,

Fjarskipti um gervitungl á laugardag

Ari Þ. Jóhannesson, TF3ARI

Benedikt Guðnason, TF3TNT

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins fer fram í Skeljanesi laugardaginn 20. október kl. 16-19. Þá munu þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Benedikt Guðnason, TF3TNT, verða með kynningu á því hvernig DX-sambönd um gervitungl fara fram.

Þetta er spennandi viðburður, m.a. í ljósi þess að TF3IRA er nú að fullu QRV til fjarskipta af þessu tagi, en á laugardag verður tekið í notkun nýtt “tracking” forrit frá Northern Lights Software Associates (NLSA), Nova for Windows; útgáfa 2.2c, sem er vinsælasta forritið af þessari tegund í heiminum í dag.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn sem hafa í hyggju að koma sér upp búnaði til gervihnattafjarskipta eða hafa áhuga á fjarskiptum af þessu tagi, að láta þennan viðburð ekki fram hjá sér fara.

Myndin er af VHF og UHF loftnetum TF3IRA sem eru notuð til fjarskipta um gervihnetti ásamt öðrum búnaði stöðvarinnar. Formagnararnir eru í ljósa kassanum fyrir neðan rótorinn. Ljósmynd: Jón Svavarsson, TF3LMN.

Gervihnattabúnaður TF3IRA.

(1) VHF/UHF hringpóluð Yagi loftnet frá M2. VHF loftnetið er af 2MCP14 gerð; 14 staka með 10.2 dBdc ávinningi. UHF loftnetið er af 436CP30 gerð; 30 staka með 14.15 dBdc ávinningi. (2) Rótor er frá Yaesu af G-5400B gerð, sambyggður fyrir lóðréttar og láréttar stillingar. Með honum fylgir fjölstillikassi (e. Elevation Azimuth Dual Controller) stýranlegur frá tölvu. (3) VHF og UHF formagnarar eru frá SSB-Electronic GmbH. Mögnun er 20 dB/0,8 dB suðhlutfall á VHF og 20 dB/0,9 dB suðhlutfall á UHF. (4) Kenwood TS-2000 sendi-/móttökustöð félagsins er notuð til fjarskipta um gervitungl. Hún er 100W á 144-146 MHz og 50W á 430-440 MHz.

,

Ólafur TF3ML verður með fimmtudagserindið

Ólafur Björn Ólafsson, TF3ML

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins að þessu sinni, verður haldið fimmtudaginn 18. október n.k. Þá mætir Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, í Skeljanes með erindi sitt: „Að smíða færanlegt fjarskiptavirki”.

Eins og kunnugt er, lauk Ólafur við smíði sérstakrar fjarskiptabifreiðar fyrr á þessu ári. Bifreiðinni fylgir sérhönnuð kerra með áföstum loftnetsturni sem reisa má í allt að 28 metra hæð. Búnaðurinn var til sýnis á árlegum viðburði Í.R.A. í tengslum við Alþjóðlegu vita- og vitaskipahelgina sem haldinn var við Garðskagavita,
18.-19. ágúst s.l. Þá veitti Ólafur félaginu liðsstyrk með láni á búnaðinum til félagsstöðvarinnar í SAC SSB keppninni um síðustu helgi.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn að mæta tímalega. Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30. Kaffiveitingar.

Mynd frá Alþjóðlegu vita- og vitaskipahelginni 2012 á Garðskaga. Fjarskiptabifreið TF3ML og loftnetsturn í forgrunni. Turninn var reistur í 25 metra hæð.

,

Erfið skilyrði í SAC SSB keppninni um helgina

Sigurður R. Jakobsson TF3CW við stjórnvölinn á TF3W laugardaginn 13. október. Ljósmynd: TF3SA.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, virkjaði félagsstöðina, TF3W, í Scandinavian Activity SSB keppninni helgina 13.-14. október. Vel var staðið að undirbúningi stöðvarinnar fyrir keppnina og komu margir að því verki. Þrátt fyrir afar erfið skilyrði náði Sigurður að hafa 1040 QSO; nánast einvörðungu á 14 MHz. Mestan hluta keppnistímans stóð “aurora” gildið í 10 og K-gildið í rúmlega 6, en vísun yfir 5 er flokkuð sem segulstormur.

Vel var staðið að undirbúningi keppninnar sem tók meira og minna alla síðustu viku. Auk SteppIR 3E Yagi loftnets félagsins á 14 MHz, 21 MHz og 28 MHz, munaði mest um færanlegt fjarskiptavirki Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, sem hann flutti á staðinn á fimmtudag. Ólafur setti upp OptiBeam OB-5 einsbandsloftnet á færanlega turninn, sem er 5 staka Yagi á 14 MHz með 15,7 dBi ávinning. Alvöru loftnet með 15,1 metra langri bómu og nær 90 kg að þyngd (eftir styrkingar). Á föstudagsmorgun var skotbómukrani síðan fluttur í Skeljanes. Hann var útbúinn með Cushcraft 2 staka Yagi loftneti á 7 MHz sem er í eigu Sigurðar. Síðar sama dag var sett upp Fritzel V-loftnet á hvolfi í eigu Ólafs fyrir 3,7 MHz. (Til skýringar: Ekki þurfti að hugsa um 160 metrana, þar sem SAC keppnirnar fara ekki fram á því bandi).

Stjórn Í.R.A. óskar Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW, til hamingju með þann árangur sem þó náðist miðað afar erfið skilyrði. Sérstakar þakkir til Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, sem veitti félaginu ómetanlegan liðsstyrk með láni á búnaði og persónulegri aðkomu að undirbúningi stöðvarinnar. Það sama á við aðra félagsmenn sem veittu verkefninu aðstoð á einn eða annan hátt. Hér á eftir eru birtar nokkrar ljósmyndir til fróðleiks.

Skeljanes að morgni 14. október. Yagi loftnetin þrjú, frá OptiBeam, Cushcraft og SteppIR settu óneitanlega skemmtilegan svip á félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

TF3IG, TF3CW og TF3ML koma færanlegum loftnetsturni Ólafs fyrir í rigningunni s.l. fimmtudag í portinu á bak við félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Turninn gerður klár fyrir fyrstu hífingu. TF3CW, TF3ML, og TF3IG tryggja að “fætur/stoðir” turnsins hafi viðunandi viðspyrnu.

TF3IG fer síðustu yfirferð yfir stillingar “fóta/stoða” turnsins fyrir hífingu.

Stóra OptiBeam Yagi loftnetið virkar næstum því viðráðanlegt komið í fulla hæð.

Skotbómukraninn kom í Skeljanes á flutningavagni á föstudagsmorgun. TF3CW fylgist með.

Rótorbúrið “monterað” á körfuna á skotbónukrananum. TF3CW og TF3-Ø33 við undirbúning.

TF3-Ø33, TF3CW og TF3ML við frágang á rótorbúrinu fyrir Cushcraft 7 MHz Yagi loftnetið.

Allt klárt. 7 MHz Yagi’nn kominn saman og kraninn kominn í fulla hæð (18 metra).

,

Úrslit í VHF leikum og TF útileikunum 2012

Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX með ágrafinn verðlaunaskjöld sem sigurvegari í TF útileikunum 2012 og tilheyrandi viðurkenningarskjal, ásamt viðurkenningarskjali fyrir Guðrúnu Hannesdóttur TF3GD (XYL TF3DX) sem einnig tók þátt í útileikunum. Ljósmynd: TF3LMN.

Guðmundur Löve, TF3GL, umsjónarmaður VHF leikanna og Bjarni Sverrisson, TF3GB,umsjónarmaður TF útileikanna, kynntu úrslit í hvorum viðburði fyrir sig í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn 4. október s.l. Sigurvegarar voru afgerandi í báðum viðburðum, annars vegar Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, í VHF leikunum og hins vegar Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, TF3DX, í TF útileikunum.

Fram kom hjá TF3GL, að þátttakan í VHF leikunum hafi farið fram á fimm mismunandi tíðnisviðum, þ.e. 50 MHz, 70 MHz, 144 MHz, 430 MHz og 1,2 GHz. Hann sýndi áhugaverðar Power Point glærur með upplýsingum úr leikunum, m.a. yfirlit yfir lengstu samböndin (sjá mynd neðar). Guðmundur sagði að þátttakan sýndi að VHF leikarnir væru komnir til að vera. TF3BG ræddi nokkuð reglur útileikanna og
ábendingar um hugsanlegar breytingar á þeim. Fram kom hjá þeim félögum, að hvora helgi fyrir sig hafi alls 16 leyfishafar verið QRV, þótt heldur færri hafi skilað inn dagbókum. Kvöldið var vel heppnað og mættu alls 26 félagsmenn á staðinn.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Guðmundi Löve, TF3GL og Bjarna Sverrissyni, TF3GB, fyrir góð störf og óskar sigurvegurunum, þeim Ólafi B. Ólafssyni, TF3ML og Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, innilega til hamingju með árangurinn. Bestu þakkir ennfremur til Brynjólfs Jónssonar, TF5B, sem útbjó viðurkenningaskjöl útileikanna og til Jóns Svavarssonar, TF3LMN, fyrir meðfylgjandi ljósmyndir.

Guðmundur Löve TF3GL kynnir úrslit fyrstu VHF leikanna sem haldnir voru í júlí s.l.

Bjarni Sverrisson TF3GB kynnti úrslit í 32. TF útileikunum sem haldnir voru í ágúst s.l. Á myndinni afhendir hann Vilhjálmi Þór Kjartanssyni TF3DX, sigurvegaranum 2012, ágrafinn verðlaunaskjöld

Áhugaverðar upplýsingar. Sjá m.a. upplýsingar um sambönd yfir 115 km vegalengd á 1,2 GHZ.

(Ljósmyndir: Jón Svavarsson, TF3LMN.)

,

Stöðutaka í morsi fer fram á laugardag

Guðmundur Sveinsson, TF3SG

Stefán Arndal, TF3SA

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins er stöðutaka í morsi, sem fram fer
laugardaginn 13. október kl. 15:00-17:00 í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi.
Stefán Arndal, TF3SA og Guðmundur Sveinsson, TF3SG, annast viðburðinn.

Þeir sem eiga eftir að skrá þátttöku geta sent töluvpóst á Guðmund. Tölvupóstfang
hans er: dn (hjá) hive.is eða hafa samband við hann í síma 896-0814. Líkt og áður
hefur komið fram, er stöðutakan fyrir alla leyfishafa, þ.e. jafnt fyrir þá sem eru rétt
að byrja sem og þá sem lengra eru komnir.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að nýta sér þetta tækifæri.

,

Skínandi góður laugardagur í Skeljanesi

Þetta var eins og besta einkakennsla sagði Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og var mjög ánægður.

Laugardaginn 6. október mætti Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, með hraðnámskeið (sýnikennslu) í Skeljanes fyrir þá félagsmenn sem vildu læra á loftnetsgreininn MFJ-269. Alls mættu 10 félagar í félagsaðstöðuna stundvíslega kl. 10 árdegis. Vilhjálmur Þór hóf dagskrána á vel fram settum fræðilegum inngangi. Hann skeiðaði síðan léttilega í gegnum spurningar viðstaddra og þegar kom að því að sýna notkun MFJ-269 loftnetsgreinisins, voru allir með á getu tækisins.

Sumir höfðu með sér sína eigin loftnetsgreina (TF2WIN). Aðrir sögðust sjá eftir því að hafa ekki tekið sína með sér þegar á staðinn var komið. Fram kom, að það eru ótrúlega fjölbreyttar mælingar sem má gera með þessu tiltölulega ódýra mælitæki.

Áhugavert er að geta þess, að símtöl bárust til stjórnarmanna strax í eftirmiðdaginn í gær og áfram í dag (sunnudag) frá félagsmönnum sem ýmist sögðust hafa gleymt viðburðinum, sofið yfir sig eða verið uppteknir. Sama óskin kom fram hjá þeim öllum: „Hvenær verður þetta endurtekið hjá Villa?” Námskeiðinu lauk laust eftir kl. 13. Frábær dagur og skínandi vel heppnaður!

Taflan var mikið notuð hjá TF3DX og sagðist hann hlakka til þess dags þegar félagið hefði efni á að fjárfesta í 2-3 hvítum tússtöflum til viðbótar við þessa einu sem væri allt of lítil.

Vilhjálmur Þór TF3DX notaði m.a. þetta heimatilbúna 1/4-? GP metrabylgjuloftnet í kennslunni.

Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN sýndi fyrirhyggju og kom með sinn loftnetsgreini á staðinn og sagðist bara ánægður með að sitja aftarlega. Sagði að þar væri meiri ró og næði enda nóteraði hann hjá sér flest af því sem Vilhjálmur Þór sagði.7

Nýjar vínarbrauðslengjurnar frá Björnsbakaríi á Seltjarnarnesi voru heitar úr ofninum þegar þær komu í hús í Skeljanesi. Vart þarf að taka það fram að þær gengu vel út.

,

Spennandi tilraunir á VHF og UHF á laugardegi

Loftnet félagsins á Garðskaga er af gerðinni Workman UVS-300 frá OPEC. Ljósmynd: TF8SM.

Líkt og kunnugt er, var Kenwood endurvarpi félagsins sem var tengdur við TF8RPH á Garðskaga fluttur þann 9. september s.l. til TF1RPH í Bláfjöllum og skipt út fyrir stöðina þar sem varð fyrir eldingu.

Í því augnamiði að nota aðstöðuna á Garðskaga til tilrauna uns til nýr endurvarpi verður tengdur, gerðu þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM ferð í vitavarðarhúsið á Garðskaga í dag, þann 6. október, og tengdu Kenwood TM-D700A VHF/UHF sendi-/móttökustöð við VHF/UHF húsloftnet félagsins á staðnum (sem áður var tengt við TF8RPH).

Frá því skömmu eftir hádegi í dag (6. október) hefur TM-700A stöðin þannig unnið frá Garðskaga sem krossband endurvarpi í tengslum við TF1RPB í Bláfjöllum. Þetta þýðir, að þegar merki er sent út á tíðninni 434.500 MHz, er það áframsent á tíðninni 145.150 MHz (frá Garðskaga) sem opnar viðtæki TF1RPB í Bláfjöllum og sendir merkið út á 145.750 MHz. Að sama skapi, þegar merki er sent inn á TF1RPB er það móttekið á Garðskaga og sent út á tíðninni 434.500 MHz. Í báðum tilvikum er notuð CTCSS tónlæsing á 88,5 riðum. Eins og áður hefur komið fram, er hægt að hlusta á fjarskiptin á þessum tíðnum þótt stöð eða viðtæki sé ekki búið tónlæsingarbúnaði.

Hugmyndin er, að þessi uppsetning verði í gangi um óákveðinn tíma í tilraunaskyni. Það er TF3ARI sem lánar stöðina og TF8SM sem lánar aflgjafann. Stjórn Í.R.A. lýsir yfir ánægju sinni með framtak þeirra félaga og hvetur félagsmenn til að taka þátt í þessu spennandi verkefni.

Endurvarpinn TF1RPB hefur aðstöðu í þessu stöðvarhúsi í Bláfjöllum. Ljósmynd: TF3ARI.

Kenwood TM-D700A VHF/UFH sendi-/móttökustöðin.

,

TF3DX verður með sýnikennslu á laugardag

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins verður haldinn í félagsaðstöðunni á morgun, laugardaginn 6. október og hefst kl. 10:00 árdegis. Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, mætir í Skeljanes og heldur hraðnámskeið (sýnikennslu) fyrir þá sem eiga eða vilja læra á loftnetsgreininn MFJ-269. Námskeiðið miðast við byrjendur en einnig verður svarað spurningum frá þeim sem eru lengra komnir.

Félagar mætum stundvíslega! Meðlæti frá frá Björnsbakaríi verður í boði með kaffinu.

MFJ-269 loftnetsgreinir félagsins.

MFJ-269 loftnetsgreinirinn vinnur í tíðnisviðinu frá 1.8 MHz til 170 MHz annars vegar, og tíðnisviðinu 415 MHz til 470 MHz, hins vegar. Tækið er búið innbyggðum rafhlöðum til nota á vettvangi (t.d. úti við loftnet) sem og í fjarskiptaherbergi innanhúss (tengt við utanáliggjandi 12 volta spennugjafa). Til ráðstöfunar eru m.a. sveifluvaki með breytanlegri tíðni, tíðniteljari, tíðnimargfaldari, 12 bita A-D breytir og sérhæfður forritanlegur örgjörvi til mælinga. Með tækinu má gera margvíslegar mælingar á loftnetum og RF sýnvarviðnámi, þ.á.m. að mæla rafsegulfjarlægð til skammhleyptrar eða opinnar fæðilínu, töp í kóax fæðilínum og til mælinga á standandi bylgjum. Tækið er hannað til greiningar á 50 ? loftnetum og fæðilínum, en mælir hvaða sýndarviðnámsgildi sem er á bilinu 5-600 Ohm.

(Ljósmyndir: TF3LMN).

,

1. fundur starfshóps Í.R.A. um neyðarfjarskipti

Jón Þóroddur Jónsson TF3JA neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. og formaður starfshóps félagsins um neyðarfjarskipti við setningu fundarins þann 1. október ásamt Sigurði Óskari Óskarssyni TF2WIN.

Fyrsti fundur starfshóps sem skipaður var af stjórn Í.R.A. þann 17. f.m. til að gera tillögur um neyðarfjarskiptastefnu félagsins var haldinn í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 1. október s.l. Fundin sátu Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. og formaður starfshópsins; Sigurður Óskar Óskarsson, TF3WIN, fulltrúi stjórnar Í.R.A.; Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY; Jón Svavarsson, TF3LMN; og Jónas Friðgeirsson, TF3JF. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, er einnig í starfshópnum, en var fjarstaddur vegna vinnu. Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður Í.R.A. sat fundinn. Fram kom í inngangsræðu hans, að stjórn félagsins væntir mikils af störfum hópsins og óskaði hann viðstöddum góðs gengis í vinnu sinni.

Fundurinn stóð í um tvær klukkustundir. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, sagðist vera mjög ánægður með þennan fyrsta fund. Menn hafi verið áhugasamir og margt áhugavert hafi komið fram sem lofi góðu um framtíðarvinnu starfshópsins. Næsti fundur er boðaður að þremur vikum liðnum. Sjá nokkrar ljósmyndir frá fundinum hér fyrir neðan.

Henry Arnar Hálfdánarson TF3HRY, Jón Þóroddur Jónsson TF3JA og Sigurður Óskarsson TF2WIN.

Jón Svavarsson TF3LMN.

Jónas Friðgeirsson TF3JF.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI gat ekki setið fundinn, en hér fylgir mynd af kappanum.

,

Glæsileg niðurstaða hjá TF2RR

Á myndinni má sjá hluta af loftnetum Georgs Magnússonar TF2LL sem TF2RR notaði í CQ WW RTTY keppninni. Á turninum eru OptiBeam 18-6 fyrir 40-10 metra böndin og OptiBeam 1-80 fyrir 80 metrana. Turninn er 28 metra hár, að stærstum hluta heimasmíðaður. Ljósmynd: TF3JB.

Fyrstu ætlaðar niðurstöður (e. claimed results) í CQ World-Wide RTTY keppninni sem haldin var helgina 29.-30. september s.l., eru komnar á netið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir, eru vísbendingar um, að TF2RR kunni að verða í einu af fimm efstu sætunum yfirheiminn í sínum keppnisflokki. TF2RR hafði alls 3.040 QSO og 3.805.097 heildarstig. Þetta er
glæsilegur árangur og líklega sá besti sem náðst hefur frá TF stöð í alþjóðlegri RTTY keppni hingað til!

Unnið var frá vel útbúinni stöð Georgs Magnússonar, TF2LL, í Borgarfirði og keppti TF2RR í fleirmenningsflokki, á öllum böndum (80-40-20-15-10 metrum), hámarksafli, aðstoð. Að sögn Guðmundar Inga Hjálmtýssonar, TF3IG, forseta klúbbsins, voru skilyrðin mjög góð fyrri dag keppninnar, eða allt fram á seinnipart sunnudagsins þegar truflana tók að gæta í fareindahvolfinu.

Til upplýsingar skal þess getið, að TF2RR (og TF3RR) eru kallmerki Radíóklúbbsins radíó refir, sem fengu úthlutað kallmerkjum fyrir rúmum 2 árum. Félagsmenn eru: Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Haraldur Þórðarson TF3HP og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN, auk Andrésar Þórarinssonar TF3AM, sem nýlega gekk til liðs
við refina.

Stjórn Í.R.A. óskar þeim félögum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

__________


Frestur til að skila keppnisdagbókum til keppnisnefndar CQ rennur út á miðnætti á föstudag. Þá má gera ráð fyrir að flestar dagbækur verði komnar fram, en samkvæmt nýjum reglum geta keppnisstöðvar sótt um allt að 30 daga frest til að skila keppnisgögnum. Fylgjast má með upplýsingum um innsend gögn í keppninni á vef keppnisnefndar CQ tímaritsins á vefslóð: http://www.cqwwrtty.com/logs_received.shtml

,

Vetrardagskráin gildir til 13. desember n.k.

Úr félagsstarfinu. Unnið við AlfaSpid rótor SteppIR 3E Yagi loftnets TF3IRA þann 4. febrúar 2012.

Yfirstandandi vetrardagskrá Í.R.A. sem nær til 13. desember n.k. var kynnt á fjölmennum fundi í Skeljanesi s.l. fimmtudag, 27. september. Jónas Bjarnason TF3JB formaður félagsins, kynnti dagskrána og kom m.a. fram hjá honum, að 21 viðburður er í boði og að alls koma 17 félagar að verkefninu.

Meðal nýjunga er, að nú verður í fyrsta skipti boðið upp á stöðupróf í morsi sem er í umsjá þeirra Stefáns Arndal TF3SA og Guðmundar Sveinssonar TF3SG. Að auki verða verða 7 fimmtudagserindi, 4 sunnudagsopnanir, 3 hraðnámskeið, árlegur flóamarkaður og sýning nýrrar DVD heimildarmyndar frá DX-leiðangrinum
til Malpelo Island, HKØNA, í febrúar 2012. Vetrardagskránni lýkur síðan með veglegu jólakaffi Í.R.A. þann 13. desember.

,

Úrslit í VHF leikunum og TF útileikunum 2012

Guðmundur Löve, TF3GL.

Bjarni Sverrisson, TF3GB.

Þá er komið að úrslitum og afhendingu verðlauna og viðurkenninga í VHF leikunum 2012 og TF útileikunum 2012. Athöfnin fer fram í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 4. október n.k. og hefst stundvíslega kl. 20:30.

Guðmundur Löve TF3GL umsjónarmaður VHF leikanna mun kunngjöra úrslit í 1. VHF leikunum og veita verðlaun. Síðan mun Bjarni Sverrisson TF3GB umsjónarmaður TF útileikanna kunngjöra útslit í 32. útileikunum og veita verðlaun.

Félagar, mætum stundvíslega!

Stjórn Í.R.A.