Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður lokuð fimmtudaginn 26. maí sem er uppstigningadagur.

Næsti opnunardagur félagsaðstöðunnar verður fimmtudaginn 2. júní n.k. kl. 20-22.

Stjórn ÍRA.

CQ World Wide WPX keppnin – morshluti, fer fram um helgina. Þetta er 2 sólarhringa keppni helgina 28.-29. mars sem fer fram á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Markmiðið er að hafa sambönd á keppnistímanum við kallmerki með eins mörgum mismunandi forskeytum og frekast er unnt (VK1, VK2 o.s.frv.). Munur er gerður á stigagjöf eftir böndum, þ.e. QSO á milli meginlanda (e. continents) á 28, 21 og 14 MHz gefa 3 stig en 6 stig á 7, 3.5 og 1.8 MHz. Hvert forskeyti telst til margfaldara einu sinni – burtséð frá böndum.

Sjö TF kallmerki sendu inn keppnisgögn í fyrra (2021).

Vefslóð á keppnisreglur: https://www.cqwpx.com/rules.htm

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Kort EI8IC sýnir svæðaskiptingu heimsins í 40 CQ svæði.

Próf Fjarskiptastofu (FST) til amatörleyfis fór fram í Reykjavík, Sauðárkróki og Raufarhöfn laugardaginn 21. maí.

Prófnefnd ÍRA annaðist framkvæmd í Reykjavík að viðstöddum fulltrúa Fjarskiptastofu, en Sigurður Sigurðsson, TF9SSB og Olga Friðriksdóttir önnuðust framkvæmd á Sauðárkróki og á Raufarhöfn. Prófað var í Raffræði og radíótækni og Reglum og viðskiptum. Prófið hófst kl. 10 árdegis og lauk með prófsýningu kl. 15. Bæði prófin voru skrifleg.

Alls þreyttu 12 prófið. Í raffræði og radíótækni náðu 11 fullnægjandi árangri, 9 til G-leyfis og 2 til N-leyfis. Í Reglum og viðskiptum náðu allir 12 þátttakendur fullnægjandi árangri, þar af 10 til G-leyfis og 2 til N-leyfis. Nánar verður skýrt frá niðurstöðum á heimasíðu ÍRA strax og þær berast frá FST í byrjun næstu viku.

Fulltrúar prófnefndar í Háskólanum í Reykjavík: Kristinn Andersen, TF3KX formaður, Einar Kjartansson TF3EK og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS. Fulltrúi Fjarskiptastofu: Bjarni Sigurðsson, verkfræðingur. Fulltrúar stjórnar: Jón Björnsson, TF3PW umsjónarmaður námskeiða ÍRA og Jónas Bjarnason, TF3JB formaður ÍRA.

Stjórn ÍRA færir Jóni Björnssyni, TF3PW umsjónarmanni námskeiðsins og leiðbeinendum þakkir fyrir vel unnin störf. Það sama á við um Kristinn Andersen, TF3KX formann prófnefndar og prófnefndarmenn, sem sinntu störfum faglega og af alúð. Þá er Bjarna Sigurðssyni, sérfræðingi hjá Fjarskiptastofu þökkuð fagleg aðkoma að verkefninu.

Síðast, en ekki síst, innilegar hamingjuóskir til nýrra leyfishafa.

Stjórn ÍRA.

Þátttakendur í prófi FST til amatörleyfis kl. 10 í morgun, laugardag í Háskólanum í Reykjavík þegar prófgögnum var dreift.
Kristinn Andersen TF3KX annaðist prófsýningu sem hófst kl. 15:00.
Þeir sem báru hitann og þungann af verkefninu. Frá vinstri: Kristinn Andersen TF3KX formaður Prófnefndar ÍRA, Jón Björnsson TF3PW umsjónarmaður námskeiða ÍRA, Einar Kjartansson TF3EK prófnefnd ÍRA, Bjarni Sigurðsson fulltrúi Fjarskiptastofu og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS ritari prófnefndar. Ljósmynd 1: TF3PW, myndir 2 og 3: TF3JB.

Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið í Háskólanum í Reykjavík, Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki og Grunnskóla Raufarhafnar á Raufarhöfn, laugardaginn 21. maí samkvæmt eftirfarandi:

10:00 – 12:00 Raffræði og radíótækni.
13:00 – 14:00 Reglur og viðskipti.
14:30 – Prófsýning.

Alls hafa 14 þátttakendur (af nítján skráðum) staðfest þátttöku í prófi FST sem hvorutveggja er í boði á íslensku og ensku.

Bestu óskir um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 19. maí.

Skemmtilegt kvöld og góðar umræður á báðum hæðum. Sérstakur gestur félagsins var Helgi Jóhannesson, rafeindavirki á Akureyri. Hann á m.a. eitthvert stærsta safn útvarpsviðtækja hér á landi.

Mikið var rætt um heimasmíðar, tækin, skilyrðin, loftnet og búnað, m.a. RF magnara. Einnig rætt um CQ WW WPX keppnina á morsi sem nálgast, verður 28.-29. maí n.k.

Vel heppnað fimmtudagskvöld í hlýju vorveðri í vesturbænum í Reykjavík. Alls 20 félagar og 1 gestur í húsi.

Stjórn ÍRA.

Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Helgi Jóhannesson. Fjær, í fjarskiptaherbergi TF3IRA, Þórður Adolfsson TF3DT.
Georg Kulp TF3GZ og Helgi Jóhannesson.
Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Fjær: Guðmundur Sigurðsson TF3GS.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EIM, Lárus Baldursson TF3LB og Georg Magnússon TF2LL.
Benedikt Sveinsson TF3T, Þórður Adolfsson TF3DT og Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Ljósmyndir: TF3JB.

Próf Fjarskiptastofu (FST) til amatörleyfis verður haldið í Háskólanum í Reykjavík, í Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki og í Grunnskóla Raufarhafnar á Raufarhöfn, laugardaginn 21. maí. Prófið hefst kl. 10 árdegis og er í boði á íslensku og ensku.

Prófið er opið öllum og því ekki nauðsynlegt að hafa setið námskeið til undirbúnings. Fyrirspurnir eru velkomnar á netfangið ira(hjá)ira.is  Aðrir en þeir sem hafa setið yfirstandandi námskeið félagsins eru beðnir um að skrá sig hjá ÍRA í tölvupósti ekki síðar en í dag, 18. maí.

Eftirfarandi úrræði (annað eða hvoru tveggja) eru í boði ef um þau er beðið ekki síðar en í dag, 18. maí: (a) Litaður pappír, fölgrænn eða drapplitur og (b) stækkun í A3. Senda þarf tölvupóst á Kristinn Andersen TF3KX: kristinn1(hjá)gmail.com

Með ósk um gott gengi,

Stjórn ÍRA.

Yfirstandandi námskeiði ÍRA til amatörprófs lýkur í dag, miðvikudaginn 18. maí; alls voru 19 þátttakendur skráðir. Myndin er úr kennslustofu í Háskólanum í Reykjavík. Þegar hún var tekin voru 9 aðrir þátttakendur tengdir yfir netið, m.a. staðsettir á Hvolsvelli, Þorlákshöfn, Sauðárkróki, Raufarhöfn, Súðavík og höfuborgarsvæðinu, auk þess sem einn þátttakandi var erlendis. Ljósmynd: Jon Svavarsson TF3JON.

Próf Fjarskiptastofu (FST) til amatörleyfis verður haldið í stofu HR V107 í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 21. maí 2022, samkvæmt eftirfarandi:

10:00 – 12:00 Raffræði og radíótækni.
13:00 – 14:00 Reglur og viðskipti.
14:30 – Prófsýning.

Prófið er opið öllum og því ekki er nauðsynlegt að hafa setið námskeið til undirbúnings. Fyrirspurnir eru velkomnar á netfangið ira(hjá)ira.is  Aðrir en þeir sem hafa setið yfirstandandi námskeið félagsins eru beðnir um að skrá sig hjá ÍRA í tölvupósti ekki síðar en 18. maí.

Prófað verður bæði á íslensku og ensku. Komið verður til móts við þátttakendur úti á landi með prófstað í (eða nærri) heimabyggð.

Eftirfarandi úrræði (annað eða hvoru tveggja) eru í boði ef um þau er beðið ekki síðar en 18. maí: (a) Litaður pappír, fölgrænn eða drapplitur og (b) stækkun í A3. Senda þarf tölvupóst á Kristinn Andersen TF3KX: kristinn1(hjá)gmail.com

1) Notið einfaldar reiknivélar, sem augljóslega geta ekki geymt gögn.
2) Hafið með ykkur blýanta, strokleður og reglustiku (!) sem hentar reiknigrafi.
3) Endanleg einkunn kemur frá PFS á uppgefið netfang, annars heimilisfang.
4) Gætið þess að hvoru tveggja sé greinilega skrifað.
5) Rissblöðum er ekki útbýtt, notið auðu hliðar prófblaðanna.

Með ósk um gott gengi,

Prófnefnd ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 19. maí kl. 20-22.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin. TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfi félagsins og flokka kortasendingar fyrir opnun. Kaffiveitingar.

Töluvert er enn af óráðstöfuðu radíódóti í fundarsal og í ganginum niðri í Skeljanesi

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal í Skeljanesi.
Hluti af radíódóti sem er í boði til félagsmanna. Ljósmyndir: TF3JB.

Ívar Sigurður Þorsteinsson, TF3IS hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt dánartilkynningu sem birtist í Fréttablaðinu í dag, 14. maí lést hann 11. maí s.l.

Hann var á 78. aldursári og handhafi leyfisbréfs radíóamatöra nr. 75.

Um leið og við minnumst Ívars með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB

formaður

ÍRA barst jákvætt svar frá Fjarskiptastofu (FST) 13. maí við ósk félagsins um endurnýjun aukinna heimilda á 6 metra bandi.

Fjarskiptastofa veitir íslenskum leyfishöfum auknar aflheimildir í 50-50,5 MHz tíðnisviðinu á 6 metrum frá og með 1. júní 2022. Gildistími er 4 mánuðir eða til 31. september. G-leyfishafar fá heimild til að nota allt að 1kW og N-leyfishafar allt að 100W.

Eftirfarandi skilyrði eru lögð til grundvallar: (1) Hámarks bandbreidd sendinga er 18 kHz; (2) Engin skilyrði hvað varðar mótun; (3) Heimild er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi verður að hætta sendingum strax; (4) Æskilegt er að sendingar fari fram utan byggðar; og (5) Ákvörðun um framlengingu verður tekin síðar.

Leyfishafar þurfa að sækja sérstaklega um heimild hjá FST á sama hátt og verið hefur t.d. um 70 MHz tíðnisviðið. Póstfang: hrh(hjá)fjarskiptastofa.is  Tilgreina skal að sótt sé um aukið afl á 50 MHz.

Stjórn ÍRA fagnar þessari heimild.

Úr fjarskiptaherbergi TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

ÍRA barst í dag, 13. maí, eftirfarandi þrjú mælitæki að gjöf.

  • Audio Generator frá Potomatic Instruments, Inc., gerð AG-51. Tækið er nýtt og ónotað.
  • Audio Analyzer, frá Potomatic Instruments, Inc., gerð AA-51A. Tækið er nýtt og ónotað.
  • Test Oscillator frá Stanford Electronics, Inc., gerð AN/PRM-10. Tækið er í góðu lagi.

Gefandi er félagsmaður sem óskar eftir að láta nafns síns ekki getið.

Stjórn ÍRA þakkar nytsamar gjafir og hlýjan hug til félagsins.

Tekið var á móti gjöfinni í félagsaðstöðunni í Skeljanesi síðdegis 13. maí. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 12. maí.

Skemmtilegt kvöld og góðar umræður. Mikið rætt um skilyrðin, loftnet, fæðilínur og búnað. Einnig rætt um CQ WW WPX keppnina á morsi 28.-29. maí n.k.

Félagar á báðum hæðum. Haft var m.a. samband við DX leiðangurinn VU4W (Andaman Islands) frá félagsstöðinni. Stór sending af QSL kortum hafði borist, m.a. 4 kg frá Japan.

Vel heppnað fimmtudagskvöld í svölu vorveðri í vesturbænum í Reykjavík og alls 17 félagar í húsi.

Stjórn ÍRA.

Fjölmennt við stóra fundarborðið. Kristján Benediktsson TF3KB, Mathías Hagvaag TF3MH, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Benedikt Sveinsson TF3T, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Sigurður Elíasson TF3-044.
Mikið hefur gengið út af radíódóti, en nokkuð ennfremur bæst við bæði í fundarsal og niðri. Meira er væntanlegt á næstunni. Ljósmyndir: TF3JB.