Ráðgert er að hafa til umfjöllunar rafmagnsfræði í næstu sunnudagsopnun félagsins að morgni þess 12. febrúar, ca. kl. 10.00 og mun Vilhjálmur Kjartansson, TF3DX leiða umræðuna. Þetta er hugsað sem viðbót við þá rafmagnsfræði sem kennd hefur verið á námskeiðum félagsins og farið vandlega ofan í fræðilega en afmarkaða hluti. Ráðgert að þetta verði með léttu sniði, skrifað á töfluna yfir kaffibolla.

73
Guðmundur de TF3SG

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW.

Yngvi Harðarson, TF3Y.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Yngvi Harðarson, TF3Y, verða með næsta erindi á vetrardagskrá félagsins. Það verður haldið fimmtudaginn 9. febrúar n.kí félagsaðstöðunnni við Skeljanes.

Þeir félagar munu fjalla um þátttöku í alþjóðlegum keppnum og hve mikilvægt er að viðhafa markvissan undirbúning sem þátt í keppnisferlinu. Erindið hefst hefst stundvíslega kl. 20:30.

Félagar, fjölmennum! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

 

Kortastofa ÍRA tilkynnir hækkun á þjónustu. Frá og með deginum i dag kostar kr. 9,50 pr. kort, sem sent er í gegnum kortastofu ÍRA. Frá ármótum hefur ný gjaldskrá Íslandspósts verið í gildi. Rétt að geta þess að póstburðargjöld Íslandspósts hafa hækkað frá síðustu hækkun kortastofu ÍRA um 53,16% á bréfum til Evrópu og 50,88% utan Evrópu. Verð Íslandspósts á 250 gramma bréfi til Evrópu sem kostaði kr. 380 kostar eftir hækkun kr. 520 og verð á 250 gramma bréfi utan Evrópu sem kostaði kr. 570 kostar nú kr. 860.

73
Guðmundur, TF3SG

Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Benedikt Sveinsson TF3CY tengja AlfaSpid rótor félagsins 4. febrúar. Niðri, til hægri: Guðmundur Sveinsson TF3SG og Sigurður R. Jakobsson TF3CW.

Undanfarið hefur verið beðið tækifæris til að setja upp AlfaSpid rótor félagsins aftur í loftnetsturninn í Skeljanesi. Tækifærið gafst síðan í dag, þann 4. febrúar og var ákveðið í morgun kl. 11 að hittast kl. 12 á hádegi og ráðast í verkefnið. Það gekk að óskum og um kl. 13:30 var allt komið í gang og SteppIR 3E loftnet TF3IRA farið að snúast.

Bestu þakkir til þeirra Benedikts Sveinssonar, TF3CY, stöðvarstjóra TF3IRA, sem gerði við rótorinn og hafði umsjón með verkinu. Einnig þakkir til Sigurðar R. Jakobssonar, TF3CW; Baldvins Þórarinssonar, TF3-033; og Guðmundar Sveinssonar, TF3SG. Aðrir á staðnum: Reynir Björnsson, TF3RL og Jónas Bjarnason, TF2JB.

Fyrirtaksveður var til framkvæmda í Skeljanesi 4. febrúar eins og myndin ber með sér; logn og 5°C lofthiti.

Benedikt TF3CY og Sigurður TF3CW “taka út” AlfaSpid rótorinn í fjarskiptaherbergi TF3IRA.

Glatt á hjalla í fjarskiptaherbergi félagsins enda búið að laga kaffi og rótorinn kominn upp. Frá vinstri: Oddur “okkar” Helgason, Guðmundur Sveinsson TF3SG, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Sigurður R. Jakobsson TF3CW.

Bókaskápurinn eins og hann lítur út eftir breytingu. Hvert tímarit hefur nú sína eigin hillu.

Nýlega bárust félaginu að gjöf 40 vandaðar innstungumöppur úr harðplasti. Í tilefni þess, brettu stjórnarmenn upp ermar um nýliðna helgi og var komið á skipulagi og nýrri uppröðun tímaritaeignar félagsins í bókaskáp í samkomusal á 1. hæð í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Eftir breytingu, hefur hvert tímarit eigin hillu sem er merkt með nafni þess. Árgangar tímaritanna CQ DL, QST, RadCom og norrænu tímaritanna OZ, Amatør Radio og QTC liggja frammi fyrir árin 2008-2012, en tímaritin Radioamatööri, Radio REF og Radio Rivista liggja frammi fyrir árin 2010-2012. Eldri áragangar hafa verið fluttir í geymslu. Sjá nánar lista yfir tímaritin hér á eftir:

Tímarit

Útgefandi

Tungumál

Útgáfutíðni

CQ TF ÍRA, Íslenskir radíóamatörar Íslenska Ársfjórðungslega
OZ EDR, Experimenterende Danske Radioamatører Danska Mánaðarlega
Amatør Radio NRRL, Norsk Radio Relæ Liga Norska Mánaðarlega
QTC SSA, Föreningen Sveriges Sändareamatörer Sænska Mánaðarlega
Radioamatööri SRAL, Suomen Radioamatööriliitoo OY Finnska Mánaðarlega
QST ARRL, American Radio Relay League Enska Mánaðarlega
RadCom RSGB, Radio Society of Great Britain Enska Mánaðarlega
CQ DL DARC, Deutscher Amateur-Radio-Club e.V. Þýska Mánaðarlega
Radio REF REF Réseau des Émetteurs Français Franska Mánaðarlega
Radio Rivista ARI, Associazone Radioamatori Italiani Ítalska Mánaðarlega

Hver hylla er sérmerkt viðkomandi tímariti, sem auðveldar aðgengi. Hver mappa inniheldur heilan árgang.

Þessi breyting gerir tímaritin aðgengilegri, auk þess sem merkingar eru samræmdar. Líkt og fram kemur í töflunni að ofan, eru það alls 9 erlend tímarit sem félaginu berast reglulega í hverjum mánuði. Í þessu felast verðmæti sem er ánægjulegt að félagsmenn geti nýtt sem best.

Benda má á, að ljósritunarvél félagsins er í góðu lagi og gefst mönnum kostur á að taka ljósrit upp úr tímaritunum frítt, m.a. í stærðinni A3 sem nær til dæmis að taka heila opnu í QST á eitt blað.

Sérhver innstungumappa rúmar heilan árgang og eru þær vel merktar eins og sjá má á myndinni.

Guðmundur Löve TF3GL fjallaði um væntanlega VHF leika og útbreiðslu radíóbylgna í VHF/UHF sviðunum.

Fimmtudagserindið þann 26. janúar var í höndum Guðmundar Löve, TF3GL, og nefndist það VHF leikar 2012; möguleikar á VHF/UHF samböndum; og sögur og staðreyndir um útbreiðslu merkja í þessum tíðnisviðum.

Guðmundur fór yfir tillögur að reglum og stigagjöf í VHF-leikum sem hugmyndin er að halda fyrstu helgina í júlí í sumar. Í umræðum komu fram ýmis sjónarmið og virtust flestir sammála því að hafa reglurnar og stigagjöfina sem einfaldasta. Sem stendur, er keppnin hugsuð sem “fully assisted” og aðeins vegalengd telur til stiga, en hafa má mest sex sambönd við hverja stöð á hverju bandi.

Seinni hluti erindisins fjallaði um bylgjuútbreiðslu og bylgjuhegðan á VHF og UHF, og um hjálparforrit til að skoða og reikna útbreiðslumyndir og radíólinka. Glærukynningu hefur verið komið fyrir á vefsíðu VHF-leikanna (http://www.ira.is/vhf-leikar/), þar sem einnig er að finna Google Earth-skrár sem sýndar voru. Glærukynninguna er einnig að finna á vefsíðu fræðslukvölda á heimasíðunni, sjá vefslóð (http://www.ira.is/itarefni/).

Í lok erindisins fóru fram fjörlegar umræður og svaraði Guðmundur greiðlega fjölmörgum fyrirspurnum. Þrátt fyrir mikið vetrarríki í höfuðborginni og erfiða færð mættu á þriðja tug félagsmanna í Skeljanesið.

Stjórn Í.R.A. þakkar Guðmundi Löve, TF3GL vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Mynd úr sal. Frá vinstri: Ari Þ. Jóhannesson TF3ARI, Andrés Þórarinsson TF3AM, Mathías Hagvaag TF3-035 Haraldur Þórðarson TF3HP, Höskuldur Elíasson TF3RF og Óskar Sverrisson TF3DC. Fjær: M.a. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Gísli G. Ófeigsson TF3G.

Carl Jóhann Lilliendahl, TF3KJ, við einkabílinn á sólríkum sumardegi. Takið eftir númeraplötunni.

Samantekt TF3KJ um smíði á lágsláttarviðtæki fyrir 80 metra bandið sem vinnur á AM, CW og SSB hefur verið sett á heimasíðuna. Kalli smíðaði tækið árið 1978 með það í huga að auðvelda nýliðaleyfishöfum að koma sér upp góðu tæki til viðtöku á bandinu, en eins og höfundur segir sjálfur, er tækið mjög einfalt
í smíðum.

Allar teikningar og leiðbeiningar eru framúrskarandi vel unnar, auk þess sem hann hannaði prentrásarplötur fyrir smíðina. Þá fylgja greinargóðar upplýsingar um kassann sem hann hannaði og smíðaði sjálfur utan um viðtækið. Líkt og höfundur getur um, er viðtækið smíðað eftir upphaflegri teikningu frá Kristjáni Benediktssyni,
TF3KB.

Fyrirhuguð morsæfing sem átti að vera miðvikudaginn 25. janúar fellur niður. Minnt er á æfinguna í kvöld kl. 21.00 a ca 3.540 KHz.

73
Guðmundur de TF3SG

Ráðgert er að bjóða upp á stöðutöku í móttöku og sendingu á morsi í febrúar. Þeir sem áhuga hafa eru beðnir að skrá þáttöku fyrir lok janúar. Undirritaður tekur á móti skráningum.

73
Guðmundur de TF3SG

Alþjóðleg radíófjarskiptaráðstefna ITU, WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) er hafin í Genf og fer hún fram dagana 23. janúar til 17. febrúar. Kristján Benediktsson, TF3KB, IARU tengiliður félagsins, gerði ráðstefnuna að umtalsefni í grein í janúarhefti CQ TF 2012. Hér á eftir er birtir hlutar úr greininni, en þar segir Kristján m.a.:

„Það er á ráðstefnum sem þessum, sem ný amatörbönd geta ORÐIÐ TIL eða HORFIÐ. Því skiptir undirbúningur radíóamatöra fyrir þessar ráðstefnur mjög miklu máli. Þó eiga radíóamatörar enga formlega aðild að ráðstefnunum. Þeir ráða ekki yfir neinum atkvæðum. Atkvæðin eru í höndum stjórnvalda í hverju landi.

Hvað radíóamatöra varðar, fer mikið af undirbúningnum í að fylgjast með öllu sem allir eru að taka afstöðu til og gera, og beita síðan áhrifum sínum radíóamatörum til góða. Fyrir ráðstefnur eins og WRC-12 fer undirbúningurinn fyrst og fremst fram innan alþjóðasamtakanna, IARU, í samvinnu við kjörna fulltrúa í stjórnum svæðissamtakanna í Svæðum 1, 2 og 3. og aðildarfélögin.

Árangurinn á undanförnum árum hefur verið ótrúlegur, hvað varðar ný tíðnisvið sem radíóamatörar hafa heimild til að nota. Þetta byggir á þrotlausri vinnu IARU manna. Aldrei má þó taka fengnar tíðnir sem gefnar, því stöðugt þarf að verja þær ásókn annarrar þjónusta, ekki síst á tímum þar sem farið er að selja tíðnir eða bjóða þær hæstbjóðanda. Ein spennandi spurning fyrir radíóamatöra nú á WRC-12 er hvort samþykkt verður aukning á tíðnisviði amatöra á 600 metra bandinu”.

Sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar sækja ráðstefnuna fyrir hönd Íslands.


Upplýsingar um ráðstefnuna má sjá á eftirfarandi vefslóð: http://www.itu.int/ITU-R/index.asp?category=conferences&rlink=wrc-12%3C=en

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá 1957.

Töluverðar truflanir hafa verið í segulsviðinu s.l. sólarhring (22.-23. janúar) sbr. meðfylgjandi línurit. Á línuritunum hér fyrir neðan má sjá stöðuna kl. 08 mánudaginn 23. janúar. Skilyrðaspár benda til að truflanir geti haldið eitthvað áfram.

Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla (nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Guðmundur Löve, TF3GL.

Guðmundur Löve, TF3GL, flytur næsta fimmtudagserindi á vetrardagskrá Í.R.A. þann 26. janúar n.k. kl. 20:30. Umræðuefnið er: VHF leikar 2012; möguleikar á VHF/UHF samböndum; og sögur og staðreyndir um útbreiðslu merkja í þessum tíðnisviðum.

Í grein sem Guðmundur ritar í janúarhefti CQ TF 2012 segir hann meðal annars: TF VHF-leikarnir eru hugarfóstur áhugamanna um langdræg VHF-fjarskipti, en draga dám af sambærilegum leikum sem mikilla vinsælda njóta í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. VHF-leikarnir eru leikar – en ekki keppni, þótt stigafjöldi geti vissulega verið mælikvarði á ástundun, búnað, útsjónarsemi og heppni!

Í greininni eru settar fram áhugaverðar tillögur að leikreglum og keppnistilhögun. Guðmundur segir ennfremur, að tilgangur leikanna sé að örva áhuga og hæfni íslenskra radíóamatöra hvað varðar notkun VHF- og UHF-tíðnisviðanna og eflingu slíkra fjarskipta innanlands. Jafnframt er hugmyndin
að leikarnir geti verið mönnum til nokkurrar ánægju við sameiningu útivistar, ferðalaga og amatör
radíós.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagsins.