2019. Hún skiptist í 10 kafla og tvo viðauka og er alls 136 blaðsíður að stærð.