Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu félagsblaðsins okkar, CQ TF 1. tbl. 2023.

Það kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni í dag, sunnudaginn 22. janúar.

Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/01/CQTF-2023-1.pdf

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
Ritstjóri CQ TF

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A var með frábæra kynningu á Es’hail 2 / QO-100 gervitunglinu í Skeljanesi laugardaginn 21. janúar þar sem hann kynnti ódýrar lausnir til viðtöku merkja frá tunglinu.

Hann kom með eigin búnað sem hann notar þegar hann ferðast um landið og hefur sambönd um QO-100 og var 90 cm diskloftnet sett upp á standi við glugga (í austurhluta salarins) í Skeljanesi.

Ari flutti stuttan inngang um tunglið. Fram kom m.a. að í næsta mánuði verða komin 4 ár síðan frá því opnað var fyrir fjarskipti radíóamatöra, en tunglinu var skotið á loft í nóvember 2018. QO-100 er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að það er ætíð á sama stað séð frá jörðu og geta leyfishafar því stundað fjarskipti allar sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink).

Tvö tæki eru í boði (e. linear transponders); 250 kHz á lóðréttri pólun (12VDC) fyrir bandþrengri sendingar (t.d. CW, FT8 og SSB) og 8 MHz á láréttri pólun (18VDC) fyrir bandbreiðari sendingar (t.d. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl.). Ari nefndi, að QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Ari fjallaði einnig um búnaðinn. Fram kom, að hægt er að komast af með um 5 þúsund krónur fyrir búnað og að diskloftnet kostar um 10 þúsund krónur. Hann sýndi okkur m.a. eigið ferðaloftnet og notaði mælitæki (sjá mynd) til að finna ca. stefnuna og merkin frá QO-100 gervitunglinu. En þægilegt er að finna fyrst t.d. sjónvarpsmerkin á 28.2° austur og þá er eftirleikurinn auðveldur.

Eftir kaffi var farið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA og gervihnattastöð félagsins gangsett, en þar voru merki dauf enda kom í ljós að rigningarvatn hafði komist LNB á diskneti stöðvarinnar. Engu að síður var hægt að átta sig á merkjum og áhugavert að sjá merkin á 27“ tölvuskjá.

Bestu þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir afar áhugaverðan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag. Alls mættu 12 félagsmenn og 1 gestur á kynninguna í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur TF1A flutti stuttan inngang og kynnti QO-100 gervitunglið. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Andrés Þórarinsson TF1AM, Karl Georg Karlsson TF3CZ, Jóhannes Magnússon TF3JM, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Ari sagði okkur m.a. frá því hvernig hann finnur merkin frá QO-100 þegar hann ferðast um landið. Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Erling Guðnason TF3E, Andrés Þórarinsson TF1AM, Karl Georg Karlsson TF3CZ, Jóhannes Magnússon TF3JM og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Ari fjallaði um mismunandi diskloftnet og mismunandi gerðir LNB (Low-Noise  block downconverter) sem er hluti af loftnetinu og er staðsett fyrir framan diskinn.
Ari setur upp og tengir LNB við diskinn. Hann fjallaði m.a. um að halla þarf LNB’inu til að fá sem sterkast merki.
Sjá má röð af merkjum á mælitækinu frá mismunandi sjónvarpsgervitunglum þegar Ari var búinn að grófstilla loftnetið. Þegar það var búið var auðvelt að finna merkin frá QO-100.
Eftir kaffi var farið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Sæmileg merki birtust á 27″ tölvuskjánum, en Ari sagði að merkin ættu að vera mun sterkari (sjá næstu mynd).
Og það kom á daginn að plastumbúðirnar sem settar höfðu verið utan um LNB’ið til varnar voru allar tættar (líklega eftir fugla) og LNB’ið var auðsjáanlega í regnvatsnbaði. Ljósmyndir: TF3JB.
Ari Þórólfur, TF1A við mælingar á diskloftneti TF3IRA fyrir QO-100 gervitunglið í fjarskiptaherberginu í Skeljanesi.

Kynning verður í Skeljanesi laugardaginn 21. janúar kl. 14-16.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætir á staðinn og kynnir ódýrar lausnir til viðtöku merkja frá QO-100 gervihnettinum.

Hann sýnir hve einfalt, ódýrt og fljótlegt er að koma upp búnaði til viðtöku gegnum loftnet innandyra.

Kaffi og bakkelsi frá Björnsbakaríi.

Til upplýsingar: Húsnæðið er á ný hlýtt og notalegt eftir að bilun í heitavatnslögn var lagfærð.

Hvetjum félagsmenn að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 3. september 2022. Frá erindi TF1A þar sem hann fjallaði um búnað til að ná merkjum frá (og senda) um QO-100 gervitunglið. Þar ræddi hann m.a. um mismunandi gerðir LNB (Low-Noise Block downconverter) sem er hluti af loftnetinu og er staðsett fyrir framan diskinn.
Mynd af bandskipan fyrir QO-100 gervitunglið.

Af óviðráðanlegum ástæðum verður félagsaðstaðan í Skeljanesi lokuð í kvöld, fimmtudaginn 19. janúar.

Ástæða er bilun í heitavatnslögn sem uppgötvaðist í dag laust fyrir kl. 15.

Óljóst er hvort fresta þarf áður auglýstri opnun á laugardag.

Stjórn ÍRA.

Kynning verður í Skeljanesi laugardaginn 21. janúar kl. 14-16.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætir á staðinn og kynnir ódýrar lausnir til viðtöku merkja frá QO-100 gervihnettinum.

Hann sýnir hve einfalt, ódýrt og fljótlegt er að koma upp búnaði til viðtöku gegnum loftnet innandyra. Kaffi og bakkelsi frá Björnsbakaríi.

Hvetjum félagsmenn að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

Mynd frá vel heppnaðri kynningu Ara á QO-100 í Skeljanesi 3. september s.l.
Myndin var tekin 3. september eftir uppsetningu búnaðar og merkin voru byrjuð að streyma frá QO-100.

Hungarian DX keppnin verður haldin 21.-22. janúar.

Keppnin fer fram morsi og tali á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Öll sambönd gilda og í boði eru 16 keppnisflokkar.

QSO punktar: 2 fyrir QSO innan EU, 5 utan og 10 fyrir QSO við HA stöðvar. Ef þátttaka er bæði á SSB og CW fást QSO punktar fyrir hvora tegund útgeislunar.

Margfaldarar eru einingar (lönd) samkvæmt DXCC og WAE listum og sýslur í Ungverjalandi (BA, BE, BN, BO, BP, CS, FE, GY, HB, HE, SZ, KO, NG, PE, SO, SA, TO, VA, VE, ZA) á hverju bandi, burtséð frá tegund útgeislunar. Skila þarf keppdagbókum innan 5 daga eftir að keppni lýkur.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

http://ha-dx.com/en/contest-rules
https://ha-dx.com/en/submit-log

Verðlaunaplattar fyrir árið 2020 í Hungarian DX Contest. Ofar er sýnishorn af viðurkenningarskjali í keppninni.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 19. janúar frá kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka innkomin kort. Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Yngvi Harðarson TF3Y við tækin í CQ WW DX SSB keppninni í fjarskiptaaðstöðu TF3IRA í október 1979. Á myndinni er m.a. félagsstöð TF3IRA sem þá var glæný, Yaesu FT-10lZD. Ljósmynd: TF3KB.

Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF, eða fram á sunnudagskvöld 15. janúar.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Ath. að nýjung er, að félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Netfang ritstjóra: saemi@hi.is

Fyrirfram þakkir og 73,

TF3UA, ritstjóri CQ TF.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 12. janúar.

Sérstakir gestir félagsins voru þau Hansi Reiser, DL9RDZ og XYL Fiona Reiser, CT2KJT. Hann hefur verið búsettur hér á landi í rúmt ár og hefur heimsótt okkur áður en nú er Fiona einnig flutt til Íslands. Hún hefur mikinn áhuga á tækninni eins og Hansi og var mjög hrifin af aðstöðu félagsins í Skeljanesi. Þau hafa bæði áhuga á að sækja um íslensk kallmerki.

Mikið var rætt um tæki og búnað yfir kaffinu, m.a. um QO-100 gervitunglið sem sendir merki á 10.489 GHz. Ari Þórólfur, TF1A sagði m.a. frá áhugaverðum tíðnibreyti sem nú er fáanlegur á 1500 krónur hjá Öreind (breytir 10.489 GHz niður í 740 MHz). Fram kom, að vinsælt er að nota forritið „SDR Console“ (sem er frítt forrit) til að stýra breytinum.

Alls mættu 17 félagar og 2 gestir þetta ágæta fimmtudagskvöld í hæglætis vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Beðið eftir kaffinu. Mathías Hagvaag TF3MH, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Fiona Reiser CT2KJT, Hansi Reiser DL9RDZ, Njáll H. Hilmarsson TF3NH og Mathías Hagvaag TF3MH.
Mathías Hagvaag TF3MH, Benedikt Sveinsson TF3T, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Einar Kjartansson TF3EK, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID. Þakkir til Georgs Kulp TF3GZ fyrir ljósmyndir.

Samtök norrænna landsfélaga radíóamatöra (Nordisk Radio Amatør Union, NRAU) gangast fyrir tveimur virknikeppnum sunnudaginn 15. janúar.

Þetta er 2 klst. viðburðir; á 80 metrum og 40 metrum.

SSB keppnin fer fram kl. 06:30-08:30; og
CW keppnin fer fram 09:00-11:00.

Þetta er keppnir á milli Norðurlandanna (JW, JX, LA, OH, OH0, OJ0, OX, OY, OZ, SM, TF) og Eystrasaltslandanna (ES, LY, YL).

Í hugum flestra íslenskra radíóamatöra er NRAU e.t.v. þekktast fyrir að standa fyrir Scandinavian Activity Contest (SAC) keppnunum. En NRAU-Baltic keppnirnar og NRAU-Activity keppnirnar (NAC) eru þar til viðbótar.

Með ósk um gott gerngi!

Stjórn ÍRA.

Keppnisreglur:  https://www.nraubaltic.eu/

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 12. janúar frá kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri félagsins verður búinn að fara í pósthólfið og flokka innkomin kort.

Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Baldur Þorgilsson TF3BP og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A við gervihnattastöð félagsins í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Myndin var tekin 19. desember 2019. Ljósmynd: TF3JB.

Næsta tölublað CQ TF, 1. tölublað ársins 2023, kemur út 22. janúar n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Skilafrestur efnis er til 15. janúar. Netfang: saemi@hi.is

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
ritstjóri CQ TF