Ársæll Óskarsson, TF3AO.

Ársæll Óskarsson, TF3AO, leiðir umræðuþema dagsins á 4. og næstsíðustu sunnudagsopnun vetrardagskrárinnar, sunnudaginn 6. mars n.k. kl. 10:30. Sæli mun fjalla um notkun RTTY (Radioteletype) á HF-böndunum, en radíóamatörar hafa notað þessa tegnund útgeislunar í fjarskiptum um allan heim í bráðum 60 ár. Fyrst með aðstoð vélbúnaðar (e. teletype machines) en í seinni tíð með notkun tölva.
Félagið býður upp á kaffi og meðlæti.

Fyrirkomulag umræðna í sunnudagsopnunum er hugsað sem afslappað, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, nú RTTY, leiðir um ræðuna og svarar spurningum. Eftirtalin umræðuþema hafa þegar farið fram: Quad loftnet; Að læra mors; Fæðilínur og nú, RTTY. Á síðustu sunnudagsopnun vetrardagskrár, þann 13. mars n.k., verður umræðuþemað reglugerðarmál.

TF2JB

 

Í.R.A. stendur fyrir kynningu á starfsemi radíóamatöra í Raftækniskólanum / Tækniskólanum á Skólavörðuholti á svokölluðum opnum dögum skólans sem haldnir eru dagana 3. og 4. mars.


Jón Þóroddur Jónsson, verkfræðingur, TF3JA, mun annast kynninguna fyrir hönd félagsins og fer hún fram föstudaginn 4. mars á milli kl. 10-12. Viðburðirnir eru kynntir fyrirfram og þurfa nemendur að skrá sig sérstaklega á hvern viðburð.

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, er tæplega 2700 nemenda skóli. Hann er samsettur úr alls 10 sérgeindum skólum, þ.e. Byggingartækniskólanum, Hársnyrtiskólanum, Hönnunar- og handverksskólanum, Fjölmenningarskólanum, Flugskóla Íslands, Tæknimenntaskólanum, Upplýsingatækniskólanum, Raftækniskólanum, Skipstjórnarskólanum og Véltækniskólanum.

Sjá nánar: http://www.vatnsendaskoli.is/files/skolinn/taekniskolinn.pdf?PHPSESSID=aa2ef12d9ab47d11c0f9aa05d876792c

 TF2JB

Áður auglýst fimmtudagserindi Jónasar Bjarnasonar, TF2JB og Guðlaugs K. Jónssonar, TF8GX, um viðurkenningarskjöl sem flytja átti fimmtudaginn 3. mars, fellur niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Leitast verður við að finna nýjan tíma sem allra fyrst í samráði við fyrirlesara. Almennt opnunarkvöld verður í félagsaðstöðunni við Skeljanes á venjulegum tíma.

TF2JB

Frá prófdegi 2010.

Námskeið til amatörréttinda verður haldið á vegum félagsins Íslenskir radíóamatörar á tímabilinu 7. mars til 27. apríl n.k.
Kennsla fer fram í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes, mánudaga og miðvikudaga frá kl. 19:00-22:00. Kennslu getur þó lokið
fyrr sum kvöld sem er háð kennsluefni hverju sinni.

Ath. að ekki verður af sérstöku kynningarkvöldi 2. mars n.k., heldur mun stutt kynning fara fram í byrjun fyrsta kvöldsins,
þ.e. mánudaginn 7. mars. Öllum er frjálst að mæta það kvöld í félagsaðstöðuna.

Stefnt er að því að sækja um til Póst- og fjarskiptastofnunar að próf verði haldið laugardaginn 14. maí n.k. kl. 10 árdegis.
Sú dagsetning býður upp á þann möguleika að efna til auka- og/eða æfingatíma eftir að formlegri kennslu lýkur.

Þeir sem hafa skráð sig á námskeiðið munu fá tölvupóst frá félaginu í dag, 1. mars, því til staðfestingar. Námskeiðsgjald verður
12.500 krónur. Innifalið eru námskeiðsgögn. Félagsmenn Í.R.A. greiða 9.500 krónur. Þeir sem gerast félagsmenn við skráningu
njóta lægra gjalds. Í lögum félagsins segir, að þeir sem ganga inn eftir 1. ágúst ár hvert greiði hálft félagsgjald. Fólk á aldrinum
16-66 ára greiðir þannig 2000 krónur og fólk yngra en 16 ára (og eldra en 67 ára) 1000 krónur.

Þátttakendum er bent á að kynna sér upplýsingar um strætisvagnaferðir á heimasíðu og tímatöflu þeirra, en viðkomustöð Strætó
er beint fyrir utan húsið. Nokkur spölur er í sölubúðir. Þátttakendum er því bent á að taka með sér nesti (ef þeir svo kjósa) en
félagssjóður býður ávallt upp á kaffi.

Kjartan Bjarnason, TF3BJ, skólastjóri námskeiðsins veitir allar nánari upplýsingar. Tölvupóstur hans er: kjartan@skyggnir.is

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, starfrækti TF3W frá félagsstöð Í.R.A. 18.-19. september. Ljósmynd: TF3LMN.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, mun starfrækja stöð félagsins í ARRL DX Phone keppninni 5.-6. mars n.k. og nota kallmerkið TF3W. Keppnin hefst kl. 00:00 laugardaginn 5. mars og lýkur kl. 23:59 sunnudaginn 6. mars. Sigurður mun keppa í einmenningsflokki á 14 MHz á hámarksafli (1kW).

Markmið keppninnar er að hafa eins mörg QSO og mögulegt er á þessum tveimur sólarhringum við aðrar amatörstöðvar í W/VE. Mest er hægt að hafa 63 margfaldara á einu bandi. Hvert ríki í Bandaríkjunum og hvert fylki í Kanada telja. Öll ríki í Bandaríkjunum gilda þannig sem margfaldarar nema KH6 og KL7 en “District of Columbia, DC” kemur inn sem margfaldari í keppninni. Í Kanada gilda fylkin: NB (VE1, 9); NS (VE1); QC (VE2); ON (VE3); MB (VE4); SK (VE5); AB (VE6); BC (VE7); NWT (VE8); NF (VO1); LB (VO2); NU (VYØ); YT (VY1); og PEI (VY2).

TF2JB

Við upphaf erindis. Vilhjálmur með fundarmenn á aðra höndina og frumherjana á hina höndina (TF5TP og TF6GI).

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti leiftrandi áhugavert erindi í félagsaðstöðu Í.R.A. í gærkvöldi, 24. febrúar. Það var sprottið af hönnun hans á sendiloftneti fyrir TF4M á 1,8 MHz.

Vilhjálmur lagði upp með grundvallarspurninguna um lárétta eða lóðrétta skautun og hvernig það tengist þeim vanda sem er samfara hönnun loftneta þegar bylgjulengdin er 160 metrar og ekki reynist unnt að koma þeim hærra en sem nemur 1/8 úr bylgjulengd eða svo. Hann útskýrði einnig áhrifin af jarðleiðni, ekki síst kosti þess að hafa loftnet við sjávarsíðuna eins gert var með umrætt loftnet. Loks drap hann á áhrifin af mismunandi hæð lóðréttra loftneta. Að loknu erindi svaraði Vilhjálmur fjölmörgum spurningum félagsmanna.

Vilhjálmur mun ljúka umfjöllun sinni eftir þrjár vikur með framhaldserindi í Skeljanesi, þ.e. fimmtudaginn 17. mars n.k. kl. 20:30. Þá verður farið í tapsvalda og sjónarmið við hönnun topphatts og mótvægis með nýtni að leiðarljósi. Aðsókn var afburða góð, 36 félagsmenn, sem er besta aðsókn á einn viðburð hjá félaginu frá því flutt var í húsið fyrir réttum 7 árum.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi og hvetur félagsmenn til að taka frá fimmtudagskvöldið 17. mars n.k.

Vilhjálmur sýndi margar áhugaverðar “Power Point” glærur með erindinu.

Líkt og sjá má á myndinni þurftu sumir að standa þar sem ekki hafði verið raðað upp nema 30 stólum…

Það hefði mátt heyra saumnál detta…menn einbeittu sér að því að hlusta til að missa ekki af neinu.

Sigurður Óskarsson, TF2WIN og S. Smári Hreinsson, TF8SM, spyrja Vilhjálm út í einstök atriði í kaffihléinu.

Brosmildir verkfræðingar í kaffihléi: Frá vinstri: Sæmundur TF3UA; Kjartan TF3BJ; og Jón Þóroddur TF3JA.

Eru 160 metrar skemmtilegasta bandið? Frá vinstri: Guðmundur TF3SG, Stefán TF3SA og Höskuldur TF3RF.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX

Næsta fimmtudagserindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 24. febrúar n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, og nefnist erindið “Sendiloftnet TF4M á 160 metrum; sjónarmið við hönnun”. Vilhjálmur segir sjálfur, að hann muni leitast við að setja efnið þannig fram, að hvorutveggja höfði til byrjenda sem og þeirra sem eru lengra komnir í loftnetafræðum.

Meðal íslenskra leyfishafa hefur mikið hefur verið rætt um hönnun Vilhjálms á sendiloftneti Þorvaldar, TF4M, á 160 metra bandinu og flestir íslenskir leyfishafar hafa fylgst með frábærum árangri hans í tíðnisviðinu undanfarin misseri. Árangur Þorvaldar hefur verið það góður að annað eins hefur ekki sést hér á landi á 160 metrum, m.a. í alþjóðlegum keppnum (yfir heiminn) sem og í almennri DX-vinnu. Því til vitnis má m.a. nefna, að fyrstu Worked All Zones (WAZ) og DXCCviðurkenningarskjölin á 160 metrum hafa verið gefin út til TF4M í Otradal.

Nú gefst einstakt tækifæri að hlusta á hönnuð loftnetsins sem á þátt í velgengni Þorvaldar. Félagar, mætum stundvíslega! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, við tengikassa fyrir fæðilínu í 160 metra sendiloftnet TF4M haustið 2010.

Erindið hófst kl. 20:30; Sigurður R. Jakobsson og Yngvi Harðarson, TF3Y fengu “contest-style” kynningu.

Erindi þeirra Sigurðar, TF3CW og Yngva, TF3Y í félagsaðstöðunni, fimmtudagskvöldið 17. febrúar var vel heppnað. Fullt hús (32 á staðnum) og góðar umræður. Menn slepptu kaffihléi og þeir félagar töluðu til kl. 22:30. Viðstaddir sóttu sér einfaldlega kaffi á meðan á erindinu stóð (sem gafst ágætlega) og gekk kaffikannan látlaust allt kvöldið.

Fyrri hluti erindisins fjallaði um hnattstöðu Íslands og norðurljósavirknina sem er að meðaltali 243 dagar á ári samanborið við aðeins 10 daga í mið-Englandi, 5 daga í norður-Frakklandi og 1 dag á ári í suður-Frakklandi.

Í seinni hlutanum var farið yfir allar helstu alþjóðlegar keppnir á árinu 2010 á CW, SSB og RTTY og árangur TF stöðva skoðaður, annars vegar með hliðsjón af norðurljósavirkni (í hverri keppni) og hins vegar með samanburði við aðrar stöðvar. Þetta var afar áhugaverður og vel heppnaður hluti erindisins og tóku fundarmenn virkan þátt með umræðum. Í ljós kom, að íslenskar stöðvar hafa í raun staðið sig ótrúlega vel þrátt fyrir allt – en hafa þarf í huga að samkeppnin er ekki einvörðungu ójöfn vegna norðurljósavirkninnar einnar, heldur er ótrúlegur fjöldi erlendra leyfishafa með afburða loftnet sem erfitt væri að setja á vetur hérlendis.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW og Yngva Harðarsyni, TF3Y fyrir vel heppnað erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Farið var yfir árangur TF stöðva í flestum alþjóðlegum keppnum á árinu 2010, þ.e. CW, SSB og RTTY.

Hnattstaða Íslands er óneitanlega erfið fyrir okkur á HF.

Menn voru óneitanlega hugsi þegar sýnt var hve erfið hnattstaða okkar er í raun, t.d. í samanburði við Breta og Frakka

TF2JB

Matthías Hagvaag, TF3-Ø35, handleikur QSL kortin fyrir fyrstu DXCC umsókn TF3IRA.

Matthías Hagvaag, TF3-Ø35, hefur að undanförnu yfirfarið QSL kort félagsstöðvarinnar með það fyrir augum að sækja megi um viðurkenningarskjöl fyrir TF3IRA. Í gær, 17. febrúar, skilaði hann af sér tilbúnum umsóknum fyrir DXCC í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi. Til að byrja með verður sótt um þrjú sérgreind skjöl frá ARRL: DXCC MIXED, DXCC PHONE og DXCC CW. Í framhaldi er hugmyndin að sækja einnig um sérgreint DXCC RTTY viðurkenningarskjal.

Því til viðbótar, hefur verið ákveðið að sótt verði um WORKED ALL ZONES (WAZ), CQ DX AWARD, og WORKED ALL PREFIXES AWARD (WPX) viðurkenningarskjölin frá CQ Magazine. Ákvörðun um fleiri viðurkenningarskjöl, s.s. Worked All Europe Award (WAE) frá DARC verður tekin í samráði við nýjan stöðvarstjóra félagsstöðvarinnar.

Stjórn Í.R.A. þakkar Matthíasi fyrir gott vinnuframlag.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW.

Yngvi Harðarson, TF3Y.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Yngvi Harðarson, TF3Y, verða með erindi fimmtudaginn 17. febrúar n.k. í félagsaðstöðu Í.R.A.
við Skeljanes. Þeir félagar munu fjalla um DX-keppnir og m.a. sýna hvernig hægt er að ná góðum árangri í þeim, ásamt því að fara
yfir frammistöðu TF stöðva í helstu keppnum ársins 2010. Erindið hefst hefst kl. 20:30, stundvíslega.

Félagar, fjölmennum! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

TF2JB

 

 

 

 

 

Leitað er eftir áhugasömum félagsmanni til að taka að sér embætti stöðvarstjóra TF3IRA. Stöðvarstjóri þarf að vera G-leyfishafi, helst með víðtæka reynslu og hafa góð tök á mannlegum samskiptum. Embættinu fylgir viðvera í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi í samvinnu við stjórnarmenn sem sinna viðveru í félagsaðstöðunni hverju sinni.

Hlutverk félagsstöðvar Í.R.A. er fyrst og fremst að þjóna félagsmönnum, en stöðin sinnir jafnframt kynningarhlutverki gagnvart verðandi leyfishöfum og gestum, auk þess að sinna neyðarfjarskiptum (þ.m.t. neyðarfjarskiptaæfingum). Um þessar mundir er unnið að endurskoðun til eflingar á hlutverki TF3IRA og mun nýr stöðvarstjóri koma að þeirri vinnu.

Eftirtaldir veita upplýsingar:

Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður, hs. 437-0024, gsm 898-0559, tölvup. jonas hjá hag.is.
Erling Guðnason, TF3EE, varaformaður, hs. 568-7781, gsm 664-8535, tölvup. tf3ee hjá btnet.is.

MFJ standbylgju mælir.

Stjórn Í.R.A. samþykkti nýlega að festa kaup á loftnetsgreini frá MFJ fyrirtækinu til útláns til félagsmanna. Keypt var gerð MFJ-269 sem vinnur á tíðnisviðinu frá 1.8 MHz til 170 MHz annars vegar, og tíðnisviðinu 415 MHz til 470 MHz, hins vegar.

Nú fer loftnetatími í hönd og er miðað við að tækið verði tilbúið til útláns til félagsmanna frá 3. mars n.k. Lánstími verður ein vika (þ.e. frá fimmtudegi til fimmtudags) og verður innheimt 1 þúsund króna gjald fyrir hverja leigu. Tækið verður afgreitt í sérstakri tösku ásamt 12 volta spennugjafa. Því fylgir handbók (á ensku), millistykki til að breyta N-tengi fyrir PL-259 tengi, ásamt snúru með BNC-tengi fyrir aðrar mælingar. Innifalið í leigu eru 10 nýjar AA rafhlöður (ef nota á tækið utanhúss).

MFJ-269 er búið innbyggðum rafhlöðum til nota á vettvangi (t.d. úti við loftnet) sem og í fjarskiptaherbergi innanhúss (tengt við utanáliggjandi 12 volta spennugjafa). Til ráðstöfunar eru m.a. sveifluvaki með breytanlegri tíðni, tíðniteljari, tíðnimargfaldari, 12 bita A-D breytir og sérhæfður forritanlegur örgjörvi til mælinga. Með tækinu má gera margvíslegar mælingar á loftnetum og RF sýnvarviðnámi, þ.á.m. að mæla rafsegulfjarlægð til skammhleyptrar eða opinnar fæðilínu, töp í kóax fæðilínum og til mælinga á standandi bylgjum. Þótt tækið sé í raun hannað til greiningar á 50 ? loftnetum og fæðilínum, má auðveldlega stilla það til mælinga á hvaða sýndarviðnámsgildi sem er á bilinu 5-600 ?.

Tækið var keypt hjá fyrirtækinu DX Engineering í Bandaríkjunum og kostaði alls 61.245 krónur þegar allur kostnaður og aðflutningsgjöld höfðu verið greidd.