Haraldur Sigurðsson, TF3A, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað, RST 000.

Sonur hans, Haukur Þór Haraldsson, TF3NAN, hefur sent erindi til félagsins þess efnis að faðir hans hafi látist á líknardeild Landspítalans í gær, 14. júní. Haraldur var á 81. aldursári, leyfishafi nr. 26 og heiðursfélagi í Í.R.A.

Um leið og við minnumst Haraldar með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Hustler G6-144B loftnetið komið upp og tengt við TF3RPC. Ljósmynd: TF3WS

Endurvarpi félagsins við Hagatorg í Reykjavík, TF3RPC, er QRV á ný. Sigurður Harðarson, TF3WS, tengdi stöðina í morgun (15. júní) og var “Einar” fullbúinn um kl. 10:30. Prófanir lofa góðu og í öllum tilvikum virðast merkin góð.

Vegna breytinga í húsnæðinu þar sem endurvarpinn hefur aðstöðu, þurfti að færa stöðina til. Jákvæð áhrif breytingarinnar eru m.a. styttri fæðilína sem nú er aðeins um 6 metrar að lengd. Vinnutíðnir TF3RPC: 145.175 MHz RX / 145.775MHz TX.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði Harðarsyni, TF3WS, fyrir aðstoð við tengingu endurvarpans. Einnig Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI, fyrir aðstoð við prófanir.

Umræddar turneiningar eru geymdar á milli húss og bárujárnsveggjar í Skeljanesi. Ljósmynd: TF2JB.

Um nokkurn tíma hefur félaginu staðið til boða að fá til ráðstöfunar turneiningar og annað loftnetaefni sem upphaflega var í notkun á Rjúpnahæð. Guðmundur Sveinsson, TF3SG, auglýsti eftir aðstoð á póstlista félagsins þann 5. júní s.l., með það í huga að sækja þetta efni þegar ljóst var að vel búin vörubifreið (með krana) á vegum G. Svans Hjálmarssonar, TF3FIN, stæði félaginu til boða þann 7. júní.

Það varð síðan úr, kl. 19 fimmtudaginn 7. júní að turneiningarnar voru sóttar og fluttar í Skeljanes. Sá þriðji sem slóst í hópunn, auk þeirra TF3SG og TF3FIN, var Benedikt Sveinsson, TF3CY. Verkefnið gekk rösklega og upp úr kl. 21:30 voru einingarnar 12 komnar á geymslustað í Skeljanesi.

Hugmyndin er í framhaldi, að reisa annan loftnetsturn fyrir TF3IRA, nokkru fjær þeim fyrri, á lóðinni við húsið í Skeljanesi og hafa menn þá einkum í huga uppsetningu loftneta fyrir lægri böndin.

Stjórn Í.R.A. færir þeim Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, G. Svani Hjálmarssyni, TF3FIN og Benedikt Sveinssyni, TF3CY, bestu þakkir fyrir framtakið.

Hustler G6-144B loftnetið komið upp og tengt við TF3RPC. Ljósmynd: TF3WS

Endurvarpinn TF3RPC verður QRT í rúma viku vegna viðhaldsframkvæmda í
húsnæðinu sem hann hefur til nota við Hagatorg. Áætlað er að unnt verði að
tengja hann á ný eigi síðar en föstudaginn 15. júní n.k.

Í.R.A. hefur borist erindi frá Póst- og fjarskiptastofnun dags. 6. júní 2012 þess efnis, að íslenskum leyfishöfum er, frá og með deginum í dag, veitt heimild til að nota PSK-31 tegund útgeislunar (6OH0J2B) á 60 metrum. Heimildir fyrir öðrum mótunaraðferðum í tíðnisviðinu eru áfram óbreyttar, þ.e. J3E (USB) og A1A (CW) miðað við 3 kHz hámarksbandbreidd. Heimild PFS er í samræmi við beiðni félagsins þessa efnis, sem send var stofnuninni þann 22. mars s.l.

Þess skal getið, að þeir leyfishafar sem sótt hafa um og fengið sérstaka heimild stofnunarinnar til nota á 60 metrum fyrir ofangreinda dagsetningu þurfa ekki að sækja sérstaklega um heimild til að nota PSK-31.

Stjórn Í.R.A. fagnar framkominni heimild stofnunarinnar.

http://www.ira.is/tidnisvid/

 

 

Loftnet TF8RPH. Myndin var tekin var í hvassviðrinu 13. maí og sýnir að netið svignar vel. Ljósm.: TF8SM.

Á stjórnarfundi í félaginu þann 30. maí s.l. var samþykkt að fara þess á leit við þá TF3ARI og TF8SM, umsjónarmenn endurvarpans TF8RPH, að breyta tónlæsingu stöðvarinnar á ný yfir í stafræna kóðun, DCS-023. Samkvæmt samtali við TF3ARI í síma í dag, verður breytingin gerð í kvöld, mánudaginn 4. júní 2012 kl. 20:00.

TF8RPH varð QRV þann 21. apríl s.l. og var frá byrjun notuð DCS-023 tónlæsing í tilraunaskyni. Vegna samanburðarprófana var skipt yfir í CTCSS tónlæsingu, þann 1. maí s.l. og sem nú hefur verið notuð til reynslu í rúman mánuð. Það er samdóma álit manna, að stafræna læsingin taki þeirri hefðbundnu fram og er markmiðið að nota hana áfram, nema sérstakir annmarkar komi í ljós.

Á næstu dögum verður auðkenni endurvarpans á morsi stytt og bætt inn stöfunum “de” fyrir framan kallmerkið TF8RPH. Ástæða þessa er, að stundum virðist sem endurvarpinn “klippi” stafinn “T” framan af kallmerkinu. Í annan stað, er hugmyndin að stytta “skottið” í sendingu stöðvarinnar úr 1 sek. í 0,5 sek.
Stutta tónmerkið sem sett var inn í lok sendingar endurvarpans verður notað fram, en það er mikilvægt þegar stafræn tónlæsing er notuð, til að sá sem hlustar átti sig á hvenær sending endar.

Endurvarpinn tekur á móti á tíðninni 145.125 MHz og sendir út á tíðninni 145.725 MHz. Líkt og áður hefur komið fram, er hægt að hlusta á sendingar frá TF8RPH í venjulegu viðtæki eða stöð, þ.e. ekki þarf að afkóða sendingar í móttöku.

Þess má geta að lokum, að heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til áframhaldandi notkunar endurvarpa á þessum stað á þessari tíðni var fengin þann 31. maí s.l., en til þess tíma hafði stöðin verið rekin á sérstakri bráðabirgðaheimild frá stofnuninni.

Þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI og Sigurði Smára Hreinssyni, TF8SM, eru færar þakkir fyrir að hafa veg og vanda af áframhaldandi vinnu við endurvapann. Það sama á við um aðra félagsmenn sem komið hafa að verkefninu.

Mynd frá fundi um neyðarfjarskipti sem haldinn var í félagsaðstöðu Í.R.A. í fyrra. Ljósmynd: TF3LMN.

Á stjórnarfundi í Í.R.A. þann 30. maí var samþykkt að auglýsa eftir áhugasömum félagsmönnum til að taka sæti í starfshópi sem geri tillögur um neyðarfjarskiptastefnu Í.R.A. Áhugasamir eru beðnir um að setja sig í samband við formann, aðra stjórnarmenn eða að senda tölvupóst á ira hjá ira.is fyrir 5. júlí
næstkomandi.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum til stjórnar félagsins fyrir 13. maí 2013 með það fyrir augum að málið verði formlega til kynningar á aðalfundi Í.R.A. 2013. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. verður formaður starfshópsins og mun svara fyrirspurnum félagsmanna um verkefnið. Til upplýsingar skal þess getið, að eitt af skilgreindum markmiðum Í.R.A. er að hvetja til viðbúnaðar sem mætti gagnast í neyðarfjarskiptum.

F.h. stjórnar Í.R.A.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Kristján Benediktsson TF3KB og Martin Berkofsky TF3XUU (KC3RE) á góðri stundu í Kaffivagninum í Reykjavík þann 27. maí s.l. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB.

Martin Berkofsky, TF3XUU (KC3RE) píanóleikari var hér á ferð nýlega og spilaði m.a. á tónleikum til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands í Hörpu þann 26. maí. Martin gaf sér tíma til að hitta nokkra íslenska leyfishafa skömmu áður en hann hélt af landi brott þann 27. maí s.l., sbr. ljósmynd að ofan.

Martin lauk prófi til amatörleyfis hér á landi árið 1984 og starfaði m.a. um tíma sem radíóvitastjóri Í.R.A. á Garðskaga þar sem hann gætti radíóvitans TF8VHF sem varð QRV 19. janúar 1986, QRG 144.939 MHz. Martin er mikill morsmaður og var virkur hér á landi um árabil, bæði sem TF3XUU og TF8XUU.

Vlhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, skrifaði ágæta grein um Martin í febrúarblaði CQ TF 2004. Sjá meðfylgjandi: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2016/10/cqtf_22arg_2004_01tbl.pdf

Sjá einnig skemmtilega umfjöllun um Martin á blogsíðu Ágústar H. Bjarnasonar, TF3OM. Vefslóð: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/842019/

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Í.R.A. starfsárið 2012-2013 var haldinn miðvikudaginn 30. maí 2012 í félagsaðstöðunni við Skeljanes. Stjórnin skipti með sér verkum á fundinum og er skipan embætta sem hér segir á nýju starfsári:

 

 

Embætti

Nafn stjórnarmanns

Kallmerki

Leyfisbréf

Formaður Jónas Bjarnason

TF2JB

80

Varaformaður Andrés Þórarinsson

TF3AM

88

Ritari Sæmundur E. Þorsteinsson

TF3UA

90

Gjaldkeri Kjartan H. Bjarnason

TF3BJ

100

Meðstjórnandi Benedikt Sveinsson

TF3CY

200

Varastjórn Erling Guðnason

TF3EE

187

Varastjórn Sigurður Ó. Óskarsson

TF2WIN

360

Á fundinum var þeim Gísla G. Ófeigssyni, TF3G, fráfarandi gjaldkera og Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, fráfarandi varastjórnarmanni, þökkuð góð störf í þágu félagsins.

Á fundinum var jafnframt staðfest skipan embættismanna sem skýrt verður frá innan tíðar, auk fleiri mála.

Matthías Hagvaag, TF3MH.

Mathías Hagvaag, TF3-035, hefur unnið að frágangi radíódagbóka og QSL korta félagsstöðvarinnar undanfarin misseri. Langþráðu takmarki var náð þann 20. október (2011) en þann dag voru þrjú DXCC viðurkenningaskjöl fyrir TF3IRA sótt í innrömmun og negld á vegg í fjarskiptaherbergi félagsins.

Nú hefur Mathías lokið við gerð umsóknar fyrir fyrsta WAZ (Worked All Zones) viðurkenningarskjalið svo og gerð þriggja umsókna fyrir WAS (Worked All States) viðurkenningarskjalið (þ.e. “basic”, á morsi og á tali)”. Í farvatninu eru umsóknir fyrir tvö WAZ skjöl til viðbótar, auk WPXviðurkenningaskjala.

Stjórn Í.R.A. þakkar Mathíasi fyrir að leiða þetta verkefni af dugnaði.

Lögum Í.R.A. var breytt á aðalfundi félagsins 19. maí 2012.

Öll gögn stjórnar félagsins frá aðalfundinum 2012 hafa nú verið sett inn á heimasíðuna. Þau eru:

F.h. stjórnar Í.R.A.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Hluti fundargagna sem lögð voru fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var að Hótel Sögu 19. maí 2011.

Eftirtalin gögn frá aðalfundi 2012 eru komin til viðbótar inn á heimasíðu félagsins:

  • Skýrsla formanns um starfsemi félagsins 2011-2012.
  • Ársreikningur félagssjóðs fyrir fjárhagsárið 2011-2012.

Hægt er að nálgast gögnin því að fara undir veftré og leit og smella á Félagið og velja Aðalfundur 2012 eða
smella á eftirfarandi vefslóð: http://www.ira.is/fundargerdir/adalfundir/adalfundur-ira-2012/

Þau gögn sem upp á vantar frá aðalfundi verða birt fljótlega.