Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2023. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2022/23 verður fimmtudagskvöldið 5. janúar 2023. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 12 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

8. desember 2023,

73,
Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri kortastofu ÍRA lauk við árlega uppfærslu á merkingum QSL hólfa stofunnar 14. ágúst s.l. Ljósmynd. TF3JB.

CQ World Wide DX CW keppnin 2022 fór fram 26. og 27. nóvember s.l. Keppnisgögn fyrir 8 TF kallmerki voru send inn, þar af 1 viðmiðunardagbók (e. check-log).

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) liggja fyrir frá keppnisnefnd samkvæmt áætlaðri stöðu í viðkomandi keppnisflokki yfir heiminn og yfir Evrópu. Niðurstöður verða birtar í júníhefti CQ tímaritsins 2023.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, HÁAFL:
TF3SG – Nr. 67 yfir heiminn; nr. 17 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, ÖLL BÖND, HÁAFL:
TF1AM – Nr. 529 yfir heiminn; nr. 193 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, ÖLL BÖND, LÁGAFL:
TF3DC – Nr. 259 yfir heiminn; nr. 141 í Evrópu.
TF3EO – Nr. 300 yfir heiminn; nr. 165 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, LÁGAFL:
TF3VS – Nr. 345 yfir heiminn; nr. 180 í Evrópu.
TF8KY – Nr. 1133 yfir heiminn; nr. 594 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, 10 METRAR, HÁAFL:
TF3Y – Nr. 106 yfir heiminn; nr. 62 í Evrópu.

VIÐMIÐUNARDAGBÓK:
TF3JB.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

https://www.cqww.com/raw.htm?mode=cw

Kort EI8IC sýnir svæðaskiptingu heimsins í 40 CQ svæði.
Myndin var tekin þegar Guðmundur Sigurðsson TF3GS fjallaði um stafvarpa og internetgáttir á félagsfundi ÍRA 1. desember s.l.

Vetrardagskrá félagsins heldur áfram á fimmtudag, 8. desember kl. 20:30. Þá mætir Guðmundur Sigurðsson, TF3GS með erindið: „APRS skilaboða- og ferilvöktunarkerfið (Automatic Packet Reporting System)“.

Guðmundur mun m.a. lýsa uppbyggingu APRS sem ferilvöktunarkerfis fyrir radíóamatöra og hvernig t.d. má líka senda stutt textaskilaboð í samskiptum, án aðkomu tölvu. Kerfið er ekki dýrt í uppsetningu og sú reynsla sem íslenskir radíóamatörar hafa aflað nú í meir en áratug sýnir, að koma má upp samtengdu kerfi stafvarpa (e. digipeters) sem veita vöktun á stór-Reykjavíkursvæðinu (og víðar um landið) – allt eftir fjölda stafvarpa og staðsetningu þeirra, en kerfið vinnur á 144.800 MHz í metrabylgjusviði.

Félagsmenn eru hvattir til að láta erindi Guðmundar ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Stjórn ÍRA.

Innsetning 6.12.2022: Guðmundur kemur með APRS búnað sem verður til sýnis í fundarhléi.

Myndin er af Yaesu FT-7900E VHF/UHF FM stöð TF3IRA og Icom IC-208H VHF APRS stöð TF3IRA-1Ø sem hefur verið QRV frá Skeljanesi í 4 ár (frá 15.12.2018). Ljósmyndir: TF3JON.
Guðmundur Sigurðsson TF3GS upplýsir fundarmenn um stafvarpa og internetgáttir í metrabylgjusviðinu (VHF).

Vetrardagskrá ÍRA hélt áfram 1. desember. Að þessu sinni var komið að félagsfundi um “VHF og UHF málefni” og var fundur settur stundvíslega kl. 20:30.

Eftirfarandi tillaga að dagskrá var lögð fram og samþykkt samhljóða: (1) Fundarsetning, kjör fundarstjóra og fundarritara og tillaga að dagskrá. (2) Flutningur erindis um VHF og UHF málefni.  (3) Umræður um stöðu VHF og UHF tíðnisviðanna. (4) Önnur mál. (5)  Fundarslit. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS var kjörinn fundarstjóri og Georg Kulp, TF3GZ var kjörinn fundarritari.

Kl. 20:35 hófst erindi kvöldsins sem var í höndum Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS og Jónasar Bjarnasonar, TF3JB. Þeir félagar skiptust á að fjalla um efnið á mismunandi glærum:

1. Heimildir okkar á 50 MHz til 250 GHz samkvæmt reglugerð.
2. Helsta notkun hér á landi.
3. Búnaður félagsstöðvarinnar TF3IRA.
4. Framtíðarsýn.

Skemmtileg innkoma var frá Benedikt Sveinssyni, TF3T sem sagði okkur frá fyrsta EME sambandinu frá Íslandi sem hann hafði í júlí 2010 á 50 MHz.

Fyrirspurnir voru afgreiddar jafn óðum og í lokin var töluvert rætt um neyðarfjarskipti, sem var áhugaverð umræða. Menn voru einnig forvitnir um APRS, sbr. kallmerkið TF3IRA-1Ø sem er frá APRS stöð félagsins. Guðmundur (TF3GS) skýrði þau mál vel og benti á að næsta fimmtudag (8. desember) verður hann einmitt með sérstakt erindi um APRS í félagsaðstöðunni. Engar umræður urðu undir liðnum önnur mál og var ágætum félagsfundi slitið kl. 22:05. Bestu þakkir til embættismanna fundarins fyrir góð störf.

Slóð á glærur fundarins: [GLÆRUR]

Sérstakir gestir félagsins voru þau Gerald W. „Wayne“ Nixon, NØAD og XYL Heather M. Nixon, NØADN frá borginni Centennial í Colorado. Alls mættu 24 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu rigningarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Innsetning 5.12.2022: Guðmundur kemur með APRS búnað sem verður til sýnis í fundarhléi.

Jónas Bjarnason TF3JB kynnti hluta af glærunum staðsettur úti í sal.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS fundarstjóri hafði margt fróðlegt að leggja til málanna.
Benedikt Sveinsson TF3T sagði okkur frá fyrsta EME sambandinu frá TF.
Sérstakir gestir félagsins fimmtudagskvöldið 1. desember: Heather M. Nixon, NØADN og Gerald W. „Wayne“ Nixon, NØAD í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Þau eru búsett í borginni Centennial í Colorado
Töluvert hefur borist af radíódóti til félagsins að undanförnu. Jón Svavarsson TF3JON fann m.a. þetta tæki sem sem honum leist vel á. Aðrir á mynd: Georg Kulp TF3GZ og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmyndir: Jón Svavarsson TF3JON (allar nema neðasta mynd sem er frá TF3JB).

Stærsta morskeppni ársins, CQ WORLD WIDE DX CW keppnin fór fram helgina 26.-27. nóvember. Um er að ræða 48 klst. keppni á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metra böndunum.

A.m.k. 8 TF kallmerki voru á meðal þátttakenda: TF1AM, TF3DC, TF3EO, TF3JB, TF3SG, TF3VS, TF3Y og TF8KY.

Frestur til að skila inn gögnum rennur út á miðnætti á föstudag.

Fjölmargir keppnisriðlar voru í boði og mun betur koma í ljós á næstunni hvernig íslensku stöðvarnar röðuðust.

Stjórn ÍRA.

Keppni ARRL á morsi á 160 metrum hefst föstudag 2. desember kl. 22:00 og lýkur sunnudag 4. desember kl. 16:00. Þetta er 42 klst. keppni þar sem markmiðið er að hafa sambönd við sem flestar stöðvar í Norður-Ameríku (W/VE) á 160 metra bandi.

Einvörðungu sambönd við stöðvar í Norður-Ameríku gilda til stiga og sem margfaldarar. Undantekningar eru stöðvar í Alaska (KL7), Í Karíbahafi (KP1-KP5) og í Kyrrahafi (KHØ-KH9) þ.á.m. á Hawaii (KH6).

Hafi verið fengin heimild til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz fyrr á þessu ári (2022) – þá er sú heimild í gildi í þessari keppni. Heimildin veitir G-leyfishöfum jafnframt leyfi til að nota fullt afl á tilgreindu tíðnisviði í keppninni, 1kW. Annars þurfa leyfishafar að sækja sérstaklega um heimild til Fjarskiptastofu á hrh@fjarskiptastofa.is

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Myndin er af ICOM IC-7600 HF/50 MHz sendi-/móttökustöð sem m.a. vinnur á 160 metra bandinu. Ljósmynd: TF3JB.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Fimmtudaginn 1. desember verður síðari félagsfundurinn í boði:

Kl. 20:30 – Félagsfundur: „VHF og UHF málefni“.

Efni í umsjá stjórnar.

Húsið verður opnað kl. 20:00 QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

ÍRA hefur félagsaðstöðu í þessu húsi við Skeljanes í Reykjavík.
Mynd frá síðasta félagsfundi í Skeljanesi fimmtudaginn 10. nóvemvber 2022.

Jónas Bjarnason, TF3JB mætti á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 27. nóvember. Umræðuþema var: „Nýjungar í HF stöðvum á markaði fyrir radíóamatöra“. Til hliðsjónar var grein hans um HF stöðvar á markaði sem birtist í 2. tbl. CQ TF í mars 2020.

Farið var yfir helstu breytingar sem orðið hafa í framboði HF stöðva til dagsins í dag. Fram kom m.a. að á markaði eru nú 52 mismunandi HF stöðvar fyrir radíóamatöra frá 20 framleiðendum.

Eftirfarandi stöðvar voru sérstaklega skoðaðar/ræddar: Alinco DX-SR9E 100W 160-6M, Apache Labs Anan 8000DLE MK II 500W 160-6M, Elecraft K4/K4D 100W 160-6M, Expert MB1 Prime, 100W 160-6M, FlexRadio 6600M 160-6M, Icom IC-7300 100W 160-6M, Yaesu FT-710 AESS 100W 160-6M og Yaesu FT-891 100W 160-6M.

Fjallað var um efstu stöðvar á lista Sherwood samkvæmt „Third-order dynamic range narrow spaced“ og að lokum var rætt um vísbendingar um nýjar væntanlegar HF stöðvar, núverandi gerðir sem verða uppfærðar og um nýja tækni sem búist er við að verði innleidd í framleiðsluna á næstu misserum.

Fjörugar umræður urðu að lokinni kynningu sem lauk um kl. 13:45. Sérstakar þakkir til Benedikts Sveinssonar, TF3T sem kynnti m.a. nýju Elecraft K4D stöðina sem hann og bróðir hans, Guðmundur Sveinsson, TF3SG fengu til landsins í byrjun þessa mánaðar.

Þakkir til Jónasar Bjarnasonar, TF3JB fyrir áhugaverða yfirferð um HF stöðvar fyrir radíóamatöra, núverandi stöðu og hvers er að vænta í búnaði þeirra á næstunni. Alls mættu 14 félagsmenn og 2 gestir þennan frostmilda fyrsta sunnudag í aðventu 2022.

Stjórn ÍRA.

Sófasunnudagur á messutíma í Skeljanesi sunnudag 27. nóvember. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Mathías Haagvaag TF3MH, Benedikt Sveinsson TF3T, Erling Guðnason TF3E, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Óskar Sverrisson TF3DC og Jónas Bjarnason TF3JB.
Oddur F. Helgason, Sigurður Harðarson TF3WS, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Óskar Sverrisson TF3DC og Jón G. Guðmundsson TF3LM. Ljósmyndir TF3KB.
Í portinu í Skeljanesi. Georg TF2LL á trukknum með löngu kerruna; búinn að afferma turneiningarnar.

Georg Magnússon, TF2LL hafði flutt turneiningarnar (sem TF3T gaf félaginu síðla ágústmánaðar) til frágangs heim í Borgarfjörð (þar sem hann hefur góða verkstæðisaðstöðu) skömmu eftir að félagið fékk einingarnar afhentar.

Þann 23. nóvember flutti hann einingarnar síðan aftur í Skeljanes og var þá búinn að gera turninn upp.  Því til viðbótar hafði hann smíðað sérstaka veggfestingu sem gerir mögulegt að fella turninn.

Georg hafði ætlað sér að ganga frá veggfestingunni til að undirbúa það að reisa turninn, en þá kom í ljós að nýlega hafði verið flutt og sett niður járnadót og bárujárnsplötur á staðinn sem hindraði þá vinnu (sbr. myndir). En nýi turninn verður settur niður eilítið austar en áður var fyrirhugað (í næsta girðingarbili við hliðina) til að geta fellt turninn með loftnetinu á – í norður (inn í portið).

Nærri þeim stað þar sem félagið hefur fengið leyfi til að reisa nýja turninn eru m.a. númerslausar bifreiðar sem þarna hafa verið lengi. Ennfremur er kofaskrifli þar líka. Bæði bílarnir og kofinn hindra nokkuð aðgengi að staðnum. Georg telur hinsvegar, að verði kofinn færður séu okkur allir vegir færir ásamt því að færa járnadótið og bárujárnsplöturnar sem nefndar eru að ofan um 20-30 metra.

Miðvikudaginn 23. nóvember var því ekki unnið neitt á staðnum, annað en að afferma turneiningar, veggfestingar, „hard-line“ fæðilínu, balun og stýrikapal, auk sjórnkassans fyrir Pro.Sis.Tel rótorinn. Það dót var flutt til geymslu í QSL herbergi félagsins.

Turninn er nú samsettur í tveimur fimm metra löngum einingum og lítur út eins og nýr. Nánast öllum boltum var skipt út. Og, búið er að ganga frá rótornum á sinn stað á þar til gerða festingu (sem Georg smíðaði), auk þess sem hann smíðaði allt í kringum nýja topplegu (þar fyrir ofan).

Sérstakar þakkir til Georgs fyrir alla þessa vinnu og ekki síst, vönduð og fagleg vinnubrö gð.

Stjórn ÍRA.

Turneiningarnar tvær (5m hvor) eins og nýjar. Að baki Georgs glittir í rótorinn og toppleguna.
Járnadótið og bárujárnsplöturnar sem getið er um að ofan.
Myndin sýnir aðstæðurnar betur úr fjarlægð.
Myndin er af nýju veggvestingunni. Ljósmyndir: TF3JB.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram.

Sunnudag 27. október kl. 11:00 verður Jónas Bjarnason, TF3JB með umræðuþema á sunnudagsopnun: „Nýjungar í HF stöðvum á markaði fyrir radíóamatöra“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi, en húsið er opnað kl. 10:30.

Rúnstykki með kaffinu og vínarbrauð frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Kristján Benediktsson TF3KB byrjar erindi sitt “Skipulag alþjóðasamtaka radióamatöra” fimmtudaginn 24. nóvember.

Kristján Benediktsson, TF3KB mætti í Skeljanes 24. nóvember með erindið: „Skipulag alþjóðasamtaka radíóamatöra“.

Hann byrjaði erindið með því að fjalla stuttlega um frumkvöðla radíótækninnar og helstu áhrifavalda og útskýrði vel bakgrunn og þróun á því umhverfi sem við þekkjum í dag sem grundvöll tíðnimála radíóamatöra og stjórnun málaflokksins, þ.e. Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) og svæðisbundnu fjarskiptasamböndin, þ.á.m. það evrópska, CEPT.

Hann kynnti skilgreiningu amatörradíóþjónustunnar í alþjóðaradíóreglugerð ITU (RR) og benti m.a. á nokkrar greinar sem fjalla um þau mál, þ.á.m. að gerðar eru kröfur um lágmarkskunnáttu í radíótækni, radíósamaskiptum og reglugerðum sem þarf að uppfylla til að öðlast amatörleyfi. Þessar kröfur hafa sterka réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Hann kynnti vel og útskýrði skipulag alþjóðasamtaka landsfélaga radíóamatöra, International Amateur Radio Union, IARU og skiptinguna í svæði I, II og III sem er sama skipting og innan ITU. Hann útskýrði aðdraganda að stofnun IARU árið 1925 og mikilvægi samtakanna í að tryggja og viðhalda hagsmunum okkar samhliða því að vinna að framtíðarsýn fyrir áhugamálið. Kristján kom einnig inn á grunngildin sem vinna IARU hefur mótast af alla tíð síðan.

Kristján opnaði okkur sýn inn í viðamikil störf IARU og þau verkefni sem við þekkjum úr nærumhverfinu, þ.e. innan okkar svæðis (Svæðis 1) þar sem starfsemin er byggð upp á vinnu fastanefnda, starfshópa og embætta með aðgreind verksvið. Hann útskýrði einnig uppbyggingu starfsins innan svæðisins, m.a. ráðstefnur sem eru haldnar á þriggja ára fresti og svokallaða „millifundi“ sem haldnir eru mitt á milli þeirra.

Sérstakar þakkir til Kristjáns fyrir vel flutt, fróðlegt, yfirgripsmikið og vandað erindi. Kristján bauð upp á spurningar og svaraði samhliða flutningi erindisins (og á eftir) sem kom mjög vel út. Umræður héldu áfram eftir lok erindisins fram undir kl. 23 þegar staðurinn var yfirgefinn.

Alls mættu 19 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Fram kom m.a. að landfræðileg svæðaskipting ITU og IARU er sú sama.
Kristján útskýrði undirbúningsvinnu sem fram fer m.a. hjá IARU vegna tíðniákvörðunarráðstefnu ITU (WRC) sem fram fer 2023.
Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Georg Kulp TF3GZ.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Georg Kulp TF3GZ. Ljósmyndir: TF3JB.

Vetrardagskráin heldur áfram. Á fimmtudag, 24. nóvember er tvennt í boði í Skeljanesi.

Kl. 17: Námskeiðið „Fyrstu skrefin“.
Óskar Sverrisson, TF3DC leiðbeinir. Áhugasamir skrái sig tímanlega hjá Óskari í síma 862-3151.

Kl. 20:30: Erindið „Skipulag alþjóðasamtaka radíóamatöra“.
Kristján Benediktsson, TF3KB flytur.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Hans Konrad Kristjánsson TF3FG sótti námskeið hjá Óskari Sverrissyni TF3DC í Skeljanesi 10. nóvember s.l. Konni var ánægður með námskeiðið og sagði að það sé mjög nytsamlegt fyrir mann eins og hann að fá innsýn í fjarskiptin á böndunum eins og þau fara fram í dag, en hann sagðist t.d. lítið hafa fylgst með innleiðingu á tölvum í áhugamálið frá 1986. Og nú, þegar hann væri tilbúinn til að fara í loftið á ný hafi m.a. verið áhugavert að kynnast stafrænum tegundum útgeislunar, s.s. FT8, auk þess sem rafrænar fjarskiptadagbækur séu nauðsyn. Ljósmynd: TF3JB.
Kristján Benediktsson TF3KB . Myndin var tekin í eitt af mörgum skiptum sem hann hefur flutt erindi um alþjóðamál radíóamatöra í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JON.